Haraldur Árnason fæddist í Lambanesi í Fljótum 4. maí 1922. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 29. desember sl. Foreldrar hans voru Guðbjörg Kristinsdóttir ljósmóðir f. 3.10. 1898, d. 1983 og Árni Kristjánsson skipstjóri á Siglufirði f. 29.9. 1891, d. 1969. Systir Haralds er Freyja f. 28.10. 1926 og fósturbróðir Pétur Pétursson f. 14.6. 1936, d. 1987. Foreldrar Haralds fluttust til Siglufjarðar þegar hann var barn að aldri og þar ólst hann upp. Eiginkona Haralds er Karólína Friðrika Hallgrímsdóttir f. 26.7. 1921. Þau giftust 28.10. 1944. Foreldrar Karólínu voru Ragnheiður Söebech kaupmaður f. 10.3. 1894, d. 1977 og Hallgrímur Þorvaldsson ökumaður á Akureyri f. 27.9. 1893, d. 1925, og fósturforeldrar Ólöf Jónsdóttir f. 16.5. 1900, d. 1984 og Eyþór Hallsson skipstjóri á Siglufirði f. 4.8. 1903, d. 1988. Börn Karólínu og Haralds eru 1) Ólöf Þórey f. 21.6. 1943, maki Ásgeir Sigurðsson, f. 1937. 2) Helga f. 12.4. 1951, maki Erlingur Björnsson f. 1944, þeirra dætur Íris Rut f. 1972, maki Kristján Fr. Kristjánsson og eiga þau þrjú börn, Helgu Maríu, Kristján Benóný og Brynhildi Lilju, og Karólína f. 1977. 3) Ragnheiður f. 6.12. 1956, sonur hennar og Guðmundar Þorsteinssonar f. 1954 er Árni Þór f. 1975, en hann ólst upp hjá ömmu sinni og afa. 4) Árni f. 11.1. 1959, maki Ragnheiður Árnadóttir f. 1963, þeirra börn Selma f. 1994 og Andri f. 1998 5) Eyþór f. 1960. Haraldur lauk gagnfræðaprófi og vann í verslun Gests Fanndals, á bílastöðinni, var deildarstjóri hjá Kaupfélagi Siglfirðinga 1944-1958, rak eigin verslun, Ísbarinn, 1957-1967 og starfaði hjá Skeljungi 1967-2002, umboðsmaður frá 1988. Haraldur var mikill útivistar- og veiðimaður, stundaði laxveiði og skotveiðar á sjó og landi. Hann var einn af stofnendum Stangveiðifélags Siglufjarðar og heiðursfélagi þar og sat í stjórn klakstöðvar félagsins. Hann var félagi í Bridsfélagi Siglufjarðar um áratugaskeið og tók þátt í mörgum mótum og náði þar oft ágætum árangri enda góður bridsspilari. Haraldur gekk ungur til liðs við Alþýðuflokkinn og fylgdi honum að málum alla tíð og seinna Samfylkingunni, og var virkur á fundum og í starfi í ýmsum nefndum. Útför Haralds fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, laugardaginn 9. janúar og hefst athöfnin kl. 14.

Ekkert stöðvar tímans tönn. Allt tekur einhvern tímann enda. Dag einn situr maður við eldhúsborðið og les dánartilkynningu um einhvern sem var manni kær og átti stóran þátt í að gleðja líf lítils barns fyrir 40 árum síðan. Ég man ekki hvenær ég kynntist Halla Árna fyrst, en lítill og ungur var ég. Minningar mínar um hann og þær stundir sem ég átti með honum í olíubílnum eru mér afskaplega kærar. Halli var mikil barnagæla og mér alltaf góður. Hann var bæði hlýr og skemmtilegur. Ég man eiginlega aldrei eftir Halla öðru vísi en kátum og brosandi. Alltaf í góðu skapi. Ferðir mínar með honum í olíubílnum urðu margar í alls kyns veðrum bæði sumar og vetur. Oft var barist í gegnum skafrenning og skafla en aldrei þurfti ég að fara út í kófið. Ég sat bara inni í hlýjunni á meðan Halli fór út í óveðrið og dældi olíu á tanka heimilanna á Siglufirði. Í þá daga voru öll heimili kynt með olíu. Fyrir unga stráka er fátt skemmtilegra en að sitja í stórum bílum og horfa yfir allt og alla. Olíubíllinn hans Halla var flottasti bíllinn í bænum og enginn bíll dreif eins mikið í snjónum og hans. Ég man þegar Halli fékk nýjan olíubíl. Það var Benz eins og sá gamli nema hvað sá nýi hafi þrjár rúðuþurrkur! Þetta var það alflottasta sem til var. Enginn annar bíll í bænum hafðir þrjár rúðuþurrkur. Maður var ekki lítið montinn að sitja í þessum bíl.

Halli og pabbi voru góðir vinir. Þeir voru jafnaldrar og saman í briddsspilaklúbbi. Þær eru margar sögurnar sem ég hef heyrt af þeim góða klúbbi. Ein stendur þó uppúr. Stundum var það þannig að þeir félagar spiluðu upp á peninga. Í eitt skiptið var Halli vel við skál og vildi að vel yrði lagt í pottinn. Pabbi var þessu mótfallinn en varð að gefa eftir fyrir vilja Halla og Ármanns Jakobssonar bankastjóra. Ármann var að sögn pabba enn kenndari en Halli. Nú leikar fóru þannig að pabbi græddi mest, enda edrú, en Ármann tapaði langmestu, enda varla í spilahæfu ástandi. Ármann tók upp tékkheftið og skrifaði ávísun fyrir skuld sinni við pabba. Daginn eftir hringdi Halli í pabba til að gefa honum góð ráð. Hann sagði pabba að fara strax og eyða ávísuninni áður en rynni af Ármanni og hann stöðvaði hana. Ávísunin var mjög stór á þess tíma mælikvarða, enda keypti pabbi 20 viskíflöskur fyrir hana í ríkinu á Sigló. Pabbi geymdi svo viskíið og beið þess hvort ríkið gæti innleyst ávísunina í bankanum. Í þetta sinn stöðvaði Ármann ekki ávísunina og pabbi gaf Halla 3 viskíflöskur fyrir heilræðið.

Nú er Halli farinn yfir móðuna miklu. Ég er nokkuð viss um að þar sé hann hrókur alls fagnaðar og ekur um á stærsta og flottasta bílnum. Þar dælir hann eldsneyti á heimili þeirra fyrir handan og ég veit að hann gerir það með sínum alkunna léttleika og brosi á vör. Flestir spilafélagarnir eru líka komnir yfir, aðeins pabbi eftir. Ég er viss um að hann fær sæti við spilaborðið þegar hans tími er kominn. Þá verður aftur kátt á hjalla.

Ég sendi að lokum öllum aðstandendum Halla Árna mínar innilegustu samúðarkveðjur. Góður maður er genginn.

Ragnar Thorarensen.