Eggert Steinsen rafmagnsverkfræðingur fæddist í Reykjavík 5. desember 1924. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 15. janúar sl. Foreldrar hans voru Anna Eggertsdóttir, f. 1893, d. 1965, og Steinn Steinsen, byggingarverkfræðingur, f. 1891, d. 1981. Bróðir Eggerts er Gunnar M. Steinsen byggingarverkfræðingur, f. 28.3. 1928, maki Sjöfn Zophaníasardóttir, f. 22.6. 1931. Þeirra börn eru Snorri, f. 1966, maki Hróðný Njarðardóttir, f. 1972, og Lilja Anna, f. 1973. Eiginkona Eggerts er Steinunn Jónsdóttir, f. 7. janúar 1930 á Ytri-Bakka, Arnarneshreppi. Þau giftust 7. júlí 1949. Foreldrar Steinunnar voru Jón Ólafsson, bóndi á Ytri-Bakka, Arnarneshreppi, f. 1898, d. 1981, og k.h. Hansína Guðrún Gísladóttir, f. 1895, d. 1950. Börn Eggerts og Steinunnar eru: 1) Rúnar Hans, f. 3.11. 1949, maki Guðrún Guðmundsdóttir, f. 5.7. 1953. Þeirra börn eru a) Eggert, f. 1973, maki Halldóra Hilmarsdóttir, f. 1972, og eiga þau tvo syni, Ísak Rúnar og Hilmar Viggó, b) Guðmundur, f. 1981, maki Fjóla Helgadóttir, f. 1982, og eiga þau tvo syni, Arnar Mána og Hauk, c) Steinn, f. 1986, maki Anna Þóra Andrésdóttir, f. 1987, d) Svavar, f. 1986. 2) Steinn, f. 20.2. 1953, maki Ásta María Björnsdóttir, f. 22.3. 1957. Þeirra börn eru a) Steinunn Dögg, f. 1979, maki Kristbjörn Helgi Björnsson, f. 1977, b) Steinarr Logi, f. 1985, maki Arnbjörg Jóhannsdóttir, f. 1985, og á hún einn son, Ævar Frey, c) Auðun, f. 1993. 3) Anna, f. 24.9. 1959, maki Sigurður Már Einarsson, f. 28.12. 1955. Þeirra börn eru a) Ragnar Már Steinsen, f. 1975, maki Cecilia Steinsen, f. 1977, og eiga þau þrjá syni, Nóa, Leó og Max, b) Friðrik Rafn Ísleifsson, f. 1978, c) Flosi Hrafn, f. 1985, maki Þórunn Kjartansdóttir, f. 1983, d) Eggert Örn, f. 1991. 4) Ragnheiður, f. 13.3. 1963, maki Steinþór Hlöðversson, f. 12.10. 1962. Þeirra börn eru a) Héðinn Hilmarsson, f. 1983, maki Guðný Sif Guðmundsdóttir, f. 1973, og á hann einn son, Anton Mána, b) Sandra Steinþórsdóttir, f. 1987, c) Viktor, f. 1992, d) Guðbergur Már, f. 1994. 5) Jón, f. 10.2. 1967, d. 9.2. 1995, maki Brynja Sigurðardóttir, f. 24.3. 1967. Þeirra barn er a) Rakel, f. 1990. Brynja giftist síðar Sverri Andreassen, f. 6.6. 1970. Þeirra börn eru b) Orri, f. 1996, og c) Aron, f. 2003, sem Eggert og Steinunn tóku sem sínum barnabörnum. Einkasystir Steinunnar var Gíslína, f. 19.1. 1935, d. 15.5. 2001, og voru tengsl hennar við fjölskylduna afar náin. Sonur Gíslínu er Jóhann Viggó Jónsson, f. 19.3. 1965. Sonur hans er Jón Húni. Maki Jóhanns er Nanna Briem, f. 5.10. 1968, og eiga þau þrjú börn, Daníel Eggert, Tómas Gísla og Kirsten Margreti. Eggert varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1944, tók fyrrihlutapróf í verkfræði frá Háskóla Íslands 1947 og próf í raforkuverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1951. Eggert starfaði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Vita- og hafnarmálaskrifstofunni, Íslenska járnblendifélaginu, Rafmagnseftirliti ríksins og Vatnsveitu Reykjavíkur auk þess að starfa sem ráðgefandi verkfræðingur og stundakennari bæði við Tækniskóla Íslands og Háskóla Íslands. Eggert keppti í frjálsum íþróttum, á skíðum og skautum á yngri árum. Eins lengi og heilsan leyfði fór hann á skíði og skauta sér til ánægju. Eggert fékk snemma áhuga á útvarpstækni og var virkur félagi í Félagi íslenskra radíóamatöra alla tíð. Eggert tók virkan þátt í stjórnmálum á þeim árum sem Kópavogsbær var að byggjast upp. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum á vegum Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn á árunum 1962-1982, sat í ýmsum nefndum og var bæði aðal- og varafulltrúi ásamt því að vera forseti bæjarstjórnar 1971-1972. Hann gegndi einnig trúnaðarstörfum á vegum Sjálfstæðisflokksins vegna staðsetninga og umhverfisáhrifa álvera. Eggert var einn af stofnendum Rótarýklúbbs Kópavogs og gegndi þar bæði störfum ritara og forseta og var einnig Paul Harris-félagi. Starfsemi Rótarýhreyfingarinnar var honum mjög hugleikin og tók hann þar virkan þátt og mætti á alla fundi eins lengi og kraftar hans leyfðu. Eggert sat í stjórn og gegndi formennsku meðal annars í Skautafélagi Akureyrar, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og Skautafélagi Reykjavíkur. Eins og í öllu sem hann tók sér fyrir hendur starfaði hann af lífi og sál að þeim málefnum sem voru honum hugleikin og voru ófáar stundir sem hann varði til félagsmála, samfélagi sínu til heilla. Eggert hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir þessi störf sín. Hann var heiðursfélagi í Rótarýklúbbi Kópavogs, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og Íslenskra radíóamatöra. Einnig fékk hann gullmerki ÍSÍ 1994 og ÍBR 1998. Þrátt fyrir að vera störfum hlaðinn alla sína starfsævi var hann mikill fjölskyldumaður og fylgdist fram á síðasta dag mjög vel með afkomendum sínum og studdi þá af heilum hug í öllu því sem þeir tóku sér fyrir hendur. Útför Eggerts fer fram frá Kópavogskirkju í dag, mánudaginn 25. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.

Þegar ég nú kveð kæran vin minn og skólabróður, Eggert Steinsen, kemur margt upp í hugann. Við áttum samleið í Menntaskólanum á Akureyri í sex vetur, og sátum hlið við hlið síðustu árin. Eggert var sonur bæjarstjórans á Akureyri, og fór ekki hjá því að ég leit talsvert upp til hans. Hann var mjög fær á skautum og stundaði skautaíþróttir á Pollinum á Akureyri, sem á þessum árum var oft ísilagður. Man ég að hann tók þátt í íshokkí og fleiri skautaíþróttagreinum á árinu 1941, en á því ári var fyrsta skautamótið haldið á Akureyri. Einnig var hann ágætur skíðamaður og öfundaði ég hann talsvert af kunnáttu hans í þessum íþróttum. Við útskrifuðumst úr stærðfræðideild MA 15. júní 1944, tveimur dögum áður en lýðveldið var stofnað á Þingvöllum, og þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands. Þegar Gamli Garður losnaði úr höndum breska hersins í stríðslok, bjuggum við þar saman á herbergi sem nefndist „Gata“. Þá kynntumst við allnáið og stofnuðum til þeirrar vináttu, sem hélst æ síðan. Sambúð okkar var mjög góð og er margs að minnast frá árunum á Gamla Garði, sem við ræddum oft um síðar á ævinni. Mér er sérstaklega minnisstætt, að Eggert sat oft löngum stundum við skrifborðið með lóðboltann í hendinni og lóðaði saman í blikkkassa allskonar dót, svo sem þétta, víra og fleira sem við höfðum tínt upp af ruslahaugum hersins við Bústaðaveg. Ég varð mjög undrandi, þegar skruðningar og píp tóku að heyrast úr kassanum, en fljótlega náði Eggert ensku útvarpsstöðinni, sem þá var á Reykjavíkurflugvelli, og fleiri stöðvum á þetta tæki sitt. Þá þegar var strax vaknaður áhugi hans á fjarskiptum. Eftir fyrrihlutapróf mitt í verkfræði 1946, skildu leiðir um stund. Á Kaupmannahafnarárunum höfðum við ekki mikil samskipti, Eggert fór í rafmagnsverkfræði og ég í byggingarverkfræði. Eftir að heim kom og starfsárin tóku við, hittumst við helst á stúdentsafmælum okkar og á ferðalögum með bekkjarsystkinum. Þá urðu alltaf miklir fagnaðarfundir.

Eggert var mikill félagsmálamaður og átti sæti í mörgum félögum, og þá oft sem formaður, eins og hann átti kyn til. Hann átti um tíma sæti í bæjarstjórn Kópavogs og var forseti bæjarstjórnar í eitt ár. Fyrir félagsstörf sín fékk hann margskonar viðurkenningar. Hann hafði mjög ákveðnar skoðanir um menn og málefni og var fastur fyrir í öllum þeim málum, sem hann kom að. Um félagsstörf hans munu efalaust einhverjir aðrir skrifa, sem betur þekkja til en ég geri. Af störfum hans á sviði rafmagnsverkfræðinnar fannst mér fróðlegt og skemmtilegt að heyra hann segja frá ferðum sínum í alla vita landsins á árunum hans hjá Vitamálaskrifstofunni. Árin liðu og eftir að starfsævinni lauk, fórum við bekkjarfélagarnir að hittast oftar og vináttuböndin að styrkjast á ný.

Vorið 1944 útskrifuðust 45 stúdentar frá MA. Þegar þessar línur eru skrifaðar, erum við nú aðeins 10 eftir. Þó í hópinn séu komin mikil skörð, höldum við sem eftir lifum og erum enn við sæmilega heilsu áfram að hittast mánaðarlega í síðdegiskaffi. Síðast hittumst við í kaffi heima hjá Eggerti og Steinunni fimmtudaginn 10. desember sl. Áttum við þar góða og ógleymanlega stund á hlýlegu og notalegu heimili þeirra í Vogatungu 55 í Kópavogi. Okkur grunaði ekki þá, að þetta yrðu okkar síðustu samverustundir með honum.

Síðustu 6 árin átti Eggert við margskonar vanheilsu að stríða, en hann var ótrúlega sterkur og reis alltaf upp aftur úr veikindum sínum. Verst þótti honum að sjónin var orðin það léleg, að hann átti erfitt með að lesa. Því tók hann  þó sem öðru með miklu raunsæi og æðruleysi. Hann lét ekki veikindin aftra sig í því að hitta okkur félagana á mánaðarlegum samverustundum okkar. Þá varð Steinunn að vera bílstjórinn og leysti hún það hlutverk sitt með miklum sóma eins og allt annað sem hún tók að sér. Eggert og Steinunn voru mjög samhent og studdu  hvort annað í blíðu og stríðu. Þau voru mikið fyrir fjölskyldu sína og fylgdust stolt með framgangi  barna sinna og barnabarna í námi og starfi.

Ég kveð góðan vin með söknuði og þakklæti fyrir öll árin sem við áttum saman. Við Guðrún vottum Steinunni og allri fjölskyldunni innilega samúð okkar.

Guttormur Þormar.