Marteinn Friðriksson (f. Fritz Martin Hunger) fæddist í Meissen Þýskalandi 24. apríl 1939. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 10. janúar 2010 eftir snarpa baráttu við krabbamein. Foreldrar hans voru Frieda Dorothea, dáin 1972, og Alfred Fritz Hunger dáinn 1944. Systir Marteins er Maria Steinhäuser, gift Helmut Steinhäuser. Synir þeirra eru Albrecht og Ekkehard Steinhäuser. Marteinn kvæntist Hrefnu Oddgeirsdóttur 1967, þau skildu. Árið 1979 kvæntist Marteinn Þórunni Björnsdóttur f. 1954. Börn þeirra eru: 1) Kolbeinn f. 1973 framkvæmdastjóri (f. Kolbeinn Karlsson) sem Marteinn ættleiddi árið 1982. Sambýliskona Kolbeins er Harpa Katrín Gísladóttir kennari f 1973. Börn þeirra eru Birna Rún f. 1998, Katla f. 1999 og Ívar f. 2009. 2) Þóra Marteinsdóttir tónlistarmaður f. 1978. Sambýlismaður hennar er Gunnar Benediktsson tónlistarmaður f. 1976. Sonur þeirra er Hjörtur Martin f. 2009. 3) María f. 1980 eðlisfræðingur. Sambýlismaður hennar er Sölvi H. Blöndal hagfræðingur f. 1975. 4) Marteinn nemi f. 1990. Marteinn lauk B-prófi í kirkjutónlist frá kirkjutónlistarskólanum í Dresden árið 1961 og síðar A-prófi við Tónlistarskóla F. Mendelssohn-Bartholody í Leipzig árið 1964. Hann útskrifaðist einnig í hljómsveitarstjórn og tónsmíðum auk kennaraprófs í píanóleik og tónfræði. Marteinn flutti til Íslands frá Austur-Þýskalandi árið 1964 og gerðist organisti við Landakirkju og skólastjóri tónlistarskólans í Vestmannaeyjum, auk þess að stjórna Samkór Vestmannaeyja og síðar Lúðrasveit Vestmannaeyja. Árið 1970 var hann ráðinn sem organisti við Háteigskirkju og hóf jafnframt störf við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar kenndi hann samfellt í 39 ár, aðallega nemendum í Tónmenntakennaradeildinni. Um árabil stjórnaði hann líka hljómsveit skólans og kór skólans þar til Tónmenntaakennaradeildin var lögð niður. Síðustu árin kenndi hann kórstjórn og orgelleik við Listaháskóla Íslands. Marteinn stjórnaði söngsveitinni Fílharmóníu í áratug áður en hann varð dómorganisti. Árið 1994 tók hann að sér að endurvekja Kór Menntaskólans í Reykjavík og stjórnaði honum til 2006. Marteinn var ráðinn sem dómorganisti við Dómkirkjuna árið 1978. Fljótlega stofnaði hann Dómkórinn sem starfað hefur allar götur síðan undir hans stjórn. Dómkórinn hefur gefið út nokkrar hljómpötur og geisladiska, sá síðasti “ Hljóður lýt ég hátign þinni” kom út í nóvember s.l. Að frumkvæði Marteins voru Tónlistardagar Dómkirkjunnar haldnir í fyrsta sinn árið 1982 og hafa þeir verið árviss viðburður allar götur síðan. Hann stóð fyrir síðustu Tónlistardögum í október og nóvember 2009 og lék sína lokatóna í útvarpsmessu í Dómkirkjunni s.l. aðfangadagskvöld. Marteinn samdi einnig nokkur tónverk og útsetti mikið af lögum, sérstaklega fyrir Dómkórinn, Kór Menntaskólans í Reykjavík og Skólakór Kársness, en einnig fyrir Námsgagnastofnun, Tónmenntakennarafélag Íslands ofl. Að félagsmálum vann Marteinn í stjórn Félags íslenskra organleikara og í Kennarafélagi Tónlistarskólans í Reykjavík. Marteinn fékk Fálkaorðuna 17. júní 2004. Marteinn naut sín best með fjölskyldunni og í góðra vina hópi. Hann hafði nýlega endurbyggt hús á Hofsósi með eiginkonu sinni og vinahjónum þar sem ætlunin var að dvelja þegar tóm gæfist þegar störfum hans innan Dómkirkjunnar lyki. Marteinn var félagi í Frímúrareglunni Hamar í Hafnarfirði. Útför Marteins fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, föstudaginn 22. janúar, og hefst athöfnin kl. 15. Ef kirkjan nær ekki að rúma alla kirkjugesti er þeim bent á sal Oddfellow gegnt Ráðhúsi Reykjavíkur en þar verður komið fyrir skjávarpa.
Það var fyrir rúmlega þrjátíu árum að Þórunn kynnti mannsefnið sitt, Martein, fyrir okkur í fjölskyldunni. Marteinn sagði mér síðar að ég hefði verið "óttalega truntuleg" við fyrstu kynni. Auðvitað sá ég, krakkinn, einungis lífið í svörtu og hvítu og gat ekki skilið að systir mín - hippinn í mussunni, með kringlóttu gleraugun, sem söng og spilaði á gítar lög eftir Leonard Cohen - og þessi framandlegi herramaður - sem spilaði Bach á orgel og var þar að auki alltaf í jakkafötum - gætu ruglað saman reitum. En sú varð raunin. Þessar tvær andstæður áttu eftir að eiga sérlega farsælt hjónaband. Það var eins og þau mættust á miðri leið.
Fyrstu jólin með Marteini eru mér minnisstæð. Með okkur sat til borðs þessi einstaklega fágaði maður sem þekkti alla siði og venjur eins og lófana á sér. Nærvera hans ein og sér bar með sér nýjan tón inn í líf okkar allra. Það var þá sem Marteinn vísaði mér til sætis í fyrsta skipti. Ég veit ekki hve lengi ég stóð og starði á stólinn og Martein til skiptis. Ég stæði þar líklega enn ef hann hefði ekki sagt mér á sinn kurteisislega máta að ég ætti að setjast.
Eftir því sem tímar liðu tók ég að skynja æ betur að rætur Marteins lágu
í allt annarri mold en okkar hér á Íslandi. Það var eins og hann stæði
aðeins fyrir utan þetta fámenna klíkusamfélag. Honum var alveg sama hvers
son og dóttir hinn og þessi var. Hann skildi hvorki öfund né rógburð og kom
sér alltaf beint að efninu. Hans meistarar og fyrirmyndir voru landar hans
Bach og Mendelssohn. Í þeirra anda lifði hann og starfaði allt til
dauðadags.
Marteinn átti það til að kveðja mig á ákveðinn hátt: Hann tók um báðar
hendur mínar, horfði djúpt í augun og hneigði sig. Nú hneigi ég mig, í
þakklæti fyrir að hafa kynnst þessum mikla mannkostamanni.
Hvíl í friði, kæri mágur.
Þórhildur Björnsdóttir.