Sverrir Sigurður Markússon héraðsdýralæknir fæddist í Ólafsdal 16. ágúst 1923. Hann lést á Landspítalanum 28. nóvember 2009. Foreldrar hans voru hjónin Markús Torfason, f. 6.10. 1887, d. 29.8. 1956, og Sigríður Guðný Benedikta Brandsdóttir, f. 17.7. 1881, d. 8.12. 1949. Bræður Sverris, sem upp komust, voru Torfi, f. 30.8. 1913, d. 26.3. 1975, og Ásgeir, f. 20.6. 1916, d. 23.3. 2009. Sverrir kvæntist 21. sept. 1954 Þórhöllu Davíðsdóttur, f. 18.3. 1929. Foreldrar hennar voru Davíð Árnason, f. 6.8. 1892, d. 17.6. 1983, og Þóra Steinadóttir, f. 5.8. 1902, d. 27.3. 1998. Afkomendur Sverris og Þórhöllu eru 1) Davíð Aðalsteinn, f. 24.9. 1956; sonur hans og Guðrúnar Soffíu Karlsdóttur, f. 20.7. 1957, er Karl Kristján, f. 11.5. 1977, sonur hans og fyrrverandi sambýliskonu, Dagbjartar Ísfeld Guðmundsdóttur, f. 7.9. 1978, er Tristan, f. 6.1. 1998. 2) Sigríður María, f. 28.6. 1958, gift Þorvarði Hjalta Magnússyni, f. 10.9. 1957; dætur hennar og fyrri eiginmanns, Stefáns Þórs Ragnarssonar, f. 22.9. 1958, eru Ragnheiður Þórdís, f. 9.8. 1979, sonur hennar og fyrrverandi eiginmanns, Hafþórs Hafsteinssonar, f. 12.9. 1970, er Ingólfur Örn, f. 11.5. 2001, og Þórhalla Sigríður, f. 15.11. 1984, eiginmaður hennar er Þröstur Friðbert Gíslason, f. 24.8. 1972; dætur Sigríðar Maríu og Hjalta eru Hólmfríður Ásta, f. 20.6. 1997, og Þóra María, f. 10.5. 1999. 3) Sverrir Þórarinn, f. 14.5. 1959, kvæntur Maríu Pálmadóttur, f. 16.9. 1960; börn þeirra eru Pálmi Gautur, f. 24.4. 1980, sonur hans og Ásu Lindar Finnbogadóttur, f. 6.2. 1972, Áskell Einar, f. 26.5. 2006, og Ólöf Þóra, f. 24.11. 1985, sambýlismaður hennar er Sverrir Einarsson, f. 7.11. 1978, sonur hennar Markús Máni, f. 3.8. 2002. 4) Torfi Ólafur, f. 15.4. 1961, kvæntur Ingu Björgu Sverrisdóttur, f. 29.12. 1961; börn þeirra eru Þóra Sigríður, f. 5.5. 1983, sambýlismaður Guðmundur Emilsson, f. 3.11. 1978, dóttir þeirra Sædís Heba, f. 20.1. 2009, Ellen Björg, f. 10.2. 1991, og Sverrir Ólafur, f. 6.12. 1996. Sverrir varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1944 og lauk prófi í dýralækningum í Stokkhólmi 1956. Hann var settur dýralæknir á Akureyri 1952-54, skipaður héraðsdýralæknir á Blönduósi 1956-73, en síðan í Borgarnesi 1973-93. Eftir embættislok sinnti Sverrir í nokkur ár heilbrigðiseftirliti í sláturhúsum víða um land. Útför Sverris var gerð í kyrrþey frá Kópavogskirkju 10. desember 2009.

Ég vil í fáum orðum minnast vinar míns og samstúdents, Sverris Markússonar dýralæknis frá Ólafsdal í Dalasýslu, sem lést 28. nóvember 2009. Hann var jarðsettur í kyrrþey 10. desember sl. Sverrir var sonarsonur Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal, hins mikla búnaðarfrömuðar og stofnanda fyrsta bændaskóla á Íslandi á árinu 1880. Var hann eðlilega mjög hreykinn af þeim uppruna sínum. Við lukum stúdentsprófi úr stærðfræðideild Menntaskólans á Akureyri 15. júní 1944, tveimur dögum áður en lýðveldið var stofnað á Þingvöllum. Alls luku prófinu 45 stúdentar, 30 úr máladeild og 15 úr stærðfræðideild. Að prófi loknu tvístraðist hópurinn og menn héldu hver í sína áttina til frekara náms og starfa. Sáust sumir aldrei eftir það. Á starfsárum okkar Sverris hittumst við mjög sjaldan nema á stúdentsafmælum. Það var ekki fyrr en vorið 2000, á ferð okkar samstúdentanna um Borgarfjörð, að ég kynntist Þórhöllu konu hans, en þau bjuggu þá í Borgarnesi. Eftir að þau fluttust í Kópavog urðu samfundir okkar tíðari og kynnin nánari. Þá hittumst við MA-stúdentarnir frá 1944 oftast einu sinni í mánuði í síðdegiskaffi. Síðast voru Sverrir og Þórhalla með okkur 12. nóvember sl., rúmum hálfum mánuði áður en hann dó. Sverrir var mjög hlédrægur og hógvær maður. Hann vildi ekki láta mikið á sér bera, en í góðra vina hópi var hann glaðvær og ræðinn og skemmtilegt að tala við hann. Hann var hlýr í viðmóti og manni leið alltaf vel í návist hans. Ekki spillti það heldur fyrir hvað Þórhalla er minnug og margfróð um menn og málefni. Var það mikill fengur að fá hana með í hópinn. Sverrir hafði frá mörgu að segja, og beindist talið oft að árunum í MA, eins og vill verða hjá okkur gömlu MA-stúdentunum. Honum var einkum hugleikin ferðin, sem þau átta skólasystkinin fóru fótgangandi frá Akureyri heim í átthagana á Vesturlandi og Vestfjörðum vorið 1940. Fyrir um 10 árum skrifaði Sverrir ítarlega sögu um ferðina. Er sú ferðasaga mjög þess virði að geymast og birtast á prenti. Sagan er vel skrifuð og lýsir ágætlega samgöngum á Íslandi, híbýlum fólks í sveitum landsins og gistimöguleikum á árinu 1940. Ferðin var farin rúmri viku eftir að breski herinn kom til landsins, og brátt átti allt eftir að breytast. Þá lýsir sagan áræðni og dugnaði unglinganna, sem lögðu fótgangandi upp í svo langa ferð heim til átthaganna. Við samstúdentarnir og konur okkar áttum saman margar góðar stundir með þeim hjónum, Þórhöllu og Sverri, sem við minnumst með mikilli gleði. Við söknum þess að hafa ekki Sverri lengur á meðal okkar.

Blessuð sé minningin um kæran vin og góðan dreng.

Guttormur Þormar.