Ástríður Eyjólfsdóttir fæddist 19. mars 1907 á Hömrum í Dalasýslu og ólst þar upp. Hún lést 15. janúar 2010 á Hrafnistu í Reykjavík, en þar hafði hún búið síðastliðin 14 ár. Foreldrar Ástríðar voru Eyjólfur Böðvarsson, f. 19.10. 1882, d. 7.8. 1910, bóndi á Sámsstöðum í Laxárdal og kona hans Gróa Margrét Jónsdóttir, f. 14.12. 1880, d. 1976. Ástríður átti þrjá bræður sem allir eru látnir. Þeir voru: Böðvar, búsettur í Kópavogi; Jón, sem var bóndi í Miðskógum í Dalasýslu; og Þórður, sem var bóndi á Goddastöðum í Laxárdal í Dalasýslu. Ástríður giftist Guðmundi Thorarensen frá Hvammsdal í Saurbæ í Dalasýslu, f. 24.7. 1908, d. 2.11. 1985, þau slitu samvistir. Seinni maður Ástríðar var Hermann Dagbjartsson, f. 4.12. 1922, d. 9.3. 1956. Hann fæddist á Ysta-Mói í Fljótum í Skagafirði. Hermann fórst í sjóslysi á Verði árið 1956. Börn Ástríðar og Guðmundar; Jón A. Thorarensen, þjónn, f. 28.3. 1932, d. 31.5. 2006. Guðrún Thorarensen, f. 10.10. 1933, gift Lúðvíki Guðmundssyni, f. 5.5. 1929. Eygló Thorarensen, f. 11.6. 1935, d. 5.12. 1994, hún var gift Jóni Hilmari Runólfssyni, f. 13.10. 1933, þau skildu. Karólína Thorarensen, f. 18.10. 1940, d. 18.8. 2007, hún var gift Guðbirni Jóni Tómassyni, f. 14.10. 1940, d. 30.5. 1992, þau skildu. Sonur Ástríðar og Hermanns er Ragnar Hermannsson, f. 26.8. 1949, skipstjóri, hann var giftur Friðlínu Arnarsdóttur, f. 4.2. 1954, þau skildu. Ragnar er í sambúð með Sæunni Kalmann Erlingsdóttur, f. 27.4. 1962. Afkomendur Ástríðar eru í dag hátt í 100. Útför Ástríðar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, þriðjudaginn 26. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku föðursystir mín, Ásta frænka hefur kvatt, hún er farin frá okkur öllum. Ásta var lífsglöð, hress og skemmtileg og einstaklega félagslynd kona. Það hafa verið mér forréttindi að fá að vera með henni í gegnum árin. Ásta bjó tæp ellefu ár í Selbúð 7 eða Vesturgötu 69,  þarna heimsótti ég hana fyrst. Þetta voru erfið húsakynni, það þurfti að fara út til þess að komast í þvottahúsið og á klósettið. Þeir dagar og þær stundir sem ég hef átt með henni hafa alltaf verið mér svo dýrmætir. Bræður mínir áttu bíl og við fórum stundum í eina góða ferð á sumrin milli mjalta, þá var haft með sér kaffi og nesti, þetta voru ógleymanlegar ferðir. Ásta hafði yndi af að skemmta sér í góðra vina hópi og naut þess að hlusta á góða músík og þá voru  gömlu dansarnir í sérstöku uppáhaldi. Þegar við hittumst nú í seinni tíð þá rifjuðum við upp þessa gömlu tíma í sveitinni. Ásta var til í allt nema sund. Hún sagði að það væri vegna þess að þegar hún var krakki og unglingur var hún látin bera vatn úr læknum inn í torfbæinn allan daginn. Hún sagðist hafa verið búin að fá nóg af þessari fátækt og skömmtun sem fylgdi hverjum dropa, alltaf þurfti að fara sparlega með vatnið og hún var útkeyrð af þessum verkum. Margt var erfitt í hennar lífi og hún þurfti alla tíð að spara og sjá fyrir sínum börnum. Hún sagði "ég lifi sterk og það er þér að þakka frænka mín og heimsóknunum þínum að ég er orðin 102 ára." Sambandið, lífsgleðin, heilsan og vellíðanin hafði svo mikið að segja, svo fréttirnar úr Dölunum að heiman og fólkið hennar sem var allt í kringum hana. Við höfum alltaf gefið hvor annarri tíma til að tala saman. Hún hefur líka kynnst lífsreynslu minni í gegnum árin. Við höfum gengið saman í gegnum sorg og gleði elsku Ásta mín, en nú er komið að kveðjustund.

Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífs þíns nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði nú sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
/
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)

Ég geymi minninguna um þig í hjarta mínu. Guð blessi þá sem eftir standa.   Kveðja

Erla Þórðardóttir.