Jóhannes Bekk Ingason fæddist á Ísafirði 9. desember 1955. Hann lést á heimili sínu á Seltjarnarnesi fimmtudaginn 21. janúar sl. Foreldrar hans eru hjónin Ingi Einar Jóhannesson frá Dynjanda í Grunnavíkurhreppi, f. 19. janúar 1932, og Gunnur Guðmundsdóttir (Gógó) frá Oddsflöt í Grunnavíkurhreppi, f. 15. mars 1934, d. 8. desember 2007. Bræður Jóhannesar eru 1) Elvar Guðmundur f. 23. janúar 1959, maki Dagný Selma Geirsdóttir f. 26. maí 1959, börn a) Gunnar Ingi f. 14. janúar 1986. b) Dagbjört Sunna f. 13. maí 1995. 2) Brynjar f. 27. maí 1966, maki Guðbjörg Ragnheiður Jónsdóttir f. 5. ágúst 1969, börn a) Sævar Þór f. 4. ágúst 1992. b) Víðir Kári f. 3. apríl 1995. c) Laufey Lóa f. 2. júní 1997. Jóhannes giftist 7. júlí 1991 í Staðarkirkju í Grunnavík eftirlifandi eiginkonu sinni Öldu Svanhildi Gísladóttur frá Hausthúsum í Eyjahreppi, f. 17. febrúar 1953, kennara við Hagaskóla. Foreldrar hennar voru Gísli Sigurgeirsson, f. 18. júní 1915, d. 12. ágúst 1994, og Auðbjörg Bjarnadóttir, f. 27. júlí 1915, d. 7. júní 1993, ábúendur í Hausthúsum. Sonur Jóhannesar og Öldu er Ingi Einar, f. 10. maí 1983, sambýliskona hans er Aðalbjörg Sigurðardóttir, f. 16. apríl 1984. Alda var áður gift Þorleifi Alexander Jónssyni frá Þverá í Eyjahreppi, f. 14. janúar 1950, d. 17. febrúar 1980, og áttu þau soninn Jón Þór, f. 7. september 1974, sem Jóhannes gekk í föðurstað. Jóhannes ólst upp hjá foreldrum sínum og bræðrum í Túngötunni á Ísafirði og stundaði nám við Barna- og gagnfræðaskóla Ísafjarðar. Á Ísafirði stundaði hann öll almenn störf samhliða námi og eftir það, meðal annars við fiskvinnslu og í kjötvinnslu. Jóhannes var við nám í Samvinnuskólanum á Bifröst 1976-1978 og flutti eftir það til Reykjavíkur. Þar starfaði hann hjá Sveini Björnssyni hf. og síðar hjá tölvudeild Sambandsins. Jóhannes og Alda bjuggu allan sinn búskap á Lambastaðabraut 13 á Seltjarnarnesi að undanskildum árunum 1988-1997 þegar þau voru á Varmalandi í Borgarfirði þar sem Alda var aðstoðarskólastjóri við Varmalandsskóla. Jóhannes hóf þá nám við Viðskiptaháskólann á Bifröst þaðan sem hann útskrifaðist með BS-gráðu í viðskiptafræðum. Að námi loknu starfaði Jóhannes í Borgarnesi þar til þau Alda fluttu aftur á Seltjarnarnesið. Eftir það starfaði hann við tryggingaráðgjöf þar til hann hóf kennslu, fyrst við Valhúsaskóla og síðustu árin við Austurbæjarskóla. Síðustu árin vann hann auk kennslunnar við rútubílaakstur og þá mest hjá Kynnisferðum ehf. Árið 1989 komu þau Jóhannes og Alda sér upp sumarbústað í landi Helgavatns í Borgarfirði sem síðan hefur verið sælureitur fjölskyldunnar. Þar hafa skapast hefðir sem leitt hafa til þess að þar hefur oft á tíðum verið margmenni ættingja og vina. Síðustu tvö árin naut hann þess að eiga lítinn skemmtibát með Jóni Þór syni sínum sem veitti fjölskyldunni mikla ánægju. Þá hafði Jóhannes mikla ánægju af ferðalögum, bæði innanlands sem utan. Útför Jóhannesar Bekk fer fram frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin kl. 15.
Í dag kveðjum við kæran vin og skólafélaga, hann Jóa Bekk. Þegar hugurinn reikar til baka rifjast það upp hvernig hlýjan og kímnin streymdu frá honum. Og ekki má gleyma dillandi hlátrinum sem aldrei var langt undan þegar við hittumst. Jói var óþreytandi á að rifja upp atburði frá skólaárunum sem höfðu fallið í gleymsku í áranna rás. Minningar um frábært skólaferðalag um Suðurland eigum við saman. Þar sem við heimsóttum staði sem við höfðum aldrei komið á áður, og sum okkar voru jafnvel að upplifa það að fara í fyrsta sinn að heiman. Í þessu ferðalagi naut Jói sín vel. Hann var hrókur alls fagnaðar og hélt uppi hlátrinum og kátínunni bæði í rútunni og á kvöldvökunum sem voru ógleymanlegar.
Það var gaman að fylgjast með þegar Jói gekk til mennta og stofnaði fjölskyldu. Það fór ekki á milli mála þegar hann kynntist Öldu sinni. Það hreinlega skein af honum hamingjan. Hann hafði unnið stærsta vinninginn í lífinu. Ást og virðing einkenndi samband þeirra.
Í gegnum árin var það líka tilhlökkunarefni þegar janúarmánuður gekk í garð. Þá var haldið á hið árlega sólarkaffi Ísfirðinga. Ekki brást það að Jói beið með útbreiddan faðminn á móti okkur vinunum, brosandi út að eyrum.Síðastliðinn júnímánuð áttum við skólasystkinin 40 ára fermingarafmæli. Ákveðið var að hittast á æskuslóðunum vestur á Ísafirði. Ef einhver vafi var á um hvort það ætti að mæta þá varð hann að engu þegar pósturinn kom frá Jóa. Þar stóð: Ég ætla að mæta, sleppi þessu ekki. Næsta skipti gæti orðið of seint. Mætingin var góð og við skólasystkinin áttum skemmtilega helgi saman. En það var sem skuggi hvíldi yfir annars síkátum vini sem var orðinn alvarlega veikur.
Við skólasystkini Jóa biðjum góðan Guð að styrkja Öldu og fjölskyldu í þessari miklu sorg.
Minningin um góðan dreng lifir.
1955 árgangurinn frá Ísafirði.
Kær vinur minn, hann Jóhannes Bekk er fallinn frá, langt fyrir aldur fram. Við vorum samnemendur við Samvinnuháskólann á Bifröst skólaárin 19901991 og 19941995, þar af samherjar og sessunautar allt síðara árið. Allt samstarf okkar var varðað mikilli glaðværð, hispursleysi og frumkvæði við áttum einfaldlega mjög auðvelt með að vinna saman.
Eftir að skóla lauk, héldum við áfram sambandi okkar þó svo lengra liði á milli samverustunda eða símtala. Það var einfaldlega þannig að það var mjög gott að leita ráða hjá Jóhannesi og ræddum við oft saman um hin ýmsu mál, sum þó vissulega merkilegri en önnur. Ég mun sakna þessara samverustunda eða símtala og geyma þá minningu vandlega að vinátta þín í minn garð var sönn.
Þórður Guðbjörnsson.
Þar sem tveir menn koma saman er fjölmenni og þörf á fleirum. Svo vitnað sé beint í fósturson Arne Sjölund er maðurinn félagsvera. Þar sem hávaði, vatnsslagur eða einn í uppsiglingu, einhver hópur manna eða bara einn með tak á slöngu, hópur saman kominn til að fremja verknað, mátti alltaf sjá slönguna, eins og við herbergisfélagarnir kölluðum hann. Þú gast aldrei setið aðgerðarlaus, alltaf að dunda þér. Jói Bekk, Captain Klutz, var útvarpsstjórinn sem við kynntumst á Bifröst, þeir sem kallaðir eru útvarpsstjórar í dag eru frekar litlausir karakterar miðað við hann Jóa. Dagskráin var mjög fagleg, góð rokktónlist fram eftir kvöldi með léttum innskotum um lífið og tilveruna síðan róleg og rómantísk tónlist með kynfræðslu frá Fritz um hvernig veiða ætti konur í sófum og temja þær til frambúðarsamveru, svona rétt fyrir svefnin ef einhverjir væru að hugsa sér til hreyfings. Fyrst og fremst varstu góður drengur. Það var svo skrýtið að þú svo hávaxinn, karlmannlegur og röddin djúp og virkaðir einhvernveginn svo harður, en þegar maður kynntist þér varstu svo mjúkur og barnslegur svona eins og þú hefðir aldrei kynnst neinu misjöfnu og vildir bara vera áhyggjulaus og skemmta öllum í kringum þig. Þú hafðir sterkar skoðanir á tónlist okkar og við tókum mark á þér, þú vildir vera með í að ákveða hvað keypt væri í plötusafn skólans og hvað skólahljómsveitin spilaði, hvað kórinn væri að gaula og svo framvegis. Herbergisfélagarnir skrifuðu um þig í Ecco Homo, Með hverju barni sem fæðist koma þau skilaboð frá Guði að hann er ekki enn orðinn vonlaus með manninn. Þú varst þátttakandi í lífinu, þú varst ekki það sem við köllum áhorfandi, þú tókst þátt í því fremstur, áberandi, ákafur og af ástríðu. Okkur finnst motto þitt lýsa þér vel úr Ecco Homo; Það er enginn maður lítill, menn eru bara misjafnlega stórir. Það er svo mikill kraftur sem kemur að vestan og eitthvað af honum kom með þér, sérstakur Ísfiðringur.
Nú þegar þú kveður félagi, fyrir aldur fram finnum við hvað þú gafst okkur öllum, hvað þú varst stór hlekkur í þessari Bifrastarvitund okkar, þessum þverskurði ungra Íslendinga sem við vorum, með framtíðardrauma og vonir. Þínir draumar voru að flytja inn ferðamenn í stórum stíl, líklega til að skoða Vestfirði af því að þeir eru bara til á Vestfjörðum. Treystu okkur, við munum aldrei láta þá af hendi, aldrei. Heimurinn er fátækari án þín.
Farðu í friði félagi, við munum sakna þín. Við vottum Öldu og
fjölskyldunni okkar dýpstu samúð.
Bekkjarsystkini úr Samvinnuskólanum á Bifröst.
Jóhannes Bekk frændi okkar og vinur er látinn langt um aldur fram. Þar er genginn elsti sonur Inga Einars Jóhannessonar og Gunnar (Gógóar) heitinnar Guðmundsdóttur á Ísafirði. Náinn samgangur var með fjölskyldunum í Túngötunni og á Engjavegi 17, enda systurnar Gógó og Steinunn Guðmundsdætur samrýmdar og synirnir félagar og heimagangar á báðum heimilum.
Jói var fjölhæfur og skemmtilegur maður og hrókur alls fagnaðar. Hann var vinamargur og unni fjölskyldu sinni fremur öðru, enda jafnan gestkvæmt á heimili þeirra Öldu á Nesinu eins og á æskuheimilinu. Eðlislæg frændræknin og natni við eldri sem yngri voru áberandi í fari Jóa ásamt ríkum áhuga á mönnum og málefnum sem naut sín í bland við leiftrandi frásagnargáfu.
Nú er skarð fyrir skildi og söknuður í stórum fjölskyldu og vinahópi. Við leiðarlok eru ofarlega í huga fjölmargar ánægjustundir sem við höfum átt með Jóa og fjölskyldu hans. Minnisstæðar eru heimsóknir í sumarbústað þeirra og skemmtilegar samverustundir á æskustöðvum í Jökulfjörðum.
Elsku Alda, Jón Þór, Ingi Einar, Ingi, Elvar, Brynjar og fjölskyldur, hugur okkar er með ykkur á þessari sorgarstundu. Guð styrki ykkur.
Blessuð sé minning Jóa Bekk.
Friðþór, Hrefna, Steinar Örn, Helena Rós og Tinna Björg.