Jónas Helgi Ólafsson fæddist í Reykjavík 11.10. 1973. Hann lést af slysförum 21.1. 2010. Foreldrar hans eru Valgerður Stefánsdóttir, f. 30.7. 1952, og Gunnar Ásgeir Jósefsson, f. 29.1. 1958. Faðir hans er Ólafur Logi Jónasson, f. 30.11. 1948, d. 21.10. 2009. Jónas Helgi átti einn bróður sammæðra, Jósef Karl, f. 10.8. 1983, og eina systur samfeðra, Rósu Hrönn, f. 6.12. 1966. Jónas var rúmlega tveggja ára þegar hann fluttist norður á Hvammstanga. Bjó hann þar uns hann varð 13 ára, en þá fluttist fjölskyldan suður til Reykjavíkur. Þann 12.8. 2000 kvæntist Jónas Helgi Guðrúnu Andreu Einarsdóttur, f. 1.3. 1979. Foreldrar hennar eru Ása Guðmundardóttir, f. 27.7. 1955, og Einar Finnsson, f. 18.5. 1954. Börn þeirra eru Stefán Ingi Jónasson, f. 23.6. 1999, og Andrea Helga Ósk Jónasdóttir, f. 13.9. 2002. Fyrir átti Jónas Helgi soninn Aron Sune, f. 31.12. 1994, með Sunnbjörgu Durhuus. Guðrún Andrea átti einn son áður en þau Jónas Helgi tóku saman, Einar Óla, f. 28.1. 1996, sem Jónas Helgi gekk í föðurstað. Jónas Helgi lauk sveinsprófi í pípulögnum í júní 1994 og fékk hann meistararéttindi í júní 1999. Hann varð frímúrari 6. apríl 2009. Útför Jónasar Helga fer fram frá Víðstaðakirkju í dag, föstudaginn 29. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Fyrir fáeinum dögum snerist veröldin við og stórt skarð var höggvið í vinahópinn. Jónas var tekinn frá okkur, frá börnunum sem hann elskaði, konunni sem hann dýrkaði og þeim stóra vinahóp sem hann átti.
Það er sama hver það var sem Jónas kynntist á lífsleiðinni. Hann á stað í hjarta þeirra allra. Hvort sem það var á hjólarúntum, í vinnunni eða á spjallinu heima hjá Gunnu og Jónasi var nærvera hans alltaf þæginleg. Oftar en ekki byrjuðu og enduðu hjólarúntarnir á kaffi og spjalli í Vogunum sem oft stóð langt fram eftir nóttu. Án Jónasar hefði vinahópur okkar ekki verið sá sami. Það sem við eigum eftir í dag, er fullt af fallegum og skemmtilegum minningum sem minna okkur á hversu góður strákur hann var og vinur sem í raun reyndist. Takk fyrir allar frábæru stundirnar á liðnum árum kæri vinur. Við munum gera okkar besta til þess að passa upp á Gunnu og krakkana.
Þú lifir að eilífu í minningum okkar og sögum, þínir vinir,

Öddi, Jón Tryggvi og Stjáni.