Kristinn Ólafsson fæddist á Sellátranesi í Rauðasandshreppi hinn 15. febrúar 1913. Hann lést 19. janúar 2010. Kristinn var sonur hjónanna Gróu Brandsdóttur, f. 29. júlí 1881, d. 11. desember 1940, og Ólafs Péturssonar, f. 29. september 1878, d. 13. nóvember 1934. Ólafur og Gróa bjuggu lengst á Sellátranesi í Rauðasandshreppi, síðast í Hænuvík. Systkini Kristins voru Kristján Brandur, f. 1902, d. 1930, Jónfríður, f. 1904, d. 1987, Sigurgarður, f. 1906, d. 1932, Pétur, f. 1908, d. 1979, Gísli, f. 1910, d. 1917, Björg, f. 1915, d. 1923, Jóhanna Fanney, f. 1917, d. 1994, Hjörtur, f. 1919, d. sama ár, Lilja, f. 1922, d. 1956, Dagbjörg Una, f. 1924 (ein eftirlifandi af systkinunum), og Ástráður, f. 1927, d. 1931. Kristinn ólst upp í Hænuvík og átti þar heima þangað til hann flutti til Patreksfjarðar. Hann var bóndi í Hænuvík frá 1940 þar til upp úr 1990 að hann flutti til Patreksfjarðar. Jafnframt starfaði hann sem landpóstur í ytri hluta Rauðasandshrepps á árabilinu 1945-1985. Þá vann Kristinn að smáútgerð í Hænuvík með búskap og tók verkamannavinnu sem til féll, svo sem sláturhússtörf á haustin. Kristinn var einn af björgunarmönnum þegar togarinn Dhoon strandaði við Látrabjarg hinn 12. desember 1947. Harmonikkuleik iðkaði Kristinn, hann spilaði fyrir dansi í sveitinni og var gestur á harmonikkumótum á Ísafirði og víðar um land, en á þeim vettvangi var honum sýndur margvíslegur sómi. Þá stundaði hann refaveiðar um skeið með allgóðum árangri. Útför Kristins fer fram frá Sauðlauksdalskirkju hinn 29. janúar 2010 og hefst athöfnin kl. 13.30.

Nú skiljast leiðir um sinn. Góður vinur frændi og nágranni er fallinn í valinn. Frá því ég man eftir mér var Kitti í Hænuvík eins og hann var jafnan kallaður óaðskiljanlegur hluti tilverunnar og lífsbaráttunnar í vestustu byggðum þessa lands. Ég minnist langra og tilbreytingalítilla vetrardaga þar sem fátt rauf hversdagsleikann nema þegar Kitti kom í póstferð, vanalega glaður og reifur, mjög málhress og lá hátt rómur. Og hann kom færandi hendi. Með nokkurra daga skammt af Tímanum ásamt tímaritum, sendibréfum og oft öðrum pinklum. Þessum heimsóknum fylgdu vanalega afar skemmtilegar samræður um sveitungana, stjórnmálaástandið og síðast en ekki síst sauðkindina. Þessi merkilega skepna sem öll þjóðin, að frátöldum nýbúum, á líf sitt og tilveru að launa átti nefnilega hug Kitta allan. Það lýsir sér best í því að þegar hann brá búi og flutti á Patreksfjörð aldraður maður þá þótti honum aldrei gerast þar neitt verulega fréttnæmt af því þar voru náttúrulega fáar sauðkindur. Kitti var sannur sauðfjárbóndi í bestu merkingu þess orðs, natinn og athugull og svo snyrtilegur í umgengi í fjárhúsum að af bar.

Ég minnist þeirra stunda sem við áttum saman í smalamennskum um áratuga skeið. Kitti hefur verið kominn töluvert á sextugsaldur þegar við smöluðum fyrst saman. Þá var hann svo vel á sig kominn að hann hljóp af sér alla stráka í utanverðum Rauðasandshreppi og voru þó sumir þeirra nokkuð knáir. Þegjandi var hann ekki og sparaði sig hvergi hvort sem var á spretti eða láta í sér heyra þar sem það átti við. Mér er minnisstæð hneykslun hans og fyrirlitning ef hann frétti af slæmri meðferð búfjár. Ég minnist líka glaðværra stunda í bragganum á Gjögrum sem var mötuneyti sláturhússins þar. Það var lærdómsríkur skóli í húmor og glensi er þeir ræddust þar við, Kitti í Hænuvík, Óli á Gili, Maddi í Tungu og margir fleiri húmoristar þessara tíma sem flestir eru nú horfnir yfir móðuna miklu. En lífið var ekki bara puð og smalamennska. Harmonikkan skipaði stórann sess í lífi Kitta. Hann lék fyrir dansi á böllum sveitarinnar áratugum saman. Og síðar eftir að tími harmonikkuballanna leið fyrir sjálfan sig og aðra á meðan fingurnir hlýddu.

Kæri Kitti nú leggur þú í hinstu smalaferðina. Hún er ólík hinum fyrri í því að nú áttu árangurinn vísan og ekki er að efa að bestu vinir þínir sem áður er getið fagna þér á nýjum stað. Við skulum vona að þar sé ekki setið auðum höndum heldur starfað að uppbyggilegri iðju eins og þú ástundaðir ávallt í jarðlífinu.

Við vottum Dagbjörgu og börnum hennar svo og öðrum systrabörnum Kitta okkar innilegustu samúð.

Hilmar Össurarson og fjölskylda fá Kollsvík.

Ég kveð Kristinn Ólafsson, aldinn höfðingja úr uppeldissveit minni í Rauðasandshreppi. Hann reyndist foreldrum mínum og okkur systkinum tryggur og trúr alla tíð og er hluti af sögu okkar fjölskyldunnar. Þegar foreldrar mínir fluttu í þessa afskekktu sveit með 7 börn á öllum aldri og eignuðust fljótlega það áttunda var hann í hópi þess góða fólks, sem tók þau undir sinn verndarvæng og kenndi þeim til verka og studdi þau til að komast af við þessar breyttu aðstæður. Eftir að þau yfirgáfu sveitina kom hann aldrei svo á Patreksfjörð að hann kæmi ekki við og oftar en ekki með eitthvert ljúfmeti eins og reyktan rauðmaga og hélt þessu áfram eftir að leið þeirra lá til Reykjavíkur og var sá síðasti sem átti tal við föður minn á heimili hans áður en faðir minn lést. Í upprifjun okkar systkinanna er hann og verður alltaf Kitti póstur, dálítið sérlundaður en hláturmildur og traustur vinur.
Það voru gleðidagar í Kollsvík þegar Kitti póstur kom ríðandi úr Hænuvík með pósttöskuna með öllum sínum leyndarmálum og sumir póstdagarnir verða okkur systkinunum  ævarandi í minni. Það hafði geisað norðangarður með skafmold og ofankomu alla vikuna, en svo létti snögglega til og sólin skein og það glampaði á sólbrána á snjóbörðum fjöllunum. Táhvít stökk upp og ruddist út og ég á eftir henni, því ofan úr Húsadalnum heyrðist marrandi hljóð, þegar hestar brutu sér leið ofan sneiðinginn og hurfu svo um tíma þar til þeir birtust aftur á brúninni norðan við vörðuna. Kitti póstur var kominn í póstferð með einn til reiðar með hnakktöskuna snjáðu fyrir aftan sig og tvo póstpoka sitt hvoru megin á hinum klárnum. Hann reið ofan gamla veginn alveg fram að Tröðinni og síðan til baka yfir stallinn og ég og tíkin mættum honum neðan við fjárhúsin og hlupum eftir honum heim til bæjar, þar sem allir voru komnir út á hlað. Við yngri krakkarnir eltum hann kringum hestana og fylgdum honum eins og mykjuflugur hvert sem hann fór. Oftast var eitthvað í pósttöskunni og nú var hann með póstpokana að auki, því það var að nálgast jól. Upp úr þeim dró hann blaðabunka, Alþingistíðindin, Lögbirtingarblaðið og pakka til okkar flestra, sem hann afhenti með allskonar athugasemdum naumast það er pakkinn til þín strákur, það er aldeilis bréfið til þín stelpa, ilmandi allt.  Stundum fékk pabbi persónulegan pakka og þá hurfu þeir inn í  stássstofu og oftar en ekki færði mamma þeim kaffi þangað inn og við sáum pabba gefa honum slurk útí, svo Kitti hélt póstferðinni áfram yfir að Stekkjarmel og Láganúpi með roða í kinnum og breitt bros á vörum. Hann var þrekmenni eins og þetta fólk var nánast allt og var í hópi þeirra manna sem unnu hið frækilega björgunarafrek undir Látrabjargi og einnig í þeirra hópi ári síðar, þegar tókst að bjarga öllum þeim sem eftir voru á lífi um borð í togaranum Sargon sem strandaði undir Hafnarmúla.

Hann fór einförum um fjöllin milli bæja bæði sem póstur og ekki síður sem tófuskytta, gangandi eða ríðandi á öllum tímum árs og síðar á Willys-jeppanum sínum gráa. Hann var dágóður harmonikkuleikari og var heiðursfélagi í Harmonikkufélagi Vestfjarða og spilaði oft fyrir dansi í sveitinni sinni um áratugaskeið og þá oftast á takkanikku. Hvert skipti sem ég leit til hans í gegnum árin, vildi hann taka fram nikkuna og spila fyrir mig fjörugan vals og sumt sem ég veit ekki hvaðan hann hafði lært. Í síðasta skipti sem ég hitti hann á sjúkrahúsinu á Patreksfirði með Hansínu systur minni, tók hann af okkur loforð, að koma og horfa á kistuna sína þegar hann væri allur. Þetta ætlum við Hansína að gera, ef nokkur kostur er á, í þakklætisskyni við tryggð hans og góðmennsku við foreldar okkar og okkur sjálf alla tíð.

Blessuð sé minning hans og systur hans og ættingjum sendi ég kveðju mína og systkina minna.




Guðbjartur Á. Ólafsson og systkini frá Kollsvík.