Þórbjörg J.Guðmundsdóttir (Þóra), fæddist að Vestur-Hópshólum 4. júlí 1918. Hún lést á Landspítalanum 20. janúar sl. Foreldar hennar voru Guðmundur Jónsson, bóndi þar og k.h. Ingibjörg Lára Guðmannsdóttir frá Krossanesi Systkinin frá V-Hópshólum voru sjö: Þóra var elst, f 1918, Unnur f.1919, Agnar Guðmann f.1921 d.2006, Hjalti Sigurjón f. 1924 d. 1992, Jón Eyjólfur f 1928 d. 1997, Gunnlaugur f. 1931 og Ásta f. 1933. Þóra giftist 28.09.1940 Axel Benediktssyni f 1914 á Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Axel lést árið 1966. Börn þeirra eru: Guðmundur Agnar f. 1942 maki Sigrún Reynisdóttir; Benedikt Jóhannes f. 1944 maki Jóhanna Valgeirsdóttir; Lára f. 1952 maki Valdimar Ingimarsson. Þórbjörg var jarðsungin frá Bústaðakirkju 25. janúar sl.
Og falin sorg mín
nær fundi þínum
eins og firðblátt haf.
(Steinn Steinarr.)
Einhver sagði að Guð hefði gefið okkur minningar svo við hefðum líka rósir í desember. Ég er Guði þakklát fyrir þann stóra og fallega ilmandi vönd af nýútsprungnum rósum sem ég á og geymi í hjarta mínu. Nú þegar, Þórbjörg J. Guðmundsdóttir, amma mín er látin og tárin læðast niður kinnarnar tek ég fram eina og eina rós og virði fyrir mér fegurð hennar og fjölbreytileika.
Ég fyllist ómældu þakklæti yfir því að hafa fengið að eiga þessa yndislegu ömmu og að hafa fengið að njóta samvista hennar svona lengi. Það voru sannarlega forréttindi. Hún tók stóran þátt í mínu lífi. Hún var stoð mín og stytta; amma, vinkona og sálufélagi. Eins er ég afar þakklát fyrir það að Daníella Saga , dóttir mín, varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast langömmu sinni svona vel og eiga hana að. Þær tengdust sérstökum böndum.
Nú þegar leiðir skiljast er kveðjustund ömmu minnar mér ofarlega í huga. Hún kvaddi með reisn, tæra meðvitund og það var stutt í kímnigáfuna. Það skyggir því ekki á allar góðu minningarnar sem ylja okkur mæðgum á þessari stundu og um komandi framtíð.
Komin á nítugasta og annað aldursár fylgdist amma enn vel með þjóðlífsumræðunni og við ræddum allt milli himins og jarðar. Ég gat ávallt leitað til hennar með ráðleggingar ef á þurfti að halda og hlutverk hennar í lífi okkar mæðgna ber vitni um örlæti hennar og hjartalag. Með hennar hjálp lauk ég mastersnámi síðastliðið vor þar sem hún var ávallt boðin og búin að gæta dóttur minnar langt fram á kvöld. Þær stundir voru ómetanlegar fyrir okkur allar. Ein af okkar síðustu minningum er frá síðastliðnu aðfangadagskvöldi sem við eyddum saman á Tómasarhaganum. Ég og Daníella Saga sóttum hana á spítalann og kríuðum það út að hún fengi að vera yfir nótt hjá okkur. Þetta voru yndisleg jól í hennar faðmi.
Ég kveð ömmu mína með ljúfsárum trega. Um leið og ég finn það í hjarta mér hvað ég er rík að hafa kynnst þessari frábæru konu svona náið. Nú sé ég hana fyrir mér í allri sinni fegurð, prúðbúna, brosandi og með glampa í augum. Þá rós mun ég varðveita og dást að.
Eva Björk Valdimarsdóttir.
Þóra var elst okkar systkinanna sjö að Vesturhópshólum í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar ólumst við upp við ástríki foreldra okkar á mannmörgu heimili. Þóra stundaði nám í Reykjaskóla og síðar við Kvennaskólann á Blönduósi. Árið 1939, þegar ég var sex ára, kynntist hún eiginmanni sínum Axel Benediktssyni en hann var þá kennari í Vesturhópi. Axel var frá Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Þau hófu búskap á Húsavík en þar varð Axel skólastjóri Gagnfræðaskólans.
Þegar Þóra og Axel höfðu búið á Húsavík í nokkur ár buðu þau mér að dvelja hjá sér og hefja nám við Gagnfræðaskólann. Þetta var ómetanlegt boð þar sem faðir okkar hafði látist tveimur árum áður. Ég naut frábærrar leiðsagnar Axels þá þrjá vetur sem ég var í skólanum og þau hjónin reyndust mér ákaflega vel, voru uppörvandi og hlý.
Á Húsavík fæddust börnin þeirra þrjú Guðmundur, Benedikt og Lára. Heimili þeirra var smekklegt og einkenndist af gestrisni. Á Húsavíkurárunum hóf Þóra að spila brids og hélt því áfram alla tíð. Elsta barnabarnið mitt, Andri, hafði einstaklega gaman af því þegar Þóra var í heimsókn hjá mér því þá tóku þau iðulega í spil saman. Hún kenndi honum mörg spil og vakti áhuga hans á möguleikum spilamennskunnar.
Í lok sjötta áratugarins fluttu þau hjónin á höfuðborgarsvæðið og bjuggu lengst af í Kópavogi. Axel lést árið 1966 langt um aldur fram aðeins fimmtíu og tveggja ára. Samband okkar systra hefur ætíð verið náið og efldist enn frekar eftir því sem tíminn leið. Við fórum ásamt öðrum í mörg skemmtileg ferðalög innanlands og heimsóttum meðal annars Láru dóttur hennar í Kaupmannahöfn.
Ég vil að leiðarlokum þakka Þóru systur fyrir samfylgdina. Guð blessi minningu hennar.
Ásta Guðmundsdóttir.