Jakob fæddist á Bíldudal, 9.2.1950. Hann lést á heimili sínu á Bíldudal, 22. janúar síðastliðinn. Móðir hans er Guðrún Rebekka Jakobsdóttir, f. í Kvíum, Grunnavíkurhreppi 28.3. 1925. Móðir hennar var Guðbjörg E. Jónsdóttir og faðir var Jakob K. Falsson, bátasmiður. Faðir Jakobs var Kristinn Ásgeirsson, f. í Baulhúsum við Arnarfjörð, 5.4.1922, d. 31.7.2002. Móðir hans var Guðbjörg O. Kristjánsdóttir og faðir var Ásgeir K. Matthíasson. Systkini Jakobs eru sex. 1) Ásgeir Matthías, f. 5.12.1947. Eiginkona hans er Guðjóna Kristjánsdóttir og eiga þau tvo syni. 2) Guðbjörg Kristín, f. 20.2.1949. Hún á tvær dætur. 3) Jóna Elín, f. 19.12.1954. Eiginmaður hennar er Guðbjartur Ólafsson og eignuðust þau þrjú börn. 4) Guðmundur, f. 4.4.1959. Eiginkona hans er Guðbjörg G. Benjamínsdóttir og eiga þau tvö börn. 5) Kristján Hörður, f. 25.9.1960. Eiginkona hans er Valdís Valdimarsdóttir og eiga þau fjóra syni. Helga, f. 3.2.1962. Sambýlismaður hennar er Þórarinn Viðar Hjaltason og eiga þau tvo syni. Að loknu verslunarprófi frá Samvinnuskólanum 1971, starfaði Jakob sem skrifstofustjóri hjá Hraðfrystihúsi Patreksfjarðar hf., auk starfa við bókhald fyrir útgerð Héðins Jónssonar. Árið 1975 var Jakob einn af stofnendum Fiskvinnslunnar á Bíldudal hf., og síðar framkvæmdastjóri. Árið 1986 tók hann þátt í að stofna Útgerðarfélag Bíldælinga hf. sem meðal annars gerði út togarann Sölva Bjarnason BA-65. Samhliða störfum sínum fyrir Fiskvinnsluna og Útgerðarfélagið rak hann um tíma, ásamt Pétri Þór Elíassyni og Jörundi Bjarnarsyni, útgerðarfélagið Pétursvör, sem gerði út Hring BA-165. Árið 1993 stofnaði hann ásamt bræðrum sínum Herði og Guðmundi, og fleirum, útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Sæfrost ehf. Á árunum 1994 til 2003 stundaði Jakob, ásamt syni sínum Jóni Páli, útgerð frá Bíldudal. Gerðu þeir meðal annars út Frey BA-9, Sigurbjörgu Þorsteins BA-65, og Kitta BA-741. Samhliða starfi aflaði hans sér skipstjórnar- og vélstjórnarréttinda. Jakob hafði mikinn áhuga á byggða- og félagsmálum. Árið 1974 tók Jakob, 24 ára, sæti í hreppsnefnd Suðurfjarðarhrepps sem oddviti, og sat í meirihluta hreppsnefndar til 1990. Jakob sat meðal annars í stjórnum félags Sambandsfrystihúsa, Kaupfélags Vestur-Barðstrendinga og Útvegsmannafélags Vestfjarða. Jakob kvæntist 27.3.1972 Birnu Hrafnhildi Kristinsdóttur, f. í Reykjavík 13.6.1950. Þau skildu 2001. Foreldrar hennar voru Kristinn Vigfússon, f. 1.7.1917, d. 3.12.1990, og Jóna Kristjánsdóttir, f. 1.8.1917, d. 29.7.2008. Jakob og Birna eignuðust fjögur börn: 1) Gunnar, lögfræðingur, f. 15.4.1970. Eiginkona hans er Guðrún Aspelund. Dætur þeirra eru Kolbrún Hilda og Kristín Rebekka. 2) Jón Páll, stýrimaður, f. 1.1.1973. Eiginkona hans er Sólrún Bryndís Aradóttir. Börn þeirra eru Lovísa Rut, Birna Sólbjört, Svanur Þór og Jóna Krista. 3) Guðrún Rebekka, hjúkrunarfræðingur, f. 13.12.1976. Eiginmaður hennar er Svavar Sigþórsson. Börn þeirra eru Brynhildur, Áslaug Birna og Brynjar Gauti. 4) Júdit Krista, framhaldsskólanemi, f. 23.11.1992. Útförin fer fram frá Bíldudalskirkju í dag, laugardaginn 30. janúar, kl. 11.
Við Kobbi erum bræðrasynir, hann árinu eldri. Þegar við byrjuðum sem smá pollar að leika okkur saman fyrir vestan á Bíldudal uppgötvaði ég eiginlega að ég ætti sömu ömmu á staðnum og hann, ömma í Kurfu. Pabbi ólst ekki upp hjá ömmu og afa á Baulhúsum heldur hjá fósturforeldrum á Hjalkárseyri. En eftir að við Kobbi byrjuðum að leika okkur saman leið varla sá dagur að við kæmum ekki við hjá ömmu, oftast tvisvar á dag til að fá mjólk og Dödduköku. En oft sátum við líka löngum stundum og hlustuðum á ömmu segja frá lífinu hinum megin í firðinum. Þetta var yfirleitt áhyggjulaust líf hjá okkur, við gátum dundað okkur heilu dagana við að stífla lækinn og láta báta sem voru bara einfaldar spýtur sigla um öll heimsins höf, stýrðum þeim með stráum. Seinna gátum við setið daginn út og daginn inn með í kaupfélagsvörubílnum hjá Ingvari frænda sem sagði okkur ótrúlegar sögur sem við auðvitað efuðumst ekki um að væru sannar. Skildum því ekki þegar fólkið hló heima þegar við endurtókum sögurnar. Stundum kom aldursmunurinn í ljós, t.d. þegar hvolpavitið kom til sögunnar. Svo byrjaði hann í brúarvinnu á sumrin og ég varð eftir á Bíldudal í frystihúsinu. En svo kom að því að ég komst líka í brúarvinnuna og þá tók ég strax eftir hvað hann var vinsæll meðal hinna strákanna sem höfðu verið með honum áður, líka þeirra sem voru mun eldri. Hann hafði skopskyn sem ég kunni að meta og saman gátum við hlegið næstum að hverju sem var ef þannig lá á okkur. Hann var mjög laginn, alla vega miklu lagnari en ég við smíðar þó það segi ekki mikið. Þegar nýja borðið sem ég smíðaði til að hafa í tjaldinu lagðist útaf þá smíðaði hann eitt í snatri sem stóð uppi öll sumrin sem sofið var í tjaldi. Við unnum aðallega í járnunum og við járnabindingar, stóðum við járnabekkinn, klipptum og beygðum járnin sem urðu að vera af réttri lengd eftir beygingarnar og eiginlega furðulegt hvað við gátum skemmt okkur í þessari vinnu og oft komu hinir til okkar til að athuga hvað væri svona skemmtilegt.
Ég held að Kobbi hafi átt auðvelt með að læra þegar hann hafði áhuga, fór í gagnfræðideildina á Núpi og síðan í Samvinnuskólann á Bifröst. Ég fór í Menntaskólann á Akureyri en alltaf unnum við saman í brúarvinnunni á sumrin og þá urðum við alltaf strax eins og samlokur. En svo skildu leiðir, hann bjó og starfaði á Bíldudal, ég um tíma erlendis og síðan ætíð hér fyrir sunnan. Hittumst samt stöku sinnum en mörg hin síðari ár eingöngu í jarðarförum. Eftir að hann flutti suður var ég stundum að hugsa um að heimsækja hann en aldrei varð af því. Rifjast þetta ekki einmitt upp hjá svo mörgum þegar það er orðið um seinan? Samt hef ég einmitt reynt svo oft að láta verða af heimsóknum þegar mér hefur dottið þær í hug. Sögurnar hans Hendriks Ottósonar um Gvend Jóns og ég minna á margt sem við brölluðum.
Með þessum fátæklegu orðum vil ég kveðja ógleymanlegan frænda og óaðskiljanlegan vin til margra ára. Gunnari, Jóni Páli, Guðrúnu Rebekku og Ratid Krista og börnum þeirra sendi ég samúðarkveðjur.
Víðir Kristjánsson.