Þórður Jóhann Eggertsson var fæddur í Borgarnesi 12. ágúst 1915. Hann lést í Borgarnesi 19. janúar 2010. Foreldrar hans voru Margrét Jónsdóttir, f. 4. júlí 1889, látin 4. nóvember 1963, og Eggert Eiríksson, f. 11. júní 1868, látinn 17. júní 1923. Systir Þórðar er Ragney Eggertsdóttir, f. 13. júní 1911. Þórður kvæntist 16. júní 1949 Sólveigu Árnadóttur, f. 20. desember 1916. Foreldrar hennar voru Theodóra Kristín Sveinsdóttir, f. 2. júlí 1876, látin 30. júlí 1949, og Árni Sighvatsson, f. 7. nóvember 1885, látinn 28. febrúar 1951. Börn þeirra eru: 1) Eggert Margeir, f. 8. maí 1949, maki Júlíana Júlíusdóttir, f. 11. júlí 1950. Synir þeirra eru: a) Þórður Jóhann, f. 29. apríl 1977, unnusta Guðný Tómasdóttir, b) Margeir Þór, f. 15. nóvember 1980, unnusta Alma Ýr Þorbergsdóttir, sonur hans er Jakob Darri, f. 3. júlí 2003, barnsmóðir Þóra Dröfn Guðmundsdóttir, c) Daníel Ingi, f. 25. september 1983, unnusta Sólveig Árnadóttir, 2) Theodór Kristinn, f. 1. mars 1952, maki María Erla Geirsdóttir, f. 20. nóvember 1953. Synir þeirra eru: a) Björn, f. 1. janúar 1970, unnusta Marie Huby, synir hans eru Eiríkur Rafn, f. 31. júlí 1990, barnsmóðir Laufey Sigrún Hauksdóttir, Ármann Kristinn, f. 23. september 2002, og Theodór Snær, f. 22. ágúst 2004, barnsmóðir Auður Hafstað Ármannsdóttir. b) Árni Ívar, f. 2. júní 1975, c) Geir Konráð, f. 15. janúar 1986, d) Eiríkur Þór, f. 11. febrúar 1990, unnusta Þorkatla Inga Karlsdóttir. 3) Guðrún, f. 11. júlí 1954, maki Gylfi Björnsson, f. 17. apríl 1946. Börn: a) Sara Margrét, f. 6. október 1978, maki Sigtryggur Örn Sigurðsson, b) Sólveig Íris, f. 17. janúar 1981, unnusti Luca Rampone, c) Björn Friðrik, f. 15. nóvember 1991, d) Andrea Dögg, f. 25. apríl 1994. Þórður, sem alltaf gekk undir nafninu Doddi í Dal, vann sem unglingur hjá Verslunarfélagi Borgfirðinga en var síðan bílstjóri nánast allt sitt líf, fyrst með leigubílarekstur, svo hjá kaupfélaginu, síðar var hann olíubílstjóri hjá Skeljungi og loks aftur leigubílstjóri á eigin vegum. Hann var einnig til sjós um tíma á Eldborginni ásamt fleiri Borgnesingum. Eftir að hann lauk sínum atvinnubílstjóraferli vann hann um tíma hjá Þórði Pálssyni fisksala í Borgarnesi og var þeim nöfnum vel til vina. Einnig vann hann um tíma hjá Borgarplasti í Borgarnesi hjá öðrum stórvini sínum, Halldóri Brynjúlfssyni, sem reyndist honum afar vel. Þórður tók virkan þátt í félagsstarfi í Borgarnesi á sínum yngri árum, var formaður vörubílstjórafélagsins og einn af stofnfélögum Lionsklúbbsins í Borgarnesi, og var hann gerður að heiðursfélaga í Verkalýðsfélagi Borgarness. Útför Þórðar verður gerð frá Borgarneskirkju í dag, laugardaginn 30. janúar, kl. 14.

Hann faðir minn Þórður Jóhann Eggertsson, eða Doddi í Dal, eins og hann var alltaf kallaður er nú fallinn frá í hárri elli.  En hann var sannarlega alltaf ungur í anda og var með árunum alltaf að koma mér og öðrum í fjölskyldunni á óvart í sínum yfirveguðu rólegheitum.

Ég bauð honum í bíltúr þegar hann var níræður og til stóð að fara í dagsferð.  Þegar við vorum lagðir af stað spurði hann hvort við ættum bara ekki að skella okkur í hringferð um landið og úr varð fjögurra daga túr með góðum stoppum á völdum stöðum.  Meðal annars var alveg sjálfgefið að skoða Kárahnjúkavirkjunina  enda vildi  minn maður fylgjast vel með öllum nýjungum og meiriháttar framkvæmdum.  Á svipuðum tíma langaði hann að skreppa vestur á Snæfellsnes og fóru Guðrún dóttir hans og Gylfi maður hennar og fjölskylda með hann vestur og enduðu þau upp á Snæfellsjökli með gamla manninn þar sem hann lék við hvern sinn fingur.  Ég var oft búinn að bjóða honum í flugtúr en hann sýndi því ekki áhuga fyrr en hann var orðinn níræður og þá fórum við í nokkra flugtúra vítt og breitt um Borgarfjörðinn.

Hann Doddi í Dal hafði ekki hátt um hlutina en hann var einarður og réttsýnn og rétti fólki oft hjálparhönd á erfiðum tímum.  Hann hélt sinni reisn fram eftir aldri, teinréttur og flottur í tauinu, oftast með hatt sem var valinn eftir veðrinu hverju sinni.   Hann keypti sér nýjan bíl fyrir fáum árum og fór sinna ferða, passaði að endurnýja ökuskírteinið reglulega og reyndi að vera ekki fyrir í umferðinni.

Hann var einn af þessum  mönnum sem kvartaði ekki yfir smámunum.  Hafði alla tíð unnið hörðum höndum svo hörðum reyndar að ítrekað þurfti að skera úr lófunum inngróið sigg eftir meðhöndlun á óblíðum stýrishjólum á demparalitlum bílum sem voru í fyrstu með tréstýri.  Hann var í mínum huga einn af þessum öldnu alþýðuhetjum sem stóðu sína plikt, hvað sem það kostaði.  Hann var bílstjóri nánast allt sitt líf, fyrst með leigubílarekstur svo hjá kaupfélaginu og síðar olíubílstjóri hjá Skeljungi  og loks aftur leigubílstjóri á eigin vegum.

Hann var einnig til sjós um tíma á Eldborginni ásamt fleiri Borgnesingum.  Eftir að hann lauk sínum atvinnubílstjóraferli vann hann um tíma hjá Þórði heitnum Pálssyni fisksala og var þeim nöfnum vel til vina.  Einnig vann hann um tíma hjá Borgarplasti í Borgarnesi hjá öðrum stórvini sínum Halldóri heitnum Brynjúlfssyni sem reyndist honum afar vel.

Hann Doddi var sjálfstæðismaður nær allt sitt líf og formaður bílstjórafélagsins um tíma og það gat nú kostað sitt þar sem framsóknin réð sveitarfélagi.  Hann byggði sér og Veigu sinni myndarlegt hús skammt frá æskuheimilinu sínu í Dal á erfiðum tímum upp úr síðari heimsstyrjöldinni þegar flest var skammtað og lítið var um lánafyrirgreiðslu.   Hann tók virkan þátt í félagsstarfi í Borgarnesi á sínum yngri árum, var einn af stofnfélögum Lionsklúbbsins í Borgarnesi og var gerður að heiðursfélaga í Verkalýðsfélagi Borgarness.  Hann var hestamaður og átti áratugum saman góða hesta.  Þá hafði hann gaman af lax og silungsveiðum og þetta sameinaði hann í veiðiferðum inn í Langavatn en þá fór hann þangað ríðandi með Ásmundi Jónssyni móðurbróður sínum og fleiri veiðifélögum.  Það var mjög kært með þeim Ásmundi og Dodda sem og öllu hans fólki sem bjó lengi undir sama þaki í litla húsinu í Dal sem þó rúmaði þrjár fjölskyldur á sínum tíma.

Þrátt fyrir mikla vinnu og langan vinnudag gaf hann sér tíma fyrir fjölskylduna og farið var í margar fjölskylduferðir vítt og breitt um landið á sumrin á drekkhlaðinni drossíu enda Margrét móðir hans og Eyja systir hans oft með, auk eiginkonu og barna og útilegubúnaðar þess tíma.  Eftirminnilegar eru ísaveiðiferðir upp á Norðurá með Dodda í Dal, Gumma Bach, Hauki Jakobssyni, Ragnari Jónssyni og sonum hans.  Þá var ungviðinu kennt að umgangast ísinn af varúð, hvar og hvernig átti að bera sig að við að höggva vakir og hverju átti að beita fyrir fiskinn og hvernig átti að fá hann til að taka.

Það er í miklu þakklæti sem ég kveð föður minn, þakklæti fyrir að eiga hann að fyrir mig og mína fjölskyldu, börn og barnabörn sem nú syrgja góðan mann.

Theodór Kr. Þórðarson