Þuríður Hermannsdóttir fæddist 5. maí 1941. Hún lést 19. janúar 2010. Foreldrar hennar voru Ása Ottesen og Hermann Hermannsson, bæði látin. Sonur Þuríðar er Magnús Guðmundsson, sonur hans er Emil Kári. Útför Þuríðar fór fram frá Fossvogskapellu 27. janúar 2010.
Kveðja til frænku.
Elsku Þurí okkar, nú þegar þú ert farin koma upp í hugann margar minningar frá þeim tíma sem leiðir okkar lágu saman. Hann er lengri í okkar huga en kallið kom snemma til þín. Í einni fyrstu minningunni erum við á leiðinni til ykkar Magnúsar að Staðarfelli. Oft sátum við systurnar og tuðuðum um að nenna ekki í heimsókn en það brást ekki að þegar beygt var inn Fellsströndina fórum við að syngja að við værum alveg að koma og tilhlökkunin kom í ljós. Líklega vegna þess að hjá ykkur höfðum við það alltaf svo gott og notalega samveru og vel um okkur hugsað. Svo var fjaran á næsta leiti með öllum sínum undrum fyrir sveitastelpurnar úr Borgarfirðinum. Þegar við óharðnaðar sveitastelpurnar komum til ykkar að Vífilsstöðum kynntumst eiginlega sveit í borg þar sem margir krakkar voru til að leika við. Það var líka alltaf gaman að koma til þín á Otrateiginn. Skemmtilegast var að fá að búa til heilsunammi sem við svo borðuðum með bestu lyst.
Ferðin með mömmu til Portúgal að heimsækja Þurí frænku situr líka ofarlega í minningunni. Þar sem við fengum í fyrsta sinn að smakka ávextina beint af trénu og heimaræktað grænmeti. Bestu ávexti í heimi. Enda var matur aldrei vafaatriði þegar þú varst annars vegar. Stundum sagðir þú um hádegið að nú mættum við hin velja hvað ætti að vera í kvöldmatinn en ávallt komstu með uppástungur um hvað kæmi helst til greina. Eftirminnilegt úr þessari ferð var líka þegar gengið var niður í bæ til að kaupa sérstakan kvöldverð sem samanstóð af útflöttum grilluðum kjúkling og vínflösku sem bragðaðist einstaklega vel og munum við það enn. Þetta var frábær heimsókn og gleymist seint. Þarna ferðuðumst við um allt, við sem vorum í fyrsta sinn í öðru landi. Þú keyrandi og spyrjandi farþegana hvort að þeir hefðu séð hvað stóð á skiltinu rétt eftir að það þaut hjá. Farið á markaði, hjólað og verið saman. Samverustundirnar sem nú er okkur enn mikilvægari þar sem þær verða ekki fleiri að sinni. Portúgalarnir kölluðu þig Túrídúrí enda erfitt fyrir þá að bera fram framandi íslenska stafi. Þeir voru dáleiddir af þessu ljóshærða fólk sem kom í heimsókn. Gömlu konunum fannst frábært að sjá Ágústu sem hét dýrlinganafni og vildu helst fá að eiga Jökul sem var svo lítill og sætur og fús til að drekka kaffi með geitamjólk út í eins og það væri heitt súkkulaði.
Eftir að þú komst heim fjölgaði stundunum með þér þar sem þú fluttir til mömmu. Margar góðar stundir sem áttum við þar. Mamma blómstraði með þér og alveg frábært fyrir okkur systkinin að sjá kærleikann sem ríkti ykkar á milli. Mikið væri gott ef öll systkini væru svona náin. Einnig hefur þú verið okkur hvatning til náms enda léstu aldrei deigan síga í leit þinni að frekari þekkingu. Nú eiga frændur okkar um sárt að binda líkt og þeir aðrir sem voru þér nánastir og biðjum við Guð um að líta til með þeim í sorg sinni. Mikið eigum við eftir að sakna þín Þurí okkar og megi líf þitt og gæfa fylgja þeim sem eftir standa.
Systkinin frá Laufskálum II, Ása, Erla, Ágústa og Jökull.