Pálmfríður Albertsdóttir fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 21. október 1920. Hún lést föstudaginn 26. febrúar síðastliðinn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, þá til heimilis að Hlévangi í Keflavík. Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Jóna Guðnadóttir, f. 31.10. 1883, d. 29.12. 1970 frá Skálavík í Norður-Ísafjarðarsýslu og Albert Finnur Jóhannesson, f. 13.11. 1884, d. 20.11. 1945, sjómaður á Suðureyri. Pálmfríður var yngst í röð fimm systkina. Elstur var Kristján, f. 1910, d. 1930, þá Guðjóna Pálmfríður, f. 1914, d. 1916. Guðjóna, f. 1916, d. 2000 og Jóhannes, f. 1918, d.1923. Pálmfríður giftist eiginmanni sínum Magnúsi S. Bergmann þann 22.12 1948, dáinn 29. janúar 2000, frá Fuglavík. Foreldrar hans voru Sigurður M. Bergmann útvegsbóndi, Fuglavík, f. 24.7 1880, d. 11.8. 1965, og Vigdís Sigurðardóttir, f. 4.8. 1891, d. 6.10. 1960. Synir Magnúsar og Pálmfríðar eru: 1) drengur, f. 19.6. 1948, d. 20.6. 1948. 2) Sigurður Vignir, f. 17.3. 1950, sonur hans og Rósu Mörtu Guðnadóttur er Magnús Kári, f. 11.5. 1975. Kona Magnúsar Kára er Drífa Magnúsdóttir f. 20.11.70. Dætur þeirra eru Rósa f. 3.11.2003 og Birna f. 25.06. 2005. Kona Vignis er Jónína Holm, f. 9.12. 1961, börn þeirra eru Una María, f. 25.3. 1991, og Ari Páll, f. 10.5. 1992, börn Jónínu eru Mortan Holm, f. 9.11. 1979, kona hans er Inga Lára Helgadóttir 11.4. 1981 sonur þeirra er Sæþór Helgi f. 6.10. 2004. Daníella Holm, f. 16.1. 1984 sambýlismaður hennar er Eiríkur A. Björgvinsson 22. 8 1984. 3) Kristján Albert, f. 24.9. 1952, kona hans er Eva Carlsen, f. 16.8. 1954, dætur þeirra eru Ellen, f. 29.12. 1984 sambýlismaður hennar er Carl Sandjen f. 18.4 1983 og Kajsa Stína, f. 21.5. 1989, dóttir Evu er Maja, f. 23.11. 1979, 4) Gylfi, f. 22.6. 1954, kona hans er Helga Jóhannesdóttir, f. 20.9. 1955, börn þeirra eru Pálmfríður, f. 13.9. 1978 maður hennar er Hilmar Birgisson, sonur þeirra er Hilmar Daði f. 10.2 2003, Gylfi Gunnar, f. 18.5. 1986, og Halldór, f. 24.1. 1988. Mestan hluta búskapar þeirra Pálmfríðar og Magnúsar var að Heiðarvegi 12 í Keflavík sem þau keyptu um 1949. Þau fluttu að Kirkjuvegi 11 árið 1997. Það var svo sumarið 2005 sem Pálmfríður flytur á Hlévang í Keflavík. Pálmfríður var meðal stofnfélaga í Vestfirðingafélagi Keflavíkur og nágrennis sem stofnað var 1947.  Heiðursfélagi í Verkalýðs og sjómannafélagi Keflavíkur og starfaði með Kvenfélagi Keflavíkur. Einnig var hún lengi virk í kór eldri borgara Eldey. Eftir að hefðbundnum barnauppeldisstörfum lauk vann hún m.a. á leikskólanum í Keflavík sem nú er Tjarnasel. Lengsta hluta starfsævinnar vann hún í býtibúrinu á Sjúkrahúsi Keflavíkur seinna Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar til hún lét af störfum um það leyti sem hún flutti á Kirkjuveginn. Útför Pálmfríðar fer fram frá Keflavíkurkirkju föstudaginn 5. mars kl: 14:00. Jarðsett verður í Hvalsneskirkjugarði.

Þegar ég kveð Pöllu frænku, verður mér ljóst hve nátengd hún hefur verið mínu lífi frá því ég var barn. Hún var yngri systir mömmu og þótt þær byggju ekki á sama stað eftir að þær byrjuðu að búa var samt mikið samband á milli fjölskyldnanna enda bjó amma hjá okkur. Ég held að okkur systkinum hafi oft fundist að strákarnir hennar Pöllu væru bræður okkar frekar en frændur. Mér gekk ekki vel að læra að synda en Palla tók mig með suður og setti mig á sundnámskeið í Keflavík, þar synti ég fyrst 200 metrana. Þegar Gylfi fæddist passaði ég Albert um sumarið en Vignir var sjálfbjarga enda eldri.
Á síldarárunum fór Maggi norður með bátana sem hann var skipstjóri á og kom alltaf við á Súgandafirði og oftast kom Palla með strákana og var hjá okkur á meðan Maggi var á síld. Þá var ég orðin unglingur. Palla kom með segulbandstæki og átti spólur með dægurlögum. Stundum stalst ég til að nota tækið og það gerðist að við unglingarnir dönsuðum eftir tónlistinni. Þetta var aldrei gert nema ef Palla fékk far á Ísafjörð, bílaeign var ekki almenn á þeim tíma. Fyrir kom að bandið slitnaði, þá var mér kennt að líma það með límbandi. Ég sagði henni ekki frá þessu fyrr en áratugum seinna. Hún hafði bara gaman af þessu. Eitt sumar man ég eftir að Maggi kom í frí en þá var Palla að vinna í eldhúsinu á Núpi, líklega vegna íþróttanámskeiðs. Hann fékk lánaðan bíl hjá Jóa bróður, skrapp að Núpi og ég fékk að fara með.
Eftir að ég fór að búa var þó nokkur samgangur okkar á milli og alltaf var gott að heimsækja Magga og Pöllu. Þegar mamma var í bænum fór ég stundum með þær í heimsóknir til gamalla vina þeirra og ættingja. Það fannst okkur mjög gaman. Palla klæddist alltaf fallegum fötum og fólk hefur sagt mér að hún og Maggi hafi alltaf verið glæsilegust á mannamótum, áður fyrr. Líklega hefur Palla verið prakkari þegar hún var barn. Hún sagði mér að hún hafi falið bækur sem mamma var að lesa ef hún þurfti að fá hana til að sauma á sig kjól eða annað, öðruvísi náði hún ekki sambandi.
Palla hafði mikið yndi af tónlist enda held ég að strákarnir sæki áhugann til hennar. Hún hafði alla tíð mjög gaman af að dansa og sagðist koma til Reykjavíkur til að anda. Á meðan hún keyrði bíl kom hún oft á gömlu dansana og stundum fór ég með henni eftir að ég skildi. Stundum kom hún með rútunni, ég sótti hana og hún mætti í dansinn um leið og hann byrjaði, ég var í námi og sótti hana og skilaði í síðustu rútu til Keflavíkur. Alltaf var hún að dansa á fullu þegar ég kom að sækja hana.
Ég kenndi nokkur ár í Keflavík og keyrði á milli og kom oft við á Heiðarvegininum, því þangað var alltaf gott að koma. Á meðan ég kenndi í Bláskógabyggð kom hún stundum í heimsókn og gisti. Ef ég vissi að gömlu dansarnir voru í nágrenninu fórum við þangað en þá hafði hún ekki mikið úthald til að dansa en vildi mest hlusta. Úthaldið minnkaði mikið eftir ósæðaraðgerð árið 2000 enda sóttu veikindi á hana oft eftir það. Þegar Palla og Maggi sáu að íbúðin á Heiðarveginum var orðin of stór fyrir þau tvö fluttu þau á Kirkjuveginn. Hún var þar áfram eftir að Maggi dó og stundum kom ég og gisti, pönnukökurnar hennar voru alltaf jafn góðar. Við fórum kannski í bíltúr til Reykjavíkur eða suður á Hvalsnes, til Fuglavíkur eða Garðskaga. Eftir að Vignir flutti í Garðinn fórum við stundum þangað í bíltúr. Henni fannst í fyrstu erfitt að hugsa til þess að þurfa að fara á elliheimili og sagði mér frá því, en hún var mjög ánægð þegar hún lét mig vita að hún hafði fengið inni á Hlévangi og henni leið vel þar. Hún var dugleg að taka þátt í því sem var í boði og einnig hafði hún gaman af að leggja kapal í tölvu og þar sat hún oft þegar einhver kom í heimsókn.
Ég þakka Pöllu fyrir allt sem hún hefur gert fyrir mig og allar ánægjustundirnar sem við áttum. Vignir, Albert, Gylfi og fjölskyldur, mér finnst gott að hún þarf ekki að kveljast lengur og bið Guð að blessa ykkur.


Valbjörg (Valla).