Gunnar Pétursson fæddist 13. febrúar 1941. Hann lést á lungnadeild LSH í Fossvogi 1. mars 2010. Gunnar var fæddur og uppalinn í Doktorshúsinu, Ránargötu 13 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Petrea Hoffmann Ingimarsdóttir, fædd í Bakkakoti á Kjalarnesi og Pétur Guðmundsson frá Sænautaseli, Jökuldalsheiði. Gunnar bjó að Gaukshólum 2, Reykjavík. Hann kvæntist Selmu Hrólfdal Eyjólfsdóttur frá Hesteyri í N-Ísafjarðarsýslu árið 1966. Börn þeirra eru; Hilmar Pétur, f. 1963, Aðalheiður Esther, f. 1965, og Guðrún Petrea, f. 1971. Gunnar átti 10 afabörn og 5 langafabörn. Gunnar vann lengst af í álverinu í Straumsvík. Útför Gunnars hefur farið fram frá Fella- og Hólakirkju.

Minning  um vin.

Við Gunnar Pétursson höfum þekkst frá því að ég man fyrst eftir mér. Við ólumst upp í vesturbænum og bjuggum sitt hvoru megin við Ránargötuna, ég í húsi númer 14 en Gunni  í gamla Doktorshúsinu sem var númer 13 í götunni. Þetta gamla stóra timburhús sem stóð á kletti, ofar og skáhalt við önnur hús við götuna, var eitt elsta hús í Reykjavík og víst byggt sem spítali í upphafi, en er nú horfið sem og mörg  menningarverðmæti í borginni okkar. Í þessu gamla húsi bjuggu margar fjölskyldur og var húsið alltaf fullt af krökkum. Þar bjó Gunni ásamt fjölskyldu sinni á efri hæð og var undirritaður heimagangur þar frá því hann gat farið sjálfur yfir götuna og upp stigana og átti þá alltaf von á góðgæti hjá Petreu, mömmu Gunna, smurðu rúgbrauði með hnausþykkri kæfu sem er mér minnisstæð.

Ránargatan frá Ægisgötu að Garðastræti, var á okkar fyrstu árum sér heimur fyrir okkur, full af fjörugum krökkum á öllum aldri sem alltaf fundu upp á nýjum leikjum og þurftu ekki tilsögn til að skemmta sér. Við vinirnir fórum smám saman að færa okkur upp á skaftið og fórum að víkka sjóndeildarhringinn, kanna nágrennið og uppgötvuðum þá nýja staði svo sem Slippinn, Höfnina, Örfirisey og ótal aðra spennandi staði þar sem allt var fullt af ævintýrum. Oft var leitað að okkur ef við gleymdum okkur niður á bryggjum við veiðar á ufsa, kola eða marhnút. Eftir að við urðum eldri urðu könnunarleiðangrar oft lengri og glannalegri svo sem róðrar út í Engey og þá oft á bátum sem voru misvel fengnir að láni hjá starfsmönnum Slippsins eða öðrum skilningsríkum bátseigendum. Alltaf voru einhver dýr í okkar höndum, heimilislausir kettir sem voru teknir í fóstur til lengri eða skemmri tíma, í óþökk foreldra, kanínur og hvítar mýs og eitt sinn tókum við að okkur stóran hund sem eigandinn sagði að þyrfti að láta svæfa ef ekki fyndist fósturheimili fyrir hann. Þetta var suður í Hafnarfirði, en við fengum ekki að fara með hundinn í strætó þannig að við urðum að ganga með hann til Reykjavíkur. Þegar heim kom þorðum við ekki að láta foreldra okkar vita um þetta dýrahald og komum hundinum fyrir í skúr á bak við Doktorshúsið. Það varð okkur að ofurliði að fóðra hundinn þar sem hann varð fljótt leiður á soðnum ufsa og kola og komst fljótlega upp um okkur. Faðir minn kom hundinum í fóstur uppi í sveit. Dúfnarækt var mun vænlegri kostur og helltum við okkur út í þann rekstur með smíði manngengs kofa með mörgum varphólfum og mikilli netgirðingu. Þar varð dúfnarækt okkar að atvinnugrein sem fólst í að veiða villidúfur sem við seldum byrjendum í greininni og keyptum hreinræktaðar í staðinn og ólum upp og ræktuðum. Á þessum tíma bættist Jón Lindberg í hópinn og urðu þá dúfnaveiðar okkar nokkuð glannalegri en þær höfðu verið áður. Þegar fram í sótti tók Gunni aðallega við fyrirtækinu og ræktaði dúfur í nokkur ár. Gunni var mikill orkubolti á þessum árum, fór á handahlaupum um Ránargötuna og æfði meðal annars íslenska glímu og tók þátt í keppnum, einnig var hann listfengur, var sífellt að teikna og skrifaði oft með skrautskrift, á tímabili voru hestar aðal viðfangsefni teikninganna.

Gunni  var nokkuð skapstór og lét vita ef honum fannst á sig hallað. Man ég eftir að nokkrum sinnum skarst í odda milli okkar vinanna og tókumst við jafnvel á ef svo bar undir, þar naut Gunni glímunnar og hafði mig oftar undir, en aldrei var ágreiningurinn meiri en það, að allt var gleymt að kvöldi. Ég man eftir einni sennu milli okkar þar sem ég hafði betur og Gunni rauk af  vettvangi með blóð í nös, en snéri  sér við handan götunnar og kallaði til mín bless helvítið þitt. Fannst að hann þyrfti að kveðja, við vorum orðnir sömu vinir tveimur tímum seinna.

Í minningunni  sé ég fyrir mér þennan rauðhærða strák sem ekkert mátti aumt sjá og alltaf til í að hjálpa minnimáttar, en sjálfur  mjög viðkvæmur fyrir stríðni og eins ef honum fannst á sig eða sína hallað.

Nokkru eftir fermingu skildu leiðir, við vinirnir sóttum sinn hvorn skólann og dag einn var Gunni fluttur úr Doktorshúsinu. Hann sagði mér seinna að það hefði borið brátt að, hann hefði komið heim úr skólanum og þá var búslóðin komin á vörubílspall og þau að flytja, hann var mjög ósáttur við hvernig það bar að og er þar að baki saga sem ekki verður sögð hér.

Við héldum tengslum í gegnum árin, alltaf varð þó lengra á milli þess að við hittumst. Vinskapur okkar var gagnkvæmur þótt oft liði ár og dagar milli þess að við hittumst eða töluðum saman í síma.

Ég leyfi mér að láta fylgja hér erindi sem ég sá einhversstaðar sem segir allt sem ég vildi segja þegar ég kveð hér gamlan vin.

Í grenndinni  veit ég um vin sem ég á

í víðáttu stórborgarinnar.

En dagarnir óðfluga æða mér frá

Og árin án vitundar minnar.

/

Og yfir til vinarins aldrei ég fer

enda í kappi við tímann.

Sjálfsagt þó veit hann ég vinur hans er

því viðtöl við áttum í símann.

/

En yngri vorum við vinirnir þá,

af vinnunni þreyttir  nú erum.

Hégómans takmarki hugðum við ná

og hóflausan lífróður við rérum.

/

Ég hringi á morgun, ég hugsaði þá,

svo hug minn þó fái hann skilið.

En morgundagurinn endaði á

að ennþá jókst milli okkar bilið.

/

Dapurleg skilaboð dag einn ég fékk

að dáinn sé vinurinn kæri.

Ég óskaði þess, er að gröf hans ég gekk

Að í grenndinni ennþá hann væri.

(Þýtt úr ensku af Sigurði Jónssyni.)

Ég sendi Selmu og fjölskyldu Gunnars mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Jóhann Örn Guðmundsson (Öddi).