Aðalsteinn Þorbjörn Þórðarson fæddist þann 13.desember 1920 á Fáskrúðsfirði. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 11. mars 2010. Foreldrar hans voru þau Þorbjörg Þórarinsdóttir fædd 17.10.1892 d.1.4.1921 og Þórður Vilhjálmsson f.16.3.1882 d.1.9.1944. Börn þeirra voru:Svanhvít A. Þórðardóttir 1912-1937, Vilhjálmur K. Þórðarson 1913-1988, I. Þorsteinn Þórðarson 1915-2005, Sigurður S. Þórðarson 1918-1991. Samfeðra er Ólafur Þórðarson 1930-1994. Aðalsteinn var tekinn í fóstur fljótlega eftir fæðingu af Sighvati Bessasyni f.5.4.1893 d.26.10.1966 og Þórstínu Þ. Stefánsdóttur f.16.9.1896 d.20.9.1931.Hann kvæntist 25.6. 1949 Eygerði Úlfarsdóttur frá Vattarnesi f.4.11.1922 d.15.5.1982. Hún var dóttir Úlfars Kjartanssonar frá Vattarnesi f.26.11.1895 d.22.3.1985 og Maríu I. Halldórsdóttur f.16.9.1897 d.29.9.1939. Þau eignuðust fjögur börn: 1. María I. f.20.11.1949, gift Stefáni Sandholt f.17.2.1947. Þeirra börn eru:(a)Egill Sandholt f.10.3.1973 kvæntur Eydísi Þ. Sigurðardóttur f.26.3.1975. Þeirra sonur er Sigurður J. Sandholt f.18.1.2008. Fyrir á Egill, Stefán R. Sandholt f.16.3.1995.(b)Gerða B. Sandholt f. 8.7.1975 d.6.6.2002. Börn hennar og Ægis A. Sigurgeirssonar eru Egill A. f.7.7.1995 og Natalía M.H. f.20.8.1997.(c)Sigríður S. Sandholt f. 26.7.1977 í sambúð með Ingimari T. Jónssyni f. 6.6.1977. Börn þeirra eru Ísak J. Sandholt f.23.4.2007 og óskírður drengur f.27.1.2010. Fyrir á Ingimar Gabríelu f. 22.11.2001. 2. Þórstína U. f.9.11.1951 gift Guðmundi Thorlacius Einarssyni f.6.2.1950. Þeirra börn eru:(a)Einar Thorlacius f.21.6.1972, kvæntur Katharínu Thorlacius f. 30.9.1975. Þeirra dóttir er Freyja Thorlacius, f.8.2.2009. Fyrir á Einar, Þórstein Inga f.19.3.1996.(b)Gerður Eva f.30.10.1975 gift Frosta Heimissyni f. 21.8.1975. Þeirra börn eru Viktoría L. f.1.11.1998 og Guðmundur f.14.2.2005.(c) Þórstína f.13.2.1977 d.13.2.1977.(d)Rakel f.4.12.1980 gift Bjarna B. Harðarsyni f.20.7.1974. Þeirra sonur er Bjarki R. f.17.7.2008.(e)Stefán Thorlacius f.5.1.1990 og (f)Tómas Thorlacius f. 5.1.1990. 3. Svanhvít Þ. f.3.7.1957. Giftist Eyjólfi Bragasyni, þau skildu. Sonur þeirra er Aðalsteinn R. f.21.6.1977. 4. Úlfar Þ. f. 20.1.1961, d.3.5.1990. Kvæntist Sigríði Sverrisdóttur, þeirra sonur er Kristján A. f.10.1.1987, í sambúð með Mörtu Björnsdóttur. Aðalsteinn ólst upp á Fáskrúðsfirði og fór fljótlega að stunda sjóinn með fóstra sínum og gerði hann sjómennsku að sínu lífsstarfi í 40 ár. Eftir að í land kom vann hann hin ýmsu störf tengd sjávarútvegi. Aðalsteinn og Eygerður hófu búskap í Keflavík 1949 en fluttu til Hafnarfjarðar 1958 og áttu þar heimili að Gunnarssundi 9 æ síðan. Eygerður lést langt um aldur fram 15.5.1982 en Aðalsteinn bjó einn þar til hann fluttist á Hrafnistu í Hafnarfirði 2007. Aðalsteinn vann á sjómannsferli sínum sem háseti og matsveinn á hinum ýmsu fiskiskipum. Árið 1993 var hann heiðraður af sjómannafélagi Hafnarfjarðar fyrir störf sín í þágu sjávarútvegs. Útför hans fer fram í dag frá Hafnarfjarðarkirkju kl.15:00.
Afi minn hafði, svo lengi sem ég man eftir mér, vanið sig á að segja í hvert sinn sem hann ræddi um framtíðina þ.e. ef ég verð enn á lífi. Þessa setningu hafði maður heyrt svo lengi og fyrir löngu lært að taka ekki alvarlega. Nú árið 2010 kom að því að afi kvaddi þennan heim 89 ára gamall. Ég dáðist að dugnaði afa alla tíð og var montinn af því hversu hraustur og lífsglaður hann var eftir því sem árin og áföllin sem þeim fylgja hrönnuðust yfir hann. Mér fannst sem afi yrði eilífur og að öllu leyti þá verður hann það áfram fyrir mér. Gunnarssund 9 var stór miðpunktur í mínu lífi þar sem ég og móður mín bjuggum hjá afa og ömmu í fyrstu eftir skilnað móður minnar. Gunnarssundið var fullt af lífi á þessum tíma, Gerða amma var enn á lífi og Úlfar heitinn frændi bjó enn í Gunnarssundinu. Afi vann í Norðurstjörnunni á þessum tíma og kom oft þreyttur heim úr vinnu og lagði sig í sófanum inn í stofu. Litli glókollurinn gat þó engan veginn unað afa sínum þessari hvíld og lagðist hjá afa sínum og krafðist þess að fá að heyra ævintýrasögurnar hans afa. Afi gat sagt frá á afar skemmtilegan hátt frá Sigurði sem annaðhvort var konungs- eða bóndasonur eftir því sem átti við söguþráðinn. Sem lítill drengur sat ég bergnuminn meðan afi opnaði fyrir mér ævintýraheim með sögum um Dýrið arga á fjallinu Karga, trölla- og álfassögur um huliðshjálma, sverðum sem runnu í gegnum málm eins og heitur hnífur í gegnum smjör og álfabrynjum sem ekki var hægt að vinna mein á. Sögurnar voru sagðar með svo miklum tilþrifum að flest allar sögurnar eru mér enn í fersku minni. Þegar einni sögu var lokið gat maður yfirleitt suðað um aðra með loforði um að nudda skallann á afa gamla sem var lítið verð fyrir sögustundina. Eftir að amma fellur frá 1982 var afi fyrst um sinn einn í kotinu ásamt okkur mömmu. Er það ríkt í minningunni þegar afi vakti mig um helgar þar sem hann var búinn að búa til sínar margrómuðu pönnukökur og lyktin góða ilmaði um húsið. Þegar pönnukökunum hafði verið gerð góð skil var hafist handa við að undirbúa sundferðina. Afi var tíður gestur í sundhöllinni í Hafnafirði. Við nafnarnir fórum alltaf saman þegar það komst við. Þar kenndi hann mér að stinga mér í fyrsta skiptið sem var enginn hægðarleikur fyrir unga drenginn. Eftir góðan sundsprett og sprell í lauginni voru heitu pottarnir notaðir til að slaka á þar sem afi virtist vera málkunnugur öllum sem þar komu. Á leiðinni heim úr lauginni var stoppað á höfninni þar sem hann ræddi við menn í Norðustjörnunni og við nafnarnir horfðum á smábát sem hét Svanurinn sem var í miklu uppáhaldi hjá mér, kannski af augljósum ástæðum. Sunnudagarnir fóru oftar en ekki í veiði, sem var sennilega það sem afi hafði mest gaman af. Við fórum í óteljandi veiðitúra hvort heldur sem það voru styttri túrar í Kleifarvatn, Meðalfellsvatn eða með þeim bræðrum Vilhjálmi og Sigurði norður á Hólmavík við Steingrímsfjörð. Veiðin var afa afar hugleikin, enda kannski ekki furða af tveimur ástæðum. 8 ára gamall var hann byrjaður að beita standandi á tunnu í öllum veðrum til að hjálpa til heima við. Seinna lá leiðin í sjómennsku svo það má segja að afi hafi starfað við sjóinn og veiðimennsku á einn eða annan veg alla tíð. Hin ástæðan er sennilega sú að hann var ógurlega fiskinn, það virtist vera sama hverju afi henti út í hin ýmsu vötn eða ár, alltaf hékk eitthvað líf á hinum endanum á línunni. Þegar afi var að kenna mér að beita á öngulinn voru hinar ýmsu kúnstir notaðar sem áttu að vera lokkandi fyrir fiskinn þetta var afa mikið hjartans mál hvernig að verki var staðið. Ég gleymi seint þegar við komum keyrandi á rauða Lancernum hans að Kleifarvatni eitt sinn. Afi stöðvaði bílinn í vegarkantinum steig út úr bílnum og horfði yfir vatnið mjög svo hugsi á svip, setti puttan upp í loftið á mjög svo vísindarlegan hátt og sagði svo á spekingslegan hátt ég er ekki frá því að hann liggi þarna í víkinni nafni minn . Eins og venjulega stóð það heima og saman, drógum við nafnarnir þarna hátt í 87 silunga saman. Ég náði einhverjum sem afi leyfði mér að draga inn en hann talaði alla tíð um þennan túr eins og við hefðum dregið þá sameiginlega að landi. Það var mínu sjálfstrausti í hag, en töluvert frá því sem raunverulega átti sér stað. Við vorum með 2 stangir sem við einhverja hluta vegna skiptumst á að nota. Það einkennilega við það var að í hvert skipti sem við skiptum um stöng þá var fiskur á þeirri stöng sem ég fékk í hendurnar. Þannig var afi, það var fátt sem hann gerði ekki til að maður kæmi heim með ljómandi hamingju bros á vör.
Afi var eftir á að hyggja á undan sinni samtíð í mörgum hlutum. Hvort heldur sem það var varðandi ótrúlegar sögur sem helst má líkja við Hringadrottinssögu Tolkins. Afi eldaði, bakaði, tók slátur sem og að gera sultur og berjavín úr berjatínslu-túrunum. Afi var góður dansari og dáðist maður að honum þegar hann sveif tignarlega um salinn með þeirri heppnu í það skiptið. Afi spilaði af stakri snilld á harmonikku og voru þá blue spanish eyes í miklu uppáhaldi hjá honum. Afi var einkar snyrtilegur og þoldi enga óreiðu, hver einn og einasti hlutur átti sér sinn stað hvort sem það var í Gunnarssundinu eða í bílnum hans afa. Afi lifði eftir þvi að sælla er að gefa enn að þiggja. Fyrst og síðast var afi minn annálað séntilmenni sem tók lífinu eins og það kom fyrir með æðruleysi og jákvæðni. Afi minn var fyrirmyndarmaður.
Það voru forréttindi að fá að hafa þig svona lengi á meðal okkar. Ég á svo margar góðar og fallegar minningar um tímann sem við áttum saman. Við stóðum saman þegar á móti blés. Í þér átti ég alla tíð örugga höfn þegar úti fyrir ýfði sjóinn.
Lítill afadrengur
kveður afa sinn.
Þú varst mér happafengur
nú kveðjumst við í hinsta sinn
elsku nafni minn.
Aðalsteinn Reynir Eyjólfsson.