Sveinn Bjarki Sigurðsson fæddist í Reykjavík 10. september 1970. Hann lést á heimili sínu 9. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigurður Þórir Sigurðsson, f. 7. desember 1950, sonur hjónanna Sigurðar Guðmundssonar, f. 9. september 1905, d. 24. maí 1977, og Önnu Biering, f. 30. nóvember, 1912, og Ásta Björk Sveinbjörnsdóttir, f. 7. janúar 1952, dóttir hjónanna Sveinbjörns Markússonar, f. 25. júní 1919, og Önnu Jónsdóttur, f. 7. mars 1926. Bróðir Sveins er Rúnar Sigurðsson, f. 17. nóvember 1974, maki Stefanía Ragnarsdóttir, f. 1. júlí 1979. Sveinn Bjarki kvæntist 27. desember 2003 Rögnu Eiríksdóttur, f. 4. september 1974. Foreldrar hennar eru Eiríkur Rúnar Hermannsson, f. 15. október 1948, og Helga Erlendsdóttir, f. 14. janúar 1948, d. 23. mars 2009. Börn Sveins og Rögnu eru 1) Alexander Freyr, f. 8. nóvember 1994, 2) Sólveig Embla, f. 27. júní 2003, og 3) Ásta Eir, f. 4. júlí 2006. Sveinn Bjarki lauk 2. stigi úr Söngskólanum í Reykjavík árið 1990, Lögregluskóla ríkisins 1998, forritun og kerfisfræði úr NTV 2001, skipstjórnarréttindum 2003 og var á öðru ári í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Sveinn hefur unnið ýmis störf um ævina m.a. sem afgreiðslumaður í blómabúð föður síns, lagerstjóri og á bifreiðaverkstæði lögreglustjórans í Reykjavík. Sveinn vann lengst af sem lögreglumaður og hóf störf hjá lögreglustjóranum í Reykjavík árið 1996 á A-vakt almennrar deildar. Auk þess að starfa við almenn lögreglustörf starfaði hann við hverfislöggæslu, rannsóknir ofbeldis- og fíkniefnabrota og í fíkniefnastofu embættis ríkislögreglustjórans. Síðustu árin starfaði Sveinn við tölvurannsóknir við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Útför Sveins Bjarka fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 19. mars 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Sveinn Bjarki hefur hallað sér inn í þögnina eilífu. Með vonina og viljann að vopni gekk hann óhræddur til atlögu við hinn illvíga sjúkdóm, krabbameinið. Eftir rétt tæpa 9 mánaða, snarpa atlögu, þar sem óttinn náði aldrei völdum, laut hann í lægra haldi og lést á heimili sínu, umkringdur sínum nánustu, þann 9. mars 2010. Himnarnir grétu, um nóttina hafði náttúran breitt dúnsæng sína, þokuslæðuna, yfir viðkvæman gróðurinn, til þess að vernda hann líkt og Almættið yfir Svein Bjarka. Rósirnar í Blómabúðinni, á horni Hringbrautar og Birkimels í Reykjavík, sem fylgt hefur föðurfjölskyldu hans í tugi ára og foreldrar hans eiga nú, drjúpa höfði. En túlípanarnir breiða út blómblöðin sín og lyfta Sveini Bjarka í hæstu hæðir, fjarri öllum þjáningum.

Á hlaði minninganna eru stödd, eiginkona hans, Ragna og börnin þeirra Sveins Bjarka, þrjú, Alexander Freyr, Sólveig Embla og Ásta Eir. Harmur þeirra er mikill, horfinn er af sjónarsviðinu föðurímyndin og sterk fyrirmynd, sem fylgja átti börnum sínum í uppvexti og þroska allt lífið. Ástkærir foreldrar hans, Ásta Björk og S. Þórir ásamt með einkabróður Sveins Bjarka, Rúnari og fjölskyldu hans eru jafnframt á hlaðinu, móðurforeldrar bæði á háum aldri, ern mjög; Anna og Sveinbjörn Markússon, hjartkær föðurbróðir minn, sem gengur inn í nítugasta og fyrsta aldursárið, eins er því farið með föðurömmu Sveins Bjarka. Óhugsandi og óréttlátt er fyrir ömmu og afa að standa yfir gröf barnabarns síns. Það er samt hugdirfska og heilbrigð hugsun, sem ávallt hefur fylgt þeim og mun gera í gegnum þessa ótímabæru sorg. Öll stórfjölskyldan er saman komin og upp hlaðast kærar minningar um hugprúðan og heilsteyptan ungan frænda.

Ljósbrot minninga minna koma fram, veturinn 1969 og allt árið 1970, þegar fimm frændsystkin voru að fæðast, bæði í móðurkviði og í heiminn, tápmikil og hraustleg. Á Kleppsvegi 24 í Reykjavík, lékum við fimm frænkurnar lausum hala. Ekki af því Anna og Sveinbjörn voru kærulaus, þvert á móti höfðum við sjálfar leyst halana og urðum ófrískar hver af annarri. Við vorum fyrstakálfskvígurnar hans Svenna frænda. Í hádeginu, á hverjum laugardegi, var oft soðinn fiskur, gellur og kinnar á borðum. Svenni frændi sá til þess að gefa fyrstakálfskvígunum sínum vel í jötuna og þennan bætiefnaríka mat urðum við að borða svo fósturþroskinn í móðurkviði fengi holla og góða næringu. Þennan vetur stundaði Ásta Björk nám við Kennaraskóla Íslands og við deildum herbergi saman á Kleppsveginum. Í febrúar- og marsmánuði var snjóþungt. Einn daginn klofaði Ásta Björk snjóinn upp á mið læri, (upp í klof á sveitamáli) neðan úr Stakkahlíðinni og heim á Kleppsveginn. Hún var blaut og köld upp um sig alla og hrædd um að missa eða skaða barnið, sem þegar hafði látið finna fyrir sér, fullur tilhlökkunar um að komast út í hvítan og kaldan vetrarsnjóinn. Anna hefur ávallt haft ráð undir rifi hverju. Sagði henni að skella sér í þurr föt, undir sæng, ekkert myndi koma fyrir fóstrið og bar í hana heitt kakó. Það var svo í maímánuði, sama ár og miður próflestur í gangi. Heit vorsólin skein skært og við frænkurnar fórum út á lóð, undir húsvegginn, í hornið við Kleppsveg 22 og 20, trúlega sátum við undir gluggum Eddu Andrésar., en hún var ein af mörgum æskuvinkonum Ástu Bjarkar. Væntanlega kom Dísa í kjallaranum, á Kleppsvegi 24 (Vigdís Grímsdóttir) út líka, sem einngi var æskuvinkona Ástu Bjarkar og hún gaf mér hlutdeild í. Lítið fór fyrir próflestrinum, Dísa í kjallaranum var sannspá, umræðuefnin óþrjótandi og Ásta Björk gætti þess vel að skær birtan og hitinn frá vorsólinni myndi ekki skaða barnið, í móðurkviði. Hún var kannski alltaf hrædd undir niðri, um að missa sveinbarnið sem hún bar undir belti, frumburðinn sinn, sem spriklaði, öruggur í lífi móður sinnar, tilbúinn næsta vor að njóta hita sumarsólarinnar.

Börnin fimm, fæddust svo hvert af öðru, frá miðju sumri allt fram til jóla. Sveinn Bjarki var þriðji elstur en sonur minn yngstur, enda var ég yngst af okkur fimm. Annar í röðinni var Arnþór, frumburður Sveinbjargar, systur Ástu Bjarkar. Þeir frændur ólust nánast upp saman og með árunum urðu þeir meira en systrasynir, þeir voru nánustu vinir og samstarfsmenn. Gengu veg lögreglunnar í Reykjavík, sinn í hvorri deildinni og bægðu fólki frá tortímingu. Með hugprýði og heiðarleika stóð Sveinn Bjarki vaktir sínar, jafnt sem frændi hans. Áður gengu stíga lögreglunnar, móðurömmubræður þeirra tveir, Leifur heitinn og Torfi Jónssynir.

Tíminn leið og Ásta Björk varð fertug. Hún hélt smart konuboð á heimili móður sinnar að Kleppsvegi 24, sem hófst fyrir hádegi og stóð fram á dag. Sveinbjörn fór örugglega í sund, hann vildi ekki vera fyrir. Þegar kátínan stóð sem hæst, birtust í stóra dyraopinu, milli stássstofu og borðstofu, Sveinn Bjarki og Rúnar, yngri bróðirinn, til þess að heiðra móður sína og samkvæmið. Stolt Ástu Bjarkar og hlýja drengjanna hennar blasti við okkur. Sveinn Bjarki fæddist með bros á andlitinu, sem ávallt einkenndi hann. Rúnar tók til við að stilla og slá strengi hljóðfærisins og Sveinn Bjarki röddina. Saman fluttu þeir tónlistina, svo ógleymanlega, enginn strengur slitnaði, fyrr en núna, síðar, líkt og í kvæði Nóbelsskáldsins okkar:

Frændi, þegar fiðlan þegir,

fuglinn krýpur lágt að skjóli,
þegar kaldir vetrarvegir
villa sýn á borg og hóli,
/
sé ég oft í óskahöllum,
ilmanskógum betri landa,
ljúflíng minn sem ofar öllum
íslendíngum kunni að standa,
/
hann sem eitt sinn undi hjá mér
einsog tónn á fiðlustreingnum,
eilíft honum fylgja frá mér
friðarkveðjur brottu geingnum.
/
Þó að brotni þorn í sylgju,
þó að hrökkvi fiðlustreingur,
eg hef sæmt hann einni fylgju:
óskum mínum hvar hann geingur.
(Halldór Laxness)

Með fullri hluttekningu á mikilli sorgarstundu biðjum við Drottinn um blessun og styrk ykkur til handa, elsku Ragna og börnin ykkar Sveins Bjarka; Alexander Freyr, Sólveig Embla og Ásta Eir. Megi hann leiða ykkur inn í framtíðina með von og kærleika í minningu góðs eiginmanns og föður.

Hjartans Ásta Björk mín og Þórir ásamt með Rúnari og fjölskyldu, innilegar samúðarkveðjur eru ykkur sendar, þar sem ljúflingur ykkar, Sveinn Bjarki hefur kvatt á ótímabærum aldri, lífsgöngu sína.

Ástkær föðurbróðir minn, Sveinbjörn og Anna ásamt fjölskyldunni allri, hugheilar samúðarkveðjur, megi Guð varðveita ykkur og styrkja í minningu barnabarns, frænda og vinar.

Steinunn Njálsdóttir og fjölskylda.