Jóhannes Magnús Guðmundsson fæddist á Litlu-Brekku, Borgarhreppi 28. október 1916. Hann lést á dvalarheimili aldraðra Borgarnesi 11. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðmundur Þorvaldsson bóndi og Guðfríður Jóhannesdóttir, ljósmóðir og húsfreyja. Bjuggu þau á Litlu-Brekku. Systkini hans eru: Helga, f. 28.10. 1916; Valtýr Haukur, f. 17.4. 1918, d. 28.10. 1927; Kristín, f. 22.5. 1919; Ragnheiður, f. 21.7. 1920, d. 20.2. 2010; Jóhanna, f. 15.2. 1922, d. 10.8. 1955; Hjördís, f. 20.12. 1923; Ágústa, f. 23.8. 1925, d. 31.10. 1927; Óskar, f. 23.8. 1925, d. 17.10. 1989; Valtýr Haukur, f. 4.6. 1928, d. 4.6. 1928. Hinn 24. apríl 1950 kvæntist Jóhannes Ásu Ólafsdóttur, f. 13.11. 1921. Foreldrar hennar voru Ólafur Gíslason, bóndi og sjómaður, f. 25.9. 1882, og Ólöf Einarsdóttir húsmóðir, f. 17.2. 1899. Þau bjuggu í Geirakoti, Fróðárhreppi. Dóttir Jóhannesar og Ásu er Ragnheiður Valdís, f. 17.4. 1946, gift Stefáni Magnúsi Ólafssyni, f. 16.7. 1942. Þau eiga fjögur börn. 1) Ása Björk Stefánsdóttir. Hún var gift Runólfi Ágústssyni. Synir þeirra eru Skarphéðinn Án, Stefán Bjartur og Eyvindur Ágúst. 2) Jóhannes Freyr Stefánsson. Hann er giftur Ásthildi Magnúsdóttur . Dætur þeirra eru: Ragnheiður Guðrún og Auður Vilhelmína. Fyrir átti Jóhannes Þorvald og Ásta Magnús Þór. 3) Ólafur Ágúst Stefánsson. Sambýliskona hans er Theódóra Bjarnadóttir. Sonur Ólafs úr fyrri sambúð er Stefán Óli. 4) Hjörleifur Helgi Stefánsson. Hann er giftur Önnu Dröfn Sigurjónsdóttur. Synir þeirra eru Jóhannes Þór og Eyjólfur Ágúst. Auk þess ólu þau hjónin upp Hjördísi Smith, systurdóttur Jóhannesar. Hún er gift Ólafi Þ. Harðarsyni. Dóttir þeirra er Ásthildur Hanna. Fyrir átti Jóhannes dóttur, Helgu Fríðu Kolbrúnu, f. 28.2. 1940. Móðir hennar var Sigurlaug Júlíusdóttir. Börn Kolbrúnar eru 1) Linda Bjarney. Hún er gift Gissuri Ísleifssyni. Börn þeirra eru Ísleifur, í sambúð með Ernu Karen Kristjánsdóttur. Börn þeirra eru Gissur Máni og Kara Sól; Kolbrún, Hrafnkell Ingi og Védís. 2) Guðmundur Vignir. Giftur Jórunni Birgisdóttur. Börn þeirra eru Snorri, sonur hans er Sindri Snær, og Sara Ingibjörg. Fyrstu búskaparár sín bjó Jóhannes á Litlu-Brekku í félagi við föður sinn. Árið 1939 festi hann kaup á jörðinni Ánabrekku og bjó þar allt til ársins 2001. Það ár fluttu þau hjón í Borgarnes og þar bjó hann til dauðadags. Jóhannes fór til náms í Búnaðarskólanum á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur. Hann var ræktunarmaður sem sýndi sig í því að hann átti góðan fjárstofn og sérstakur var áhugi hans á hrossarækt og var hann heiðursfélagi í hestamannafélaginu Faxa. Jóhannes var einn af stofnendum Fiskræktarfélags Langár sem síðar varð Veiðifélag Langár og formaður þess frá stofnun til ársins 1997. Hann vann ötullega að uppbyggingu Langár ásamt öðrum landeigendum. Hann var heiðursfélagi Landssambands veiðifélaga. Jóhannes sinnti ýmsum félagsmálum og sat í hreppsnefnd Borgarhrepps um árabil. Útför Jóhannesar verður frá Borgarneskirkju í dag, laugardaginn 20. mars, og hefst kl. 14.
Nú þegar afi á Ánabrekku er dáinn hef ég verið að leiða hugann að þeim forréttindum sem við systkinin bjuggum við sem krakkar. Einungis nokkur hundruð metrar og við vorum komin til ömmu og afa. Nánast eins og annað sett af foreldrum. Samt annað yfirbragð hjá ömmu og afa en heima á Litlu-Brekku. Amma átti það til að stjana við okkur og afi var að stússast í rollum eða hestum. Nú eða vitja um silunganetin, gjarnan í miklum samræðum við sjálfan sig. Það er mikið lán fyrir börn að fá að kynnast afa sínum og ömmu vel og þess höfum við svo sannarlega notið.
Ein af fyrstu skýru minningum sem ég tel mig eiga, er ég, afar lítill, að ganga einsamall í átt að Ánabrekku. Þegar ég er kominn upp á hæðina hjá gömlu hlöðunni þá sé ég að það rýkur duglega úr skorsteininum á Ánabrekku og mér líkar ekki sú sjón. Ég fer að grenja hástöfum algerlega frosinn í sömu sporum. Og afi kemur labbandi til mín og leiðir mig restina af leiðinni.
Svona er afi minn í mínu minni. Alltaf að hugsa um fólkið sitt, jafnvel
þó mikið væri að gera. Hann var alltaf að hann afi. Fyrir utan þessi
venjulegu bústörf þá man ég svo vel hvernig hann hellti sér í ákveðin
verkefni af krafti. Ég hef verið að rifja upp mér til skemmtunar þegar hann
fékk þá hugmynd að leggja vatnslögn yfir ósinn og að Ánabrekku. Og úr því
varð hið besta ævintýri fyrir strák.
Við vitum öll sem þekktum hann hvað Langáin og veiðiskapurinn skiptu hann miklu máli. Stór partur af ævistarfi afa hlýtur að vera uppbygging laxveiða í Langá og reksturirnn á neðsta svæðinu. Ásamt ömmu auðvitað, því að hún sá um veiðihúsið. 15 juní var alltaf mikill hátíðisdagur hjá okkur því að þá opnaði afi ána með því að labba með stöngina sína niður að Breiðunni og setja í og landa fyrsta laxi sumarsins. Ég ætla að halda því fram að hann hafi alltaf fengið lax í opnuninni, allavega í mínu minni. Man sérstaklega einn opnunardaginn þegar lítið veiddist. Afi hafði sent einn veiðimann upp í Glanna og sagt honum að það væri fiskur á brotinu. Sá hinn sami fór kokhraustur af stað, en kom fisklaus til baka. Þá fussað afi, eins og við munum öll svo vel hvernig hann gerði, og fór sjálfur á Glannabrotið og veiddi 20 punda lax og var fljótur að. Með afa veiddi ég minn fyrsta lax og hann smitaði mig af áhuga sínum á Langánni og veiðiskap. Ekki minna heillaði mig haglabyssan sem hann geymdi bak við stól á Ánabrekku. Afi stundaði skotveiðar sér til gamans með valinkunnum mönnum. Þessir karlar voru upphafsmenn gæsaveiða eins og þær eru í dag að sögn Stefáns Jónssonar rithöfundar. Ég var svo heppinn að komast með þessum körlum í gæsaveiði nokkrum sinnum sem unglingur. Ekki gekk honum þó eins vel að gera úr mér hestamann. Komst þú ríðandi? spurði hann gjarnan stríðinn þegar ég kom að Ánabrekku. Hann vissi að trúlega var ég ekki ríðandi.
Góðar minningar eru dýrmætar á kveðjustundum. Og af þeim er ég ríkur. Minningar um ferðalög um hálendið með afa og Óskari á Tungulæk og fleira góðu fólki, Noregsferðin okkar afa var auðvitað eins og lygasaga á köflum, hestamannamótin, Reykjavíkurferðir, smalamenska, heyskapur, og svona gæti ég haldið áfram. Mig langar samt að nefna að fyrir nokkrum árum, eftir að amma og afi voru flutt í Borgarnes þá komum við feðgar í heimsókn til þeirra. Það var sumar og gott veður og ég plata afa með mér í flugferð yfir afréttarlönd Borghreppinga þar sem hann var fjallkóngur í áratugi. Við skemmtum okkur vel, en eftir góða stund vill hann halda heim þar sem ég hafði skilið Stefán minn, þá þriggja eða fjögura ára, eftir hjá langömmu sinni. Ég sagði við hann að hún færi létt með að gæta hans enda búin að passa okkur öll í gegnum tíðina. Jú vissulega, en er hann ekki full ungur til að gæta hennar, sagði hann þá og minnti mig rækilega á að aldurinn væri farinn að bíta á þau hjón. En flugferðin var skemmtileg og þegar heim kom spurði ég afa hvort honum hafi ekki þótt þetta merkilegt flug. Þá svaraði hann sporskur eins og svo oft jú jú, en ég flaug þetta nú allt með Birni Pálssyni fyrir 50 árum.
Ég er þakklátur fyrir að hafa átt hann afa minn að og fyrir allt sem við brölluðum saman. Ég er þakklátur ömmu minni fyrir að hugsa um hann þegar þess fór að gerast þörf. Ég er þakklátur mömmu minni fyrir að sinna ömmu og afa eins vel og hún hefur gert og gerir enn. Kannski er alveg bærilegt að verða gamall og veikur þegar einhver er til þess að fylgja manni. Ég er þakklátur fyrir að Stefán Óli sonur minn fékk að kynnast langafa sínum á Ánabrekku.Hvíldu í friði afi minn.
Ólafur Ágúst Stefánsson og fjölskylda.