Katrín Kristjana Thors fæddist í Reykjavík 10. mars 1929, dóttir hjónanna Sofíu Láru Hafstein og Hauks Thors framkvæmdastjóra. Systur hennar voru Ragnheiður f. 23. júlí 1920, d. 9. apríl 1997 sem gift var Jóhanni Hafstein ráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, Margrét Þorbjörg f. 23. júlí 1921, d. 3. ágúst 2001, gift Erni Johnson forstjóra Flugfélags Íslands og síðar Flugleiða, og Sofía Lára f. 9. janúar 1942, en hennar maður er Dieter Wendler. Eiginmaður Katrínar var Stefán Sturla Stefánsson hagfræðingur og aðstoðarbankastjóri í Útvegsbanka Íslands. Þau gengu í hjónaband í Madrid 27.maí 1955, þar sem Stefán var við framhaldsnám í viðskiptafræðum. Stefán var fæddur 5.nóvember 1927, en lést langt um aldur fram 28.febrúar 1980. Dóttir þeirra, Sofía Erla Stefánsdóttir, fæddist 21. desember 1962. Sambýlismaður hennar er Ásgeir Þór Ásgeirsson f. 15.október 1964. Katrín var fædd leikkona. Hún vakti fyrst athygli í Herranótt á menntaskólaárum sínum , þar sem hún lék í Laukur ættarinnar eftir S. Lennox Robinson (1948) og Allt í hönk eftir Noël Coward (1949), en fór eftir stúdentspróf utan og nam leiklist hjá einkakennurum í London og París á árunum 1949 og 1950, og svo aftur á árunum 1952-3. Katrín var aðeins 22 ára þegar Leikfélag Reykjavíkur bauð henni hlutverk Önnu Pétursdóttur í samnefndu verki Hans W. Jensens. Eftir námsdvöl erlendis lék Katrín eftirtalin hlutverk hjá Þjóðleikhúsinu: Ölmu í Sumri hallar eftir Tenessee Williams (1953), Heiðveigu í Villiönd Ibsens (1954), Mercie Lewis í Deiglunni eftir Arthur Miller (1955), Helenu í Jónsmessunæturdraumi Shakespeares (1955), og loks Georgie Elgin í Vetrarferðinni eftir Clifford Odets (1956). Eftir það steig Katrín aldrei á svið, en hún tók þátt í uppfærslu Ríkisútvarpsins á Páskum eftir Strindberg þetta sama ár (1956) undir leikstjórn Þorsteins Ö. Stephensens, og verður það verk flutt í Útvarpsleikhúsinu næstkomandi skírdagskvöld. Einnig féllst Katrín á að taka þátt í endurupptöku á Sumri hallar árið 1974, undir leikstjórn Helga Skúlasonar. Það verk var flutt í Ríkisútvarpinu 11. apríl 1974 og vakti mikla athygli. Katrín unni öllum listum, var umkringd málverkum, tónlist og bókmenntum alla tíð. Tökum hennar á íslensku máli var við brugðið og nutu ungmenni í vinahópi hennar einstakrar leiðsagnar hennar um refilstigu stafsetningar, málfræði og setningafræði. Katrín bjó síðustu árin á Droplaugarstöðum, þar sem hún naut einstakrar aðhlynningar. Hún lést þar 9. mars 2010, og verður jarðsungin frá Dómkirkjunni í Reykjavík þann 19. mars 2010 kl.15.
Kötu hef ég þekkt lengst allra frænkna minna hún var í París þegar ég fæddist og falaðist eftir hlut í unganum frá foreldrunum. Alla tíð síðan sýndi hún mér í orði og verki einstaka umhyggju. Ég var ein þeirra ljónheppnum ungmenna sem Kata tók í einkatíma í íslensku. Þetta voru engir venjulegir íslenskutímar öll önnur kennsla, sem ég hef notið um dagana heima og heiman, bliknar hjá þeirri þjálfun. Fyrst skýrði hún reglurnar, sem læra varð utanbókar - allar. Svo komu æfingarnar. Þær hafði Kata samið sjálf, því engin kennslubók stóðst hennar kröfur. Hún tvinnaði saman endalausa og harðsvíraða vafninga stafsetningargildra, svo að nærri lá að hvert orð í setningunni krefðist heilabrota. Þetta las hún manni fyrir sinni þýðu rödd, og sagði stundum Hvað segirðu um þessa? Er hún ekki dálítið góð hjá mér? Þegar stafsetningin hafði skilað sér, tók setningarfræðin við. Þar kenndi Kata mér að hugsa. Enn notaði hún sömu aðferð: skýrði allar forsendur, lagði leikreglurnar. Síðan tók við þjálfun í að beita þeim vopnum sem hún hafði lagt manni í hendur. Endalaus greining íslenskra texta, fram og til baka. Ekki einu sinni, heldur árum saman. Ég var 12 ára þegar hún tók mig fyrst í tíma og fjórum árum síðar, þegar ég lauk landsprófi, útskrifaðist ég frá Kötu. Þá þóttist hún ekki kunna meira. En alla tíð var hún bakhjarl minn í íslenskunni, ótæmandi þekkingarbrunnur og greiningin alltaf jafn skörp. Nei Guðrún mín, þú sérð að þetta er ekki nefnifallsfrumlag, hér aftast í setningunni er frumlagsígildi og það er í þágufalli....."
Í þessu sambandi lærlings og meistara varð vinátta okkar til og breiddi sig yfir aðra þætti lífsins. Sofía Erla kom í heiminn á þessum árum og það leiddi af sjálfu að ég fékk að passa þessa stóreygu litlu prinsessu og var því daglega á Dunhaganum hjá Kötu og Stefáni Sturlu sumarið 1963. Það var fallegt jafnræði með þeim hjónum og yfir þeim tregablandinn fínleiki. Stefán var kaþólskur eins og faðir hans, Stefán skáld frá Hvítadal, og bar sterkan svip af föður sínum. Mér fannst eins og yfir æsku hans hvíldi sorg og víst skín sársauki í mörgum ljóða föður hans, sem þoldi illa íslenskan vetur og harðræði. Kata hitti aldrei tengdaföður sinn, enda lést hann þegar hún var barn að aldri, en hún þekkti hann engu að síður gegnum ljóðin. Þau las hún út í hörgul og flutti manna best af næmum skilningi með sinni fáguðu og látlausu framsögn.
Kata var nefnilega fyrst og fremst leikkona. Hún var leikkona af guðs náð og vakti fyrst athygli í Herranótt í V. og VI. bekk Menntaskólans í Reykjavík. Þetta voru gamanverk sem kröfðust tilfinningar fyrir tímasetningu og nákvæmni og Lárus Sigurbjörnsson, sem leikstýrði báðum uppfærslunum, hvatti þessa ungu konu eindregið til að leggja fyrir sig leiklist. Strax á þessum árum eru komin fram persónueinkenni Kötu, að geta ekki bundið bagga sína sömu böndum og aðrir. Í stað þess að fara í leiklistarskóla og læra að berjast í návígi, kýs hún að fara í einkatíma, fyrst í London og síðar í París. Þótt kennararnir væru fyrsta flokks, þá hlýtur það að hafa reynt á að læra undirstöðuatriði leiklistar orðsins listar á erlendu máli. Fyrst á ensku og svo á frönsku. Hún er enn í París 1951, þegar henni býðst aðalhlutverkið í uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur á Önnu Pétursdóttur norska verkinu um ungu konuna á tímum galdraofsókna sem endar á bálinu. Þetta var hlutverk sem ein glæsilegasta leikkona Norðmanna, Johanne Dybvad, hafði tekist á við. En hér stóð óreynd 22 ára stúlka frammi fyrir ögrun sem hún varð að mæta og gerði það svo vel að undrum sætti. Að námsdvöl erlendis lokinni, árið 1953, býðst henni annað dramatískt glæsihlutverk, Alma í Sumri hallar, eftir Tennesse Williams og það gerði hún snilldarlega, eins og útvarpsupptaka þess verks í leikstjórn Þorsteins Ö. Stephensens ber með sér. Svo merkilega vill til, að leikritið var tekið upp á ný fyrir útvarp árið 1974 nú í leikstjórn Helga Skúlasonar. Eftir mikla eftirgangsmuni fékkst Kata til að taka þátt og það segir sitt um hljóm raddarinnar, að aftur lék hún ungu konuna Ölmu þótt 20 ár væru liðin frá því hún lék hana á sviði. Þetta verk heyrði ég, þegar það var flutt í apríl 1974, og það sannfærði mig um að Kata var einstök leikkona. Falleg, blæbrigðarík, brothætt, og fáguð.
Frá 1953 til 1956 lék hún hjá Þjóðleikhúsinu, stundum tvær uppfærslur á ári. Síðasta sviðsverkið lék hún á móti Indriða Waage í Vetrarferðinni, sem hann leikstýrði sjálfur. Eftir það hætti hún og steig aldrei á svið meir. Enginn veit hvers vegna. Við sem þekktum hana vitum hve viðkvæm hún var og hvílíkar kröfur hún gerði til sjálfrar sín. Við sáum fullkomnunaráráttuna í öllu sem hún tók sér fyrir hendur matargerð, bréfaskriftum, þrifum, - öllu. Kannski þoldi hún ekki mótlæti í leikhúsinu, þótt hún gæti tekið því annars staðar. Leikhúsið var heilagt og hún var perfeksjónisti, sem annað hvort heillaði fólk upp úr skónum eða fór. Hún hóf feril sinn á gríðarerfiðum verkefnum og fékk fádæma viðtökur. Hvert liggur leiðin þaðan? Það er ekki endalaust hægt að fara upp á við. Hversdagsleikinn tók við með sínum hæðum og lægðum, eins og gengur. En hún afbar hann ekki. Þar við bætist að hún gat ekki barist fyrir hlutverkum. Í leikhúsinu var hún enginn fighter" annað hvort komu hlutverkin til hennar og hún fékk að ljóma, eða hún tók ekki þátt. Ég hef ekkert fyrir mér og veð kannski villur. En svona fór um lífsástríðu þessarar miklu leikkonu.
Næstu áratugi var hún Kata frænka skemmtileg, fyndin, vel lesin og beitt vinkona okkar. Nevrótísk og engum lík, en dásamleg. Um leið og ég kveð hana með orðum tengdaföður hennar, skáldsins frá Hvítadal, þakka ég henni af heilu hjarta og bið henni, einkadótturinni Sofíu Erlu, og ástvinunum öllum blessunar.
Himinn yfir! Huggast þú, sem grætur!
Stjörnur tindra, geislar Guðs
gegnum vetrarnætur.
Vetrarnóttin varla mun oss saka,
fyrst að ljósin ofan að
yfir mönnum vaka.
Guðrún Pétursdóttir.