Jóhannes Þórðarson fæddist í Hergilsey á Breiðafirði 9. september 1932. Hann lést á Sjúkrahúsinu í Stykkishólmi 18. mars sl. Foreldrar hans voru hjónin Þórður Valgeir Benjamínsson fæddur í Flatey á Breiðafirði 2. ágúst 1896, d. 10. nóvember 1985, bóndi í Hergilsey og Flatey og síðar verkamaður í Stykkishólmi, og Þorbjörg Sigurðardóttir fædd á Brjánslæk, Barðaströnd 26. október 1899, d. 27. mars 1987, húsfreyja. Systkini Jóhannesar: Valborg Elísabet, f. 19. október 1918, d. 12. júlí 2008, Sigurður, f. 30. apríl 1920, d. 5. maí 1975, Dagbjört Guðríður, f. 10. október 1921, Björg Jóhanna, f. 11. apríl 1923, Auður, f. 19. júní 1925, Benjamín, f. 28. apríl 1927, Guðmundur Sigurður, f. 15. júlí 1928, d. 15. maí 2004, Ari Guðmundur, f. 26. október 1929, Sigríður Hrefna, f. 27. maí 1931, d. 20. desember 1945, Guðbrandur, f. 24. október 1933, Ásta Sigrún, f. 3. apríl 1937, Ingunn, f. 22. júlí 1939, Gunnar, f. 22. september 1940, d. 20. nóvember 1940, Gunnar Þórbergur, f. 10. maí 1942, d. 7. mars 1969, Sigurbjörg, f. 10. maí 1945. Jóhannes kvæntist 1. janúar 1968 Gyðu Sigurðardóttur, f. 29. janúar 1935, sem nú er búsett á dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi. Börn þeirra eru: Ingveldur Þorbjörg, f. 22. júní 1967, gift Hrannari Erlingssyni. Börn þeirra Hlín, f. 23. október 1995, Daði, f. 23. október 1995. Valborg Elísabet, f. 30. apríl 1970, gift Sigurði Gunnari Markússyni. Börn þeirra Sindri, f. 31. ágúst 1990, Karitas Gyða, f. 17. júlí 2000. Börn Gyðu, Agnes Agnarsdóttir, f. 15. maí 1957, maki Þórður Þorsteinsson, barn Agnesar Marinó Ingi Emilsson, f. 21. ágúst 1979, Hrönn Bernhardsdóttir, f. 1. ágúst 1961, gift Gunnari Leví Haraldssyni, Börn þeirra Sölvi Leví, f. 16. september 1989, Patrekur Leví, f. 29. september 1993. Jóhannes ólst upp í Hergilsey og síðar Flatey á Breiðafirði. Hann flutti til Stykkishólms 1964 og bjó þar til dauðadags. Hann sótti vélstjóranámskeið Fiskifélags Íslands 1950-1951 og starfaði lengst af sem vélstjóri á fiskiskipum auk þess sem hann var á flutningaskipum og flóabátnum Baldri. Jóhannesi var eyjabúskapurinn í Hergilsey ávallt hugleikinn og starfaði hann að honum öll sumur við hlunnindatekju og veiðar við hlið foreldra sinna meðan þeirra naut við og síðar í samstafi við ættingja sína. Síðustu starfsárin var Jóhannes bryggjumaður Breiðafjarðarferjunnar Baldurs í Stykkishólmi. Útför Jóhannesar verður gerð frá Stykkishólmskirkju í dag, 27. mars 2010, og hefst athöfnin kl. 13.
Við fráfall elskulegs föðurbróður míns, Jóhannesar Þórðarsonar, langar mig að minnast þessa mikla kappa og læriföður með nokkrum fátæklegum orðum. Jói var 10 árum eldri en Gunnar faðir minn. Þrátt fyrir þann aldursmun þá voru þeir bræður mjög nánir og góðir félagar og voru í miklu sambandi þrátt fyrir að þeir stunduðu sjómennskuna á sitthvorum landshlutanum. Ég minnist heimsóknanna þegar Jói frændi var í bænum bæði á Lindargötunni og seinna á Meistaravöllunum og gleðinni sem ríkti á fundum þeirra bræðra þar sem sögurnar af sjónum eða fólkinu fyrir vestan hljómuðu ævintýralegar í eyrum ungs snáða. Þrátt fyrir slæma vegi á þessum árum þá fórum við fjölskyldan oft vestur í Stykkishólm og út í Flatey til Þorbjargar ömmu og Þórðar afa þar sem Jói var aldrei langt undan. Eftir fráfall föður míns þegar ég er á áttunda ári fékk ég betra tækifæri til að kynnast þessum einstaka manni og þeirri fjölskyldu, umhyggju og ættrækni sem einkenndi allt hans líf. Við Valli bróðir dvöldum lengri eða skemmri tíma í Vesturbúðum í Flatey hjá ömmu og afa flest sumur sem börn og fram á unglingsár. Jói sá ávallt til þess að við bræðurnir kæmum vestur og fengjum að kynnast lífinu í Flatey og eyjabúskapnum. Jói var þá sem endranær með foreldrum sínum við bústörfin á sumrin enda mikil vinna að sinna dúntekju, selveiði, eggjatekju og grásleppuveiðum allt á sama tíma ásamt verkun afurðanna. Oft var mannmargt í Vesturbúðum enda fjölskyldan stór og margir sem komu til lengri eða skemmri dvalar að hjálpa til við verkin sem voru mörg og brýn. Þegar ég var kominn fram á unglingsár fór ég að róa með Jóa á grásleppu frá Flatey snemma á vorin en þá dvöldum við tveir einir í Vesturbúðum í nokkrar vikur áður en venjuleg sumardvöl hófst sem voru mikil viðbrigði frá þeim fjölda sem dvaldi í húsinu á sumrin. Þessar stundir með Jóa eru mér ógleymanlegar og allur sá fróðleikur sem frá honum kom og vakti áhuga minn um búskaparhætti, sjósókn, mannlíf, sagnfræði og ættfræði sem var hans sérgrein.
Jói var geysilega víðlesinn og hafði kynnt sér nánast allt sem ritað hafði verið um sögu, mannlíf og náttúru Breiðafjarðar og hafði snemma lagt sig eftir ættfræði en sá áhugi hans var ekki einskorðaður við okkar ætt. Hann hafði þann hæfileika að sjá ættfræðina í víðara samhengi og fann ávallt tengingar við fólk og staði og gat lýst þessum fróðleik svo að unun var á að hlýða. Jói var að upplagi mikið náttúrubarn og einstaklega næmur á umhverfi sitt. Hann var fengsæll og laginn veiðimaður en hafði þó annað viðhorf til veiðimennskunnar en margir sportveiðimenn nútímans, þar sem hans veiði var fyrst og fremst til að afla sér og sínum matar eða tekna. Það rifjaðist upp skemmtileg frétt af honum sem birtist í Þjóðviljanum fyrir mörgum áratugum. Þar sagði frá Jóa Þórðar sem þá var ungur maður og stundaði Hámeraveiðar á Gustinum gamla og brá sér á dansleik á Barðaströnd. Hann hafði á leiðinni á dansleikinn lagt 5 króka Hámeralóð undan ballstaðnum og fékk á hana fjórar Hámerar þegar hann vitjaði lóðanna á heimleiðinni.
Ég kynntist því að Jói var mikill sjósóknari sem víða hafði farið. Ég dáðist mikið að visku hans þegar kom að öllu sem snerti skip, sjómennsku og siglingar. Hann var einstaklega leiðaglöggur og þekkti siglingaleiðir og strauma um allan Breiðafjörð og gilti þá einu hvort siglt var um Hergilseyjarlönd og Vestureyjar, eða firðina í A- Barðastrandasýslu, Inneyjarnar, Suðureyjar, Hvammsfjörðinn og straumana þar eða út með Snæfellsnesinu. Jói reyndi stöðugt að leiðbeina mér og kenna í þessu sem öðru, en því miður þá hafði ég aðeins takmarkaða hæfileika til að innbyrða alla hans visku á þessu sviði þrátt fyrir einlægan áhuga minn. Seinna þegar ég varð ungur skipstjóri á fiskibátum í Stykkishólmi þá fannst mér ómetanlegt að hafa fengið Jóa frænda sem vélstjóra og vita af allri þeirri visku sem þar bjó og ég gat alltaf leitað til. Ég held reyndar að Jóa hafi fundist betra að geta haft auga með stráknum aðeins lengur þar sem hann væri enn óreyndur og blautur bak við eyrun. Jóa var alla tíð umhugað um minn hag og fylgdi mér og studdi í hverju því sem ég tók mér fyrir hendur.
Ég hef allt frá því faðir minn lést litið til Jóa sem föðurímyndar fóstra og lærimeistara og Dísa konan mín og börnin mín öll hafa elskað hann og virt eins og tengdaföður og afa.
Elsku Jói, þú sigldir krappar öldur og sættir stanslausum ágjöfum í erfiðum veikindum síðustu níu mánuðina, en þú sýndir enn og aftur yfir hve miklum styrk þó bjóst í þessari erfiðu baráttu en varðst þó að lokum að lúta því valdi sem manninum er æðra. Dætur þínar Inga og Lísa stóðu þétt með þér í þessari lokasiglingu og þú sást að betri háseta í erfiðri sjóferð er ekki hægt að fá.
Elsku Gyða, Inga, Hrannar, Hlín og Daði, Lísa, Siggi, Sindri og Karitas Gyða. Megi góður guð blessa minninguna um einstakan persónuleika, umhyggjusaman föður og ættföður og veita ykkur styrk á sorgarstund.
Hörður Gunnarsson.