Borghildur Magnúsdóttir fæddist í New York þann 16.apríl 1956. Hún lést á heimili sínu á Akureyri þann 10.apríl sl.  Foreldrar hennar voru Magnús Guðmundsson f.8.janúar 1925, d. 2. ágúst 1991 og Bryndís Jakobsdóttir f. 26.apríl 1932, d. 10.7.1986. Bróðir hennar er Jakob Frímann Magnússon f. 4.maí 1953. Maki hans er Birna Rún Gísladóttir f. 4.maí 1973.
Borghildur giftist 17. ágúst 1985, Gísla Gunnlaugssyni, byggingatæknifræðingi, f. 5. september 1955. Foreldrar hans voru Rósa Gísladóttir f.31. mars 1919 d. 23. janúar 1999 og Gunnlaugur Jóhannsson f. 11.nóvember 1917 d. 15. júní 1976
Dóttir Borghildar og Gísla er Jóhanna María, f. 3.3. 1992.
Borghildur stundaði nám í píanóleik og tónfræði við Tónlistarskólann í Reykjavík og hjá einkakennurum frá 1965  - 1974 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1977. Stundaði nám við háskólann í Toulouse í Suður-Frakklandi og lauk BA prófi í frönsku frá Háskóla Íslands árið 1989 og kenndi síðan fönsku í  Menntaskólanum við Sund um tíma.  Gísli og Borghildur bjuggu í fyrst í Mosfellsbæ, en fluttu til Akureyrar árið 1991 og þar sem hún bjó til dauðadags.

Það er erfitt að kveðja einhvern sem maður getur ómögulega trúað að sé farinn.

Frá minni fyrstu tíð hefur Bogga frænka verið stór partur af mínu lífi, en hún var gift Gilla móðurbróður mínum. Allt frá barnæsku fram að okkar síðasta samtali á ég ótal margar góðar minningar um þessa yndislegu konu.

Bogga og Gilli voru þetta unga, hressa par og ég minnist þess að við systurnar iðuðum jafnan af spenningi þegar von var á á þeim. Það var alltaf ávísun á mikið glens og grín. Þau höfðu ákveðið lag á að gera hlutina skemmtilegri. Til að mynda fengum við alltaf jóla og afmælisgjafir frá Snata Þór hundinum þeirra. Skrifaði hann sjálfur undir kortin með klunnalegri skrift, en Snata fór þó fram í skriftinni, hann fór úr hástöfum yfir í lágstafi og síðar í tengiskrift.

Þegar skeptískar stelpur fóru að spyrja spurninga, eftir að hafa gert margar tilraunir við að troða pennum og blýöntum í loppuna á greyið Snata, stóð aldrei á svörum. Svörin og sögurnar um þetta afrek Snata voru svo stórkostlegar að enn í dag efast ég smá. Þetta var dæmigert fyrir þau, að ná á sinn skemmtilega hátt að gera eitthvað eins ómerkilegt og undirskrift á korti að einum af mínum yndislegustu æskuminningum.

Ég á ljúfar minningar frá því ég sat inni í eldhúsinu þeirra í Mosfellsbænum, fékk rauðan ópal, svartan orbit og drakk úr Fido Dido bolla. Stóllinn var frekar hár en alltaf kom Snati og lagðist undir fæturna og ég tróð tánum inn í mjúkan feldinn hans.  Þar sem ég sat þarna og leið stórkostlega dáðist ég af Boggu. Hún var svo flott.  Var í öllu svörtu og hvítu og hálsmálið á peysunni náði niður fyrir öxlina, þetta var það flottasta sem ég hafði séð og teygði ég allverulega á mörgum hálsmálum í von um að verða eins og Bogga. Alla mína tíð hefur Bogga verið staðalímynd mín fyrir pæju. Ef ég stóð í búningavali fyrir leikrit eða aðrar uppákomur sótti ég ávallt stíft á að pæjan myndi vera í svörtu og hvítu og með öxlina upp úr hálsmálinu. Þrátt fyrir að það væri kominn nýr áratugur og ný tíska, var pæja alltaf svona fyrir mér.

Við systurnar nutum þess að vera í návist þeirra og glöddumst því mikið þegar við fjölskyldan ásamt ömmu (móður Gilla) fluttum upp í Grafarvog. Þá varð vegalengdin milli okkar styttri og  heimsóknir á báða bóga tíðar. Þegar von var á lítilli frænku minnkaði gleðin ekki  og var ég fljót að sjálfskipa mig sem aðalpössunarpíu. Hins vegar gladdi sú frétt mig minna að þau myndu flytja norður á land, enda mikil eftirsjá af þessari yndislegu fjölskyldu úr næsta nágrenni. Ég komst þó fljótt að því að hvar sem þau voru myndu vera myndu þau skipa stóran sess í lífi mínu. Það var ekki síður skemmtilegt  að heimsækja þau á Akureyri, láta dekra við mig og fá að dekra við litlu frænku.

Með árunum þroskaðist og breyttist samband okkar Boggu og varð hún mér ákaflega kær vinkona, enda hafði hún einstakan áhuga á öllu því sem var að gerast í mínu lífi. Hún gladdist af einlægni yfir því sem gekk vel en á sama tíma var hún ófeimin að benda á það sem ég gæti gert betur. Ég hef alltaf vitað að til hennar gæti ég leitað með hvað sem er og mun ég sárlega sakna þess.

Það er ekki langt síðan að við litla fjölskyldan nutum gestrisni Boggu og fengum að gista. Við höfðum verið samferða vinafólki okkar að sunnan og ætluðum að hitta þau eftir kvöldmatinn. Hins vegar skemmtum við okkur svo vel Boggu og Gilla, að við enduðum á að vera þar langt fram á nótt. Þetta kvöld hlógum við mikið, töluðum um heima og geima, meðal annars hvatti hún Bogga mig eindregið til frekari barneigna. Til marks um það hversu mikið mark ég tek á ráðleggingum Boggu fæddist mér yndisleg stúlka níu mánuðum seinna. Einhvern vegin var ég handviss um að þetta væri bara eitt af mörgum slíkum kvöldum sem við myndum eiga í framtíðinni og hlakkaði ég mikið til og aldrei bjóst ég við að þetta myndi enda svona snemma. Það var svo ótal margt sem við áttum eftir að tala um og gera.

Yndislega Bogga mín, þín mun ég sakna svo sárt. Ég hugga mig við það að eiga hafsjó af minningum fullum af hlátri, gleði og endalausum kærleika til að berjast við þá gríðarlegu sorg sem ég finn nú.

Elsku Gilli og Hanna Maja mín, hugur minn er allur hjá ykkur.

Saknaðarkveðja,

Ragnheiður Bjarnadóttir og fjölskylda.