Júlíus Óskar Þórðarson fæddist 29. apríl 1921 í Haga á Barðaströnd en ólst upp á Innri–Múla í sömu sveit. Hann lést á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Norðfirði hinn 11. apríl sl. Foreldrar Júlíusar voru hjónin Seinunn Björg Júlíusdóttir og Þórður Ólafsson, ábúendur á Innri-Múla á Barðaströnd. Steinunn, f. 20. mars 1895, d. 13. febrúar 1984, var dóttir hjónanna Jónu Jóhönnu Jónsdóttur af Hreggstaðarætt af Barðaströnd og Júlíusar Ólafssonar ættuðum úr Grímstungusókn í Austur-Húnavatnssýslu. Þórður, f. 24. ágúst 1887, d. 10. apríl 1984, var sonur Kristínar Ólafsdóttur og Ólafs Sveinssonar í Miðhlíð á Barðaströnd. Júlíus var fjórði í röð níu systkina fædd á 11 árum. Hin eru: Björg, bóndi í Tungumúla, f. 10.10. 1916, látin, Ólafur Kr., f. 21.8. 1918, Jóhanna, f. 4.1. 1920, Björgvin, sjómaður og leigubílstjóri, f. 9.9. 1922, látinn, Karl, sjómaður og verkamaður, f. 16.10. 1923, látinn, Kristján P., f. 14.5. 1925, Steinþór, bóndi í Skuggahlíð, f. 13.7. 1926, látinn, og Sveinn J., f. 13.12. 1927. Júlíus kvæntist hinn 17. janúar 1953 Jónu Ármann, f. 17. júlí 1924, Skorrastað, Norðfirði. Jóna lifir mann sinn. Þau eignuðust einn son, Þórð, f. 1950, líffræðing og framhaldsskólakennara sem nú býr á Skorrastað. Hann er kvæntur Theodóru I. Alfreðsdóttur, f. 1951. Börn þeirra eru: Jóna Árný, f. 1977, gift Sigurði Ólafssyni, f. 1974, og þeirra börn eru Sigríður Theodóra, f. 1998, og Júlíus Bjarni, f. 2008; Alfreð Erling, f. 1978; Sóley, f. 1984, og Sunna Júlía, f. 1993. Fyrir átti Theodóra dótturina Ólöfu Lindu, f. 1969, d. 2005. Júlíus hleypti snemma heimdraganum og vann bæði til sjós og lands allt til þess er þau Jóna byggðu jörðina Skorrastað 3 út úr jörð tengdaforeldra Júlíusar, Guðjóns Ármanns og Sólveigar Benediktsdóttur, árið 1957. Strax á unglingsárum lá leið Júlíusar austur í Geiradal til vinnumensku á Valshamri hjá Karli Guðmundssyni og Ingibjörgu Sumarliðadóttur. Þegar hann var 17 ára réðst hann til vinnu að Króki og síðar að Arnarstöðum í Flóa. Í framhaldi af því kom Júlíus víða við í störfum hjá hernum og í landbúnaði á Suðvesturlandi. Á 5. áratugnum lá leiðin til sjós á Hvalfjarðarsíldina og í framhaldi af því á vertíðir á Suðurnesjum og í Hafnarfirði. Þar var hann landformaður við ýmsa báta á vetrarvertíðum, fyrst einn og síðar með konu sinni og syni. Á sumrum voru þau heima á Skorrastað. Frá 1957 bjó Júlíus á Skorrastað 3, kappsamur um ræktun jarðar og búpenings og frá 1976 í tvíbýli með Þórði og fjölskyldu hans. Á uppbyggingarárum jarðarinnar vann Júlíus lengi á vöktum í síldarbræðslu staðarins. Júlíus var oddviti Norðfjarðarhrepps eitt kjörtímabil, 1990-1994. Árið 2001 gaf Júlíus út bókina „Fyrir vestan og austan“, sögur og minningabrot af ævinnar göngu. Árið 2005 létu þau hjón af búskap og dvöldust lengst af á hjúkrunardeild HSA eftir það eða allt þar til Júlíus lést. Útför Júlíusar var gerð frá Norðfjarðarkirkju 18. apríl 2010. Minningarathöfn um Júlíus fer fram í Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 15.
Fjarlæg hlátrasköll óma í símanum, pabbi var að tala við ættingjana
austur í Norðfirði. Þetta var skrítið fannst mér. Sveitin hans pabba var
mér svo fjarlæg að það þurfti að fara um andasnauða óraleið fram hjá
himinsölum til að ná þangað. Síminn hringdi og glaðlega, hláturmilda
röddin var á hinum endanum. Þrymurinn minn, segðu honum pabba þínum að við
Júlli séum alveg að renna í hlað og mig langi þessi ósköp í kaffi. Ég fór
út á tún til pabba og færði honum skilaboðin. Hann hló og hristi höfuðið,
lagði niður verk og mamma tók til við að dekka borð og búa um í
gestaherberginu. Skyndilega snaraðist hvítur Land Rover niður heimkeyrsluna
og út stigu glaðleg hjón. Konan dökkhærð, brosmild og hló smitandi hlátri.
Maðurinn þrekinn, meðal maður og huldi skallann með virðulegum hatti. Þau
komu vestan af Barðaströnd. Þarna voru komin Jóna og Júlíus á Skorrastað í
Norðfirði. Mér eru hugleikin tengslin milli heimahéraðs míns og
Norðfjarðar. Norðfirðingarnir Sveinn faðir minn, Jóna og Jón á Skorrastað,
Herdís í Skuggahlíð voru á líkum aldri þó Herdís væri mun yngri náðu sér í
maka úr Reykhólasveit og vestan af Barðaströnd. Pabbi einn settist að fyrir
vestan.
Jóna og Júlli voru komin í Miðhúsin og húsið fylltist af gleði og hlátri
sem ómaði út í kvöldkyrrðina svo að maríuerlan staldraði ögn við, dillaði
stélinu og lagði við hlustir. Enda var skrafað og hlegið það kvöld.
Júlíus Þórðarson var bóndi fram í fingurgóma. Búskapurinn var hans
líf og yndi enda báru skepnurnar þess merki að vel var um þær hugsað. Við
Miðhúsabændur vorum ekki þeir einu sem skírðu dýrin okkar sérkennilegum
nöfnum. Júlíus tók samt af okkur vinninginn. Meri sem hann átti kastaði
folaldi í endaðan maí 1968. Dagurinn var sérstakur. Þetta var dagurinn sem
Ísland skipti yfir í hægri umferð. Og litli folinn fékk nafnið H Blesi í
tilefni dagsins. Í fjárhúsinu voru vænar ær og virðulegir hrútar sem hétu
Hrókur og Sesar. Í fjósinu voru sællegar kýr á bás. Nú eru hestarnir
staðarprýði á Skorrastað.
Félagsmálin voru Júlíusi hugleikin og tók hann virkan þátt í þeim af lífi
og sál. Eitt sinn sem oftar töluðu pabbi og Jóna saman. Hláturinn tísti í
pabba og hann sagði að Júlli hefði flutt ræðu á bændafundi á Egilsstöðum.
Fundarefnið var framleiðslutakmarkanir í landbúnaði. Júlli hafði samið hana
við morgunmjaltirnar. Ræðan var skrifuð á móleitt bréf utan af
fóðurbætispoka. Eftir því sem Júlíus las ræðuna kom merki SÍS smá saman í
ljós uppyfir ræðupúltið og vakti það mikla ánægju fundargesta. Efni
ræðunnar fór að mestu forgörðum í kátínunni þótt Júlli væri góður
ræðumaður. Jólakortið góða frá Þórði og Theodóru hangir enn á ísskápnum.
Það er miklu meira en jólakort. Það er mér dýrmætt sýnishorn af
myndarbúskap þeirra feðga. Fimm virðulegir, fagurhyrndir hrútar standa í
nýfallinni mjöllinni á Skorrastaðatúninu.
Sumri tók að halla og Júlíus settist við skriftir og setti saman ævisögu
sína, Fyrir vestan og austan, og naut dyggrar aðstoðar Bjarka Bjarnasonar
ættuðum úr sveitinni. Guðmundur sonur Bjarka hafði verið í sveit hjá Júlla
og Jónu.
Veröldin er hverful. Þegar við komum austur í Norðfjörð í glampandi veðri
sumarið 2006 var ég fullur eftirvæntingar að hitta fólkið. En ég greip í
tómt. Jóna og Júlli voru þarna en óminnið hafði tekið þau fangbrögðum og
lokað þessar yndislegu manneskjur inni. Þeim hafði verið búið gott skjól
útá Bakka þangað sem leiðin lá. Höfðinginn tók á móti okkur brosandi og
bauð okkur til bæjar í kaffi. Skárra væri það nú, piltarnir nýkomnir úr
fjósinu. Alúð hans og velvild skein úr hverjum drætti. Hann sækir lítinn
grænan kistil og fær okkur bókina sína og biður okkur um að lesa fyrir sig.
Við lásum fyrir hann góða stund og virtist sem bernskuminningarnar opnuðu
honum smá glætu þar sem hann sat brosandi og hlýddi á lestur okkar. Júlíus
dró upp samanbrotið blað og rétti mér. Þar voru barnaskóla einkunnir hans
og ekki voru þær af verri endanum. Auðséð var að um þau var hugsað af
mikilli alúð. Degi tók að halla, Júlíus var ferðbúinn. Þótt Júlíus hafi
kvatt jarðneskt líf sé ég hann fyrir mér þar sem hann leggur á tvo hesta.
Leggur klæði undir hnakkana að höfðingja sið og velur falleg beisli. Hann
er lagður af stað í langferðina en uppá efsta leiti staldrar hann við og
áir og virðir fyrir sér sérkennilega fagran kvöldroðann. Fasið er frjálst
og laust við fangbrögð elli kerlingar. Nú eru ferðalok.
Við Miðhúsabændur þökkum Júlíusi með söknuði, vinsemdina í tímans rás.
Þrymur Sveinsson.