Skúli Gíslason fæddist í Reykjavík 6. ágúst 1940. Hann lést á Landspítala - háskólasjúkrahúsi við Hringbraut 21. apríl 2006. Foreldrar hans voru Einarbjörg Böðvarsdóttir, f. 23.10. 1903, d. 12.7. 1985, og Gísli Jónsson, f. 4.9. 1878, d. 9.11. 1944. Systkini Skúla eru Freysteinn, f. 21.7. 1925, Auður, f. 1.10. 1934, og Hrafnhildur, f. 25.7. 1943. Látin eru: Gísli, f. 23.4. 1924, d. 15.3. 1927, Rúnar Óskar, f. 17.2. 1927, d. 5.3. 1927, Aðalsteinn, f. 2.7. 1930, d. 3.9. 1989, og Haraldur, f. 16.4. 1932, d. 12.3. 2005. Fyrri kona Skúla var Elísabet Jóhanna Sigurbjörnsdóttir, f. 12.12. 1944, d. 27.12. 2005. Áður hafði Skúli eignast soninn Erling, f. 21.1. 1960, d. 3.2. 2006, en saman eignuðust þau synina a) Garðar, f. 12.8. 1963, kvæntur Guðrúnu Kristinsdóttur, f. 10.10. 1959, og b) Gísli, f. 15.9. 1965, kona hans er Áslaug Baldursdóttir, f. 2.11. 1974. Árið 1984 kynntist Skúli síðari eiginkonu sinni, Kristínu Ólafsdóttur, móttökuritara á Landspítala - háskólasjúkrahúsi við Hringbraut, f. 30.4. 1944. Börn Kristínar eru: a) Lárus, f. 4.12. 1960, kvæntur Guðlaugu Helgadóttur, f. 23.6. 1964, b) Ásthildur, f. 29.9. 1967, gift Eiríki Ingvarssyni, f. 6.1. 1959, c) Anna María, f. 29.9. 1967, gift Halldóri B. Brynjarssyni, f. 27.6. 1962, og d) Andri Þór, f. 23.6. 1971, kvæntur Unu Ósk Kristinsdóttur, f. 26.9. 1972. Skúli starfaði lengst af við verslunar- og þjónustustörf í Reykjavík. Útför Skúla verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 4. maí 2006, og hefst athöfnin klukkan 15.

Betra seint en ekki. Ég er ekki frá því að ég hafi heyrt þessi orð fyrst frá þér. Þú varst ekki óvanur að setja fram einhverja slíka speki í formi málshátta eða annarra tilvitnana í góða siði og þau orð eiga sannarlega við nú þegar þessi orð eru skrifuð. Það eru nú 4 ár síðan þú kvaddir og þín er enn sárt saknað. Svo merkilegt sem það nú er þá var einhvern veginn alltaf einhverskonar skilningur okkar í milli, þrátt fyrir þá landfræðilegu fjarlægð sem á milli okkar var, sérstaklega í seinni tíð. Það var einmitt í seinni tíð sem reyndi á þennan gagnkvæma skilning okkar en hann reyndist mér mikilvægur þegar ég dvaldi langdvölum erlendis vegna starfa minna og kom lítið heim. Loksins þegar við svo hittumst var rétt eins og við hefðum bara hist nokkrum dögum fyrr. Við vorum fljótir að taka upp þráðinn að nýju og fylla í þær eyður sem myndast höfðu frá því við höfðum síðast sést. Það var satt að segja erfitt að sætta sig við að slíkt hraustmenni, sem þú varst alla tíð, þyrftir að glíma við og lúta í lægra haldi gegn þeim illvíga sjúkdómi sem lagði þig að lokum. Ég stóð sjálfan mig ítrekað að afneitun gagnvart veikindum þínum, þrátt fyrir að ég vissi allan tímann að meinið gæti verið fjandanum erfiðara að takast á við hvað þá að hafa betur. Það var ótrúlegt, sérstaklega eftir á að hyggja, hvað þú fórst með mikilli reisn í gegnum þetta. Það var með ólíkindum og ekki loku fyrir það skotið að það hafi ýtt undir þá afneitun sem ég var í gagnvart veikindum þínum á þeim tíma. Ég minnist þess þegar ég var með þér á sjúkrastofunni eftir andlát þitt að aðeins þá viðurkenndi ég fyrir sjálfum mér að þú værir raunverulega farinn, að þú værir búinn að kveðja. Á þeirri stundu runnu dýrmætar samverustundir okkar í gegnum tíðina með undarlegum hætti mér fyrir hugskotssjónum og ég er sannarlega þakklátur fyrir þær ljúfu minningar í dag.

Elsku pabbi, ég hef alltaf litið upp til þín eins og sonur lítur upp til föður og mér fannst alltaf gaman að skiptast á skoðunum við þig. Við þurftum ekki alltaf að vera sammála en fannst mér ég alltaf skilja hvaðan þú komst, hvert þú varst að fara og hvaða lífssýn þú hafðir. Ég þóttist kannast við grunntóninn. Ég þykist þess viss að það sama hafi gilt um þig í minn garð. Þar með var grunnurinn lagður að þeim gagnkvæma skilningi okkar í milli sem stuðlaði að því að við vissum alltaf hvar við höfðum hvor annan. Mér fannst ég alltaf vera hluti af þeirri lífssýn og þeim gildum sem þú stóðst fyrir. Þú hafðir sannarlega mikla mannkosti að bera. Þú varst ósérhlífinn, réttsýnn, heiðarlegur, fullur réttlætiskenndar og síðast en ekki síst góður maður. Birtingarmynd þess mátti sjá víða, bæði í leik og starfi. Þú varst bókhneigður, dulur, djúpur og þú hafðir gaman af að miðla til annarra þegar þér fannst eitthvað þess virði.

Elsku pabbi, mig langar til að senda þér hinstu kveðju með tilvitnun í orð skálds, heimspekings og listamanns sem einmitt fjallar um þetta tiltekna efni og mér finnst vera mjög í þínum anda:

Enginn getur birt ykkur nein sannindi önnur en þau, sem byltast í svefnrofum í ykkur sjálfum á morgni skilningsins.

Fræðarinn, sem gengur í skugga musterisins meðal lærisveina sinna, miðlar ekki af vísdómi sínum, heldur fremur af trú sinni og samúð.

Ef hann er í sannleika vitur, þá býður hann ykkur ekki inn í hús vísdóms síns, heldur leiðir hann ykkur að dyrum ykkar eigin sálar.

(Kahlil Gibran)

Þú varst búinn að segja mér þetta allt saman á þinn hátt, en maður er einfaldlega allt lífið að mæta sál sinni á veginum. Eins og við vorum vanir að segja hvor við annan:  þú veist hvað ég á við. Takk fyrir allt elsku pabbi.

Gísli Skúlason.