Sigrún Á. Kristjánsdóttir fæddist 26. apríl 1936 að Vestara-Landi í Öxarfirði. Hún lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri þann 20. apríl sl. Foreldrar Sigrúnar voru hjónin Kristján Jónsson, f. 15. október 1895 í Ási í Kelduhverfi, d. 14. janúar 1977, og Gunnína Sigtryggsdóttir, f. 2. janúar 1902 í Ási í Kelduhverfi, d. 27. apríl 1984. Sigrún var eina barn þeirra hjóna. Sambýlismaður Sigrúnar var Aðalgeir Aðdal Jónsson, f. 18.3. 1935. Þau slitu samvistum. Synir Sigrúnar og Aðalgeirs eru 1) Sveinbjörn, bóndi á Vestara-Landi, f. 21.8. 1963, sonur hans er Erlendur Gestur, f. 3.3. 2007. 2) Vésteinn, sjómaður á Akureyri, f. 3.12. 1965, kona hans er Kristjana Sigurgeirsdóttir, f. 4.9. 1965. Börn þeirra eru Sindri, f. 27.4. 1992, Geir, f. 11.4. 1995, og Ninna Rún, f. 8.7. 2002. Á unglingsárum sótti Sigrún nám við Héraðskólann í Reykholti og Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Að lokinni skólagöngu bjó hún og starfaði á Vestara-Landi meðan heilsa og þrek leyfði, eða til ársloka 2009. Útför Sigrúnar hefur farið fram í kyrrþey.
Eins og við vitum kaus Sigrún að vera jarðsett í kyrrþey. Af einskærri hugulsemi að ég held. Hún vildi ekki að fólk legði í langferð sín vegna, það getur verið með mér í huganum, bætti svo við og það þarf engin ræðuhöld, en þú mátt segja eitthvað, ef þú vilt. Í huganum hverf ég aftur í tímann. Ég er nýflutt í sveitina og úti ríkir norðlensk stórhríð sem dregur þessar snjakahvítu og ofurfínlegu gardínur fyrir hvern glugga. Ég rýni út um gluggann og í gegnum þessa fannbreiðu sé ég glitta í örlitla ljóstýru í eldhúsglugga. Þessi litla ljóstýra fyllir mig öryggi og um leið ró, því ég veit hvað að baki hennar býr. Konan sem þekkir lífið á þessum forkunnar fagra stað á hjara veraldar. Þegar ég hitti þessa konu, með sína hvellu rödd og hreinskilni í fyrsta sinn, hugsaði ég: Forvitnileg kona, en við eigum trúlega fátt sameiginlegt. Þar reyndist ég ekki mikill mannþekkjari, grunaði ekki þá að hún ætti eftir að verða ein af okkar albestu og tryggustu vinum.
Í því fannfergi sem ríkti þennan vetur urðu samskipti allra nánari og við fundum fljótt hversu nauðsynlegt það er að eiga góða nágranna að sem hægt væri að treysta á og þar stóðu þau Sveinbjörn svo sannarlega undir nafni. Í dagbók sem ég skrifaði í byrjun febrúar lýsi ég henni í fyrsta sinn á eftirfarandi hátt: Útivist og gönguferðir bárust í tal við grannkonu mína, harðduglega, eilítið forna en afar greiðvikna konu, um að Geiri væri að öllu jöfnu ágætur gönguhrólfur en nú blési hann eins og gamall físibelgur eftir örstutta göngu upp litla aflíðandi brekku. Hann á að ganga á girðingastaurunum, svaraði hún þá. Já, hún var ráðagóð í þessu sem í mörgu öðru. Vinarþel er sálu ljúft og hjá henni eignuðumst við fljótt vinarhug sem bara hefur dýpkað í áranna rás enda var Sigrún afar tryggur vinur vina sinna.
Hugurinn hvarflar enn til baka þar sem við eigum svo margar dýrmætar
stundir saman að minnast. Vorin og haustin, sauðburður og göngur, þegar við
samglöddumst yfir nýbornu lömbunum og biðum spenntar eftir því að fá féð af
fjalli. Oft var mikið verk að vinna en Sigrún hafði ánægju af stússinu við
féð og unni sér ekki hvíldar ef hún vissi af einhverri skepnu í nauð. Hún
sýndi þeim nærgætni, ávann sér traust þeirra og var einstakur græðari en
þar kom kunnáttan um lækningamátt náttúrunnar iðulega við sögu. Heyskapur,
berjatími, reyking eða hvað annað sem þurfti að gera, alltaf var það sami
dugnaðurinn, atorkusemin og eljan uns verkinu lauk. Hún var bóndi af lífi
og sál en átti sér einnig önnur áhugamál og ber þar hæst að nefna
leiklistina og fagran söng. Hún var nægjusöm og nýtin, ólst upp við það en
sjálf sagðist hún vera nísk en hún skuldaði engum neitt og launaði ætíð vel
og ríkulega fyrir sig. Við gerðumst hústökufólk í Birkilandi, eiginlega
alveg óvart en hún tók öllum opnum örmum sem þangað komu og vinir okkar
urðu vinir hennar. Hún var í eðli sínu mannblendin þótt hún væri heimakær.
Hún kunni vel við sig í góðum félagsskap, fylgdist grannt með málum líðandi
stundar og hafði ákveðnar skoðanir á þeim. Hún hafði líka sérstakt lag á
því að halda uppi samræðum við börn og ungmenni og við þau gat hún spjallað
um alla heima og geima. Ekki var svo verra að vera boðið upp á gómsætar
kleinur sem hún var snillingur í að baka og runnu ljúflega niður hjá
hverjum þeim sem í þær komust. Kíkirinn sem ávallt lá í gluggakistunni í
eldhúsinu kom oft að góðum notum. Þaðan gat hún fylgst með fólki og fénaði
og lét fátt framhjá sér fara. Ég var því sallaróleg þó ég ætti engan lykil
að Sigtúnum og þyrfti að bregða mér af bæ. Sigrún var órög að segja mönnum
til syndanna ef henni mislíkaði en kunni líka að hrósa. Hún var réttkjörinn
málsvari málleysingjanna og það var ekki auðvelt að snúa henni ef hún var
búin að bíta eitthvað í sig enda að eigin sögn, þrjóskari en sjálf
sauðkindin. Hún var sjálfstæð bæði í orði og athöfnum, fór ekki endilega
troðnar slóðir og þótti því af sumum sérvitur en þá sérlega þeim sem ekki
þekktu betur. Og hafi hún verið það, þá var það í orðsins bestu meiningu.
Fyrir það var hún líka einstök og af mörgum mikils metin enda gefur slíkt
fólk lífinu lit og verður um lei
Helga Þorsteinsdóttir og fjölskylda.