Gunnar Gestsson fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1955. Hann lést á heimili sínu 5. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Gestur Árnason málari, f. 21. september 1918 í Ólafsvík, d. 3. janúar 2001, og Sigríður Friðfinnsdóttir, f. 27. ágúst 1923 í Hafnarfirði, d. 24. ágúst 1980. Þau eignuðust fjóra syni. Bræður Gunnars eru Friðfinnur Steinar, f. 16. apríl 1952, Birgir Örn, f. 25. mars 1957, og Hörður, f. 20. júní 1960. Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Sólveig Jóhanna Guðmundsdóttir, f. 21. ágúst 1956. Þau giftu sig í Grenjaðarstaðarkirkju 21. apríl 1979 og bjuggu alla tíð í Reykjavík. Þau eignuðust þrjú börn. Þau eru 1) Sigríður Lára Gunnarsdóttir, f. 26. ágúst 1979, maki Lýður Skúli Erlendsson. Börn þeirra eru Arnbjörg Júlía, f. 27. nóvember 2005, og Kolbeinn Valur, f. 17. júní 2007. 2) Torfi Gunnarsson, f. 1. apríl. 1983, og 3) Grímur Gunnarsson, f. 11. ágúst 1989. Gunnar ólst upp hjá fjölskyldu sinni í Hafnarfirði, lengst af á Þúfubarði 9. Hann lauk prófi í vélvirkjun frá Iðnskólanum í Hafnarfirði árið 1978. Meðan á náminu stóð kynnist hann Sólveigu sem síðar varð eiginkona hans. Gunnar útskrifaðist frá Vélskóla Íslands með 4. stig vélstjóra árið 1981. Eftir útskrift hóf hann störf hjá Sambandinu og sigldi um tíma á fraktskipum félagsins. Hann lauk 1. hluta véltæknifræði frá Tækniskólanum árið 1990. Eftir það starfaði hann lengst af hjá Granda hf., fyrst á skipaverkstæði félagsins en síðar sem vélstjóri á togurum þess, Snorra Sturlusyni og Venusi. Gunnar var ákaflega handlaginn og gat smíðað nær hvað sem er, hvort sem efniviðurinn var tré eða járn. Eftir hann liggja margir haganlega gerðir nytjagripir og óteljandi handtök við að gera upp heimili og sumarhús þeirra hjóna. Vandaði hann ávallt til verks og féll aldrei verk úr hendi. Hann var mikill grúskari og var duglegur að viða að sér þekkingu um það sem hann hafði áhuga á. Gunnar var fjölskyldumaður og hafði mikið dálæti á barnabörnunum sínum sem hlökkuðu ávallt til að heimsækja afa sinn og ömmu. Útför Gunnars verður gerð frá Árbæjarkirkju í dag, 12. maí 2010, og hefst athöfnin kl. 13.
Þrátt fyrir að hafa vitað að Gunnar vinur minn Gestsson gengi með ólæknandi krabbamein og heyra í símtölum okkar hvernig heilsu hans hrakaði og þróttur hans minnkaði jafnt og þétt, og í raun fátt annað hægt að gera en að vona að lokin yrðu ekki mjög kvalafull fyrir hann, fylltist ég sorg og söknuði við að heyra af andláti hans. Við Gunnar sigldum og unnum saman í tæp 14 ár og það eru forréttindi að hafa haft þennan þúsund þjala smið og öðling sem yfirmann í öll þessi ár. Hann var alveg einstaklega ljúfur og þægilegur maður í alla staði og skopskyn hans hnyttið og skemmtilegt og margar eftirminnilegar perlur duttu út úr honum og þrælmagnaður var hann meira að segja í nýyrða smíði. Ósérhlífinn var hann í meira lagi og ótrúlegur vinnuþjarkur og vandvirkur með afbrigðum. Það var sama hvaða vandamál komu upp hann leysti þau. Einu sinni kom hann niður í vél um miðja nótt hafði vaknað upp úr draumi með lausn á draugabilun í stýrikerfinu á aðalvélinni sem hafði verið að hrella í nokkra mánuði. Það var held ég ekki nema eitt sem Gunnar kunni ekki, það var að gefast upp. Vélstjóri einn sem byrjaði hjá okkur nýkominn úr tækniskólanum hlóð niður Auto-cad teikniforritinu í vélarúmstölvuna og fór að kenna okkur að nota það og ýtti okkur af stað með að teikna einfalda hluti. Það var sko ekki nóg fyrir Gunnar að staldra lengi við slíkan einfaldleika og fór að hanna í teikniforritinu festingar, brautir og snúningsása fyrir lensidælurnar á millidekkinu. Óli hjá Ísfélagi Vestmannaeyja fór með teikningarnar í Skipalyftuna í Eyjum sem smíðuðu eftir þeim ofan í hvern brunn fyrir sig. Vélstjórar af öðrum skipum sem sáu þetta patent á gólfinu í smiðjunni sögðu allir sem einn ég vil fá svona líka um borð til mín, þetta auðveldaði svo mikið vinnuna við að taka dælurnar upp frá því sem áður var, enda var það á stundum hættulegt í leiðinlegu sjólagi.
Gunnar og Sólveig hafa mörg undanfarin ár verið að gera upp hús fyrir vestan þar sem forfeður Sólveigar bjuggu og hefur það verið gríðarmikið starf. En þau hjónin jafn samhent og þau hafa alltaf verið gerðu húsið, sem var mjög illa farið, upp eins upprunalegt og nokkur kostur var. Gunnar þurfti líka að steypa upp gamlan vatnsbrunn og sökkla fyrir hlið og girðingarstaura. Smíðaði Gunnar undirstöðu undir gamla mótorlausa steypuhrærivél sem hann átti á kerru sem hann smíðaði, útbjó drifbúnað á hrærivélina frá öðru kerruhjólinu og keyrði um landareignina með þennan heimasmíðaða steypubíl og hrærði þá steypu sem hann þurfti og eftir atvikum tók hann aukahring ef steypan var ekki alveg klár. Ekki voru þau Gunnar og Sólveig alveg ókunnug því að gera upp hús því fyrir einhverjum áratugum keyptu þau gamalt hús við Suðurgötuna sem var fyrir í nýju skipulagi Reykjavíkurborgar og átti að rífa það ef enginn vildi taka að sér að flytja það burt. Þetta var áskorun sem þau stóðust ekki enda bæði með auga fyrir gömlum falllegum vönduðum munum. Fengu þau lóð undir húsið við Skerplugötu í litla Skerjafirðinum. Það að flytja húsið var ekkert smá fyrirtæki, enda eitt af stærri húsunum í Skerjafirðinum og stendur nú reisulegt og fallegt, enda lofa allar endurbætur utan og innandyra handbragð meistarans og lífsförunautar hans húsgangasmiðsins, klæðskerans og saumakonunnar Sólveigar Guðmundsdóttur. Í húsinu vildu þau hafa andrúmsloft og umhverfi þess tíma þegar það var byggt. Einhvers staðar sáu þau auglýst stórt frístandandi pottbaðker sem að þeirra mati átti hvergi heima nema í baðherbergi þeirra uppi á þriðju hæð. Baðkerið keyptu þau, fluttu heim og réðust í að feta það upp stigana þótt baðkerið vigtaði um 120 kg settu þau það ekki fyrir sig. Á efsta stigapallinum sat allt fast, ekki var komist lengra upp með þennan baðkershlunk, að bakka niður skila því og kaupa létt og meðfærilegra trefjaplastbaðker kom ekki til greina. Eina sem þurfti að gera var að taka niður vegg taka handriðið af stiganum og þá væri þetta komið. Gunnar vann á þessum tíma á skipaverkstæði Granda hf. frítími og fjármunir fóru í húsið og ekki var ekið um á ríkmannlegum bíl, gamall BMW sem var vægast sagt orðinn laslegur og brýn þörf á að endurnýja æði margt í honum fyrir skoðun sem enginn nema Gunnar hefði lagt í. Fór hann upp í Vöku til að leita að sambærilegum bíl sem hann gæti notað í varahluti og var svo ljónheppinn að finna þar einn með ónýtri vél sem hafði frostsprungið inn og útúr. Skömmu síðar kemur togarinn Snorri Sturluson til hafnar með brotna vél eftir að stangarlegubolti hafði losnað og gengið út úr blokkinni. Afar sérhæfðir menn frá Svíþjóð voru fengnir til að gera við þessa skemmd og metalocka vélina sem tók 10 daga að mig minnir. Gunnar fylgdist eins og aðrir með framvindu viðgerðarinnar, náði að tileinka sér vinnubrögð Svíanna og notaði næstu kvöld og helgi til að gera við vélina í bimmanum á sama hátt, sem tókst svo vel að ekki þurfti að bæta vatni á vélina frekar en á nýrri vél og malaði eins og köttur í gangi.
Ekki var sjálfhólið að plaga Gunna frekar en aðrir mannlegir lestir og ekki gortaði hann sig af því sem hann gat og gerði og við sem þekktum hann ættum kannski að taka saman það sem við sáum hann gera.
Ég er afar þakklátur fyrir þær ótal stundir sem ég átti með Gunnari í leik og starfi og verða mér ætíð eftirminnilegar. Ég votta Sólveigu sem Gunnar bar takmarkalausa virðingu og ást til mína dýpstu samúð svo og fjölskyldu þeirra.Kristján Björnæs Þór.