Guðrún Elísa Ólafsdóttir fæddist á Ísafirði 3. febrúar 1932. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 23. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Anna Filippía Bjarnadóttir, f. 9.7. 1899, d. 15.4. 1992, og Ólafur Guðbrandur Jakobsson, f. 27.10. 1892, d. 5.1. 1963. Systkini Guðrúnar eru: Bjarney, sem er látin, Guðbjörg, Dagrún, Arndís, Jakob, Fjóla og Anna Ólafía, sem er látin. Auk þess ólu Anna og Ólafur upp dóttur Dagrúnar, Steinunni Kjartansdóttur. Guðrún giftist 31. ágúst 1957 Magnúsi Jóhannessyni skipasmið, f. 2. ágúst 1929. Börn þeirra eru: 1) Ómar Már vélfræðingur, f. 11. júlí 1952. 2) Jóhannes Rúnar verkfræðingur, f. 14. apríl 1955, kvæntur Andreu Guðmundsdóttur félagsráðgjafa. Börn þeirra eru Guðmundur Daði, f. 16. mars 1979, og Hildur Lovísa, f. 15. maí 1990. 3) Ólafur Sævar húsasmíðameistari, f. 19. febrúar 1959, kvæntur Sólbjörgu Hilmarsdóttur grunnskólakennara. Börn þeirra eru Magnús Þór, f. 8. maí 1984, d. 19. mars 1994, Ingi Þór, f. 5. jan. 1999, og Aron Smári, f. 14. nóv. 2001. 4) Viðar, tölvunarfræðingur, f. 25. jan. 1962, kvæntur Emelíu Báru Jónsdóttur hjúkrunarfræðing. Börn þeirra eru Jón Viðar, f. 28. nóv. 1986, Nanna Ingibjörg, f. 27. okt. 1987, barn Nönnu er Viðar Nói Hansson, f. 27. des. 2007, og Elísa Rún, f. 12. nóv. 1992. Á árunum 1973-1989 var Guðrún formaður Verkakvennafélags Keflavíkur og Njarðvíkur og árið 1989 varð hún síðan varaformaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis til ársins 2003. Guðrún hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir verkalýðshreyfinguna, verið varamaður í miðstjórn ASÍ og Verkamannasambands Íslands, var í Sambandstjórn ASÍ og sat í MFA. Eftir að eiginlegum starfsferli lauk var hún formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum og sinnti því starfi þar til hún lést. Útför Guðrúnar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 1. júní 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Ég hafði heyrt af Guðrúnu á sínum tíma. Hún starfaði í Hf. Keflavík eða Háeff eins og Keflvíkingar kölluðu frystihúsið. Hafði heyrt af réttlætiskennd hennar og baráttugleði meðal starfssystra. Þá var bónuskerfið á bernskuskeiði. Verkakonur voru ósáttar við fyrirkomulagið og kröfðust samninga. Guðrún var trúnaðarkona á vinnustaðnum. Hún sótti fundi í Verkakvennafélaginu og lét til sín taka þar. Verkakonur sáu að það var foringjaefni á ferð. Hún var kjörin varaformaður félagsins. Nokkru seinna 3. apríl 1973 barst sú sorgarfregn að mæðgurnar Sigurrós Sæmundsdóttir formaður félagsins  og Anna Pétursdóttir fyrrverandi formaður, hefðu látist í bifreiðaslysi. Það var mikið áfall hér um slóðir því þær mæðgur voru vinsælar og virtar atgerfiskonur. Guðrúnu var mjög brugðið. Hún hafði fallist á að verða varaformaður í skjóli Sigurrósar. Þar væri forystan. Hún hafði aldrei reiknað með því að verja stórum hluta sólarhringsins alla daga í störf að verkalýðsmálum. Við þessar aðstæður kynntumst við Guðrún. Ég var þá formaður Verkalýðs- og sjómannafélagsins og samstarf félaganna hafði vissulega verið gott. Verkakonur í Keflavík/Njarðvík voru mjög samstíga. Þær fylktust um Guðrúnu og hétu órofa samstöðu og samvinnu. Þær leituðu til Verkalýðs- og sjómannafélagsins um ráð og leiðbeiningar. Við þessar aðstæður tók Guðrún við keflinu. Guðrún hikaði ekki lengi, hún fylkti liði. Hún varð formaður af lífi og sál, hélt vel utan um samninga félagsins og lét til sín taka hvar sem hún sá tækifæri til í þágu verkakvenna. Guðrún var mikill jafnréttissinni og barðist eins og ljón fyrir hlut kvenna innan og utan verkalýðshreyfingarinnar. Þar náði hún árangri bæði í héraði og á landsvísu. Það hefur oft orðið mér umhugsunarefni hvað þætti forystukvenna í verkalýðshreyfingunni hafa verið gerð lítil skil. Halda mætti af umfjöllun, að upphaf jafnréttisbaráttu hafi verið með tilkomu rauðsokka eða Kvennalista. Er það mikill misskilningur. Þegar saga forystukvenna í verkalýðshreyfingunni verður skráð mun hlutur Guðrúnar E. Ólafsdóttur birtast á skýran hátt. Samstarf okkar Guðrúnar varð mikið því félögin ákváðu að setja á fót skrifstofur undir einu þaki. Á þessum tíma var mikið um að vera. Verkalýðshreyfingin hafði meira vægi en séð verður í dag. Þá voru atvinnuleysisbætur greiddar út hjá verkalýðsfélögunum og þá var mikið um svokallaða vinnustaðasamninga, bæði á Keflavíkurflugvelli og niðurfrá eins og við orðum það. Það var síðan árið 1989 að verkalýðsfélögin í Keflavík/Njarðvík sameinuðust. Var það að frumkvæði Guðrúnar. Hún sagði; Sameinuð stöndum við en sundruð föllum við. Saman verða félögin hreyfiafl framfara og árangurs, annars ekki. Hún hóf fullt starf hjá félögunum þegar umsvifin jukust og starfaði þar fram yfir sjötugs aldur.

Guðrún var mikil tilfinningavera, glaðsinna og afar skemmtileg í samstarfi. Hún mátti ekkert bágt sjá án þess að láta sig það varða. Sumir horfa í gaupnir sér er þeir frétta af erfiðleikum annarra. Hún tók til hendinni, hjálpaði og fylgdi eftir þar til málin voru leyst. Hún var jafnaðarmaður í bestu merkingu þess orðs, fylgdi Alþýðuflokknum að málum og síðar Samfylkingu. Hana dreymdi um sterkan jafnaðarmannaflokk, sem gæti látið hugsjónir um betra og réttlátara þjóðfélag rætast. Einhverju sinni lét hún svo um mælt að fyrir sér væri verkalýðshreyfingin og jafnaðarstefnan sem samrýmdar systur.

Guðrún hætti ekki afskiptum af félagsmálum þótt hún væri sest í helgan stein, heldur var hún kosin formaður Félags aldraðra á Suðurnesjum og gegndi hún því starfi þar til hún veiktist í febrúar sl. Þar naut sín sem annars staðar réttlætiskenndin, krafturinn og einbeitnin, sem einkenndi hana. Er ég heimsótti hana á sjúkrabeðið var henni efst í huga að skipuleggja starf aldraðra. Við, sem störfuðum með henni í verkalýðshreyfingunni, mikill fjöldi vina og kunningja sakna Guðrúnar sárt. Sakna gleðinnar, einlægninnar og hlýjunnar sem geislaði af henni hvar sem hún fór. Við hjónin munum sakna vináttu hennar sem við áttum um nær 40 ára skeið og aldrei bar skugga á. Aðstandendur eiga auðvitað sárast um að binda. Þeir hafa misst mikils, en minningin um óvenju vel gerða konu mun lifa.

Karl Steinar Guðnason.