Guðrún Þórsdóttir fæddist í Reykjavík þann 28. júní 1951. Hún lést á heimili sínu 25. maí 2010. Foreldrar hennar eru kaupmannshjónin Þór Þorsteinsson og Anna Hulda Sveinsdóttir sem einnig voru fædd í Reykjavík. Eftirlifandi eiginmaður Guðrúnar er Ólafur Jón Stefánsson. Þau áttu saman fjögur börn, Þór, Stefán, Önnu Huldu og Friðrik Boða. Guðrún útskrifaðist frá Kennaraskóla Íslands árið 1971. Hún stundaði einnig nám við Kennaraháskólann í Emdrup í Kaupmannahöfn. Guðrún starfaði sem kennari á árunum 1971-1989 í Árbæjarskóla, Melaskóla, Grunnskólanum á Ísafirði og Hólabrekkuskóla eða þar til hún hóf störf hjá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis. Við tilfærslu verkefna á milli ríkis og borgar 1989 hóf Guðrún svo störf við Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Síðustu 5 árin stýrði Guðrún Vinnuskóla Reykjavíkur. Guðrún hefur aðallega látið til sín taka á sviðum menntamála og umhverfismála. Allt hennar starf miðaði að því að þroska ungmenni á eigin forsendum. Einkum voru tengsl atvinnulífs og skóla henni hugleikin. Guðrún hafði frumkvæði að ýmsum nýjungum í skólastarfi og má þar nefna Stóru upplestrarkeppnina, Nýsköpunarkeppni grunnskóla og atvinnutengt nám. Guðrún hafði með höndum fjölmörg verkefni á vegum fræðsluyfirvalda í samstarfi við ráðuneyti, Reykjavíkurborg, samtök í atvinnulífinu og listastofnanir. Hún hafði frumkvæði að mörgum og sá um framkvæmd á öðrum. Útför Guðrúnar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 3. júní 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.
(Jónas Hallgrímsson)

Þessar ljóðlínur listaskáldsins góða koma mér í hug við ótímabært fráfall nöfnu minnar, sem öðrum fremur var gædd lífsgleði og krafti sem fáum er eiginlegt að miðla. Mín fyrst minning um hana er frá foreldrafundi í Hólabrekkuskóla, þar sem hún flutti ógleymanlegt erindi um börn sem standa höllum fæti í samfélaginu. Hún var fyrsti kennarinn sem ráðin var við skólann í ómótuðu barnmörgu hverfi í hraðri uppbyggingu. Það var Guðrúnu eiginlegt að laða það besta í fari hvers einstaklings, og virkja styrkleika í hverju einu sem hugur stefndi til. Fyrir rúmum áratug lágu leiðir okkar saman í verkefni sem okkur báðum var hugleikið, að leiða kynslóðir saman til góðra verka, Reykjavík Menningarborg 2000 Kynslóðir mætast þá vann hún á Fræðslumiðstöð borgarinnar. Að þessu komu margir aðilar úr ólíkum áttum, unnu verkefni saman, gagnkvæmar heimsóknir eldri borgara í grunnskóla, og börnin komu, þar sem öldrunarþjónusta var veitt. Í upphafi var ákveðið að efna til uppskeruhátíðar í Miðbæjarskólanum, þar sem kynnt voru fjölmargar hugmyndir, og allir starfsstaðir áttu fulltrúa í þeirri dagskrá. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar kom að undirbúningi, hve gott skipulag og yfirsýn Guðrún hafði í stóru sem smáu. Við áttum það sameiginlegt að hafa metnað fyrir því að eftir þessu yrði tekið og framtíðarsýn um að skólakerfið þróaðist í þá átt að vera áhugavert, bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Þegar hún sagði mér að hún ætlaði að klæðast peysufötum, þá fer ég í upphlutinn minn, við vorum prúðbúnar, og skörtuðum okkar fegursta þennan dag. Eftir þá miklu reynslu og þekkingu sem varð til á þessum tíma ákváðum við að halda áfram, með Kynslóðir saman í Breiðholti. Við lögðum upp með vilja og áræði í farteskinu, án þess að hafa nokkuð fyrir okkur, annað en ætlunarverkið, hún sá um tækni og pappírsvinnu, ég var á akrinum, með fólkinu og aflaði aðfanga og samstarfsaðila sem til þurfti. Það hefur margt áunnist á liðnum árum undirritaðir samningar, viðurkenningar veittar af ýmsu tagi. Í febrúar árið 2003 var sýning um nýbreytni í skólastarfi Skóli á nýrri öld í Ráðhúsinu, þar var Guðrún í fararbroddi við uppsetningu og móttöku þess efnis sem upp var sett. Hún var kvik á fæti kát og glöð, ljósa síða hárið, sólgleraugun, og hlátur hennar gleymist engum. Þegar Þjónustumiðstöð Breiðholts tók til starfa árið 2005, var hún ráðin kennsluráðgjafi, þar af leiðandi lágu leiðir okkar nær, þar sem við störfuðum báðar í hverfinu sínu á hvorum væng, kynslóðanna. Við áttum marga og góða fundi sem við kölluðum borðshorn óskast, stundum með fleirum. Eitt sinn nefndi ég við samstarfsfélaga okkar að við hefðum hist, varð honum að orði þá stendur eitthvað Guðrúnalegt til. Síðasta samstarfsverkefnið okkar var Kynslóðir starfa saman í Garðinum Breiðholti, eldri borgarar, og nemendur Vinnuskóla Reykjavíkur. Við funduðum saman vinnufélagarnir, hún og fulltrúi eldri borgara þann 15. mars, eins og ætíð, var Guðrún sami geislinn og gleðigjafinn, að þetta yrði okkar síðasta samvera, eigum við erfitt með að átta okkur á að er staðreynd. Í mörg ár hittumst við á aðventunni og áttum okkur gæðastund, þar var hún veitandinn og við skiptumst á gjöfum, sem við völdum af einlægni. Við náðum ekki saman fyrr en eftir áramót á þessu ári, og fór ég með mynda albúmið sem ég raðaði saman sögu fyrsta kynslóðaársins. Við vorum sælar, og hugsuðum til vinkonu okkar Ásdísar Skúladóttur verkefnisstjóra, og ætluðum að hitta hana á vordögum. Seinna er aldrei var eitt sinn sagt við mig, vordagarnir urðu öðruvísi. Illvígur sjúkdómur greindist og ljóst að hörð barátta var framundan, af öllum, hún, lögð að velli. Ljósið kom  á þessum erfiða tíma er fyrsta barnabarnið fæddist, lítil Guðrún. Ég kveð nöfnu mína með hvatningarorðum hennar til mín fyrir nám og störf í korti sem hún sendi mér, þar segist hún alltaf vera tiltæk á hliðarlínunni. Myndin er af tveim gömlum konum haldast í hendur sitjandi saman í djúpum stólum, þannig sá hún framtíð okkar.

Ó hve sælt á æfi sinnar vegi
að eiga vinarhjarta gott og traust.
Þar sem hælis synjað er þér eigi
er annað bregzt og harmur sár og tregi
bugar þig, sem hreggið blómum haust.
(Hannes Blöndal)

Hafðu þökk fyrir allt elsku nafna mín, hvíl í friði, minningin lifir.
Við Halldór sendum eiginmanni, börnum og öllum ástvinum einlægar samúðarkveðjur.

Guðrún Jónsdóttir.