Guðfinna Jónsdóttir var fædd á Neðri-Svertingsstöðum í Miðfirðir 23. apríl 1917. Hún lést á Landakotsspítala 12.6. 2010. Foreldrar hennar voru Jón Eiríksson f. 1885, d. 1975 og eiginkona hans Hólmfríður Bjarnadóttir f. 1891, d.1981 bændur á Neðri-Svertingsstöðum. Systkini Guðfinnu eru: Ingunn látin, Þorgerður, Eiríkur látinn, Bjarni, Ingibjörg Guðlaug, Snorri, Stefán, Eggert Ólafur, Gunnlaugur Ragnar og Ragnheiður. Guðfinna giftist Böðvari Friðrikssyni frá Stóra Ósi 1947 og stofnuðu þau nýbýlið Syðsta–Ós og bjuggu þau á Syðsta–Ósi þar til Böðvar lést, en fljótlega eftir það tóku synir þeirra Jón og Friðrik við búrekstrinum en Guðfinna fluttist til Reykjavíkur. Hún starfaði á Heilsuverndarstöðinni við Baróstíg í Reykjavík og við heimilishjálp á vegum Reykjavíkurborgar og bjó lengst af í Bólstaðarhlíð 60. Guðfinna og Böðvar eignuðust 7 börn en þau eru: 1) Þorvaldur f.1946, maki Hólmfríður Skúlaóttir f. 1947, börn þeirra a) Guðfinna Halla f. 1970, maki Baldur Eiríksson f. 1969, börn þeirra Rannveig Dóra og Þorvaldur Tumi, b) Skúli Magnús f. 1973, maki Íris Baldursdóttir f. 1973, synir þeirra Baldur og Ari, c) Harpa f. 1980, maki Haraldur Ægir Guðmundsson f. 1977, dætur þeirra Halldóra Björg og Matthildur. 2) Hólmfríður f. 1948, maki Sveinn Kjartansson f. 1943, börn þeirra a) Anna f. 1970, maki Ólafur Páll Jónsson f. 1969, dætur þeirra Ása og Eir, b) Böðvar f. 1971, maki Sigurlaug Hjaltadóttir f. 1976, sonur þeirra Hjalti, dætur Böðvars og Jónu Bjargar Howard eru Hólmfríður María og Ylfa Rós. c) Lára f. 1974, maki Þorvaldur H. Gröndal f. 1972, dóttir þeirra Þórunn d) Hildur f. 1975, maki Fannar Harðarson f. 1981, dætur þeirra Freyja og Fönn. e) Kjartan f. 1978, maki María Huld Markan Sigfúsdóttir f. 1980, dóttir þeirra Móey. 3) Ingibjörg f. 1951, börn hennar a) Böðvar Ingvarsson f. 1973, maki 1 Björg Holsvik, þau skildu, börn þeirra Högni og Una, maki 2 Anne Lise Haldorsen, barn þeirra Markús og barn hennar Mille. b) Jón Asleson og Þóra Asledóttir, tvíburar f. 1989, 4) Jón f. 1949, maki Ingibjörg Guðrún Jóhannesdóttir f. 1946, börn þeirra a) Guðfinna f. 1972, maki Sigurvald Ívar Helgason f. 1972, sonur þeirra Ísak Hólmar. b) Guðmundur Hólmar f. 1974, d. 1977. c) Ingibjörg f. 1978, maki Hrafnkell Lárusson f. 1977. d) Guðmundur Hólmar f. 1979, maki Þórey Edda Elísdóttir f. 1977, sonur þeirra Bragi Hólmar e) dóttir Ingibjargar og stjúpdóttir Jóns, Katla Gylfadóttir f. 1964, maki Paul Dimitri Naithn f. 1961, barn þeirra Haraldur Loki. 5) Friðrik f. 1952, d. 2009 maki Þórunn Guðfinna Sveinsdóttir f. 1962, synir þeirra a) Böðvar f. 1983 b) Guðmundur Grétar f. 1985 c) Sveinn Óli f. 1988 6) Pétur f. 1955 maki Hildur Árnadóttir f. 1956, börn þeirra a) Sif f. 1992. b) Þór f. 1994, c) dóttir Hildar og stjúpdóttir Péturs Eyrún f. 1976. 7) Elísabet f. 1957, maki Sverrir Arngrímsson, f. 1956, þau skildu, börn þeirra: a) Ellen f. 1982, maki Andri Björn Gunnarsson f. 1982, b) Ragnar f. 23.9. 1987. Útför Guðfinnu fer fram frá Melstað í Miðfirði í dag, 23. júní 2010, og hefst athöfnin kl. 14.
Elsta systir mín, Guðfinna, er nú fallin frá í hárri elli, og eru nú um 40 ár liðin frá því maður hennar, Böðvar Friðriksson, hreppstjóri frá Stóra-Ósi og bóndi á Syðsta-Ósi, andaðist óvænt og skyndilega mitt í önnum starfs og lífs. Þau voru athafnasöm og samhent hjón, Guðfinna og Böðvar og hófu sambúð sína og búskap með því að byggja yfir sig íbúðarhús á jarðnæð heimajarðarinnar: nýbýlið Syðsta-Ós. Og þau urðu frjósöm og uppfylltu jörðina, eins og boðað er að gera eigi í Genesis og eignuðust sjö börn á ellefu árum. Það var ríkuleg uppskera, því að öll hafa börn þeirra staðið sig með sóma í lífsbaráttunni og borið foreldrum sínum gott vitni. Á lífi eru þau öll, utan Friðrik, bóndi á Stóra-Ósi, sem bráðkvaddur var í byrjun árs 2009. Þegar ég lít um öxl, finn ég, að margar minningar mínar frá árunum milli tektar og tvítugs eru tengdar þeim Böðvari og Guðfinnu. Böðvar var vinmargur maður, enda með eindæmum þægilegur og frjór viðræðu og fór ekki í manngreinarálit. Einn vina hans var öðlingurinn Pétur Stefánsson á Ytri- Reykjum sem bæði var fjölhæfur í verklegum efnum, t.d. í matreiðslu og við ræktun suðrænna jurta í gróðurhúsum, og margvís til flestra hluta, þótt óskólagenginn væri.
Ég var einn rúman sumartíma hjá Pétri, tólf ára snáði. Þá bjuggum við tveir í Ásbyrgi, samkomuhúsi sveitarinnar, undum vel okkar hag, og var Pétur jafnframt vörslumaður hússins. Það komu margir í heimsókn til Péturs um þær mundir, sumir til að kaupa tómata eða annað grænmeti, þó almennt séð væri slík vara þá ekki í hávegum höfð á sveitabæjum, en aðrir komu með brauð til bakstur sem bakað var í heitum jarðvegi brekkunnar neðan við Ytri-Reyki, aðrir bara til að spjalla og fá sér kaffisopa, því að Pétur var greiðvikinn maður og gestrisinn. Einna oftast kom Böðvar og fór alltaf vel á með þeim, en er líða tók á sumar fór Guðfinna æ oftar að láta sjá sig, og þá fór mig að renna í grun, þótt ungur væri og grænn, að þarna hefðu þau sín stefnumót og ættu sitt tilhugalíf í skjóli vináttunnar við Pétur. En þetta var auðvitað algert tabú. Þetta vor lauk Guðfinna sínu gagnfræðaprófi við Menntaskólann á Akureyri og hlaut framhaldseinkunn til náms, en þótt frænka hennar byði henni aðstoð til lengra náms, kærði hún sig ekki um meiri skólagöngu; það var hennar val, og vildi hún aldrei ræða það mál. Það varð því hennar hlutskipti að verða húsmóðir í sveit og annast um matseld og þrif, börn og buru. Samt var hún mun hneigðari til útiverka en inni, sem best kom í ljós á stelpuárum hennar; þá vildi hún forðast inniverkin, en þess í stað vera með pabba sínum og hjálpa honum við gegningar, heyskap og vorverk. Verkaskiptingin milli kynjanna hefur löngum verið klár og skýr á Íslandi bændaþjóðfélagsins. Nánast frá upphafi landnáms og út tuttugustu öldina: konur sáu um inniverkin, karlar um útiverk og aðdrætti. Þegar lokið var byggingu nýs ibúðarhúss á Syðsta-Ósi flutti Guðfinna að heiman og búskapur þeirra Böðvars hófst og var að hefðbundnum hætti með sauðfé, kýr og hross.
Árið 1948 kom það í hlut Böðvars að gerast hreppstjóri í Miðfirði. Faðir hans, Friðrik Arnbjörnsson, hafði um langt skeið gegnt stöðunni og ýmsum öðrum félagslegum störfum fyrir sveitunga sína, en hann lést þetta ár. Þótt umdæmið væri hvorki víðáttumikið né fjölmennt, þá fylgdu því ríkar skyldur og samskipti vjð bændur og búalið og m.a. gestanauð og erill sem bitnaði ekki síst á húsfreyjunni. Þau Guðfinna og Böðvar voru bæði í meira lagi veitul og gestrisin og milli þeirra var jafnan samstaða og ágreiningslaust. Og árin liðu, enginn fær gert við því, afkoman kannski viðunandi, en þó lítt fram yfir það, börnin uxu úr grasi og urðu hjálparhellur við búskapinn, og þegar ég lít yfir sviðið, þá finnst mér þetta hafi verið samstíga, glaðvær og hamingjusöm fjölskylda. En sagt er að Paradísarvistin hjá Adam hafi ekki verið langæ, en hvað sem satt er í því, þá andaðist húsbóndinn á Syðsta-Ósi óvænt og skyndilega og varð öllum harmdauði, en viðmið öll breyttust. Guðfinna og börnin létu þó ekki deigan síga, börnin öfluðu sér praktískrar menntunar, tveir synir tóku að sér umsjón og rekstur búsins, og er þar nú búrekstur allur nýtískulegur og með miklum myndarbrag, og túnasléttur í aflíðandi halla óvíða fegurri en þær sem við blasa ofan við árós Miðfjarðarár. Þegar hér var komð sögu fannst Guðfinnu rétt að hverfa af vettvangi og gefa nýrri og athafnasamri kynslóð lausan tauminn sem hún sá að var starfi sínu vel vaxin. Því flutti hún til Reykjavíkur, keypti sér íbúð í Bólstaðarhlíð 60, fann sér vinnu við hæfi fram að eftirlaunaaldri, undi sér vel, ein og sæl, las og hlustaði eftir æðaslætti þjóðlífsins, og hafði skoðun á flestum fyrirbærum ef eftir því var leitað. Hún var hógvær og hlédræg og stundum um of, fannst mér, þótt hún hefði ríka skapsmuni. Hún naut þess að eiga stóra og dugmikla fjölskyldu sem hafði við hana lifandi samband. Öllum tók hún vel sem hana heimsóttu, skyldum sem óskyldum. Og þarna í Bólstaðarhlíðinni reykvísku dvaldi hún í sínum ekkjudómi um 40 ára skeið í sátt og samlyndi við guð og menn og góðar vættir.
Gefi nú góður guð henni raun lofi betri.
Bestu kveðjur,
Snorri Jónsson.