Kjartan G. Ottósson fæddist í Reykjavík 14. janúar árið 1956. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 28. júní sl. Foreldrar hans voru hjónin Gyða Jónsdóttir, heimilisiðnaðarkennari, f. 4. ágúst 1924 á Sauðárkróki og Ottó A. Michelsen, forstjóri IBM á Íslandi, f. 10. júní 1920 á Sauðárkróki, d. 11. júní 2000. Alsystkin Kjartans eru 1) Óttar, f. 14. jan. 1956. Óttar kvæntist Sigþrúði Albertsdóttur. Þau skildu. Þeirra sonur er a) Kjartan Þór, f. 13. júní 1988. Önnur börn Óttars eru, b) Kaare Stark, f. 18. maí 1986, og c) Samúel Hjalti, f. 18. júlí 1996. 2) Helga Ragnheiður, f. 14. mars 1957. Eiginmaður hennar er Stefán S. Guðjónsson. Börn þeirra eru a) Snorri, f. 7. desember 1981, b) Guðrún, f. 20. janúar 1983, c) Ottó S. Michelsen, f. 29. apríl 1986, d) Ragnheiður Gyða, f. 20. nóvember 1990. 3) Geirlaug, f. 16. september 1964. Eiginmaður hennar er Grímur Guðmundsson. Börn þeirra eru a) Bryndís Gyða, f. 5. júní 1991, b) Snæfríður, f. 13. apríl 1993, c) Guðmundur Ottó, f. 28. september 2000, d) Grímur Dagur, f. 2. október 2002. Systkin Kjartans samfeðra eru, 1) Helga Ehlers Wolf, f. 5. janúar 1945. Maki Reinhard Wolf. Börn þeirra eru Helga Ursula, f. 8. febrúar 1973, b) Reinhard Albert, f. 10. október 1974, c) Christiane Henriette, f. 8. maí 1979, d) Peter Andreas, f. 10. júní 1981, öll búsett í Köln, 2) Theodór Kristinn, f. 25. júlí 1951. Maki Árný Elíasdóttir. Börn þeirra eru a) Rúnar, f. 7. júní 1974, b) Grétar Sveinn, f. 5. apríl 1980. Kjartan útskrifaðist stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1974 18 ára gamall og var dúx úr áfangakerfi. Hann lauk BA prófi í íslensku frá Háskóla Íslands árið 1979 og kandídatsprófi frá sama skóla árið 1982. Doktorsprófi lauk Kjartan frá Lundi árið 1992. Að auki stundaði hann doktorsnám við University of Maryland á árunum 1988 til 1992. Kjartan dvaldi langdvölum erlendis við nám og rannsóknir – síðustu 18 árin var hann búsettur í Osló. Kjartan var skipaður prófessor í íslensku við Háskólann í Osló árið 1992 og starfaði þar til dauðadags. Hann gegndi jafnframt 20% prófessorsstöðu við Háskólann í Bergen frá árinu 2008. Kjartan var mikilvirkur fræðimaður og liggja eftir hann bækur og fjöldi greina í bæði innlendum og erlendum fræðitímaritum. Rannsóknir hans voru einkum á sviði íslenskrar og norrænnar málfræði og málsögu en þar fjallaði hann meðal annars um þróun miðmyndar í íslensku og norrænum málum (einkum í doktorsritgerð sinni, The Icelandic Middle Voice, 1992), um norsk máláhrif í íslensku til forna og miðnorska málþróun, um málbreytingar og málheimildir og um sögu íslenskrar málræktar (Íslensk málhreinsun. Sögulegt yfirlit, 1990). Kjartan stýrði framhaldsnámi í málvísindum og textafræði við Óslóarháskóla 2000-2002 og tók þátt í ýmsum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, svo sem FORSE — Forskergruppe i samfunn og språkendring við Björgvinjarháskóla frá 2007 og Linguistic Theory and Grammatical Change við Centre for Advanced Study í Ósló 2004-2005. Þá átti hann sæti í ritstjórn tímaritsins Collegium medievale 2002-2007. Kjartan var í forsvari fyrir Heimskringlu-rannsóknarverkefninu við Institutt for lingvistiske og nordiske studier á árunum 1993-2000. Í febrúar 2008 fékk Kjartan hin kunnu Ingerid Dal og Ulrikke Greve Dal verðlaun fyrir rannsóknir sínar á indóevrópskum tungumálum og sögu íslenskrar tungu. Útför Kjartans G. Ottóssonar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 6. júlí 2010, og hefst athöfnin klukkan 11.

Fátt er mikilvægara í þessu lífi en fólkið sem okkur þykir vænt um. Þegar einhver sem er okkur nákominn er kallaður burtu er líkt og fótunum sé kippt undan okkur og sorgin verður óbærileg. Þannig leið mér þegar ég var stödd á flugvelli í Bandaríkjunum á leið heim til Íslands og mér var tilkynnt símleiðis að Kjartan, stóri bróðir minn væri dáinn. Ég hafði vonast til að ná heim í tæka tíð en hann fékk hvíldina fyrr en nokkur hafði reiknað með.
Kjartan var góður bróðir. Væntumþykja hans til mín var skilyrðislaus og einlæg og um hana efaðist ég aldrei. Hann sýndi það bæði í orðum og verki hversu vænt honum þótti um mig. Ég er þakklát fyrir símtalið okkar kvöldið áður en ég fór til Bandaríkjanna. Þetta símtal mun ég geyma í hjarta mér.
Ég hef oft velt fyrir mér hvernig fólk sem verður fyrir því að fá illvígan sjúkdóm og er kippt út úr lífinu á besta aldri getur sýnt það æðruleysi og kjark sem við verðum oft vitni að. Í fyrrnefndu símtali fannst mér eins og Kjartan væri að hugga mig í stað þess að ég væri að veita honum stuðning eins og mér fannst ég þurfa að gera.
Þegar sorgin dynur á okkur eru það minningarnar sem ylja. Eitt af því sem við Kjartan töluðum um í síðasta samtali okkar var einmitt mikilvægi minninganna. Við töluðum um hvað við værum lánsöm að á milli okkar hefðu aldrei fallið meiðandi eða særandi orð. Við vorum alltaf vinir. Í sorginni og söknuðinum er það ómetanlegur styrkur.
Kjartan var fræðimaður af lífi og sál. Fræðimennskan var honum í senn ástríða og áhugamál. Við hlógum stundum að þeim nördahætti" í honum að þurfa alltaf að vera að afla sér fróðleiks hvar og hvenær sem var. Hann kunni fleiri tungumál en ég kann að nefna. Þegar hann var orðinn fárveikur og lá uppi í rúmi með skáldsögu þá varð mér á að spyrja hann hvort hann væri að lesa eitthvað spennandi. Hann svaraði að bragði að þetta væri mjög áhugaverð skáldsaga á pólsku eftir mjög þekktan höfund. Nú? spurði ég, kannt þú pólsku þannig að þú getir lesið þér að gagni? Nei, svaraði hann, ég nota bara orðabók! Svona var Kjartan, alltaf að safna í sarpinn. Þegar aðrir lásu skáldsögur gat hann fundið sér það til dundurs að lesa fræðibók um málfræði tungumáls sem er löngu útdautt, svo eitthvað sé nefnt.
Minningarnar eru ótalmargar. Mér verður hugsað til gönguferðanna okkar.
Meðan við bjuggum enn í foreldrahúsum eyddi Kjartan drjúgum hluta dagsins inni í herberginu sínu að sinna hugðarefnum sínum og námi. Þá ákvað hann að til að halda heilsu yrði hann að fara reglulega í göngu. Mig minnir að gönguferðirnar hafi verið farnar á u.þ.b. klukkutíma fresti og alltaf bauð hann mér að fara með. Í þessum gönguferðum var margt spjallað og oft hef ég hugsað um hvernig hann nennti að hafa þetta stelpuskott, átta árum yngri alltaf hangandi aftan í sér. Þegar ég varð eldri hjálpaði hann mér að læra undir próf og gönguferðirnar voru gjarnan notaðar til þess að hlýða mér yfir. Þó að Kjartan hafi ákveðið að leggja fyrir sig íslenska málfræði og svo seinna málvísindi var hann jafnvígur á öll fög og hefði án efa staðið sig með prýði í hverju sem hann hefði tekið sér fyrir hendur. Hann gerði góðlátlegt grín að slakri kunnáttu minni í landafræði því mér var alveg fyrirmunað að læra heitin á öllum þessum sýslum, ám og vötnum og gat engan vegið skilið hvernig þetta skipti máli! Alltaf hélt hann þó áfram að reyna að troða í krakkann því hann var kennari í víðasta skilningi þess orðs. Þegar ég kom í gagnfræðaskóla og hann var fluttur að heiman fór ég til hans eins oft og ég gat. Það spillti heldur ekki að hann átti alltaf kex og bannaði mér aldrei að fá mér meira og meira! Hann hjálpaði mér að skrifa fyrstu ritgerðina mína. Ég fann einmitt þessa ritgerð í fórum mínum um daginn og þá rifjast upp tíminn þegar hann var að kenna mér galdurinn að skrifa góða ritgerð. Núna sé ég eftir að hafa ekki sagt honum hvað þetta skipti mig miklu máli. En kannski vissi hann það bara. Stundum eru orð óþörf.
En Kjartan var ekki bara góður bróðir, hann var líka góður frændi. Hann var einstaklega barngóður og þótti vænt um systkinabörn sín eins og þau væru hans eigin. Stóran hluta fullorðinsára sinna bjó Kjartan í útlöndum en það hindraði hann ekki í því að hafa samskipti við börnin okkar. Hann sendi þeim póstkort og bréf sem skrifuð eru með einni þeirri fallegustu rithönd sem ég hef séð. Núna eru þessi bréf fjársjóður. Kjartan kom til Íslands eins oft og hann gat. Fölskylda mín bjó lengi á Höfn í Hornafirði og jafnvel þó að Kjartan væri hér á Íslandi í stuttri heimsókn reyndi hann yfirleitt að heimsækja okkur. Alltaf mundi hann afmælisdaga og kom færandi hendi þegar hann kom í heimsókn. Í Íslandsheimsóknum gaf hann börnunum nammi en aðrar gjafir skyldu alltaf vera bækur, góðar bækur.
Minningarnar eru dýrmætari en gull því þær getur enginn tekið frá okkur og fólkið sem okkur þykir vænt um er sá mesti fjársjóður sem við getum átt.
Elsku Kjartan minn. Ég mun alltaf vera þér þakklát fyrir einlæga vináttu og væntumþykju. Einlægni þín og góðmennska snerti alla sem komust í kynni við þig enda þótti öllum vænt um þig sem þekktu þig. Sannfæringin um að þú sért hjá okkur og fylgist með okkur þrátt fyrir það að við getum ekki lengur faðmað þig gefur mér styrk og hjálpar mér í gegnum söknuðinn. Ég veit að pabbi okkar hefur tekið vel á móti þér og þið styrkið hvor annan.
Guð geymi þig alltaf, elsku bróðir, minningin um þig lifir í hjörtum okkar.

Geirlaug Ottósdóttir.

Kæri Kjartan, eða Tasti eins og þú varst oft kallaður á mínu heimili.
Lífið er svo sannarlega ekki alltaf sanngjarnt og mér finnst erfitt að sætta mig við það að svona ljúfur og góður maður sem alltaf var góður við alla skuli vera tekinn frá okkur í blóma lífsins og á besta aldri. Mér finnst þetta svo ósanngjarnt og þú áttir engan veginn skilið að þurfa að fara svona fljótt. Það bjóst enginn við því að þetta myndi gerast svo fljótt og þegar þú fyrst sagðir okkur frá því að þú værir kominn með þennan illræmda sjúkdóm sem heltekur líkamann datt mér ekki annað í hug en þú myndir læknast og lifa í mörg ár í viðbót. Ég hugsaði aldrei um það að þú myndir vera tekinn svo fljótt frá okkur öllum. Það er einungis tæplega mánuður síðan við sátum öll við borðstofuborðið heima hjá okkur á afmælinu mínu 5. júní og þú sagðir brandara og gerðir þitt besta til að draga huga okkar frá því að þú varst orðinn eins veikur og þú varst. Og okkur fannst enn vera von. Þú flaugst aftur til Noregs og vonaðist til að geta fengið áframhaldandi meðferð. En svo var því miður ekki. Þú vildir koma til Íslands og eiga hér síðustu dagana þína. Ég hélt að það yrðu nú kannski einhverjar vikur, en þú kvaddir aðeins þrem dögum eftir að þú komst aftur til Íslands.
Þú varst alltaf góður við okkur systur frá því við vorum litlar, enda dætur litlu systur þinnar sem þér þótti svo vænt um. Alltaf var jafngaman að fá kortin frá þér, þau voru með myndum af norskum tröllum og kveðjum frá Noregi þar sem þú bjóst lengi, prófessor við háskólann í Osló og varst virtur maður innan þíns sviðs og vinamargur. Þegar við bjuggum á Hornafirði komstu yfirleitt til okkar á hverju ári og varst hjá okkur í dágóðan tíma, áttir iðulega jól og páska með okkur. Þú komst alltaf færandi hendi þegar þú komst í heimsókn, og klikkaðir aldrei á því að gefa mömmu - systur þinni konfekt úr fríhöfninni og við stelpurnar fengum nammi líka! Þú varst mikill fræðimaður og fræðari og gafst okkur oftast bækur í jóla- og afmælisgjafir. Þú hafðir mikinn áhuga á að læra og vildir deila þeim áhuga með okkur. Síðasta gjöfin sem þú gafst mér var bók um landafræði. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikil landafræðikona en þessi bók mun alveg örugglega nýtast mér einhvern daginn og hún lýsir þér svo vel af því að þú vildir alltaf vera að bæta við þekkingu þína og deildir þeim áhuga með okkur.
Við áttum gott spjall bæði á afmælinu mínu og svo í útskriftinni hjá Gyðu frænku. Ég skynjaði áhuga þinn þá eins og alltaf að vita hvað væri að gerast í lífi mínu. Þú spurðir mig hvernig gengi, hvað væri á dagskránni hjá mér og svo hrósaðirðu mér svo fallega fyrir pistlana mína sem þú sagðist alltaf lesa og ég var alveg innilega glöð og stolt að fá hrós frá íslenskuprófessornum og málasérfræðingnum.
Milli þín og mömmu var mjög gott samband og þið voruð mjög náin. Mér fannst þú duglegur að rækta sambandið og ég man að alltaf þegar síminn hringdi og það voru margir tölustafir á númerabirtinum vissum við að Kjartan frændi var að hringja og kölluðum mamma Kjartan!!! og svo spjölluðuð þið lengi saman. Við systur skrifuðum honum stundum bréf til Noregs og ekki brást það að hann skrifaði til baka og það voru ekki fá bréfin sem við fengum send frá Kjartani frænda. Hann var einlæglega barngóður og hafði afar gaman af börnum. Hann talaði til dæmis mikið um Styrkár Flóka, yngsta frænda sinn núna í síðustu heimsókn sinni. Þetta árið varstu mikið á Íslandi hjá okkur og það er dýrmætur tími sem þínir nánustu fengu og þá sérstaklega systur þínar tvær og amma Gyða, mamma þín. Fráfall þitt skilur svo sannarlega eftir sig mikla sorg því að þú varst elskaður og virtur. Mamma hefur átt rosalega erfiða daga síðan þú fórst og það er erfitt að horfa upp á það en við höfum verið góð við hvort annað og systurnar standa vel saman og hafa verið duglegar að hittast og minnast þín eins og líka við öll. Við höfum verið að rifja upp minningar og núna við kvöldverðarborðið rifjaði mamma upp þegar fjölskyldan var að fara í myndatöku saman og þú festist í lyftunni og mamma heyrði kallað Halló, halló er einhver hér. Það var nú oft sem þessi brandari var sagður og það var oft mikið hlegið, auðvitað allt í góðu gamni.
Ég vona að það sé einhverskonar líf eftir dauðann og þú og afi hafið það gott saman og fylgist með okkur. Ég kveð þig með trega , reiði í garð sjúkdómsins vegna þess að þú áttir þetta síst skilið, en fyrst og fremst kveð ég þig með hlýjum hugsunum og ég hugsa sátt til okkar samskipta sem voru aldrei annað en góð. Það á eftir að verða skrítið að fá þig ekki í mat og hafa þig ekki hjá okkur á jólum og páskum , en svona er nú lífið og við munum gera allt til þess að halda minningu þinni lifandi og tala saman um þig. Ég ætla að halda áfram að reyna að skrifa pistla sem þú yrðir stoltur af og mun leggja mig fram við það af bestu getu. ég ætla ekki að koma með þá klisju að þeir deyi ungir sem guðirnir elska eða að þú sért kominn á betri stað því að þá væri ég ekki samræm sjálfri mér og þessar setningar gera mig reiða því að þinn dauði var ekki sanngjarn.
Hvíldu í friði elsku Kjartan , þú munt ávallt lifa áfram í minningunni. Minningu um góðan og hlýjan mann.
Þín systurdóttir,

Bryndís Gyða Grímsdóttir.