Kjartan Guðjónsson fæddist í Reykjavik 21. apríl 1921. Hann lést á Grund þann 30. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson bryti, f. 28.6. 1889, d. 13.10. 1948 og Sigríður Bjarnadóttir húsfreyja, f. 13.7. 1892, d. 29.3. 1967. Systkini: Bjarni, f. 15.2. 1914, d. 29.8. 1950, Vilhjálmur, f. 8.11. 1917, d. 28.9. 1977 og Valborg, f. 20.9. 1919, d. 26.1 2008. Hinn 28. des.1957 kvæntist Kjartan Sigríði Breiðfjörð bankaritara, f. 30.8. 1928, d. 15.5. 2003. Synir Sigríðar og Kjartans eru: 1) Bjarni arkitekt, f. 2.6. 1958, eiginkona hans er Lilja Grétarsdóttir arkitekt, f. 13.6. 1961. Synir þeirra eru Fjölnir, f. 6.12. 1994, Freyr, f. 6.12. 1994 og Sindri, f. 6.12. 2000. 2) Sigurður, prentari, f. 8.9. 1967, eiginkona hans er Hólmfríður Erla Finnsdóttir viðskiptafr. MSc., f. 10.1. 1970. Börn þeirra eru Guðrún Gígja, f. 9.12. 1997 og Kjartan, f. 21.1. 2004. Fyrir hjónaband eignaðist Kjartan soninn Gunnar tónlistarmann, f. 5.6. 1957, eiginkona hans er Sólveig Baldursdóttir ritstjóri, f. 27.7. 1957. Börn þeirra eru Baldur Hrafn, f. 8.1. 1983, Ragnhildur, f. 5.1. 1989 og Gunnhildur, f. 17.9. 1996. Kjartan ólst upp í Reykjavík. Hann varð stúdent frá MR 1942 og hafði með því námi sótt kennslu í Handíðaskólanum í Reykjavík, en hélt þá til náms í The Art Institue of Chicago þar sem hann dvaldi í 2 ár. Heimkominn skipaði Kjartan sér í hóp nýlistarmanna sem vöktu í senn aðdáun fyrir dirfsku og andúð íhaldssamari listunnenda. Sá hópur nefndist síðan gjarnan Septemhópurinn vegna byltingarkenndrar sýningar sem haldin var í Listamannaskálanum 1947. Árið 1949 fór Kjartan til Flórens á Ítalíu þar sem hann lærði við Accademia di Belle Arti. Kjartan hafði alla tíð sterkar skoðanir á myndlist og ekki síst skoðun sérfræðinga á þeim málum. Kjartan var almennt talinn afburðahæfur teiknari og sjást þess víðast merki í verkum hans. Ekki síst nutu þessir hæfileikar hans sín í grafískum verkum þar sem mikil hæfni með dúkhníf og snilldarauga fyrir ljósi og skugga töfruðu fram ógleymanlegar myndir. Kjartan var fyrir skömmu heiðraður af félaginu Íslensk grafík fyrir tillegg sitt til þeirrar listgreinar. Kjartan fékkst um hríð við gerð auglýsinga, en lengst af vann hann þó við kennslu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, eða í u.þ.b. aldarfjórðung. Fjöldi nemenda Kjartans og samstarfsmanna frá þessum tíma minnist hans með þakklæti og aðdáun, enda maðurinn snjall í sínu fagi og hvers manns hugljúfi í samstarfi. Á sínum ferli hélt Kjartan fjölda einkasýninga sem eru aðdáendum hans minnisstæðar. Nokkrum sinnum á efri árum tilkynnti Kjartan vinum og vandamönnum að tiltekin sýning yrði hans síðasta. Sem betur fór brást hann þessu heiti sínu a.m.k. tvisvar og hélt litlar en gullfallegar sýningar, eftir að hann var „hættur“. Sú síðasta var í Gallerí Fold í apríl 2007, en Kjartan varð fyrir líkamlegu áfalli við upphaf þeirrar sýningar og náði ekki heilsu eftir það. Kjartan verður jarðsunginn frá Seltjarnarneskirkju í dag, mánudaginn 12. júlí 2010, og hefst athöfnin kl. 11.
Ég man greinilega eftir mér að snuddast í kringum frænda minn á vinnustofu sem hann hafði í Miðbæjarskólanum þar sem móðir hans og amma mín, Sigríður Bjarnadóttir, var húsvörður í áratugi. Hann fékk til afnota smákompu í kjallaranum sem hann gerði sér að góðu að mála í. Einn gluggi var á skonsunni sem vissi í suður. Ilmurinn af olíu og terpentínu, bleki og pappír. Þarna varð ég ung fyrir áhrifum og ákvað að ég vildi verða eins og hann. Það er til mynd af okkur þar sem ég er líklega 4 eða 5 ára, stend við hlið hans og horfi á pennann í hönd hans leika um pappírinn. Hugfangin. Mín framtíð var ráðin.
Löngu síðar, eftir tvo vetur í Myndlista- og handíðaskólanum stóð ég frammi fyrir því að velja mér sérdeild og mest langaði mig að fara í frjálsa myndlist og málun. Ég bar mig upp við Kjartan sem hafði þá verið kennari minn í tvo vetur í forskóla og spurði hann álits. Þetta var árið 1969, kvennabaráttan í rauðum sokkum og mér fannst allt hægt. Ég tjáði honum hugmyndir mínar og langanir, en hann var ekki sammála mér. Þrátt fyrir að hann teldi hæfileika mína ótvíræða vildi hann benda mér á að nú væri mikilvægt fyrir unga konu að taka skynsamlegar ákvarðanir. Listamannslíf væri erfitt líf. Ef ég veldi praktískt nám eins og auglýsingateiknun gæti ég séð sjálfri mér farborða og verið fullkomlega sjálfstæð. Meira að segja gæti ég unnið erlendis ef sú staða kæmi upp.
Frændi minn reyndist forspár og vitur. Með trega tók ég ráðleggingum hans. Viti menn, ég átti eftir að sjá fjölskyldu farborða og síðar sjálfri mér í nær þrjá áratugi í krefjandi samkeppni á erlendri grund. Fyrir þessar ráðleggingar er ég honum ævinlega þakklát.
Kjartan kenndi teikningu um árabil í Myndlista- og handíðaskólanum. Þeir teljast í hundruðum nemendurnir sem nutu kennslu hans. Hans stíll var að þá sem voru latir lét hann í friði. Þeim sem lögðu sig eftir að skilja það sem hann kenndi var hann ötull kennari og hvetjandi. Kjartan var ákaflega snjall teiknari. Ég hef séð teikningar eftir hann frá því hann var barn að aldri og þær eru sem eftir fullþroskaðan einstakling. Hann hefur vissulega búið yfir sérstökum hæfileikum sem ekki eru öllum gefnir. Þessir yfirgnæfandi teiknihæfileikar liggja til grundvallar í málverkum hans. Línan, formið, ljós, skuggi og myndbyggingin byggist ævinlega á teikningunni sem er grunnurinn. Kjartan er einn besti kennari sem ég hef nokkurn tíma haft, jafnt innan veggja skóla sem í sjálfu lífinu.
Labba og Kjartan voru sem ein mannvera. Þau voru samstæða, samofin og óendanlega samheldin. Lambalærisveislur urðu frægar þar sem þau hjón buðu upp á ekki eitt, heldur nokkur lambalæri í hverri veislu sem voru matreidd á sérlegan máta og voru í daglegu tali kölluð Laugateigslæri. Höfum það nóg var sagt og svo var tekið til matar síns. Þau hjón voru sérlega framúrstefnuleg í matarmálum og Kjartan var löngu orðinn meistarakokkur og matgæðingur áður en það komst í tísku að karlmenn væru mikið að skipta sér af eldamennsku. Eitt sinn komu þau hjón í heimsókn til mín þar sem við bjuggum í stuttan tíma úti á landi við sjávarsíðuna. Skruppum við þá niður í fjöru og tíndum krækling, suðum í hvítvíni og supum safann úr skelinni. Þetta hafði ekki nokkur maður séð í þessu sjávarþorpi. Í sömu heimsókn gerðum við okkur ferð í fiskvinnsluhúsið á staðnum og hann kom að máli við starfsmenn með beiðni um það hvort ekki væri hægt að fá keyptan smokkfisk. Menn urðu hvumsa við og sögðu að hann væri nú bara gefins, þetta væri bara óþverri og notað í beitu og ljótleikinn uppmálaður. Við mættum ganga í kerin eins og við vildum. Hann valdi góðan skammt, við fórum heim og hann gerði dýrlega veislu úr þessum ágæta fiski sem nú er auðvitað meðtekinn sem fínasti matur.
Á meðan ég bjó erlendis komu þau hjón nokkrum sinnum í heimsókn og dvöldu hjá mér í góðu yfirlæti. Þau kunnu að meta umhverfið, matinn, samveruna, mannlífið og ókunnar slóðir. Labba og Kjartan voru lífskúnstnerar af lífi og sál. Það var mannbætandi að vera nálægt þeim.
Stórt skarð myndaðist þegar Labba kvaddi eftir erfið veikindi. Kjartan annaðist konu sína heima eins lengi og hann gat. Það var hin einlæga ást þeirra sem veitti honum þann styrk. Þó hann syrgði Löbbu sína mjög var eins og hann uppfylltist annarskonar orku eftir lát hennar. Hann efldist allur á ný í myndlistinni og tók þá við tímabil sem hann vann sleitulaust við trönurnar, stundum í 1214 klukkustundir á dag. Hann fann hjá sér nýtt afl, nýjar hugmyndir. Hann var ötull í sinni list, hætti aldrei að læra og prófa, skoða og skilgreina. Þetta var einmitt hans einlægni í listinni. Kjartan var aldrei yfirborðskenndur og hroðvirkur heldur fágaður og djúpvitur og alltaf tilbúinn að horfa upp á nýtt.
Kjartan las mikið og var fróður með afbrigðum. Sjaldan var komið að tómum kofunum í spjalli, en aldrei tróð hann upp á fólk visku sinni og þekkingu. Þeir sem þekktu hann meira af blaðaskrifum hans gætu haldið að hér væri harður og þungur maður á ferð. Þó hann léti heyra í sér þegar honum var misboðið af listaklíkum sem komu í veg fyrir að hann og margir aðrir fengju aðgang að svokölluðum aðalsýningarsölum, var hann blíður maður uppfullur réttlætiskenndar. Kjartan var mjög lipur penni, kom vel fyrir sig orði og gat stungið harkalega ef því var að skipta. Hann fór þó aldrei með fleipur.
Íslendingasögurnar voru Kjartani kærar. Hann byrjaði að lesa þær sem ungur drengur og þær skipuðu alltaf stóran sess í hjarta hans. Svínfellingasaga var hans uppáhald. Nú fyrir örfáum árum ákvað hann að setja málverkið algerlega til hliðar um tíma og taka fram pennann og pappírinn og vinna teikningar úr Íslendingasögunum. Hann tók ákveðnar setningar eða málsgreinar beint upp úr sögunum og myndlýsti og túlkaði eins og hann skildi þær. Þetta var mikil. Hann vann sleitulaust í marga mánuði og eftir liggja um 60 teikningar. Okkur datt í hug að í sameiningu gætum við sett þessar myndir upp í bókarform þar sem textinn stæði á síðunni á móti myndinni og þannig gefið áhorfandanum og lesanda beina vísun í mynd og texta. Við gerðum tilraun með þetta og lögðum fyrir bókaútgefendur. Jú, jú, bara fínt en ekki söluvænt. Semsagt, hagnaður var ekki í augsýn og þar með var málið dautt. Þetta voru vissulega vonbrigði en frændi var ekki hissa á þessu sjónarmiði útgáfunnar. Kannski hefði hann orðið meira hissa ef efnið hefði verið gefið út sem tillegg í sögu okkar og menningu svo unga fólkið gæti glöggvað sig í þessum fjársjóði og að þessar meistaralegu myndir mætti glæða líf okkar menningararfsins. Nei, það var ekki víst að hægt væri að græða nóga peninga á svona útgáfu. Hann fyrirleit þennan hugsunarhátt.
Ég flutti heim til Íslands fyrir tæpum þremur árum eftir áratuga útivist. Kjartan var mér mikill vinur alla tíð og þau Labba óþreytandi að bjóða mér og börnum mínum og svo barnabörnum í Laugateigslæri og kaffisopa, faðmlög og spjall. Á síðustu árum hefur fallið frá margt af mínu góða fólki. Móðir mín Valborg, systir Kjartans, lést aðeins nokkrum mánuðum eftir að ég flutti heim og nú kveður aldraður frændi minn sem er síðastur af þessari kynslóð af nánasta fólkinu mínu. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa átt samleið með þessum merkilega og góða manni. Það er sem ég heyri fallegu röddina hans þegar hann kallar Nú verður partí á himnum, ég er mættur.
Edda Valborg Sigurðardóttir, teiknari FÍT.