Guðmundur Þór Jóhannsson fæddist 18. janúar 1995. Hann lést 16. júlí 2010. Foreldrar eru Jóhann Dagur Egilsson, fæddur 26. júlí 1957 og Guðrún Guðmundsdóttir, fædd 6. júlí 1964. Bróðir Guðmundar er Dagur Jó hannsson, fæddur 28. apríl 1986. Útför Guðmundar Þórs fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 28. júlí 2010, kl. 11.
Guðmundur Þór sýndi strax frá fæðingu að þar fór bráðger, kjarkmikill og ráðagóður einstaklingur sem léti ekkert halda aftur af sér þegar hann var búin að taka stefnuna. Hann fæddist viku fyrir áætlaðan dag og hefur eftir það verið fljótur að stökkva af stað þegar svo bar undir. Honum lá svo á að ekki vannst tími til að fara með bróður hans í pössun svo Dagur læddi sér inn á fæðingastofu og tók á móti bróður sínum. Þrátt fyrir mikinn aldursmun hefur þeim bræðrum alltaf samið vel. Það er eins og Guðmundur Þór hafi fæðst með þroskaða sál sem naut þess að vera í samskiptum við menn og dýr.
Hann virtist hafa byrjað að tala á fæðingadeildinni a.m.k. varð hann mjög snemma altalandi og naut þess að tala við alla sem nenntu að hlusta. Guðmundur Þór bjó einnig yfir þeim eiginleika að geta látið sig hverfa á undraverðum tíma og minnist ég fyrstu fimm áranna sem áranna þar sem ég var alltaf að leita að honum og reyna að halda í við hann. Öllu jöfnu fór hann ekki langt þegar hann brá sér af bæ. Hann mátti finna í bílskúrum nágranna sinna en þeir Óskar og Almar höfðu alltaf tíma fyrir Guðmund Þór þegar hann kom til þeirra í bílskúrinn. Hann virtist aldrei vera fyrir og aldrei truflaði hann þá, var bara að spjalla og aðstoða eftir getu. Hann átti fleiri vini í nágrenninu, konan hans Óskars, hún Maja, gaf honum alltaf brjóstsykur og hjá hinum vinkonum sínum fékk hann frostpinna eða sleikjó. Hann naut þess að vera í félagsskap sér eldri og heimsótti því oft þessa vini sína í nágrenninu.
Guðmundur Þór var opinn persónuleiki og ófeiminn eins og fyrr sagði, því átti hann alltaf leikfélaga og vini og hafa þessi vinatengsl haldist frá fyrstu kynnum. Sérstaklega ber að minnast þeirra frænda Helga Óttars og Steindórs, en þeir tveir hafa staðið við hlið vinar síns í veikindum hans á að dáðunnar verðan hátt. Óhætt er að segja að Guðmundur Þór hafi þekkt vel flesta í hverfinu og litið á þorpið sem sitt. Einn daginn þegar hann brá sér af bæ og var kominn fulllangt að heiman hitti hann fyrir gamlan vinnufélaga föður síns, sem spurði hvað hann væri að gera þarna svaraði Guðmundur Þór snöggt að vanda: "Ég má alveg vera hérna, síðan löbbuðu þeir félagarnir saman til baka.
Það var mikill gleðidagur þegar Guðmundur Þór fékk að fara á róló aðeins 1 ½ árs, en hann hafði slíkan kraft að hann gat dundað sér þar með krökkunum þrátt fyrir að vera a.m.k. ½ ári yngri. Á róló og síðar í leik- og grunnskóla hafði hann nóg fyrir stafni og nóg af félagskap. Þrátt fyrir að Guðmundur Þór hafi haft mikla orku og verði ofur duglegur var hann á engan hátt "ofvirkur, hann var ekki hvatvís eða fljótfær á neinn hátt. Hann gat líka setið tímunum saman og dundað sér annað hvort yfir einhverju í sjónvarpinu eða tölvunni. Þeir bræður eyddu löngum stundum við að byggja eitthvað úr legókubbunum eða saman í tölvunni. Guðmundur Þór leit mjög upp til stóra bróður síns og vildi helst alltaf fá að gera sömu hluti og Dagur þrátt fyrir níu ára aldursmun. Enda sá Guðmundur Þór þetta ekki sem níu ára aldurs mun því ef fólk spyrði hann hvað hann væri gamall svaraði hann "Tveggja að verða ellefu. Hann var alltaf að drífa sig að verða stór og vildi ekki missa af neinu.
Guðmundur Þór fæddist ekki bara talandi heldur einnig síbrosandi með blá augu, sem námu allt sem framhjá þeim fóru og ljósa lokka ásamt risa stórum spékoppum því brosið var aldrei sparað. Guðmundur Þór var mikill gleðigjafi allstaðar þar sem hann kom. Hann var bjartsýnn að eðlisfari og gafst aldrei upp og komst ávallt þangað sem hann ætlaði sér. Allflestir sem kynntust honum líkuðu vel við hann og átti hann sjaldan í útistöðum við aðra.
Það var einhvern veginn ekki hægt að halda í við þennan gleðigjafa sem Guð lánaði okkur hér á jörðu, já lánaði því Guð hlýtur að hafa sérstakt hlutverk fyrir hann í himnaríki annars er óhugsandi hvers vegna slíkur öndvegis maður eins og Guðmundur Þór var, er tekinn svo snemma frá okkur, þar sem hann hefði getað gengt mikilvægum verkefnum hér fyrir samfélagið í framtíðinni.
En það er alveg í anda Guðmundar Þórs að fæðast fyrr og deyja fyrr honum lá alltaf svo á að verða stór. Í veikindum sínum sýndi hann hve mikið karlmenni hann var og hvað baráttuviljinn og þrautseigjan virtust honum í blóði borin. Þegar honum var fyrst sagt að hann hefði greinst með krabbamein var aldrei um neitt annað að ræða nema að berjast gegn því með öllum tiltækum ráðum. Þegar honum var sagt að hann gæti aldrei sigrað þennan vágest heldur þurfa að upplifa ósigur þar sem líkaminn myndi snúast gegn honum og valda honum ómældum kvölum og óþægindum fram á síðustu stund sýndi hann ótrúlegt æðruleysi og kyngdi þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Hann hafði trú á Guð og himnaríki og að þar biðu hans verkefni fyrst svo varð ekki hér á jörðu niðri.
Guðmunur Þór hafði þann einstaka eiginleika að geta notið stundarinnar þegar hún gafst. Á góðum stundum var alltaf reynt að gera eitthvað, fara inn á MSM-ið eða að hringja í vinina. Hann hafði gaman að ferðast og versla og gerði hann eins mikið af því og honum var mögulegt. Ef til vill er það sá eiginleiki Guðmundar Þórs að geta notið stundarinnar sem hélt honum gangandi mun lengur en læknar nokkurn tíman bjuggust við, en þeir voru búnir að spá honum dauða árinu fyrr. Þetta auka ár sem hann fékk var ekki þrautalaust, en um leið og hann var laus við mestu verkina hætti hann að hugsa um þrautir sínar og einbeitti sér að einhverju skemmtilegu til að gera. Guðmundur Þór mun flytja gleðina, bjartsýnina og baráttukraftinn áfram þangað sem hann fer og skilja eftir í hjörtum okkar sem honum kynntust.
Ég vil þakka öllum sem studdu okkur á þessum erfiðu tímum hvort heldur fjárhagslega eða andlega. Stuðningur ykkar gaf okkur Guðmundi Þór bæði andlegan kraft til að gera eitthvað skemmtilegt þegar færi gafst og fjárhagslegt frelsi til að leyfa okkur það. Náungakærleikurinn skein í gegn og veitti okkur styrkinn sem við þurftum. Starfsfólki Njarðvíkurskóla, sem stutt hafa okkur bæði í orði og verki. Okkar bestu vinum Geiru og Halla, Jönu og Ella þakka ég stuðninginn og þeim Helga Óttari og Steindóri bestu vinum Guðmundar Þórs þakka ég sérstaklega, stuðningur þeirra var einstakur og sýnir að þar eru sannir menn á ferð.
Eins og nafna Guðmundar Þórs og afa langar mig að kveðja hann Gumma minn
með orðum afa okkar Benedikt Einarssyni frá Miðengi.
Víst þú með okkur vildir lengur bíða,
vasklega stýra milli ölduboða,
þrekinn beita þrautir við að stríða,
þolinn og gætinn þína fá að stoða
uns að við mættum öll nær senn frá ströndu
ýta hinst fleyi undir segli þöndu.
/
Bráðum við héðan búumst lífs til landa
löng er ei biðin þótt svo virðast kunni
þegar við komum þar til nýrra stranda
þrekuð og köld úr ferð um víða unni
víst munt þú þá með kærleikskrafta þína
koma oss á móti, hjálpa okkur að brýna.
(Benedikt Einarssyni frá Miðengi.)
Far þú vel sonur! forsjón Guðs þig leiði,
friðsæl þín bíði gleði á nýju landi.
Lífs þíns fyrst vorsól ljómar nú í heiði
leystur þá ert úr jarðlífs þrautabandi.
Sorgir þér aldrei sárar, þungar hnekkja,
svipula lífið fær þig ekki að blekkja.
/
Þungt er að kveðja soninn unga svona,
sorgmædd er önd hjá þínum hinsta beði,
blysberann minna björtu, æðstu vona,
brosmilda og hlýja er veitti jafnan gleði.
Guð minn, ó leyfðu ljósenglunum þínum
að lýsa og hlúa elsku drengnum mínum!
/
Sorgin þó liggi höfugt mér á hjarta
horfinna tíma gleðimyndir fróa
þar sem ég mæti brosi þínu bjarta
og bljúg-tærar perlur hvarma þinna glóa.
Brosin þín glæða, bláperlurnar þínar
burtu að strjúka: gleðistundir mínar.
/
Sælt var að mega sjúkum ljúfling hlúa
sár þó að kvíði löngum nísti hjarta.
Nú má ég harmglöð treysta því og trúa
tál þig ei villi heims né myrkrið svarta.
Nú lifa vonir nýjar innst í barmi
sem neitt fær ei myrkvað sárum kvíða harmi.
/
Ljósheimasalir ljómi þér svo hlýir
ljósenglar góðir vefji þig að hjarta.
Þín veit ég bíða þroskavegir nýir
þar sem að aldrei svíkur vonin bjarta.
Hví skyldi ég þá harma stilla eigi
hugglöð uns mæti endurfunda degi?
(Benedikt Einarssyni frá Miðengi.)
Guðrún Guðmundsdóttir, stolt móðir Guðmundar Þórs.