Vigfús Waagfjörð vélstjóri fæddist í Vestmannaeyjum 17. febrúar 1930. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 21. júlí 2010, 80 ára að aldri. Foreldrar hans voru hjónin Jón Waagfjörð, málarameistari og bakari, f. 14. október 1882 á Skálanesi við Seyðisfjörð, d. 2.mars 1969 í Vestmannaeyjum og Kristín Jónsdóttir húsmóðir, f. 7. ágúst 1890 í Efri-Holtum undir Eyjafjöllum, d. 21. nóvember 1968 í Vestmannaeyjum. Systkini Vigfúsar: Jón J. Waagfjörð, f. 24. febrúar 1920, d. 17. september 2005, Karólína Waagfjörð, f. 19. apríl 1923, Simon Waagfjörð, f. 1. maí 1924, d. 13. desember 2007, Jónína Lilja Waagfjörð, f. 18. október 1926, d. 10. janúar 2009, Óskar Waagfjörð Jónsson, f. 19. febrúar 1929, Auður Waagfjörð Jónsdóttir, f. 19. febrúar 1929, Anna Waagfjörð, f. 2. september 1934, d. 24. apríl 2002. Hinn 16. febrúar 1957 kvæntist Vigfús eftirlifandi eiginkonu sinni, Þórdísi Friðsteinsdóttur, f. 26. ágúst 1934 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Fríðsteinn Á. Fríðsteinsson, f. 10. september 1899 og Þórdís Björnsdóttir, f. 14. maí 1906, d. 10. desember 1945. Systkini Þórdísar: Hólmfríður Friðsteinsdóttir, f. 28. ágúst 1929, Björn Friðsteinsson, f. 24. desember 1930, d. 22. nóvember 1954, Ástríður Friðsteinsdóttir, f. 8. janúar 1933. Sjöfn Friðsteinsdóttir Sasser, f. 5. desember 1939 og Dagbjört Steina Friðsteinsdóttir, f. 8. júní 1943. Börn Vigfúsar og Þórdísar eru: Kristín Jóna Vigfúsdóttir, f. 17. desember 1954, gift Kristjáni Ágústssyni, f. 22. janúar 1952, börn þeirra eru Elsa, f. 21. nóvember 1978, gift Valtý Jónassyni. Klara f. 11.júlí 1982, sambýlismaður Þráinn Þórhallsson. Vigfús, f. 19. nóvember 1986, sambýliskona Sigurveig Hulda Óðinsdóttir. Friðsteinn Vigfússon, f. 22. júlí 1956, giftur Freyju Ellertsdóttur, f. 3. desember 1955. Börn þeirra eru Jóhann Örn, f. 30. maí 1978, giftur Kristjönu Hildi Kristjánsdóttir, þeirra dætur eru: Freyja María, f. 9. júlí 2004 og Ásdís Erna, f. 10. júlí 2007 og Þórdís f. 25. nóvember 1981, sambýlismaður Ásgeir Kr. Sigurðsson. Þeirra sonur er Bjarni Freyr, f. 19.maí 2009. Kári Vigfússon, f. 3. ágúst 1961, giftur Þórkötlu Ólafsdóttur, f. 2. ágúst 1962. Dætur þeirra eru: Sara Ósk, f. 2. júní 1988 og Eva María, f. 17. maí 1992. Vigfús átti 30 ára farsælan starfsferil sem vélstjóri á sjó, lengst af á Berg VE 44 undir skipstjórn Kristins Pálssonar og síðar bróður hans, Sævaldar. Eftir að Vigfús hætti til sjós 1978 endaði hann starfsferil sinn sem vélstjóri í Vinnslustöð Vestmannaeyja. Útför Vigfúsar fer fram frá Landakirkju í dag, föstudaginn 6. ágúst 2010 kl. 14.

Í dag er borinn til grafar afi minn, Vigfús Waagfjörð vélstjóri frá Vestmannaeyjum.  Það eru ekki allir sem hafa notið þeirra forréttinda að hafa átt Fúsa í Garðhúsum sem afa. Í mínum huga var afi minn ansi merkilegur karl sem kunni nánast allt. Þegar ég var ungur drengur fékk ég oft að vera með honum og hjálpa til við ýmislegt sem hann var að gera, hvort sem það var að draga nýtt rafmagn í kjallarann á Herjólfsgötunni, mála grindverkið, hræra í steypu eða kíkja á vélarnar í Vinnslustöðinni, en afi vann sem vélstjóri í Vinnslustöðinni frá 1978 eftir að hann hætti á sjó þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Aldrei var ég fyrir og oftast nær hafði hann tíma til þess að kenna mér eitthvað eða útskýra hvernig gera ætti hlutina.

Eitt sumarið tók afi mig í vinnu og vann ég hjá honum stóran hluta af sumrinu við að ditta að húsinu hans og ömmu. Stundum höfðum við enginn verkefni og fór þá dagurinn yfirleitt í spjall, en það var eitthvað sem honum leiddist ekki. Þetta sumar er eitt það eftirminnilegasta sem ég hef átt og urðum við afi mjög samrýndir upp frá því.  Afi hafði ákveðnar skoðanir á hinum ýmsum málefnum og fylgdist vel með því sem var að gerast í þjóðfélaginu. Hann var nánast óhagganlegur í umræðum og átti hann mjög svo auðvelt með að æsa upp þá sem ekki voru honum sammála. Þegar ég var peyi skildi ég ekkert í því af hverju hann þurfti alltaf að vera að rífast í öllum en komst síðar að því að honum þótti gaman að rökræða hlutina og fá almennilegt trukk í umræðuna. Þarna var hann í essinu sínu.

Afi var með mikla vídeodellu og tók mikið upp á myndband í gegnum lífsleiðina. Alla vega man ég sjaldan eftir afa öðruvísi en með videomyndavélina á lofti þegar að einhverjir stórviðburðir áttu sér stað innan fjölskyldunnar. Þessar minningar sem hann festi á filmu eru gulls í gildi fyrir okkur afkomendur hans og verður gaman að rifja upp allt það þegar tími gefst til. Þess má geta að vídeódellan náði væntanlega sögulegu hámarki jólin 1981 þegar sá gamli hafði sett upp tvo sterka ljóskastara í stofunni á Herjólfsgötunni til þess eins að ná hátíðinni sem best á filmu. Já svona var afi, allt var tekið með trompi.

Hann Fúsi afi hafði lausnir á öllu. Eitt árið þegar við vorum að reka niður tjaldsúlurnar fyrir Þjóðhátíð vildi ekki betur en svo að klöpp leyndist grunnt undir grastorfunni hjá vini mínum í nágrannatjaldi okkar. Nú voru góð ráð dýr þar sem nánast allir voru búnir að panta sér reit og því erfitt að flytja sig um set. Nei ekki þótti þetta mikið vandamál, bara saga þetta, það þýðir ekkert annað sagði sá gamli. Ekki leyst mönnum á blikuna og fóru að ræða aðra möguleika en sá gamli gaf sig ekki og endurtók orð sín nokkrum sinnum þar til ekki var hægt annað en að sækja sög og saga neðan af tjaldsúlunni. Annað var bara ekki tekið í mál. Hefur þessi áræðni hans nokkrum sinnum borið á góma í mínum vinahóp og kemur þessi saga upp þegar leysa þarf einhver vandamál sem vaxið hefur í augum.

Ég kveð afa minn með söknuði en á sama tíma gleðst ég yfir því að hafa þekkt þennan merkilega mann og hafa fengið að bralla ýmislegt með honum í gegnum tíðina.

Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sig.)

Með kærri þökk fyrir allt, elsku afi.

Megi minning þín lifa.

Jóhann Örn Friðsteinsson