Sigurjón Jónsson fæddist í Þverspyrnu Hrunamannahreppi 22. nóvember 1921. Hann lést á Kumbaravogi 2. ágúst 2010. Sigurjón var sonur hjónanna í Þverspyrnu Jóns Guðmundar Jónssonar, f. 1888, d. 1965, og Guðlaugar Eiríksdóttur, f. 1895, d. 1988, og næstelstur barna þeirra. Systkini Sigurjóns eru: Eiríkur Jónsson, bóndi á Berghyl, Hrunamannahreppi, f. 1920, d. 2005, Sigríður Jónsdóttir, verkakona í Reykjavík, f. 1923, d. 2002, Kristinn Jónsson, lengst ráðunautur á Sámsstöðum í Fljótshlíð, f. 1926, d. 2005, Guðmundur Jónsson, smiður og bóndi á Birnustöðum, Skeiðum, f. 1927, Sigrún Jónsdóttir, ljósmóðir í Reykjavík, f. 1929, Guðrún Jónsdóttir, húsmóðir í Mosfellsbæ, f. 1933, Stefán Jónsson, húsasmiður á Selfossi, f. 1934, Ásta Jónsdóttir, húsmóðir í Kópavogi, f. 1936, og Valgeir Jónsson, bóndi í Þverspyrnu, f. 1939. Sigurjón ólst upp í Þverspyrnu við almenn sveitastörf eins og tíðkaðist á þeim tíma. Hann var ráðsmaður á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd veturinn 1940-1941. Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar vann Sigurjón fyrst við vörubílaakstur og síðar lengi á skurðgröfu í Hrunamannahreppi og víðar. Hann tók við búi í Þverspyrnu árið 1956 og bjó þar alla tíð upp frá því, síðar ásamt Valgeiri bróður sínum. Sigurjón var á dvalarheimilinu Kumbaravogi síðustu æviár sín. Sigurjón verður jarðsettur frá Hrunakirkju í dag, 14. ágúst 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Ég var fjögra ára þegar ég kynntist Sigga. Mamma mín kom sem ráðskona í Þverspyrnu og þar ólst ég upp fram undir tvítugsaldur. Aðstæður höguðu því þannig að ég fór fljótt að stússa með Sigga í ýmsum búverkum og öðru sem á daga dreif.  Mínar fyrstu minningar eru því margar tengdar honum.  Siggi var afar hlýr maður og létt gott af sér leiða hvar sem hann kom. Hann var afskaplega vinnusamur og ósérhlífinn. Hafði gott verksvit og þá eiginleika að geta komið miklu í verk á stuttum tíma án þess að vera með læti og hávaða. Hann var að jafnaði frekar glaðlyndur og skipti sjaldan skapi. Það má því segja að hann hafi verið góð fyrirmynd og gæfa að hafa fengið að njóta hans samfylgdar í uppvextinum. Hann hafði ótrúlega þolinmæði og umburðarlyndi fyrir allskonar vitleysu sem mér datt í hug. Einu sinni bjargaði hann kannski lífi mínu, eða forðaði mér að minnsta kosti frá því að stórslasast. Þá hafði ég klifrað efst upp í hlöðumæni til að hengja upp kaðal fyrir spröngu. Þegar ég var að brasa í þessu missti ég takið og datt þráðbeint niður, líklega um 10 metra. En Siggi hafði verið að fylgjast með mér og greip mig í fallinu þannig að ég slapp nánast ómeiddur. Seinna voru eldri synir mínir stundum í sveit í Þverspyrnu og reyndist Siggi þeim vel eins og mér.
Siggi var ekki mjög mannblendinn en átti þó nokkra mjög trausta og góða vini í sveitinni. Stundum fóru þeir í ríðandi í heimsóknir sín á milli og þá var gaman  hjá körlunum. Drukku kannski íslenskt brennivín, spjölluðu saman og tóku lagið. Þá var ávalt mikill samgangur og samvinna á milli nágrannabæjanna þarna í Austurkrókum og Laugakróknum og ósjaldan gestir í kaffi.
Siggi lifði tímana tvenna og var ein af þeim hæglátu hetjum sem með dugnaði sínum byggðu upp nýtt íslenskt þjóðfélag á síðustu öld og gjörbyltu lífskjörum. Þessu fólki verður seint fullþakkað en deila má um hvort við sem nú höfum tekið við keflinu séum að hlaupa í rétta átt. Í dag geta fáir talið upp alla háskóla landsins, hvað þá menntaskóla. Samt finnst manni stundum að fólk kunni í dag minna þegar kemur að ýmsum einföldum lífsgildum svo sem æðruleysi, vinnusemi, útsjónarsemi og að geta komið miklu í verk með ódýrum hætti á stuttum tíma. Í kring um fermingu fór Siggi eins og tíðkaðist þá að reka fé til slátrunar alla leið til Reykjavíkur. Rekið var saman fótgangandi frá nokkrum bæjum. Þetta var nokkurra daga ferðalag og mig minnir að hann hafi sagt að fyrsta dagleiðin hafi verið í Skeiðaréttir, önnur í Ölfusið og þriðja daginn var rekið yfir Hellisheiðina. Einhvern tíma var safnið náttað nálægt Árbæjarhverfinu þar sem ég bý í dag og er það eitt dæmið um hvað þjóðfélagið hefur breyst á einni mannsævi. Þegar Siggi komst á fullorðinsár fór hann að vinna við vörubílaakstur, en þó mun lengur við skurðgröft á beltagröfum. Á árunum eftir stríð og fram yfir 1960 voru margar mýrar í Gull-Hreppunum og nærsveitum þurrkaðar og breytt í ræktarland. Siggi sagði mér stundum frá þessari vinnu. Gröfurnar voru skrapatól og biluðu mikið. Stöðugur barningur var að halda þeim gangandi og á floti í blautum mýrunum. Með tímanum náðu gröfumennirnir þó ótrúlega góðum tökum á þessu. Hann sagði mér líka að þetta hefði reynt mikið á líkamann, sérstaklega fæturna. Líklega hefur hann þó haft nokkrar tekjur af þessu, alltént sagði hann mér einu sinni að þær hefðu aukist mikið þegar tekin var upp akkorðsvinna. En áður höfðu þeir verið á föstu kaupi í greftrinum. Á árunum fyrir 1960 tók Siggi við búskap í Þverspyrnu og smátt og smátt dró úr vinnu útífrá. Hann byggði gott íbúðarhús árið 1957 og síðar ýmis útihús. Þegar árin færðust yfir dró hann sig smátt og smátt út úr búskapnum. Hann las töluvert og hlustaði mikið á útvarp. Fáir veðurfréttatímar fóru framhjá honum enda hafði hann gaman af því að spá í tíðarfarið eins og algengt er með þá sem lifa á því sem jörðin gefur. Yfirleitt gat maður gengið að mentól hálsbrjóstsykri vísum á skrifborðinu þar sem hann skrifaði í fjárbækurnar innan um búnaðarblaðið Frey, markaskrána og önnur merkileg alþýðufræði.
Þegar heilsu Sigga hrakaði flutti hann á dvalarheimilið á Kumbaravogi þar sem hann dvaldi síðustu árin. Þar hlaut hann góða aðhlynningu hjá frábæru starfsfólki sem á þakkir skyldar fyrir gott starf.  Ég reyndi að heimsækja  Sigga af og til á þessum tíma. Hann var oftast hress og æðrulaus eins og hans var vandi. Hafði gaman af því að rifja upp gamla tíma og tala um sveitunga sína og nágranna. Hann hélt góðu minni og skýrri hugsun fram undir það síðasta. Megi Guð blessa minningu um góðan mann.

Þorsteinn Sverrisson.