Fanney Þorsteinsdóttir fæddist á Drumboddsstöðum í Biskupstungum 2. febrúar 1915. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni 11. ágúst 2010. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Jónsson, bóndi á Drumboddsstöðum, f. 1866, d. 1949, og Guðrún Tómasdóttir frá Brattholti í Biskupstungum, f. 1868, d. 1922. Fanney var yngst átta systkina sem öll eru nú látin. Þau voru; Guðný, f. 1893, Margrét, f. 1896, Erlendur, f. 1898, Tómas, f. 1901, Þorgrímur, f. 1902, Valgerður, f. 1905, og Halldóra, f. 1910. Fanney giftist Tryggva Eiríkssyni verslunarmanni frá Langholti í Flóa, f. 26. september 1921. Foreldrar hans voru Eiríkur Ágúst Þorgilsson og Lilja Bjarnadóttir. Fanney og Tryggvi bjuggu alla sína búskapartíð í Reykjavík. Þau slitu samvistir þegar börnin voru uppkomin en héldu þó alltaf vinskap eftir það. Tryggvi lést 1996. Börn Fanneyjar eru: 1) Alda Guðfinna, f. 1938, maki Ed Duin, 2) Hilmar Reynir, f. 1941, maki Anna Jónmundsdóttir, 3) Eiríkur Heiðar, f. 1944, d. 1999, maki Birna Eyjólfsdóttir, f. 1947, d. 1990, 4) Þorsteinn Gunnar, f. 1946, maki Ósk Sigurrós Ágústsdóttir, 5) Ketill Rúnar, f. 1947, maki Laugheiður Bjarnadóttir, 6) Sigurður Sævar, f. 1949, maki Jóhanna Sigríður Hermannsdóttir, 7) Erlendur Viðar, f. 1950, maki Harpa Arnþórsdóttir, 8) Lilja Björk, f. 1951, maki Guðlaugur Arason, 9) Tryggvi Tómas, f. 1953, maki Anna Scheving Hansdóttir. Barnabörn Fanneyjar eru 25 og barnabarnabörn 45. Fanney fékk sína menntun í sveitaskóla en fór síðan 16 ára til Reykjavíkur til að nema myndlist sem þótti óvenjulegt á þeim tíma en sneri síðan aftur í sveitina. Fanney vann bæði við saumaskap og verslunarstörf sín fyrstu ár í Reykjavík en síðan tóku við hefðbundin húsmóðurstörf. Seinna vann hún í nokkur ár á Hrafnistu við aðstoð í eldhúsi o.fl. en síðan vann hún í fjölda ára sem matráðskona hjá Framkvæmdastofnun ríkisins, allt þar til hún komst á eftirlaun. Fanney var bæði listhneigð og handlagin og sem barn fékkst hún meðal annars við smíðar, einnig teiknaði hún mikið, bæði dýr og bæi í sveitinni. Stundum fengu bændur í sveitinni hana til að teikna reiðhesta sína fyrir sig. Fanney undi sér vel úti í náttúrunni enda mikið náttúrubarn í sér. Hún átti ekki langt að sækja þennan áhuga því móðursystir hennar var Sigríður í Brattholti sem barðist fyrir verndun Gullfoss og dáði Fanney móðursystur sína mikið fyrir hugrekki hennar. Þegar börn Fanneyjar voru uppkomin fór hún aftur að teikna og mála myndir og nýtti flestar frístundir sínar til þess, allt þar til hún veiktist, þá 92 ára. Fanney las alla tíð ljóð og kunni utan að heilu ljóðabálkana meðan hún lifði. Hún hafði líka mikinn áhuga á taflmennsku og tefldi hún næstum á hverju kvöldi við skáktölvuna sem hún átti, meðan heilsan leyfði. Fanney bjó á Rauðarárstíg 34 í Reykjavík frá 1978, allt þar til hún veiktist en flutti á Hjúkrunarheimilið Sóltún í maí 2008 þar sem hún naut góðrar umönnunar starfsfólks. Fanney verður jarðsungin frá Háteigskirkju í Reykjavík í dag, 19. ágúst 2010, og hefst athöfnin kl. 15.

Ég var svo heppinn að fá að kynnast Fanneyju fyrir 10 árum þegar hún bjó ein í lítilli íbúð við Rauðarárstíg. Þá var hún 85 ára, komin á þann aldur þegar flest fólk telur ekki ástæðu til að eyða orðum að óþörfu. Á 85 árum hefur allt verið sagt sem þarf að segja og menn una sér við að skoða litríkar myndir sem hugsanir draga upp og spegla á yfirborði minningarbrunnsins. Hjá flestum er eftirleikurinn hlutlaus þátttaka í meðspili þeirra sem yngri eru og hafa óstöðvandi þörf fyrir að tæma orðabelginn. Ég hafði fengið að vita að erfitt væri að draga Fanneyju Þorsteinsdóttur í þennan dilk. Það sýndi sig líka þegar ég kom inn í íbúðina. Á sófaborðinu lá stafli af krossgátublöðum, bækur á stólum og Morgunblaðið marglesið. Úti í einu horninu stóðu trönur með hálfmálaðri mynd af fjórum hestum í mosagrónu landslagi. Grænt ljós logaði á svörtu skáktölvunni sem stóð á stofuborðinu. Lilja kynnti nýja tengdasoninn og sagði að hann væri ættaður frá Dalvík. Fanney rétti mér höndina og horfði fast í augun á mér án sýnilegrar hrifningar. -Nú já. Þú átt þá engar ættir hér fyrir sunnan? spurði hún. -Nei, ekki svo ég viti, svaraði ég og fann strax að ég hafði tapað stigi. Eftir hlutlaust spjall um daginn og veginn benti ég á skáktölvuna á borðinu. -Og þú ert alltaf að tefla? -Já & en það er ekkert orðið gaman að glíma við þessa tölvu, svaraði Fanney og bandaði út frá sér hendinni. Ég máta hana alltaf. Teflir þú?   Ég hristi höfuðið og missti ég prik númer tvö. -Má ekki bjóða ykkur pönnukökur? spurði Fanney og var óðar horfin fram í eldhús. Síðan fór hún að tala um pólitíkina, fussaði út af Steingrími J. sem ekkert vildi samþykkja og var á móti öllu. Aftur á móti vildi Davíð öllum vel. Þannig hófst fyrsta heimsókn mín til Fanneyjar. Þær áttu eftir að verða fleiri í gegnum árin og ég held að hún hafi tekið mig nokkurn veginn í sátt undir lokin þrátt fyrir að ég væri ættaður að norðan. Ekki þykir öllum auðvelt að muna skáldskap Einars Benediktssonar. En ljóð Einars kunni Fanney utanbókar. Hvert og eitt einasta. Og ekki bara Einar Ben, heldur var eins og þessi kona myndi öll ljóð og kvæði sem hún hafði einhvern tíma lært. Það var bókstaflega hægt að fletta upp í henni. Einu sinni ákvað ég að kanna minni tengdamóður minnar. -Æi, hvernig byrjar nú aftur kvæðið um séra Odd frá Miklabæ? spurði ég. Fanney leit á mig í forundran. -Manstu það ekki? Hleypir skeiði hörðu halur yfir ísa & glymja járn við jörðu, jakar í spori rísa & Eftir það var hún óstöðvandi. Orðin fossuðu fram af vörum hennar meðan hún fór með kvæðið um Hvarf séra Odds frá Miklabæ um leið og hún ýmist sýslaði frammi í eldhúsi eða kom inn í stofuna með kaffi og pönnukökur. Fanney var í sínum eigin heimi með fjarrænt augnaráð rétt eins og hún væri að lesa upp úr bók og vildi ekki láta trufla sig. Ég sat gáttaður og hlustaði þar til yfir lauk.

Í annað skipti gerði ég álíka minnisprufu. Þá var Fanney orðin níræð, búin að ljúka við myndina af hestunum fjórum, hafði fengið fyrir hjartað og nýrisin upp úr heilablóðfalli sem lamaði talfærin og vinstri hluta líkamans. Þvert ofan í rök læknavísindanna náði hún sér aftur á strik og fór að ráða krossgátur og tefla skák við hjartasérfræðingana á sjúkrahúsinu. Og mátaði þá alla. Ég spurði Fanneyju hvort hún hefði ekki þekkt þjóðsöguna af Bergþóri í Bláfelli þegar hún var að alast upp austur í Biskupstungum. Hún hélt nú það. Síðan sagði hún mér söguna, sem ég reyndar hafði einhverntíma lesið, en mundi ekki. Þegar ég kom heim seinna um daginn fletti ég upp í Þjóðsögunum og las mig til um Bergþór. Frásögn Fanneyjar var næstum því orðrétt upp úr bókinni.

Þeim fer nú að fækka, hetjunum, sem ólust upp við kertaljós í torfbæjum og upplifðu þær stundir þegar rafmagn var leitt í bæina með tilheyrandi birtu og yl, útvarpi og innstungum í veggi. Einn daginn þurfti ekki lengur að fara út í bæjarlæk með fötu til að ná í vatn, það nægði að skrúfa frá krana inni í bænum. Eitt vorið var hægt að setjast upp í bíl og komast frá Tungunum á einum degi alla leið til Reykjavíkur án þess að vera með sáran rass eftir langan reiðtúr.

Fanney Þorsteinsdóttir var fædd á Drumboddsstöðum í Biskupstungum árið 1915 meðan Ísland átti enn sinn danska kóng, þegar fyrri heimsstyrjöldin hafði staðið í átta mánuði og Gullfossi , fyrsta gufuskipi Íslendinga, hafði nýlega verið hleypt af stokkunum. Nokkrum árum áður hafði Sigríður frá Brattholti, móðursystir Fanneyjar, barist fyrir því að fossinn kæmist ekki í hendur erlendra auðmanna sem vildu virkja Gullfoss. Fanney dáði þessa frænku sína. Viss kaldhæðni. Uppáhalds skáld Fanneyjar var Einar Benediktsson, sölumaðurinn mikli. Þótt skáktölvan hafi staðið á borðinu hjá þessari konu sem ólst upp við að fara sparlega með kertaljósin, þótt hún hafði fylgst með dægurmálum fram á síðustu stund og haft sínar ákveðnu skoðanir á málefnum líðandi stundar, missti hún aldrei tengsl við uppruna sinn sem hún var stolt af. Brattholtsættin, Drumboddsstaðir og Biskupstungurnar. Allt var þetta ríkur þáttur í hennar daglega þankagangi sem ekki þurfti að eyða á mörgum orðum nema hún væri innt eftir. Fanney málaði myndir og gaf börnum og barnabörnum hugsanir sínar.

Það er við hæfi að enda þessi orð með tilvitnun í eitt af kvæðum Einars Benediktssonar. Ég er ekki viss um að allir lesendur viti úr hvaða ljóði línurnar eru, en Fanney veit það:

Svo hjó hún brjósti á seinasta sjóinn
og sökk inn á þiljur í hlé
svo renndi hún upp í og reisti bóginn.
Nú réttist siglan og slaknaði klóin,
og fokurnar flugu í vé.

Guðlaugur Arason.

Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta,
Þá sælt er að vita af því,
Þú laus ert úr veikinda viðjum
Þín veröld er björt á ný.
/
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfin úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)

Þær eru margar hvunndagshetjurnar, sem ganga sinn æviveg í auðmýkt, æðruleysi og lítillæti, en sigrast á hverju mótlætinu á fætur öðru, sem verða á vegi þeirra, án þess að bogna og hvað þá heldur að brotna, hávaðalaust og án alls bægslagangs, þannig að jafnvel fáir verða vitni að.  Þetta eru sannar hetjur, en sigrar þessa fólks eru sjaldnast skráðir, hvað þá að hetjunum séu veitt viðurkenningarskjöl eða krossar fyrir afrek sín.  Einni slíkri hetju var ég,  sem þessar línur hripa, svo lánsamur að fá að kynnast og tengjast á haustdögum árið 1970  Hún hét Fanney og var Þorsteinsdóttir, ættuð austan úr Biskupstungum, frá Drumboddsstöðum og lauk sinni jarðvist á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, laugardaginn 11. ágúst sl. hljóðlega og látlaust, eins og líf hennar allt einkenndist af, í hópi flestra barna sinna.  Hún var sátt við allt og alla og var búin að undirbúa för sína héðan úr jarðvistinni fyrir allnokkru og því kom það svo sem engum á óvart, þegar kallið loks kom.  Ferðalagið hér á jörðu var líka orðið langt.  Það hafði staðið í full 95 ár.  Vegferðin oft grýtt og erfið yfirferðar, eins og fyrr greinir, en Fanneyju tókst með hugprýði sinni, æðruleysi og dug, að yfirstíga allar hindranir á vegi sínum, allt til enda. Hún sigldi sínu fleyi og skilaði því heilu í höfn að lokum.

Á seinni árum urðu samvistir okkar ekki eins margir né algengar og þær höfðu verið áður, vegna aðstæðna.  Við hittumst þó alltaf af og til og var það alltaf jafn mikið ánægjuefni, bæði að sjá hana og ræða við hana.  Elsku Fanney mín, mig langar með þessum fáu línum mínum, að færa þér fölskvalaust þakklæti mitt, fyrir allt það sem að þú varst mér og börnum mínum í lífi þínu.  Allt það sem þú gerðir fyrir okkur og með okkur, af einskærri hjartahlýju og óeigingirni.  Það var alltaf allt sjálfsagt af þinni hálfu, aldrei talað um það hvernig stæði á hjá þér sjálfri, hvort þú væri upplögð, þreytt eða neitt annað af því taginu.  Verkefnin tókstu einfaldlega að þér með sömu róseminni, sem einkenndi þig alltaf og fallega brosinu þínu.  Hún Fanney, fyrrverandi tengdamóðir mín, var ákaflega vel gerð manneskja, bæði til orðs og handa.  Hún var mjög vel gefin, fróð um marga hluti, fylgdist vel með öllu til hins síðasta og skemmtileg viðræðu og myndarleg.  Hún var ákaflega hjartahlý kona, mátti ekkert aumt sjá, né heyra og vildi öllum hjálparhönd rétta, eftir fremsta megni.   Ekki minnist ég þess að hafa nokkurn tíman heyrt hana tala illa um nokkra manneskju, frekar sá hún og talaði um það góða, sem í okkur öllum býr og dró það fram í dagsljósið. Hún hélt ekki skoðunum sínum, né tilfinningum mjög á lofti, en gat engu að síður verið föst  fyrir, ef svo bar undir, því skoðunarlaus var hún alls ekki. Hún var gestrisin og naut þess að sem flest af hennar fólki kæmi til hennar, helst allt í einu, eins og oft gerðist um helgar á Rauðarárstígnum.  Þá undi hún sér vel við samræður og bakstur á pönnukökum, flatkökum og fleira þess háttar góðgæti.  Ég man, að maður varð að passa sig á því að fara í þessar helgarheimsóknir hæfilega svangur, því Fanney sá til þess að hver og einn tæki hraustlega til matar síns, og það þýddi ekkert mögl í því sambandi, enda fóru flestir heldur kviðsignir af hennar fundi. Fanney var sjálfmenntuð í listmálun, eða hlaut þá náðargáfu í vöggugjöf, þó vildi hún ekki gera mikið úr þeim hæfileika sínum sjálf.  Hún skilur eftir sig mörg málverk, svo vel unnin, að margur menntaður maðurinn á því sviði gæti verið stoltur af því að hafa skilað þeim frá sér.

Fundum okkar Fanneyjar bar síðast saman sl. vor, þegar ég heimsótti hana í herbergið hennar á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, þar sem að hún dvaldi síðast spölinn.  Líkamlegur styrkur hennar var þá nær þrotinn og hún lá fyrir í rúmi sínu. Ég undraðist hins vegar andlegan skýrleika hennar og styrk með rúm 95 ár að baki.  Hún minntist á það af fyrrabragði um leið og við sáumst, að við hefðum ekki sést síðan á aðfangadag árið 2007, sem var alveg rétt.  Þetta virtist jafn sterkt í minni hennar, eins og það hefði gerst í gær.  Við ræddum saman um heima og geyma, í þessari heimsókn minni, rifjuðum upp marga atburði frá liðnum árum og endurlifðum saman í huganum.  Það var gaman og það var sama hvar gripið var niður,  alls staðar var Fanney fyllilega með á nótunum.  Þegar við loks kvöddumst, skynjaði ég það sterkt, að við vissum  bæði jafnvel, að þetta var hinsta kveðja okkar að sinni.

Að endingu vil ég þakka Fanneyju af alhug fyrir kynnin, samferðina og allan þann vinar og hlýhug, sem hún ávalt sýndi mér í okkar samskiptum. Við eigum eftir að hittast aftur síðar. Ég vil einnig þakka henni hjartanlega fyrir allt það sem hún gerði fyrir mig og börnin mín, sem ég veit að minnast ömmu sinnar með hlýhug, kærleika og þakklæti.  Ég óska Fanneyju góðrar heimkomu og bið góðan Guð um að styrkja og blessa eftirlifandi börn hennar, barnabörn, svo og alla aðra ættingja og vini í sorg þeirra.

Ég vil í drottni sofna sætt,
samviskustríðið allt er bætt,
dauða-haldi ég drottinn þríf,
dýrstur gef þú mér eilíft líf.
/
Kveð ég í GUÐI góðan lýð,
gleðilegar þeim nætur býð,
þakkandi öllum þeirra styrk,
þjónustu, hjálp og kærleiks verk.
(Hallgr. Pétursson)

Steinþór Hilmarsson.