Ólafur Guðmundsson, fæddist í Reykjavík 17. ágúst 1916. Hann lést á Droplaugarstöðum 11. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðmundur Ólafsson hrl., f. í Vogsósum, Selvogshreppi 5. ágúst 1881, d. 22. maí 1935 og kona hans Sigríður Grímsdóttir, f. á Ísafirði 17. apríl 1892, d. 2. september 1973. Guðmundur, faðir Ólafs, var sonur séra Ólafs Ólafssonar fríkirkjuprests. Ólafur var elstur þriggja bræðra, þeirra Birgis, f. 16. júlí 1918 í Reykjavík, d. 1996 og Hauks, f. 29. desember 1921 í Reykjavík, d. 2002. Ólafur kvæntist 19. ágúst 1946, Fjólu Sigurjónsdóttur frá Siglufirði, f. 28. júlí 1917, d. 30. maí 1992. Foreldrar hennar voru Sigurjón Björnsson skipstjóri, f. 20. maí 1891, d. 25. nóvember 1966 og kona hans Sigurlaug Jóhannsdóttir, f. 4. júní 1891, d. 23. desember 1965. Ólafur og Fjóla bjuggu í Stykkishólmi í tæplega 30 ár og síðar á Seltjarnarnesi. Ólafur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1935. Cand. phil. frá Háskóla Íslands 1936. Nam við Niels Brocks Handelsskole í Kaupmannahöfn 1936-37. Vann nokkur ár á skrifstofu tollstjóra í Reykjavík til ársins 1947. Bókhaldari hjá Verslun Sigurðar Ágústssonar í Stykkishólmi 1947-52, framkvæmdastjóri sama fyrirtækis 1952-54. Stundakennari við Miðskóla Stykkishólms 1949-52. Sveitarstjóri Stykkishólmshrepps 1954-64. Útibússtjóri Búnaðarbanka Íslands í Stykkishólmi 1964-75. Í hreppsnefnd Stykkishólmshrepps 1958-62 og 1966-70. Umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi 1972-73. Í sýslunefnd Snæfells- og Hnappadalssýslu 1974-78. Stjórnarformaður togarafélags Þórólfs Mostraskeggs hf. frá 1960 og Útgerðarfélagsins Oturs hf. frá 1963. Útför Ólafs fer fram í dag, 19. ágúst 2010, frá Fríkirkjunni í Reykjavík og hefst athöfnin kl. 13.
Þegar Óli og Fjóla fluttust til Stykkishólms árið 1947, vildi ég ólm fara með þeim og grét heil ósköp. Nokkru síðar veiktist móðir mín og ég, var send til Óla og Fjólu til sumardvalar. Eftir það var ég hjá þeim í mörg sumur og eignaðist þar góðar vinkonur og fannst ég vera svolítill Hólmari í mér og var stolt af. Óli og Fjóla voru mikið göngu og útivistarfólk. Þau áttu engan bíl í fyrstu en það var allt í lagi. Óli fékk einhvern vin sinn til að fara með okkur út í hraun eða út á Hraunflöt eftir vinnu á laugardegi og sækja okkur á sunnudagskveldi. Þá var tíminn notaður í að ganga á fjöll og veiða í vötnunum, náttúran og undur hennar skoðuð og tíminn flaug áfram.
Óli var mikill sögu- og fræðimaður, víðlesinn og fróður um margt. Hann var mjög vel að sér í Íslendingasögunum, skrifaði greinar og flutti fyrirlestra um höfund Njálu, verðreikninga og verðmælingu á Þjóðveldisöld og það hvers vegna Snorri Sturluson var tekinn af lífi og margt fleira. Þá var hann vel að sér í sögu kristinnar trúar og velti trúmálum mikið fyrir sér. Óli kunni hafsjó af sögum úr Stykkishólmi og sveitunum í kring og sagði óspart frá.
Hann var mikill íþróttamaður alla tíð. Glímukappi góður, lék handbolta með Víkingi, stofnaði badmintonhóp í Hólminum, góður skákmaður, bridge spilari og hafði mjög gaman af stangveiði svo að eitthvað sé nefnt.
Þegar þau hjónin fluttust á Seltjarnarnesið hóf hann að stunda sund og var alltaf mættur fyrstur manna á morgnana og naut góðs félagsskapar við sundfélagana. Þar var mikið spjallað og hlegið enda sagði hann mjög skemmtilega frá og ávallt var stutt í grínið. Eftir að hann mjaðmarbrotnaði gat hann ekki lengur mætt í sundið og heyrði ég að hans hefði verið sárt saknað af sundfélögunum.
Við hjónin áttum margar ánægjulegar stundir með Óla og Fjólu og var þar sannarlega ekkert kynslóðabil á milli. Við heimsóttum þau oft og fórum með þeim í utanlandsferðir, tjald- og veiðiferðir. Óli og Fjóla voru börnum okkar sem afi og amma og ferðuðust saman um landið og voru oft á Hólmlátri á Skógarströnd hjá þeim. Þegar við hjónin fórum í ferðalög fluttu þau heim til okkar og önnuðust börn og bú var það ekki lítils virði fyrir okkur að vita af þeim í góðum höndum þeirra hjóna.
Þegar Fjóla veiktist af Alzheimer var aðdáunarvert að fylgjast með hversu vel Óli hugsaði um Fjólu sína. Hann hafði fram að þeim tíma aldrei sinnt heimilisstörfum en til að hafa hana heima eins lengi og hægt var lærði hann að elda mat eftir kennslubók fyrir byrjendur, sá um innkaup og allt sem laut að heimilinu. Síðan eru liðin 18 ár. Við söknuðum öll elsku Fjólu en lífið heldur áfram og Ólafur kunni svo vel að njóta lífsins og var duglegur að hugsa um sig.
Hann keypti sér tölvu þegar hann var 84 ára og lærði svo vel á hana að hann gat sagt öðrum til. Á Netinu aflaði hann sér margskonar fróðleiks sem hann miðlaði til vina sinna. Las fréttir og réði krossgátur í erlendum blöðum alveg fram á síðasta dag.
Óli fluttist til okkar hjóna þegar hann treysti sér ekki til að vera lengur einn heima. Eftir að hann lærbrotnaði í júlí 2008 var hann bundinn við hjólastól og bjó fyrst á Eir og síðan á Droplaugarstöðu. Þar naut hann einstakrar hjúkrunar og umhyggju starfsfólksins. Hann kvartaði aldrei og var sáttur við sitt og sagði oft að kúnstin við að eldast væri að vera sáttur við lífið eins og það væri.
Allir sem kynntust Óla heilluðust af nærveru hans og læt ég stutta sögu fylgja sem lýsir því. Stórfjölskyldan kom saman í matarboði en því miður treysti Óli sér ekki til að koma í þetta skipti. Í matarboðinu kom rúmlega tveggja ár barnabarn sem saknaði Óla til afa síns og sagði hvar er Óla barnið sagði Óla því það hafði svo oft heyrt talað um að fara til Óla koma frá Óla hringja í Óla, þannig að í huga barnsins hét hann Óla!
Nú þegar komið er að leiðarlokum og góður Guð hefur kallað elsku Óla minn til sín, viljum við hjónin, Ragnar bróðir og fjölskyldan þakka fyrir ánægjulega samveru, ævintýrin sem við upplifðum með honum, sögurnar sem hann sagði okkur og allt grínið.
Fari hann í friði og blessuð sé minning hans.
Kristín Bernhöft.