Engilbert Guðjónsson fæddist á Akranesi 23. maí 1978. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 23. ágúst 2010. Foreldrar hans eru Ólafía G. Ársælsdóttir, f. 11.11. 1956, og Guðjón Engilbertsson, f. 12.2. 1955. Foreldrar Ólafíu eru Erla Hansdóttir, f. 1938, og Ársæll Eyleifsson, f. 1929, d. 2001. Seinni maður Ólafíu er Sigfús Þór Elíasson, f. 1944. Foreldrar Guðjóns eru Engilbert Guðjónsson, f. 1918, d. 2002, og Eva Laufey Eyþórsdóttir, f. 1918, d. 1957. Uppeldismóðir Guðjóns og seinni kona Engilberts er Guðrún Jónsdóttir, f. 1933. Seinni kona Guðjóns er Dóra Ingólfsdóttir, f. 1965. Albróðir Engilberts er Eyþór, f. 1982. Hálfbræður sammæðra eru Ársæll Þór, f. 1973, Elías Þór, f. 1988, og Sævar Þór, f. 1992. Hálfbróðir samfeðra er Ingólfur Hilmar, f. 1991. Uppeldissystir, dóttir Sigfúsar, er Heiðrún Ósk, f. 1979. Engilbert ólst upp á Akranesi hjá foreldrum sínum og síðan móður sinni eftir að þau slitu samvistir. Um fermingaraldur fluttist hann til föður síns. Hann gekk í grunnskóla á Akranesi og síðar í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Hann stundaði einnig nám í Iðnskólanum í Reykjavík. Á unglingsárum vann Engilbert ýmis störf, en á síðustu árum einkum við málningarvinnu. Útför Engilberts fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 2. september 2010, kl. 13.
Elskulegur frændi minn, þegar þú hefur kvatt okkur sit ég hér með tóm í
tilverunni þar sem áður varst þú. Fólk klappar manni á bakið og vottar
samúð og maður reynir að halda aftur tárum er maður finnur fyrir sorginni
og einhverskonar vonleysi. En ásamt þessu tómi er sú yndislega tilfinning
að ég sé betri maður vegna þín. Þú skilur eftir hjá mér minningar um gleði,
sigra og kraftaverk.
Alli bróðir þinn minnti mig á þegar ég bjó til leikhússvið handa þér úr
stórum pappakassa með servíettum sem leiktjöldum. Ég man hvað þú varst
spenntur á meðan. Öllum var boðið á leiksýningu og tjöldin dregin frá og
galað var its the muppet show og mesta prúðuleikarasýning allra tíma var
hafin og endurtekin alltaf þegar einhver hafði tíma. Síðan þegar sýningin
hafði heppnast vel þá var hlaupið og hoppað um alla stofu og þessi sama
setning endurtekin. Já, þú elskaðir prúðuleikarana. Þegar við lékum okkur
allir saman frændurnir; Alli Eyþór, ég og þú, man ég eftir gleðinni sem af
þér skein í leik, meira að segja í fótbolta. Skrítið að maður muni svona
skýrt eftir þessu núna. Það er sama við hvern maður talar sem áttu
samskipti við þig, þú virðist hafa snert sama streng í hjarta allra.
Þegar árin liðu þá fóru erfiðleikar með annan fótlegginn að hafa sín áhrif
á þig og spítalaferðir og erfiðar aðgerðir tóku sinn toll. En alltaf var
reynt að brosa. Ég veit að þetta hvíldi þungt á þinni sjálfsímynd. Þér
tókst með aðdáunarverðum hætti að láta sem minnst á því bera.
Á þeim árunum sem seiðandi tálsýnin söng til okkar beggja þá var oft erfitt
fyrir okkur að mæta í fjölskylduhóf. Og þurfa að bera fyrir sig frasa eins
ég hef það fínt og fleira í þeim dúr sem gerði það að verkum að maður
var ekki spurður erfiðra spurninga eins og Hvað gerir þú í dag? Já, oft
var eins og við töluðum sama tungumál sem hinir virtust ekki skilja. Þegar
tálsýnin hafði dregið okkur á tálar með loforðum sem keypt voru hæsta
verði, kárnaði gamanið. Leiðin til baka hafði fölnað og draumurinn breyst í
martröð. Á síðasta snúningi gerðist kraftaverk í mínu lífi og frelsið
byrjaði að flæða um líkama og huga. Þá var oft erfitt að hitta þig þar sem
þú sast eftir. Vonin um að þú kæmist úr þinni martröð var orðin lítil eftir
ótal tilraunir. En þegar þú svo komst til mín og baðst um hjálp og
ráðleggingar, reyndi hugur minn að verja mig vonbrigðum og hvíslaði: Segðu
nei, þetta er vonlaust fyrir hann. En ef það er eitthvað sem ég hef lært
þá er það að hausinn minn veit ekki allt. Eftir sömu leiðbeiningum og mér
voru gefnar byrjuðum við og ég fékk að verða vitni að kraftaverkinu gerast
í þínu lífi eins og hjá mér. Úr öskustónni reist þú, búinn að henda gömlum
hugmyndum um lífið og tilveruna. Að fá að fylgja þér í gegnum leyndarmál
þín og þína földu staði kynntist ég þér enn betur og fór að sjá þig á nýjan
hátt. Með opinn huga þyrsti þig í allt sem nýst gat á þessari nýju braut.
Fyrir mér varst þú gangandi kraftaverk og bara að vera nálægt þér fyllti
mann gleði og þrótti að allt væri mögulegt. Í byrjun voru augu þín tóm en á
undraverðum tíma tók að skína ljós og frelsi frá þér sem allir fundu. Ég
var svo óendanlega stoltur af þér.
Einn daginn hringdir þú og sagðist byrjaður að æfa líkamsrækt. Ég reyndi að
fá þig til að gera hlutina hægar en ekkert stoppaði þig. Þú varst á leið
inn í betra líf og hvers vegna ekki að hafa líkamann í lagi. Svo kom
bílprófið og bíll og því næst skóli. Þú fórst að sanna fyrir sjálfum þér að
í þig var eitthvað spunnið og það sjálfsmat var ekki byggt á sandi og
blekkingum heldur kletti. Þegar þú varst búinn að koma þér fyrir í íbúð var
gaman að koma í heimsókn og sjá hve snyrtilegt allt var hjá þér. Þó að á
þessum tímum hafi mikið gerst hjá þér til hins betra var það engan veginn
eins og þú kynnir ekki neitt. Þú varst hafsjór af þekkingu á hinu og þessu.
Og þó oft á sér sviðum þá var það vitneskja engu að síður.
Ég og Alli vorum að hlæja að því í gær að það var eins gott að
tímastillingin á vídeótækinu myndi virka þegar taka átti upp
sjónvarpsþættina Santa Barbara í gamla daga. Annars var allt í hershöndum.
Þú varst mikill aðdáandi þeirra. Fjóla minnist þín með söknuði og hlýju og
situr í henni hvað þú varst falleg sál og einlægur. Gleðin skein úr augunum
á þér þegar þið hittust og var hláturinn ávallt skammt undan. Björg Erla
leikur sér enn með Hvata hvolp sem þú gafst henni og það er sko ekki farið
að sofa nema hann sé mættur í rúmið. Með söknuði en gleðiminningum kveð ég
þig elsku Berti minn. Að fá að vera samferða þér um þessa veröld hafa verið
forréttindi sem ekki verða frá manni tekin þó þú skreppir í burtu
örskotsstund.
Söngur til tálsýnar / Song to the siren
Lengi rekið á skiplausum höfum
brosað reynt eftir megni.
Til þinna seyðandi augna og fingra
sem mig tældu að þinni ey.
Og þú söngst:
Sigldu til mín,
sigldu til mín,
láttu mig umvefja þig.
Hér ég er,
hér ég er,
bíð þess að faðma þig.
Dreymdi mig, þig dreymandi um mig?
Varstu hér er segl mín frelsi fylltust?
Nú mitt leka fley hallar,
loforð í brimróti brotna.
Því þú syngur: "Snertu mig ekki, snertu mig ekki, komdu aftur á morgun.
Hjarta mitt, ó hjarta mitt, vík blekkingu frá."
Ráðalaus sem nýfætt barn,
mér órótt er er flæðir að.
Mun ég standa á milli öldubrjóta ?
Eða leggjast dauðanum í þinni vík?
Heyrðu minn söng:
Syntu til mín,
syntu til mín,
láttu mig umvefja þig.
Hér ég er,
hér ég er,
bíð þess að faðma þig.
(Larry Beckett/þýðing Gunnar Ársæll)
Gunnar Ársæll og fjölskylda.