Þorsteinn var fæddur 2.10. 1919 á Efra-Núpi, Fremri-Torfustaða hreppi, V-Hún. Hann lést á Sjúkra húsinu á Húsavík þá nítutíu ára að aldri. Hann var sonur hjónanna Arndís ar Jónasdóttur, frá Húki, f. 1.9. 1893, d. 12.2. 1950, og Jónasar Ólafs Þorsteinssonar frá Hrútatungu, f. 21.11. 1872, d. 30.6. 1952. Þorsteinn var elstur þriggja systkina en þau eru Ólöf, fædd 16.7. 1921, d. 19.8. 2006, bjó í Magnús skógum í Dalasýslu ásamt manni sínum og börnum og Trausti, fæddur 22.11. 1922, d. 19.7. 2001, bóndi á Hvalshöfða í Hrútafirði ókvæntur og barnlaus. Þorsteinn ólst upp á Efra-Núpi 1919-1921, en flutti ásamt foreldrum sínum og systur vorið 1921 að Odds stöðum í Hrútafirði þar sem foreldr ar hans bjuggu til dauðadags. Að lokinni barnaskólagöngu stundaði Þorsteinn nám í Héraðsskólanum á Reykjum veturna 1937-1938 og 1938-1939 og lauk prófi úr eldri deild. Árið 1952 kynnist Þorsteinn Að alheiði Kristjánsdóttur, f. 28.1. 1921, d. 8.3. 1995, en hún hafði ráðið sig sem kaupakonu hjá þeim bræðrum. Þau gengu í hjónaband 25.8. 1955. Eignuðust þau saman fjögur börn en fyrir átti Aðalheiður soninn Karl Braga, f. 29.7. 1944. Börn þeirra í aldursröð: Arndís Jóna, f. 13.10. 1954, Kristján Gunnar, f. 27.6. 1956, Danfríður Erla, f. 30.8. 1960, Hafdís Brynja, f. 8.3. 1963. Barnabörnin eru 10. Barnabarnabörnin eru orðin 10. Þorsteinn var kosinn í stjórn Verkalýðsfélags Hrútfirðinga 1941- 1950 og 1955-1957(þá form.) Hreppsnefndarmaður í Staðar hreppi frá 1954-1978. Kosinn endur skoðandi Búnaðarsambands Vestur- Húnavatnssýslu og fyrirtækja þess á aðalfundi 1949 og endurkosinn síðan til 1987, var þá fluttur úr héraði. Hafði þá endurskoðað 38 ársreikn inga. Sat í stjórn Kaupfélags Hrút firðinga 1959-1986. Þar af formaður í 10 ár. Var í sóknarnefnd Staðarkirkju. Einnig safnaðarfulltrúi. Sýslunefnd armaður Staðarhrepps á fundum sýslunefndar Vestur-Húnavatns sýslu 1947-1950, 1955-1958 og 1979- 1986. Kosinn af sýslunefnd til eftir taldra starfa: Í skólanefnd Héraðs skólans á Reykjum 1950-1983. Yfirúttektarmaður samkvæmt ábúð arlögum 1971-1986. Í stjórn Héraðs bókasafnsins 1971-1986. Endurskoðandi reikninga sjúkra hússins á Hvammstanga 1975-1986. Fulltrúi á fundi Fjórðungssam bands Norðlendinga 1975-1986. Endurskoðandi sveitarsjóðs – og fjallskilasjóðs – reikninga hrepp anna 1979-1986. Í jarðanefnd Vestur Húnavatnssýslu 1983-1986. Í stjórn Sparisjóðs Vestur-Húnavatnssýslu 1984-1986. Í stjórn Búnaðarfélags Staðarhrepps 1947-1957 og 1964- 1970. Formaður 1953 og 1964-1970. Einnig var Lestrarfélag Staðar hrepps til húsa hjá Þorsteini á Odds stöðum til ársins 1986 og sá hann um innkaup, umsjón og útlán safnsins. Einnig söng hann í kirkjukór Stað arkirkju og var í Karlakórnum Lóu þrælum þegar hann var stofnaður. Jarðarför Þorsteins fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 11. sept. 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Hann pabbi minn er dáinn. Hann lést þann 25. ágúst á sjúkrahúsinu á Húsavík orðinn 90 ára gamall.

Þegar manneskja deyr verður lífið einhvern veginn ekki lengur eins fyrir okkur hin sem áfram paufumst lífsgönguna.

Líka þó að um aldraðan mann sé að ræða.

Það koma undarlegustu minningar upp í hugann.

Gömlu támjóu spariskórnir þínir, sem að við Fríða pússuðum þegar þú varst að fara í kirkjuna.

Við krakkarollingarnir að skottast á eftir þér þegar þú varst að marka lömbin úti á vorin.

Þú sitjandi upp á lofti að stimpla lambamerki.

Kókið í gleri sem þú sóttir upp á háaloft og gafst okkur krökkunum þegar var ógeðslega heitt úti og við búin að eltast við lömb og rollur allan daginn. Búinn að geyma það þar síðan á jólunum.

Þú að skafa drulluna af gallabuxunum mínum með vasahnífnum þínum eftir að ég datt á rassinn í fjárréttinni við að elta lömbin.

Við á Grána gamla eða Hrafni þegar var nýbúið að járna.

Þú að ríða upp frá fjárhúsunum með aðra hönd á mjöðminni og hina á taumnum að leggja af stað í smalamennsku fyrir rúninginn og strax farinn að öskra á hundinn.

Heyskapurinn þar sem þú og Massinn voruð eitt og  bévítans bindivélin sem bilaði í hvert skipti sem hún fór út á tún.

Þú að slá með orfi og ljá. Tyllandi í annan fótinn meðan þú varst að brýna ljáinn og svo hélstu  áfram á sama hraðanum allan daginn

Þú að moka út úr fjárhúsunum og keyrandi skítinn í hjólbörum í haug sem var svo síðar mokað með traktor í dreifarann og sett á túnin.

Ég hangandi í haldinu á mjólkurbrúsanum í myrkrinu á kvöldin þegar þú varst að bera hann heim úr fjósinu í kælinn.

Þú að leggja þig eftir matinn. Mikið ofboðslega held ég að þú hafir oft  verið þreyttur.

Allar þessar myndir eru af manni í vinnuskyrtu, gallabuxum, ullarsokkum og gúmmískóm.

Einkennisbúningi bóndans.

Þú varst samt strangur maður. Stundum fannst mér þú geta stjórnað okkur með augunum.

Það var ekki  liðinn neinn fíflagangur t.d. við matarborðið og alls ekki þegar þú varst að hlusta á fréttirnar og það gerðirðu mjög oft á dag, fannst okkur krökkunum að minnsta kosti.

Þú varst ákaflega vinnusamur og gerðir einnig miklar kröfur til okkar krakkanna. Enda hvarflaði ekki að okkur að segja nei við nokkru verki.

Nægjusamur varstu og reglufastur. Enda sennilega ekki veitt af til að dagurinn entist í störfin.

Alla daga varstu vaknaður fyrir klukkan átta án þess að brúka nokkurn tímann nútíma apparat eins og vekjaraklukku.

Dagurinn hófst á því að þú fékkst þér heitt vatn með mjólk og sykri.

Klukkan hálf tíu var svo morgunmaturinn sem var hafragrautur ásamt gallsúru slátri. Klukkan tólf var svo hádegismatur og hálf fjögur kaffi og kvöldmatur var svo á slaginu sjö þegar þú varst búinn í fjósinu og þá var aftur hafragrautur og slátur og afgangar ef einhverjir voru frá hádeginu.

Einu sinni hélt ég alltaf að þér fyndist hafragrautur svona ofboðslega góður.

Í seinni tíð hefur nú læðst að mér sá  grunur að ástæðan hafi verið önnur.

Það voru sennilega ekki mikil auraráðin á þessum bæ.

Þrátt fyrir það komuð þið hjónin okkur krökkunum til manns án þess að við hefðum minnstu vitneskju um annað en að við hefðum nákvæmlega allt sem við þurftum.

Við höfðum nóg að borða og var sjaldnast kalt og þó svo að við ættum saman hjól og tækjum við fötunum hvert af öðru þá var það bara þannig.

Stundum hef ég líka velt því fyrir mér hvort að þú hafir kannski ekki haft mikið gaman af því að vera bóndi.

Þú sem varst svo bókhneigður, hagmæltur og talnaglöggur maður.

En lífið fór með þig þessa leið og starfi þínu sinntir þú af trúfestu.

Þegar þú hættir að búa þá fluttuð þið hjónin til Húsavíkur.

Það held ég að þú hafi gert vegna mömmu.

Hún var þá fyrir nokkru komin með talsverð einkenni Alzheimer sjúkdómsins, en á Húsavík gat hún verið í dagvistun meðan þú stundaðir þína vinnu. Um 1990 er hún svo lögð inn á Öldrunardeildina á Húsavík og er þar þangað til hún deyr veturinn 1995.

Mér vöknar um augu þegar ég hugsa um af hversu mikilli trúfestu þú stóðst þína plikt.

Á hverjum einasta degi tvisvar á dag fórstu að heimsækja mömmu þó svo að hún væri löngu hætt að þekkja þig.

Enda kom að því að eitthvað léti undan álaginu, því að 1993 til 1994 varstu svo langt niðri blessaður gamli maðurinn að þú varst sjálfur að dvelja á sjúkrahúsinu um hríð.

En náðir þér sem betur fer nokkuð upp úr því aftur.

Oft held ég nú samt að hugurinn hafi leitað heim í fjörðinn þinn.

Þessar vísur orti pabbi. Sú fyrri er ort þann 19. október 1986 þegar þau eru að flytja til Húsavíkur

Kominn Hrútafirði frá

flutti úr eigin ranni.

Húsavík með hýrri brá

heilsar förumanni.

Þessi seinni kemur svo þegar hann er að koma í sumarfrí í fjörðinn sinn sumarið 1987

Langan veg hef lagt und hjól

lokum seint mun gleyma

Við mér blöstu böðuð sól,

blessuð fjöllin heima.

Síðasta skiptið sem við hittumst var í sumar.

Skrokkurinn var fyrir löngu orðinn til trafala og heyrnin var farin að bila  en þú varst samt spjallhress.

Það var góð stund.

Þú kvaddir jarðvistina pabbi minn á brúðkaupsdegi ykkar mömmu og ég ætla mér að trúa því að þið séuð núna saman á ný.

Ég kveð með söknuði mætan mann sem hefur nú lokið sinni löngu göngu.

Í huga mínum er þakklæti fyrir áhyggjulausa æsku og góðar samverustundir.

Hvíldu í friði pabbi minn.


Hafdís Brynja Þorsteinsdóttir bóndi Hvalshöfða.