Ólöf Helgadóttir fæddist 30. janúar 1918 að Neðra-Núpi en ólst upp í Hnausakoti í Austurárdal, Húnavatnssýslu. Hún lést á dvalarheimilinu Lundi, Hellu, 12. september 2010. Móðir Ólafar var Ólöf Jónsdóttir, f. 15. febrúar 1880 á Hömrum í Þverárhlíð, d. 11. október 1969, og faðir Ólafar var Helgi Jónsson, f. 14. júlí 1884 í Huppahlíð í Miðfirði, d. 2. september 1965. Systkini Ólafar voru: Ólafur, f. 1909, Jón, f. 1910, Guðrún, f. 1911, Marinó, f. 1913, Jóhann, f. 1914, Björn, f. 1921, og Aðalsteinn, f. 1925. Þau eru öll látin. Ólöf giftist þann 14. júlí 1944 Benedikt Sveinbjarnarsyni frá Bjargarstöðum í Miðfirði, f. 4. mars 1915, d. 29. desember 1989. Ólöf eignaðist fimm syni þeir eru: 1) Ólafur Grétar Óskarsson, f. 1938, maki Steinunn Thorarensen. Þau eiga fjóra syni. 2) Sveinbjörn Benediktsson, f. 1944. Hann á eina dóttur með Sigrúnu Guðmundsdóttur og 5 börn með Olgu Thorarensen. 3) Helgi Benediktsson, f. 1948, maki Regula Verena Rudin. Hann á fimm börn. 4) Jón Gunnar Benediktsson, f. 1952, maki Nicole Chene. Þau eiga þrjú börn. 5) Hjörtur Már Benediktsson, f. 1958, maki Björg Hilmisdóttir. Hann á þrjár dætur og Björg á þrjú börn. Barnabörnin eru 20, barnabarnabörn eru 31 og eitt barnabarnabarnabarn. Ólöf og Benedikt bjuggu í 18 ár á Bjargastöðum í Mosfellssveit en árið 1967 fluttu þau að Austvaðsholti í Landsveit. Þau bjuggu um tíma í Laugarási í Biskupstungum en eftir að Benedikt lést flutti Ólöf aftur í Austvaðsholt. Síðustu fimm árin dvaldi hún á dvalarheimilinu Lundi á Hellu. Útför Ólafar fer fram frá Lágafellskirkju í dag, 20. september 2010, og hefst athöfnin kl. 14.
Elsku amma.
Nú ertu farin frá okkur en minningarnar um þig munu varðveitast í hjarta mínu um alla framtíð. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og það var yndislegar heimsóknirnar til þín og afa, bæði á Laugarás og svo í fimm mínútna fjarlægð frá okkur í Austvaðsholti. Ég man eftir því þegar ég skokkaði yfir til þín um miðjan daginn og fór ekki aftur fyrr en seint um kvöld eftir að hafa spjallað, spilað og prjónað. Því miður fékk ég ekki hæfileika þína við að prjóna, þú rumpaðir af hverju sokkapari og vettlingapari á fætur öðru og þar á milli komu ullarpeysurnar sem við fengum að gjöf frá þér. Alltaf var mikil gleði, hamingja og ánægja í heimsóknunum hjá þér og öll helstu spilin á spil sem ég kann lærði ég af þér. Ávallt var hægt að koma til þín á hvaða tíma sólahrings sem var, ég var alltaf velkomin og þú tókst á móti mér með bros á vör og mikilli hlýju. Þegar ég ákvað að hlaupa heim seint að kvöldi í niða myrkri og með hjartað í buxunum af myrkfælni fylgdir þú mér alltaf út að dyrum knúsaðir mig fast, kysstir og hvíslaðir huggunarorðum í eyra mér. Ég lærði meðal annars af þér að heilsa og kveðja alltaf innilega.
Þegar mamma og pabbi fóru í hestaferðirnar á sumrin fylgdist þú alltaf með af mikilli athygli annað hvort út um stofugluggann heima í litla, sæta sumarbústaðnum þínum eða þú röltir út að hesthúsi til að fylgjast með að allt færi vel fram. Einnig var það oft sem við sátum inn í stofu og horfðum á náttúruna, lífið og fólkið í gegnum stofugluggann þinn. Þarna fer pabbi þinn á eitthvað trippi Emilía mín sagðir þú oft og við fylgdumst með honum fara fram og til baka á trippinu eftir Árbæjarbrautinni niður að Seli. Þú hafðir mikinn hug á því að allt færi vel hjá öllum í kringum þig og þú gerðir allt til þess að þínum nánustu liði vel. Þú varst alltaf til staðar sama hvort eitthvað bjátaði á eða í gleði og hamingju. Þú spurðir alltaf frétta af þínum nánustu og hafðir mikinn áhuga á að vita hvað hver og einn var að gera í lífinu, í hvaða skóla, í hvaða vinnu og þú studdir alltaf við bakið á okkur þegar við tókum ákvarðanir í lífi okkar.
Við gátum setið og spjallað um heima og geima í lengri tíma, þú prjónandi og ég að lita eða sauma út. Aldrei leiddist mér að koma til þín og tíminn leið óskaplega hratt.
Heimsóknirnar til ykkar afa í Laugarás eru einnig ógleymanlegar, það var alltaf mikil spenna að fá að fara til ykkar þangað og hvað þá að fá að gista. Það var alltaf spilað, spjallað, sungið eða hlustað á útvarp og einnig var alltaf stutt í grínið og glettnina. Þið afi höfðuð bæði unun á tónlist og söng og var því mikið um músík í kringum ykkur og okkar fjölskyldu. Nú þegar ég bý á Laugarvatni liggur leið mín oft til og í gegnum Laugarás og reikar þá hugur minn alltaf til ykkar afa og ég rifja upp dýrmætar minningar.
Ekki má gleyma að nefna baksturshæfileika þína og eldamennsku, það er oft sem mamma sagðist hafa lært að baka og elda með þér meðal annars. kleinurnar, jólakökurnar, pönnukökurnar þínar, svo að eitthvað sé nefnt, ótrúlega gómsætar og runnu ljúflega niður í litla og stóra maga. Þú varst alltaf með eitthvað gómsætt tilbúið fyrir okkur þegar við komum í heimsókn og ef við komum óvænt miklaðir þú það ekki fyrir þér að skella í pönnukökudeig eða í jólaköku á meðan við spjölluðum saman. Þú tókst það ekki í mál að við færum frá þér án þess að borða eitthvað og alltaf var borðið fullt af gómsætum kökum og brauði. Þú hafðir mikinn hug á að við nærðumst vel og tókst vel eftir því ef við vorum að grennast og þú vildir þá að við borðuðum meira. Þú varst svo barngóð og þér fannst svo gaman að fá litlu barnabörnin og önnur börn í heimsókn og þeim fannst ekki síður gott að koma í heimsókn til þín. Þau fundu fyrir hlýjunni og örygginu hjá þér og ég er því himinlifandi að börnin mín tvö, Anthony og Alice, urðu þeirrar gleði aðnjótandi að fá að kynnast þér og eiga með þér góðar stundir.
Ekki má gleyma hversu mikla athygli þú veittir fötum og útliti bæði hjá öðrum og sjálfri þér. Þú vildir líta vel út og sérstaklega á mannamótum og mér fannst svo gaman að sjá hversu vel þú hugsaðir um þig og fötin þín. Þú vildir alltaf vera fín um hárið þegar þú fórst eitthvað og settir þá rúllur í hárið einnig sem þú settir á þig varalit og litaðir augabrúnirnar þínar. Þú tókst þér tíma til að velja þér eina af fallegu flíkunum þínum sem þú áttir til að vera í. Ef að ástvinir þínir fóru erlendis óskaðir þú þeim alltaf góðrar ferðar og skemmtunar þótt þú vildir helst hafa þá heima nálægt þér. Það sýnir bara hversu mikið þér þótti vænt um okkur, þú vildir hafa okkur nærri þér svo þú vissir að okkur var óhætt. Við vissum öll hvað þig langaði í frá útlöndum, einhverja flík sem þú vissir að væri í tísku hverju sinni og lýstir henni fyrir okkur, litur, efni og snið. En það voru ekki bara við sem fórum til útlanda, þið afi ferðuðust líka mikið, fóruð meðal annars til Búlgaríu, Spánar og Frakklands, þar sem þið nutuð ykkar mikið.
Elsku, yndislega amma mín, ég mun sakna þín sárt og samverustunda okkar en engin getur tekið minningarnar mínar um þig og okkar samverustundir frá mér. Þær eru mér mjög dýrmætar og þær verða mjög vel geymdar í hjarta mínu. Af þér lærði ég margt og mikið og varð að þeirri manneskju sem ég er í dag með þinni hjálp. Þú hefur gefið mér dýrmætar gjafir og gleðistundir allt frá því ég var pínulítil í pössun hjá þér þegar mamma og pabbi voru í fjósinu eða þegar þau fóru í hestaferðir, allt til hinstu stundar.
Ástarþakkir elsku amma fyrir allt, hvíldu í friði með öllum þínum ástvinum sem hafa beðið þín lengi.
Þín
Emilía.