Gunnhildur Júlíusdóttir fæddist á Akureyri 3. desember 1979. Hún lést á heimili sínu þann 14. september 2010. Foreldrar hennar eru Jenný Hauksdóttir, f. 5. nóvember 1960, og Júlíus Viðarsson, f. 7. desember 1958. Eiginkona Júlíusar er Hulda Þórsdóttir, f. 23. júní 1960. Bróðir Gunnhildar er Hafþór, f. 7. ágúst 1996, sonur Júlíusar og Huldu. Foreldrar Jennýjar eru Haukur Kristófersson og Gunnhildur Njálsdóttir. Foreldrar Júlíusar eru Viðar Jónsson (látinn) og Snjólaug Guðjónsdóttir. Sambýlismaður Gunnhildar er Karl Lilliendahl Ragnarsson, f. 2. maí 1974. Foreldrar hans eru Ragnar Guðmundsson og Elísabet Karlsdóttir. Sonur þeirra Gunnhildar og Karls er Christian Lilliendahl Karlsson, f. 19. apríl 2000. Gunnhildur lauk námi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar árið 1995. Hún lauk 8. stigi í klassískum söng við Söngskólann í Reykjavík árið 2003. Árið 2005 lauk hún stúdentsprófi frá Menntaskólanum Hraðbraut, náttúrufræðibraut. Gunnhildur stundaði söngkennaranám við Complete Vocal Institute ApS Kaupmannahöfn þegar hún lést. Gunnhildur söng með kór Íslensku óperunnar og tók þátt í uppsetningu á Hollendingnum fljúgandi sem sýndur var í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð árið 2002. Hún tók einnig þátt í ýmsum tónlistarviðburðum og má þar einkum nefna Macbeth í Íslensku óperunni árið 2003 og Carnegie Hall árið 2004. Hún vann mikið við tónlist og kenndi m.a. við Söngskóla Maríu Bjarkar ásamt því að syngja í hinum ýmsu hljómsveitum. Útför Gunnhildar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 23. september 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Síðasta vika hefur einkennst af undarlegum tómleika og sorg hefur verið í huga okkar. Það fá því engin orð lýst hvernig tilfinning það var að fá fregnir af andláti Gunnu.

Gunna var tæplega fermd,  þegar vinahópurinn fór að myndast og strax mynduðust sterk og  góð tengsl á milli okkar. Allt milli himins og jarðar var brallað mikið hlegið ... við tókum hraustlega á því að rúnta hring eftir hring ýmist sem farþegar eða á bílnum mínum eftir að ég fékk bílpróf um miðbæ Akureyrar og oftar en ekki með kassettutækið í botni og sungum með.

Svo man ég eftir sumarbústaðarferðunum vinahópsins hingað og þangað um nágrenni Akureyrar, þær ferðir gleymast aldrei ... spilerí og draugasögurnar hans Palla, sem við gátum hlegið endalaust að .... eftirá! Þú varst prakkari og elskaðir að fíflast og gera grín að eða með félögunum, þú varst alltaf til.

Á þessum tíma, vorum við líka fastagestir teríunnar á Hótel KEA, þar sátum við tímunum saman risastór hópur og ræddum málin yfir bolla eða reyndar bollum ... mörgum bollum nema þú, þú drakkst aldrei kaffi, bara kók í gleri helst!

Um 17-18 ára aldur tókst þú mótorhjólaprófið og þeystir um á 250 rebel í dálítinn tíma áður en þú fékkst þér meira fullorðins hjól, man hvað þú varst sæl og glöð rúntandi um allt á 600 cbr-inu með félögunum.

Eitt sinn vorum við á leið á landsmót Snigla, dágóður hópur, fórum af stað í hringferð úr Reykjavík, vorum komin á Egilstaði, þá hringdir þú og sagðist vera á Bakkafirði og þú ætlaðir að rúlla til okkar yfir Hellisheiði eystri og vera samferða okkur á landsmót á Ketilás. Svo leið tíminn og var okkur pínu farið að lengja eftir þér en loksins skilaðir þú þér ... gjörsamlega að farast í hendinni eftir að þú dast á hjólinu upp í mót brekkunnar og braust á þér hendina. Þú hættir ekki, né náðir í hjálp ... þú bara reddaðir þér, náðir að koma hjólinu aftur á dekkin og hélst áfram og mættir til okkar... þetta lýsir þér vel hvernig þú hélst alltaf áfram þó blési á móti.

Svo flutti ég suður og fór í nám, og þá leið ekki  svo langur tími að  þú komst suður líka og kynntist honum Dalla þínum og stofnaðir fjölskyldu.  Ég man hvað þið voruð krúttleg og  ástfangin þegar allt var að byrja hjá ykkur.

2001 kom ég með mitt fyrsta barn, við Smári höfðum eignast stúlku og okkar ósk var að þú yrðir guðmóðir hennar sem mín besta vinkona sem þú tókst að þér með bros á vör.

Fullorðin manneskja var að mótast, sem lét drauma sína og þrár rætast í námi, starfi og leik, góð og falleg manneskja sem hreyf alla með sér.

Þrátt fyrir veikindin í öll þessi ár og margar innlagnir á spítala og útskriftir  þá hélstu alltaf áfram í áttina að markmiðum þínum og stundaðir tónlistarnámið  af miklu kappi sem og sönginn og hann eigum við eftir, og getum hlustað á rödd þína hljóma áfram.

Ég hitti þig og Christian, drenginn ykkar á Dalvík síðast á fiskidaginn, þá gáfum við okkur smá tíma í hitting og spjall, áður en þú þurftir að rjúka og halda uppi fjöri og gleði á pöbbnum um kvöldið.

Ég er svo glöð í hjarta mínu að okkur tókst að koma þessum hitting á þó hann hafi verið stuttur, þetta var ein af stundunum okkar.

Það verður erfitt að venjast þessari nýju mynd sem lífið hefur tekið á sig eftir fráfall þitt. Þú áttir ávallt stóran stað í hjörtum okkar og munt eiga áfram.

Þrátt fyrir mikla sorg get ég ekki annað en brosað í gegnum tárin og hugsað um hvað ég er heppin að hafa kynnst þér og verið  hluti af þínu lífi í tæpa tvo áratugi, og engu máli skipti hvað leið langt á milli símtala eða hittings, það var alltaf eins og við hefðum heyrst eða hist í gær.

Elsku Gunna eða Gönnsó (eins ég kallaði þig oft) vonandi ertu komin á betri stað laus við alla verki og óþægindi og líður vel.

Þú býrð í hjarta mínu með góðum og skemmtilegum minningum sem munu aldrei gleymast.

Dalla, Christian, foreldrum og fjölskyldunni færum við okkar dýpstu samúð og megi æðri máttur styrkja ykkur í sorginni.

Hvíl í friði elsku vinkona mín,

Við hittumst aftur ...


Jóka og Smári.