Magnús Ragnar Einarsson fæddist að Syðri-Gróf í Villingaholtshreppi 11. október 1932. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Fossheimum 17. september 2010. Foreldrar hans voru hjónin Einar Víglundur Kristjánsson, f. 25. ágúst 1901, d. 21. febrúar 1991, og Ingveldur Jónsdóttir, f. 2. júní 1912, d. 9. febrúar 1995. Magnús var elstur af 11 systkinum en þau eru: María, f. 3. júní 1935, d. 20. september 1936, María Kristín, f. 17. október 1937, Unnur Margrét, f. 26. nóvember 1939, Jóna Þóra, f. 5. júní 1942, d. 3. desember 1948, Rannveig Jóna, f. 27. september 1944, Auðbjörg, f. 4. maí 1948, d. 9. júlí 2008, Jón Þór, f. 19. október 1949, d. sama dag, Inga Jóna, f. 5. júní 1951, Kristján, f. 25. apríl 1953, Sjöfn, f. 9. febrúar 1958. Magnús flutti ungur með foreldrum sínum að Vatnsholti í Villingaholtshreppi og ólst þar upp. 27. september 1958 kvæntist Magnús Gyðu Fanneyju Björnsdóttur, f. 25. september 1934, frá Efra-Seli í Landsveit og stofnuðu þau nýbýli að Vatnsholti 2. Þau bjuggu þar í 17 ár með hefðbundinn búskap og eignuðust 4 börn. Þau eru: Inga, f. 4. mars 1959, maður hennar er Kristinn Sigurmundsson, á hún þrjú börn. Björn, f. 15. desember 1960, kona hans er Aðalheiður Jóna Steingrímsdóttir, þau eiga eina dóttur. Einar, f. 29. ágúst 1963, kona hans er Anna Lára Böðvarsdóttir, þau eiga fjóra syni. Guðrún Lilja, f. 19. ágúst 1973, sambýlismaður hennar er Gunnar Jökull Karlsson, hún á fjögur börn. Árið 1975 seldu Magnús og Gyða býlið og megnið af jörðinni og byggðu sér hús á litlu holti sem þau nefndu Vatnsholt 3. Þar stundaði Magnús kartöflurækt samhliða öðrum störfum. Sautján árum síðar, eða 1992, fluttu þau á Selfoss og hafa búið þar síðan. Magnús vann lengst af í Mjólkurbúi Flóamanna og í Sláturfélagi Suðurlands. Síðustu 2 árin dvaldist hann á hjúkrunarheimilinu Fossheimum. Útför Magnúsar fer fram frá Villingaholtskirkju í dag, 25. september 2010, og hefst athöfnin kl. 13.30.
Nú er ég orðin stór samt er ég eiginlega bara lítil, pabbastelpan. Og enn er pabbi minn bestur allra pabba. Og enn er það ekkert sem mér finnst hann ekki kunna, vita eða geta. Það hefur alltaf verið nóg fyrir mig að vera í návist hans þá hefur mér alltaf fundist að ekkert slæmt gæti gerst. Þó hann væri kominn á efri ár og heilsunni farið að hraka var það ennþá þannig, þvílíkur var styrkur hans. Fyrir mér er hann höfðingi í allri merkingu þess orðs. Og svo ótalmargar spurningar sem ég átti eftir að spyrja.
Nú hefur pabbi minn kvatt þennan heim. Sem lítil stúlka trúði ég að til væri himnaríki. Ég trúi því enn og vona að nú sitji þeir saman feðgarnir, pabbi og afi og skeggræði um gamla tíma og nýja. Og ef einhver sanngirni er í þessu þá hljóta að vera til bílar í himnaríki. Kannski hefur almættið brætt úr nýja bílnum sínum og því hefur almættinu vantað góðan mann til að skipta um vél og koma bílnum í gegnum skoðun.
Blessuð sé minning pabba míns.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Guðrún Lilja Magnúsdóttir.
Við Maggi spjölluðum ýmislegt þegar við vorum tveir einir, samtöl sem voru á milli tveggja einstaklinga og verða ekki rakin, en ég skildi margt um afstöðu hans til lífsins. Oft var talað um hann sem harðann og fanatískan, ég var og er því ekki sammála, hann reykti ekki og drakk ekki, en var samt hrókur alls fagnaðar þegar við átti, fyllerí og rugl var bara ekki inni í myndinni, hann vildi ekki vera nærri slíku. Maggi sendi mér fastan tón eftir að hann hafði séð vín í mínum fórum í fyrsta sinn. Eftir að ég hafði komið til hans út í skúr, daginn eftir, rætt málið og sagt mína skoðun og mínar venjur, brosti hann og sagði, ég held að Gyða sé búin að hella uppá, eigum við ekki að koma inn og fá okkur kaffisopa, þar með var það útrætt. Maggi fór fyrir mig í ríkið einu sinni og færði mér það sem hann keypti austur á Hellu, þar sem ég var með hóp Fransmanna sem voru að koma ofan af hálendi og gisti á Hellu síðustu nóttina hér á landi og hélt þar lokaveislu, hann borðaði með okkur og gat ég ekki betur séð en hann hefði gaman að.
Fyrir nokkru dreymdi mig sama drauminn nokkrar nætur í röð, ég velti því fyrir mér hverju þetta sætti. Síðast vaknaði ég eldsnemma eftir þetta, settist hugsi upp í rúminu, alltaf sami draumurinn, fór fram og fékk mér kaffi, kveikti á tölvunni og kíkti á veðurspána, áður en ég vissi af var ég farinn að skrifa drauminn niður og einskonar upphaf að minningargrein. Ég kom akandi í hlaðið á Vatnsholti, lagði bílnum fyrir framan vélageymsluna eins og ég var vanur og steig út, Maggi kom út úr íbúðarhúsinu og labbaði á móti mér, heilsaði og sagði, segðu mér hvað var það sem eyðilagði þetta fyrir ykkur, ég hugsaði, náði engu að svara áður en hann sagði, var það ekki ......... Ég hugsaði áfram, hann brosti til mín og sagði, láttu mig þekkja það, labbaði af stað og endurtók um leið og hann hvarf fyrir hornið á vélageymslunni, já láttu mig þekkja það.
Ég velti mikið fyrir mér af hverju dreymir mann sama drauminn aftur, við því hef ég ekki svar, en eftir að ég skrifaði drauminn niður, eða byrjunina á þessari grein, hætti þetta. Það er margt skrítið, sem maður skilur ekki.
Maggi hafði oft orð á því, í upphafi kynna okkar, að hann ætlaði að koma með mér í ferð um landið. Oft bauð ég honum með, en hann fann sér alltaf afsökun fyrir því að koma ekki og sagði gjarnan, ég kem með næst. Árið ´94 þegar ég sá að heilsa hans var að byrja að bila bauð ég honum með mér til Belgíu þar sem ég var að láta byggja yfir rútu. Ég ætlaði að fylgjast með smíðinni og vissi að þarna var eitthvað að gerast sem hann hefði gaman af að sjá, en hann fann afsökun, ég er orðinn alltof gamall og slappur til þess að þú sért að dragnast með mig, gamlan karlinn sem ekkert kann að ferðast, ég verð bara fyrir, engar fortölur dugðu, Maggi kom ekki með. Það kom mér því skemmtilega á óvart þegar ég bauð honum, ellefu árum seinna, að koma með mér á mótorhjólinu í rúnt frá Selfossi, hann hafði sýnt því áhuga, hann þáði það strax og beið spenntur eins og lítill strákur þegar við komum heim til þess að sækja hann, hann mátti varla vera að því að fara í gallann. Við fórum góðan rúnt sem endaði austur á Hellu. Hann og Gyða buðu okkur í kaffi þar áður en við Inga héldum för okkar áfram austur, en þær mæðgur komu þangað á bílnum, þá var heilsan farin að bila hjá Magga og þurfti að hjálpa honum, á og af hjólinu. Svona er víst lífið hjá þeim sem ná aldri, eins og hálfbyggður píramídi, brattar hliðar og flatt þak, lífið rís hratt, helst svipað eftir að toppnum er náð, fellur svo jafn hratt og það reis. Þessi ferð var með síðustu samskiptum okkar.
Nú þegar Maggi er til moldar borinn verð ég staddur á bílasýningu í Þýskalandi, hann hefði haft gaman af að skoða svona sýningu, bílakarlinn, sem hugsaði mest um allskonar tæki, Bronco og Willys jeppa, traktora og fleira. Gerði við bíla og vinnuvélar fyrir ættingjana og sveitungana, en tók oftast lítið eða ekkert fyrir, það gekk jafnvel fyrir hans eigin verkefnum. Maggi er lagður af stað í langt ferðalag, kannski er hann að skoða landið og heiminn, sem hann talaði stundum um að hann ætlaði að gera seinna, en hafði ekki gert, kannski labbar hann um hér á bílasýningunni, stoppar á einhverjum völdum bás, hjá réttri bílategund og ræðir málin yfir kaffibolla.
Hvíl í friði og hafðu þökk fyrir samveruna, þinn fyrrverandi tengdasonur,
Hlífar.