Agnes Ármannsdóttir fæddist í Keflavík 9. nóvember 1962. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 25. september 2010. Agnes er yngsta barn hjónanna Sigurbjargar Stefánsdóttur frá Grindavík (Ísólfsskála), f. 18.6. 1930 og Ármanns Guðjóns Björnssonar frá Reykjavík, f. 6.9. 1923, d. 1.3. 1964. Systkini Agnesar eru: 1) Halldór, f. 1951, sambýliskona Stefanía Haraldsdóttir, 2) Kristinn Ármannsson, f. 8.5. 1952, d. 21.5. 2004, eftirlifandi maki Sæunn Ásta Sigurbjörnsdóttir, 3) Ársæll, f. 1955, maki Kristrún Níelsdóttir, 4) Lilja, f. 1956, maki Sigurður Garðarsson, 5) Valur Rúnar, f. 1957, maki Katrín Benediktsdóttir. Agnes giftist Auðuni Þór Garðarssyni sjómanni frá Keflavík 31.desember 1983, f. 21.6. 1959, d. 14.8.1994. Foreldrar hans eru Helga Auðunsdóttir, f. 1.8. 1935 og Garðar Brynjólfsson, f. 12.6. 1939. Agnes og Auðunn eignuðust þrjár dætur: 1) Helgu, f. 30.9. 1983, sambýlismaður hennar er Hafþór Hilmarsson, börn þeirra Auðunn Fannar, f. 12.3. 2003 og Jóhann Ívar, f. 28.8. 2008. 2) Anítu, f. 16.6. 1988, sambýlismaður hennar er Kristján Á. Baldursson, barn þeirra Steinunn Kamilla, f. 21.11. 2009. 3) Sigurbjörgu, f. 11.9. 1991, sambýlismaður hennar er Ævar Sveinn Sveinsson. Agnes giftist eftirlifandi eiginmanni sínum 10. júní 2000, Helga G. Steinarssyni, málara í Njarðvík, f. 4.10. 1958. Foreldrar Helga eru Bára Helgadóttir, f. 19.9. 1934 og Steinar Guðjónsson, uppeldisfaðir Helga er Einar Árnason, f. 1.9.1930. Helgi á tvær dætur: 1) Jóhönnu f. 7.11. 1977, 2) Lindu, f. 1.7. 1982. Agnes missti föður sinn ársgömul og ólst upp hjá móður sinni og systkinum í Keflavík við Greniteig 4. Agnes byrjaði ung að vinna, m.a. í fiskvinnslu og hjá Íslenskum aðalverktökum, seinna meir fékk hún áhuga á að vinna með börnum og vann á leikskólunum Heiðarseli og Tjarnaseli í Keflavík. Árið 2001 útskrifaðist hún sem sjúkraliði frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og vann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til ársins 2007, en þá þurfti hún að hætta vegna heilsubrests. Alla ævi hafði hún áhuga á íþróttum, heilsu og líkamsrækt, hún hafði gaman af að spila bæði handbolta og fótbolta sem barn og sótti mikið í líkamsræktarstöðvar í seinni tíð. Í veikindunum fann hún hjá sér mikla þörf til að mála og uppgötvaði þá duldu hæfileika sem hún bjó yfir og sýndi hún verk sín á listasýningu á Ljósanótt 2010. Útför Agnesar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 1. október 2010, og hefst athöfnin kl. 11.
Hjartfólgin vinkona mín, Agnes Ármannsdóttir hefur kvatt þennan sýnilega
heim / eða þetta líf eftir mjög erfið veikindi.
Ég kynntist Agnesi fyrir nokkrum árum þegar að sonur minn Kristján og Anita
dóttir Agnesar kynntust. Strax eftir fyrstu kynni og fyrsta samtal var eins
og við höfðum þekkst alla ævi.
Fljótlega kom í ljós að við áttum mörg sameiginleg áhugamál. Eitt af
áhugamálum Agnesar var list og listsköpun eins og heimilið þeirra Helga
ber glöggt vitni um. Ég var byrjuð að læra að mála í Vogaakademíunni í
Vogunum. Og það atvikaðist þannig fyrir tilstilli Anitu að ég hringdi í
Agnesi og bauð henni að verða samferða mér á námskeið í listmálun, sem hún
þáði með þökkum. Í fyrstu ætlaði hún bara að fá að prufa hvort hún gæti
málað. Það kom strax í ljós að Agnes var listakona af lífi og sál var fljót
að tileinka sér sinn stíl og tækni í sínum málverkum. Alltaf var hún með
fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvað hún ætlaði að gera. Fyrsta samsýning
hennar með Vogaakademíunni var á Ljósanótt 2009. Þá seldi hún nokkrar
myndir og lágu fyrir pantanir hjá henni. Hún var svo glöð hvað gekk vel,
listsköpunin gaf henni ómælda ánægju. Á ferðum okkar inn í Voga spjölluðum
við margt um lífið og tilveruna, gátum hlegið og gantast saman um
ýmislegt. Agnes var mjög meðvituð að hverju stefndi. Þrátt fyrir það var
hún alltaf jákvæð, vonin sem hún hafði var henni dýrmætt vegarnesti. Lilja
systir Agnesar keyrði með okkur á námskeið um tíma, Agnes var strax farin
að kenna henni og leiðbeina, Lilja hálf efins um að listmálun væri fyrir
hana, en Agnes dreif hana áfram í blöndun lita og ýmislegt fleira.
Í vor sem leið voru veikindin farin að hrjá hana enn meira, en hún reyndi
allt hvað hún gat til að mæta. Hún sagði að það hressti sig svo að koma að
mála með okkur konunum og spjalla aðeins og dreifa huganum.
Vogaakademían var með samsýningu á Ljósanótt 2010 Agnes var nokkrar myndir
sem ég náði í og hengdi upp fyrir hana. Hún var ekki búin að klára stóru
myndina sína, ætlaði að reyna ef hún hefði þrek til þess. Kvöldið fyrir
opnun sýningarinnar hringdi hún í mig og sagði Ágústa hvernig á ég að mála
stjörnur? Mig vantar svo stjörnubjartan himinn. Ég gat ekki leiðbeint
henni í gegnum síman og stakk upp á því að hún hringdi í Eyþór
listakennara sem og hún gerði.
Við opnunina kvöldið eftir var komin þessi fallega mynd með stjörnum, sem
Lilja hafði hjálpað henni að hengja upp. Svona var krafturinn í henni. Ég
á eftir að sakna þessara ferða inn í Voga með þér elsku Agnes mín. Þú
varst alltaf að gefa svo mikið af þér.
Svo er að nefna fjölskylduna okkar sem var sameinuð þegar börnin okkar fóru
að búa saman. Steinunn Kamilla litla ömmu-prinsessan okkar fæddist, okkur
ömmunum til mikillar gleði. Fyrir átti Agnes tvo ömmudrengi búsetta í
Danmörku, sem hún naut að segja mér sögur af.
Henni var umhugað um velferð dætra sinna tengdasona og barnabarna. Talaði
hún oft um þau við mig og Helga ástkærs eiginmanns sem var henni stoð og
styrkur í veikindunum. Hún vissi að hverju stefndi hjá sér í sambandi við
veikindin og fannst dætur sínar í góðum höndum, það var henni svo
mikilvægt.
Agnes og Helgi bjuggu í sumar hjá Anitu, Kristjáni og Steinunni Kamillu á
meðan nýja húsið var klárað. Áttu þau dýrmætar stundir þar saman.
Steinunn Kamilla lærði ýmislegt af ömmu sinni. Hún lærði að sýna hvað hún
er stór og hvað hún er sterk og að veifa eins og prinsessa. Þetta fallega
bros sem stelpan hefur kemur frá Agnesi.
Svo kom að því að flytja. Agnes var komin á sjúkrahús. Fullt af vinum og
ættingjum gerðu það að verkum að þau gátu flutt inn. Ég kom nokkrum sinnum
að heimsækja Agnesi og Helga á Guðnýjarbrautina. Í eitt skipti þegar ég
kom var hún svo full þakklæti kærleika og hlýju í garð allra sem hjálpuðu
til með flutninginn í húsið hún sagði; Ágústa ég er svo heppin, að eiga
svona góða að Hún var svo glöð að vera komin heim til sín. Svo þakklát og
auðmjúk.
Agnes og Helgi voru ekki búin að búa lengi í nýja húsinu sínu þegar hún var
lögð inn á spítala þar sem hún lést.
Elsku Agnes lífsvilji, bjartsýni og sálarþrek voru þeir þættir sem
einkenndu líf þitt. Alltaf helstu í vonina, stutt var í bros og hlátur.
Ég er þakklát fyrir að hafa átt Agnesi að samferðarkonu þau ár sem ég
þekkti hana, þau hefðu mátt vera mikið fleiri.
Ég bið Guð að blessa minninguna um mæta konu sem hafði reynt svo margt á
stuttri ævi sinni. Hún elskaði fjölskyldu sína og vini.
Móðurmissirinn er mikill ég bið Guð að styrkja Böggu móður Agnesar.
Elsku Helgi, Helga,Hafþór, Auðunn Fannar og Jóhann Ívar, Anita,Kristján og
Steinunn Kamilla, Bagga og Hafþór Guð blessi ykkur og styrki á erfiðum
stundum.
Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn, Drottinn, heyr þú raust mína, lát
eyru þín hlusta á grátbeiðni mína! Ds. 130,1-2.
Ágústa Guðrún Ólafsdóttir.