Kristinn Kristmundsson, fyrrv. skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni, fæddist á Kaldbak í Hrunamannahreppi 8. september 1937. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítala – háskólasjúkrahúss 15. september 2010. Foreldrar hans voru Elín Hallsdóttir, f. 12. júní 1896, d. 20. júní 1942, og Kristmundur Guðbrandsson, f. 1. maí 1897, d. 24. des. 1954, er bjuggu á Kaldbak frá 1930 til æviloka. Systkin Kristins: Jónína Guðrún, f. 27. ágúst 1926, d. 9. desember 1967, Sigurður, f. 17. júní 1928, d. 4. mars 2001, Guðbrandur, f. 15. september 1930, Guðmundur, f. 15. september 1930, d. 11. maí 1999, Gunnar Marel, f. 5. nóvember 1933, Elín, f. 12. mars 1942. Kristinn kvæntist 1. desember 1960 Rannveigu Pálsdóttur frá Stóru-Sandvík, f. 25. maí 1935. Börn þeirra eru: 1) Ari Páll, f. 28.9. 1960. Kona hans er Sigrún Þorgeirsdóttir, f. 21.11. 1958. Börn þeirra eru Þorgeir, f. 17.8. 1983, kvæntur Hlín Stefánsdóttur, f. 6.7. 1982; Kristrún, f. 30.5. 1989, Ingólfur, f. 8.7. 1991 og Hannes, f. 25.5. 1995. 2) Kristrún, f. 7.3. 1962. Dætur hennar og Sigurvins Ó Snorrasonar eru Rannveig Sigríður, f. 30.5. 1987 og Þorbjörg, f. 24.6. 1991. 3) Sigurður, f. 4.4. 1966. Kona hans er Guðfinna Þóra Hallgrímsdóttir, f. 7.2. 1966. Sonur Sigurðar og Guðbjargar Maríu Sveinsdóttur er Sveinn, f. 26.1. 1986. Unnusta Sveins er Ashlan Falletta-Cowden, f. 12.5. 1987. Dætur Guðfinnu og stjúpdætur Sigurðar eru Bára, f. 3.3. 1988, Lilja, f. 16.5. 1995, Heba Þórhildur, f. 10.5. 1997, og Sigríður Kristín, f. 4.10. 2000, allar Stefánsdætur. 4) Jónína Guðrún, f. 26.5. 1968. Hennar maður er Jóhann Friðrik Valdimarsson, f. 5.2. 1959. Börn þeirra eru Guðrún Elín, f. 30.4. 1992, Kristinn, f. 27.7. 1995 og Kristína Rannveig, f. 14.9. 2003. Kristinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1957 og cand. mag.-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1966. Námskeið í uppeldis- og kennslufræði við HÍ 1967. Kennari við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum 1958, Menntaskólann að Laugarvatni 1959-1961, Héraðsskólann á Laugarvatni og Húsmæðraskóla Suðurlands 1960-1961. Kennari við Laugarnesskólann 1961-1964 og Menntaskólann í Reykjavík 1963-1970, aðstoðarstjórnandi við Menntaskólann við Tjörnina 1969-1970. Stundakennari við Háskóla Íslands 1969-1970. Skipaður skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni 1970 og gegndi því starfi allt til starfsloka árið 2002. Kristinn tók þátt í ýmsum nefndarstörfum í tengslum við aðalstarf sitt og ritaði bókina Sléttuhreppur, fyrrum Aðalvíkursveit (1971, með Þórleifi Bjarnasyni). Kristinn var virkur í ýmsum félagsstörfum og var m.a. heiðursfélagi í Sögufélagi Árnesinga. Lionsklúbbur Laugardals gerði hann að Melvin Jones Fellow árið 2008 fyrir störf í þágu samfélagsins. Kristinn var einstaklega farsæll í vandasömu starfi og naut virðingar og vinsælda meðal nemenda og samstarfsfólks. Útför Kristins verður gerð frá Skálholtsdómkirkju í dag, 2. október 2010, og hefst athöfnin kl. 14. Jarðsett verður á Laugarvatni.

Aldrei er svo bjart yfir öðlingsmanni

að eigi geti syrt eins sviplega og nú,

og aldrei er svo svart yfir sorgarranni

að eigi geti birt fyrir eilífa trú.

M. Joch.

Það var aðfaranótt 15. september s.l. að Kristinn Kristmundsson fyrrv. skólameistari við Menntaskólann að Laugarvatni andaðist 73 ára að aldri. Hann hafði átt við nokkra vanheilsu að stríða síðustu misseri, lá á Borgarspítalanum í sex vikur síðastliðinn vetur en var búinn að vera nokkuð hress í sumuar og við sem næst honum stóðu vonuðum að við mættum eiga enn allmörg ár saman, en öllu er afmörkuð stund og svo fór að læknar og hjúkrunarlið réðu ekki við síðasta áfallið þrátt fyrir að allt hafi verið gert sem hægt var.

Við vorum 7 systkin fædd og uppalin á Kaldbak í Hrunamannahreppi, 5 bræður og 2 systur. Bærinn var afskekktur og jörðin erfið til búskapar, samgöngur nánast engar nema á hestum og börnin því snemma látin hjálpa til eftir því sem aldur og geta leifði. Sá er hér heldur á penna er 3 árum eldri en Kristinn, okkar samskipti voru því náin. Sem börn lékum við okkur saman og vorum látnir hjálpa til eftir því sem til féll. Voru þá frekar valin léttari verk og leiðinlegri svo sem kúarekstur og ýmsir snúningar, sendiferðir og snúa heyi, sem eldri bræðurnir losnuðu þá frekar við og vorum við oft kallaðir litlu strákarnir á bænum. Allt er þetta ljóst og lifandi í minningunni og rifjast upp við þessi tímamót.

Snemma kom í ljós að Kristinn var mjög bókhneigður, lærði fljótt að lesa og las allt sem hann náði í sem var auðvitað ekki mikið miðað við það sem nú gerist hjá börnum, en hann mundi allt sem hann las og var mjög fljótur að læra kvæði og hafði ríka löngun til að læra og var snemma nokkuð spyrjandi svo sumum þótti nóg um. Hann átti líka létt með að setja saman smellnar vísur þá strax sem engin heyrði nema ég.

Hann fór í barnaskólann á Flúðum 9 ára gamall og var afburða nemandi, lauk fullnaðarprófi með hárri einkunn, og var þá svo heppinn að skólastjórinn leiðbeindi honum í lengra nám. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1957 og lauk cand.mag. ­­ prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1966, kenndi við ýmsar stofnanir þangað til hann var skipaður skólameistari við Menntaskólann að Laugarvatni 1970, en þá hafði hann stofnað heimili með konu sinni Rannveigu Pálsdóttir frá Stóru-Sandvík í Flóa. Þau giftu sig 1960 og eignuðust 4 börn.

Er hann kom að skólanum á Laugarvatni hafði hann verið í nokkurri lægð og aðsókn farið minnkandi, það reyndi því mjög á nýja skólameistarann að rífa skólann upp, það þurfti hugsandi mátt og lifandi hjarta og það hafði Kristinn. Laugvetningar tóku líka mjög vel á móti þessari nýju fjölskyldu á Bala, og nemendum fjölgaði og aðeins komu góðar fréttir af skólastarfinu. Hann útskrifaði stóran hóp af nemendum sem nú eru um allt land nýtir þegnar þjóðfélagsins.

Kristinn vann ýmsa vinnu á námsárunum, var allstaðar vel liðinn og öflugur til vinnu og hefði örugglega getað t.d. orðið hinn besti bóndi og hefði það samfélag svo sannarlega fengið nýtan þegn í sínar raðir, en hann valdi þá braut að mennta, bæta, kenna og halda í hendur og styðja, stundum uppburðarlitla fyrstubekkjar nemendur.

Til hans var oft leitað varðandi samkomur ef þurfti að halda fyrirlestra um hvaðeina og flutti oft eftirminnilegar ræður á mannamótum og eftir hann liggja nokkur ritverk. Þá eru skólaræður hans mörgum mjög minnisstæðar. Hann var mikill fjölskyldumaður, hvatti börn sín og studdi til náms og hafði alltaf mjög gott samband við systkini sín og þeirra fjölskyldur, það er því mikill söknuður hjá öllu hans fólki, en auðvitað fyrst og fremst hjá hans góðu konu sem alltaf stóð við bakið á honum í öllum hans verkum, og börnum hans og afabörnum. Við Rúna söknum góðs bróður, mágs og mikils vinar okkar, en vitum að við höfum mikið að þakka fyrir allar samverustundirnar á heimili þeirra hjóna sem og á samverustundum okkar systkina við spjall um minngar, ættfræði og það sem efst var á baugi, og þá var einnig oft tekið í spilin. Við kveðjum þennan góða dreng í mikilli þökk og virðingu. Eiginkonu hans og afkomendum öllum vottum við innilega samúð.

Gunnar og Rúna.

Í dag er til moldar borinn gamall bekkjarbróðir og tryggðavinur, Kristinn Kristmundsson, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni.

Það eru 57 ár síðan hávær hópur 32 ungmenna hóf nám við nýstofnaðan menntaskóla á Laugarvatni.  Kristinn var einn af þessum nýnemum. Hann átti þá lífsreynslu að baki að hafa misst móður sína þegar hann var á fimmta ári og ólst upp eftir það hjá einstæðum föður og sex systkinum, en hann var næstyngstur systkinanna. Strax í barnæsku komu miklir námshæfileikar Kristins í ljós, hann var fluglæs og víðlesinn þegar skólaganga hófst við 10 ára aldur.  Hann fór í Héraðsskólann á Laugarvatni og tók þaðan landspróf. Kristinn hafði  það því ekki aðeins fram yfir flest okkar að vera afburða námsmaður, hann var líka hagvanur á Laugarvatni. Hann átti styrka rödd og  smitandi hlátur, hafði sterka nærveru.  Enda fór það svo að Kristinn varð einhvern veginn af sjálfu sér forystumaður bekkjarins og stallari hans á lokaári.

Það er löngum haft fyrir satt að vináttubönd sem myndast á unglingsárum verði sterkari og einlægari en þau sem myndast síðar á lífsleiðinni.  Á Laugarvatni var vináttan ekki aðeins mótuð af  næmi unglingsáranna, heldur var okkur þjappað saman á þröngri heimavist þar sem við vorum læst inni eftir klukkan 10 á kvöldin öll fjögur menntaskólaárin.  Samneytið verður ekki mikið nánara og vináttuböndin urðu sterk eftir því.

Við vorum 27 sem útskrifuðumst frá ML vorið 1957. Eftir stúdentspróf skildu leiðir eins og gengur. Kristinn fór í íslensk fræði við Háskóla Íslands og tveim árum eftir stúdentsprófið hitti hann ástina sína, hana Bubbu, Rannveigu Pálsdóttur frá Stóru Sandvík í Flóa. Margs konar gæfu varð Kristinn aðnjótandi á lífsleiðinni, en sú var gæfan mest að eignast Bubbu að lífsförunaut. Og börnin fjögur og aðrir afkomendur eru til frekara vitnis um gæfu þeirra hjóna.

Kristinn lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum 1966. Að námi loknu kenndi hann m.a. við menntaskólana í Reykjavík og á Laugarvatni. Og 1970 var hann skipaður skólameistari við Menntaskólann að Laugarvatni og því embætti gegndi hann  hvíldarlaust að kalla í 32 ár eða meðan heilsan entist.

Enginn vafi er á að starf skólameistara við ML var oft á tíðum erilsamt, jafnvel  óvægið og krafðist persónulegra fórna. Nándin við nemendurna er mikil í heimavistarskóla og álitamál sem krefjast  skjótrar úrlausnar koma ekki aðeins upp á kennslutíma, heldur allan sólarhringinn. Auk þess var skólinn enn í mótun, það þurfti að berjast fyrir tilvist hans og Kristinn háði þá baráttu af lífi og sál, helgaði skólanum krafta sína. Og að lokum stóð hann heill, virtur og dáður af öllum. Það var gæfa Kristins og skólans að hann varð skólameistari á Laugarvatni. Það duldist engum af heimsóknum til þeirra hjóna hvað þau unnu staðnum heitt og hlúðu þar að öllu sem þau máttu. Birtingarmynd þess er  sumarbústaðurinn sem þau byggðu við starfslok á Heiðarbala með útsýn til Laugarvatns og Styrktarsjóður Kristins og Rannveigar sem þau stofnuðu til að styrkja efnilega nemendur til náms við ML.

Þær eru margar stundirnar sem við bekkjarsystkinin höfum átt saman. Upp úr standa ferðirnar til Lundúna og Parísar að loknu stúdentsprófi, en sú ferð var öllum einstök upplifun. Og svo var það ferðin norður í Þingeyjarsýslur sumarið 2007 til að fagna 50 ára stúdentsafmælinu. Það var eins og liðið hefði dagur, ei meir frá útskriftinni á Laugarvatni.  Þá eru allar stundirnar á heimili Kristins og Bubbu á Laugarvatni, enda höfum við flest heimsótt Laugarvatn á 5-10 ára fresti til að júbílera.  Þessar heimsóknir hafa einkennst af glaðværð og gleði þar sem Kristinn var hrókur alls fagnaðar og Bubba veitti af sinni rómuðu rausn og hlýju.

Fyrir nokkrum árum skapaðist sú skemmtilega hefð að gamlir Laugvetningar tóku rútu á leigu og fóru saman í dagsferð. Og auðvitað voru Kristinn og Bubba alltaf með og þar sem endranær nutum við fróðleiks og glettni Kristins og oft kastaði hann fram nokkrum stökum. Síðasta ferðin var farin þann 4. sept. sl. og það reyndist síðasta ferð Kristins í okkar hópi. Við vissum að Kristinn gekk ekki heill til skógar, en andlátsfregnin 10 dögum síðar kom þó eins og reiðarslag, enda var Kristinn jafn glettinn og gamansamur í þeirri ferð sem jafnan áður og rifjaði m.a. upp Sturlungu þegar ekið var um Dalina. Og kvaddi okkur með stöku í lokin.

Það syrtir að, er sumir kveðja, kvað Davíð Stefánsson. Kristinn er sá tíundi af litla hópnum sem  útskrifaðist frá ML vorið 1957, sem kveður þennan heim. Og það er eins og söknuðurinn verði sárari með hverjum sem kveður. Kristins verður sárt saknað.

Við sendum Bubbu, börnum þeirra og öllum nánum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Kristins Kristmundssonar.

F.h. bekkjarsystkina,

Gísli G Auðunsson

Gísli G. Auðunsson