• Ríkið hefur því fimm ár til að tryggja endurfjármögnun erlendra skulda • Jöklabréfaeigendur geta sett strik í reikninginn • Mögulega væri hægt að skipta á krónueignum þeirra og evrubréfum, gefnum út af ríkinu
Fréttaskýring
Bjarni Ólafsson
bjarni@mbl.is
Framtíðargjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands verður ríflega fjórir milljarðar evra sem á að duga fyrir vöxtum og afborgunum ríkissjóðs út árið 2015.
Eru í þessum framtíðarforða talin með aðgengileg lán í framhaldi af þriðju og fjórðu endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, reiðufé vegna sölunnar á FIH-bankanum danska, aukning forða vegna Avens-viðskiptanna og svo annar forði Seðlabankans að frádregnum skammtímaskuldbindingum.
Á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að fyrir 2015 fengist aðgangur að erlendum lánsfjármörkuðum og því verði hluti skuldanna endurfjármagnaður á markaði.
Með öðrum orðum hefur íslenska ríkið og Seðlabankinn fimm ár til að tryggja endurfjármögnun gjaldeyrisforðans áður en hann verður upp urinn.
Már sagði jafnframt að mikilvægt væri fyrir hagvöxt í framtíðinni að Ísland kæmist á ný í eðlilegt viðskiptasamband við umheiminn, þar með talið að gjaldeyrishöftum yrði aflétt og aðgangur opnaðist fyrir alla að erlendum lánsfjármörkuðum.
Mikilvægt að opna markaði
Því er mikilvægt, að mati seðlabankastjóra, bæði fyrir Seðlabankann sjálfan og fyrir íslenskt atvinnulíf að höftum verði aflétt. Hann segir að forsendur fyrir afnámi hafta séu ekki ennþá fyrir hendi, en horfur hafi þó batnað.En inn í myndina vantar hins vegar áhrif afnáms hafta á gjaldeyrisforðann og gengi krónunnar. Seðlabankinn sjálfur áætlar að jöklabréfaeigendur eigi um 400 milljarða króna og svo er ótalið það sem skilanefndir og aðrir innlendir aðilar gætu viljað fara með úr krónunni. Enn er óvissa um úrlausn Icesave-deilunnar, en víst er að ef ríkið tekur á sig þá skuld sem Bretar og Hollendingar gera kröfu um þá eykst enn þrýstingurinn á gjaldeyrisforðann.
Ef gert er ráð fyrir því að 400 milljarðar króna – þ.e. jöklabréfin – fari úr landi við afnám hafta þýðir það að 2,6 milljarðar evra fara út miðað við núverandi gengi. Afborganir og vaxtagreiðslur á næsta ári eru áætlaðar um 1,3 milljarðar evra og að 2,6 milljörðum viðbættum gerir það 3,9 milljarða, eða nær allan gjaldeyrisforðann.
Af þessu má ráða að ekki er hægt að aflétta höftum alfarið á næsta ári án þess að gera einhverjar ráðstafanir varðandi jöklabréfaeigendur.
Ef þessum 400 milljörðum yrði sleppt út yfir lengri tíma, t.d. fimm ár, myndu 520 milljónir evra fara úr landi á ári. Þegar þeim straumi er bætt við afborganaáætlun ríkisins sést að gjaldeyrisforðinn dugar aðeins til ársins 2013, nema til kæmu frekari erlend lán með tilheyrandi vaxtakostnaði.
Þetta gengur eðlilega ekki upp og má því fastlega gera ráð fyrir því að afnám hafta fari ekki fram með þessum hætti. Líkur á raunverulegu afnámi hafta á næstu árum eru því ekki miklar.
Avens-snúningurinn
Styrkár Hendriksson, forstöðumaður markaðsviðskipta hjá MP Banka, segir að með skuldsettan gjaldeyrisforða sé niðurstaðan sú að eina leiðin til að hefja afnám hafta sé að umbreyta innlendum skuldabréfum þeirra, sem vilja fara úr krónunni, í erlend langtímaskuldabréf. „Líklega er hægt að gera það á mjög hagstæðan hátt fyrir ríkissjóð með uppboði án þess að setja krónuna eða innlenda ávöxtunarkröfu í uppnám.“Styrkár bendir á að í samtali við RÚV hafi seðlabankastjóri sagt að tveir möguleikar væru fyrir hendi varðandi það hvernig höftunum verði lyft. Annars vegar að það verði tappað af einhverjum jöklabréfunum í gegnum skiptiútboð, áður en farið yrði í hin eiginlegu höft. Hins vegar sé sá möguleiki fyrir hendi að hleypa þessum fjármunum út allra síðast.
„Í mínum huga er líklegast að skiptiútboðið væri sambærilegt við hinn svokallaða Avens-snúning. Þar var innlendum aðilum, einkum lífeyrissjóðum, boðið að kaupa íslensk ríkisskuldabréf í skiptum fyrir evrur á hagstæðu verði án þess að það kæmi fram í gengi krónunnar. Hagnaðurinn var þess í stað tekinn í gegnum ávöxtunarkröfu, sem var mun hærri en krafa á markaði. Sé þessu snúið við gæti erlendum aðilum verið boðið að selja langtíma íslensk krónubréf og kaupa í staðinn langtíma skuldabréf ríkisins í evrum. Ef þessir fjárfestar eru áfjáðir í að komast út úr krónunni munu þeir bjóða mjög lága ávöxtunarkröfu í evrubréfin, sem er auðvitað til hagsbóta fyrir ríkissjóð.“
Styrkár segir að þetta hafi ekki áhrif á gengi krónunnar og verði heldur ekki til þess að innlendir vextir hækki. „Þvert á móti gætu langtímavextir lækkað ef þeir, sem vilja komast út, keyptu langtíma ríkisskuldabréf og skiluðu þeim svo inn til lánasýslunnar í skiptum fyrir evrubréf. Áhrifin á skuldbindingar ríkisins eru jákvæðar, þar sem ríkið getur fært fjármögnun yfir á langtímaskuldabréf í evrum á hagstæðum kjörum.“
Með því að gefa út langtímaskuldabréf í evrum og selja þau í skiptum fyrir lengstu bréf Lánasýslunnar gæti Seðlabankinn hafið afléttingu hafta án þess að það kæmi niður á gengi krónu eða vöxtum.
Jákvæðar afleiðingar
Styrkár segir að vissulega sé sá möguleiki fyrir hendi að jöklabréfaeigendur og aðrir eigendur krónueigna séu þolinmóðari en margir halda. „Ef þeir eru ekki það áfjáðir í að losna úr landi að þeir eru ekki tilbúnir að kaupa evrubréf með lágri ávöxtunarkröfu fær Seðlabankinn mikilvægar upplýsingar um stöðu markaðarins. Ef þeir eru þolinmóðari en gert er ráð fyrir er hættan á snöggu útflæði fjármagns minni en við höldum og því minni áhætta sem fylgir afnámi hafta.“Með því að fara þessa skiptileið getur Seðlabankinn með öðrum orðum annaðhvort losað út jöklabréfaeigendur og tryggt ríkinu ódýra langtímafjármögnun eða fengið upplýsingar um að óhætt sé að slaka á höftunum fyrr en ella. „Þetta er því í rauninni það sem kalla má á afar vondri íslensku win-win fyrir Seðlabankann og ríkið.“
Orð seðlabankastjóra á aðalfundi SF undirstrika hins vegar nauðsyn þess að einhver lausn sé fundin til að gera endurfjármögnun skulda ríkissjóðs mögulega. Hann sagði þar að Ísland mundi „auðvitað ekki komast langt með afnám hafta eða opnun erlendra lánsfjármarkaða fyrir ríkið og íslensk fyrirtæki ef taldar eru líkur á því að íslenska ríkið muni ekki geta staðið við erlendar lánaskuldbindingar sínar“.
Til skemmri tíma litið er greiðslugeta ríkissjóðs tryggð, en einhverja lausn verður að finna til að tryggja endurfjármögnun til lengri tíma litið. Það þýðir að með einhverjum hætti verður að afnema gjaldeyrishöftin, eða létta á þeim að minnsta kosti.
Annar möguleiki er sá að samkomulag Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og vinaþjóðir verði framlengt og aðgengi að frekara lánsfé tryggt með þeim hætti, en engar vísbendingar hafa komið fram um að sá möguleiki sé opinn.
ÞRÝSTINGUR Á GJALDEYRISVARAFORÐANN
Skilanefndir og Icesave geta sett strik í reikninginn
Skilanefndir gömlu bankanna eru undanþegnar gjaldeyrishöftum og geta því formlega séð flutt gjaldeyri inn og út úr landinu að vild án þess að til þurfi að koma nokkur tilslökun á höftum af hálfu Seðlabankans.Fram hefur komið að til greina kemur af hálfu skilanefndanna að hefja greiðslur til kröfuhafa gömlu bankanna strax á næsta ári. Einhverjir sjóðir eru til hjá skilanefndunum í erlendum gjaldeyri, en á einhverjum tímapunkti munu skilanefndirnar þurfa að hefja losun krónueigna og skipta þeim fyrir erlendan gjaldeyri.
Þau skipti þurfa ekki að fara fram í gegnum Seðlabankann og ganga þar með beint á gjaldeyrisforðann. Þau gætu farið fram á þeim litla gjaldeyrismarkaði sem þó starfar hér á landi. Stórfelld uppkaup á erlendum gjaldeyri af hálfu skilanefndanna myndu þó að öðru óbreyttu óhjákvæmilega hafa áhrif á gengi krónunnar.
Gæti veikt gengið
Ef nýju bankarnir eru seljendur gjaldeyrisins og kaupendur á krónum hefði það jafnframt áhrif á gjaldeyrisstöðu bankanna.Fram hefur komið að gjaldeyrisforðanum er meðal annars ætlað að styðja við gengi krónunnar og þá hefur ríkið ábyrgst að lausafjárstaða bankanna haldist sæmilega sterk.
Innlausn krónueigna af hálfu skilanefndanna gæti því haft óbein áhrif á gjaldeyrisforðann. Seðlabankinn gæti séð sig knúinn til að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði ef gengi krónunnar lækkar um of og að sama skapi gæti Seðlabankinn þurft að hjálpa nýju bönkunum ef gjaldeyriseign þeirra rýrnar of mikið.
Mikilvægt er því að samráð verði milli skilanefnda og Seðlabanka um það hvernig að þessari innlausn verður staðið.
Annar óvissuþáttur í þessu er úrlausn Icesave-deilunnar. Fari svo að íslenska ríkið samþykki ýtrustu kröfur Breta og Hollendinga eykst greiðslubyrði ríkissjóðs gríðarlega.
Vaxtakjörin skipta máli
Miðað við gengi dagsins í dag gera þjóðirnar tvær samtals kröfu upp á 620 milljarða króna, sem jafngildir um fjórum milljörðum evra eða nær öllum framtíðargjaldeyrisforðanum.Að sjálfsögðu yrði skuldin ekki greidd upp öll í einu og afborganir myndu ráðast mjög af endanlegu samkomulagi og vaxtakjörum. Eins og áður segir myndi slík skuldbinding hins vegar þyngja róður Seðlabanka og ríkissjóðs til mikilla muna.