Kristbjörg Marteinsdóttir fæddist að Ysta-Felli í Köldukinn í S.-Þing. 12. janúar 1918. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 1. október. Foreldrar hennar voru Kara Arngrímsdóttir f. 2. feb. 1894, d. 24. des. 1980 og Marteinn Sigurðsson f. 10. maí 1894, d. 25. okt. 1982. Kristbjörg var elst fimm systkina: Sigurður f. 6. maí 1921, d. 19. mars 1923, Sigurður f. 9. maí 1924, d. 1. jan. 1989, Jónína f. 29. jan. 1927 og Arngrímur f. 26. júlí 1930. Hinn 11. desember 1943 giftist Kristbjörg Jóhannesi Hjálmarssyni f. 3. okt. 1917 að Húsabakka í Aðaldal, d. 3. okt. 1991. Foreldrar hans voru Kristrún Snorradóttir f. 18. júlí 1877, d. 23. júní 1958 og Hjálmar Kristjánsson f. 26. júní 1877, d. 14. feb. 1959. Börn Kristbjargar og Jóhannesar eru: 1) Marteinn Jóhannesson f. 7. ágúst 1944, maki Sigurlaug Haraldsdóttir f. 25. júní 1945, börn þeirra eru Kristbjörg, d. 11. nóv. 2009, og Birkir, barnabörnin eru þrjú 2) Þorsteinn f. 25. des. 1945, maki Helga Ingibjörg Þorvaldsdóttir f. 11. feb. 1941, börn þeirra eru Þorvaldur og Elín, barnabörnin eru fimm og eitt barnabarnabarn. 3) Sigríður f. 13. mars 1947, maki Eiríkur Jónsson f. 5. okt. 1945, börn þeirra eru Orri, Ása og Ari, barnabörnin eru fjögur. 4) Hjálmar f. 31.júlí 1948, maki Kolbrún Friðriksdóttir f. 24. nóv 1950, börn þeirra eru Jóhannes, Sandra og Einar Hrafn, barnabörnin eru fimm. 5) Kara f. 22. des. 1949, maki Örn Hauksson f. 22. júní 1947, fyrri maki Óskar Steingrímsson f. 15. jan. 1951, börn Köru og Óskars eru Signý, Ása Kristín, Steingrímur og Tjörvi, barnabörn þeirra eru sjö. 6) Kristín f. 18. ágúst 1953, d. 12. júlí 1997, maki Þorkell Ingi Rögnvaldsson f. 7. feb. 1948. Sonur Kristínar er Gísli, faðir Aðalsteinn Gíslason f. 27. jan. 1951, dóttir Kristínar og Þorkels er Lína Hrönn, barnabörn eru tvö. 7) Signý f. 3. ágúst 1957, maki Þórður Björnsson f. 9. maí 1957, börn þeirra eru Björn, Börkur, Guðrún og Logi, barnabörn eru fjögur. Jóhannes átti fyrir eina dóttur, Kristbjörgu f. 5. jan. 1941. Kristbjörg Marteinsdóttir ólst upp að Ysta-Felli, stundaði nám í farskóla eins og títt var í þá daga. Fór í Héraðsskólann að Laugum í Reykjadal og síðar í Húsmæðraskólann þar. Hún var í vist í Reykjavík og vann einnig við saumaskap þar. Vorið 1943 fluttist hún til Siglufjarðar og bjó þar lengst af að Suðurgötu 70. Kristbjörg saltaði síld eins og flestar siglfirskar húsmæður gerðu, auk þess vann hún á Saumastofu Sjálfsbjargar og síðar í mörg ár í Lagmetisiðjunni Siglósíld. Kristbjörg hafði yndi af söng og tók þátt í kórstarfi frá barnæsku, fyrst í kirkjunum heima í sveitinni og síðar í Siglufjarðarkirkju. Hún var ein af stofnendum Kvennakórs Siglufjarðar og tók þátt í flestum söngskemmtunum, sem fram fóru á Siglufirði um árabil. Kristbjörg verður jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju í dag, 8. október 2010, og hefst athöfnin kl. 15.
Þegar ég og fjölskylda mín kveðjum ömmu Kristbjörgu, þá erum við ekki bara að kveðja ættmóðurina, heldur líka nágranna til 25 ára. Sennilega höfum við líka verið góðir vinir, þó ég hafi aldrei beint leitt hugann að því. Hún bjó í efra og við í neðra og það var farið norður og niður til mín. Þessi gráglettni er hluti af væntumþykju og góðri vináttu, sem verður geymd og ekki gleymd, í góðum skilningi þeirra orða.
Mamma hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og lét þær oft flakka með litfögrum lýsingarorðum. Svona nokkuð vill erfast, nema hvað við höfðum ekki allaf sömu skoðanir á hlutunum, það var því oft nokkuð hávaðsamt þegar við hittumst. Ekki gekk minna á þegar allur systkinahópurinn var kominn í laugardagsgraut í Suðurgötu 70, þá var jafnvel barið í borð. Sem dæmi um ólíkar skoðanir okkar á fólki, þá átti hann Doddi minn ekki upp á pallborðið hjá henni fyrstu árin. En ég held að hann hafi fyrir löngu verið orðinn uppáhalds tengdasonurinn, svo vart mátti á milli sjá hvor taldi sig eiga meira í honum.
Ég gæti haldið lengi áfram að lýsa því góða veganesti sem útbúið var í Suðurgötu 70, af mörgu er að taka. Líklega er þó sú einlæga væntumþykja, sem ríkti milli foreldra minna, sterkasta minningin sem ég á. Við höfum stundum rætt það systkinin að við heyrðum þau aldrei rífast. Mál sem þau voru ekki sammála um voru stundum tekin af dagskrá, hvenær þau voru útkljáð fór alveg fram hjá okkur. Sé mönnum ætlað annað tilverustig, þá eru þar fagnaðarfundir þessa dagana, eftir 19 ára aðskilnað.
Það er eðlilegur gangur lífsins þegar fullorðin börn kveðja aldraða foreldra, samt sárt. Þegar foreldrar þurfa að kveðja börn, eða jafnvel ömmur barnabörn er það andstætt náttúrulögmálinu. Þetta þurfti mamma að reyna þegar Stína systir lést fyrir 13 árum úr brjóstakrabbameini. Þegar elsta barnabarnið hennar og alnafna lést úr sama sjúkdómi fyrir tæpu ári féll henni allur ketill í eld. Kristbjörg Marteinsdóttir yngri var virkur félagi í Göngum saman, sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Stofnaður hefur verið minningarsjóður um hana, þeim sem vilja minnast þeirra nafnanna er bent á að hafa samband við Krabbameinsfélagið og nefna nöfn þeirra.
Að lokum vil ég koma á framfæri innilegu þakklæti til starfsfólksins á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar, sem annast hefur móður mína af stakri alúð þau ár sem hún hefur dvalið þar. Síðast en ekki síst vil ég senda Morgunfrúnum hennar óskir um að þær megi blómstra um ókomna tíð og þakka þeim fyrir alla vináttuna og umhyggjuna sem þær sýndu henni.
Signý og fjölskylda.