Gunnvör Björnsdóttir, fyrrv. kennari, fæddist í Reykjavík 8. nóvember 1942. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness 2. október 2010. Foreldrar hennar voru Björn Benediktsson prentari, f. 3. júlí 1894, d. 27. maí 1976, og Guðríður Jónsdóttir, f. 21. desember 1902, d. 28. september 2001. Þau bjuggu lengst af í Tjarnargötu 47 í Reykjavík. Gunnvör var yngst fjögurra systkina. Systkini Gunnvarar voru Jón Gunnar, f. 21. mars 1924, d. 2. desember 1941, Ingólfur, f. 21. júlí 1925, d. 17. maí 1951, og Sigrún, f. 26. nóvember 1927. Gunnvör giftist Sigurði Þ. Guðmundssyni 1962. Þau skildu 1969. Synir þeirra eru 1) Björn, f. 29. september 1962, kvæntur Susönnu Modin, f. 26. júní 1956. Dætur Björns og Christinu Svens eru: a) Rúna Gunnvör María, f. 31. desember 1987, og b) Freyja Eida Ýr, f. 20. nóvember 1992. 2) Guðmundur f. 31. október 1965, maki Jónína Magnúsdóttir, f. 25. ágúst 1965. Börn þeirra eru: a) Magnús Sigurjón, f. 21. desember1986, maki Margrét Björg Jónsdóttir, 24. nóvember 1986. Börn þeirra eru Nína Rut, f. 22. ágúst 2007, og Elín Sara, f. 24. maí 2010. b) Sigurður Þorsteinn, f. 21. desember 1986, maki Fríður Ósk Kristjánsdóttir, f. 17. janúar 1988. Börn þeirra eru Matthías Leó, f. 8. október 2007, og Kolbrún Þóra, f. 17. ágúst 2009, c) Steinunn Inga, f. 28. október 1993, unnusti Skúli Freyr Sigurðsson, f. 22. október 1991. Seinni maður Gunnvarar var Sveinn Kristinsson. Þau skildu 1983. Börn þeirra eru 1) Kristinn Hallur, f. 21. maí 1972, kvæntur Margréti Rós Jósefsdóttur, f. 28. júlí 1972. Synir þeirra eru Sveinn Logi, f. 9. febrúar 1999, Almar Daði, f. 3. mars 2003, og Dagur Kári, f. 18. júní 2007. 2) Rósa Guðrún, f. 1. október 1980. Gunnvör stundaði ballettnám frá því að hún var telpa og til unglingsára. Hún varð gagnfræðingur frá Hagaskóla 1959. Hún sótti lýðháskóla í Danmörku veturinn 1959-'60. Hún lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni árið 1961. Á árunum 1961-'63 sinnti Gunnvör farkennslu í íþróttum í ýmsum skólum. Hún kenndi síðar á Laugum í Sælingsdal, Klúkuskóla í Bjarnarfirði og Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi. Frá 1981 og þar til hún hætti kennslu vann hún við Brekkubæjarskóla á Akranesi. Gunnvör hafði alla tíð sterkar taugar til Danmerkur og átti þar trygga vini. Veturinn 1959-'60 stundaði hún nám við lýðháskóla í Hilleröd. Hluta ársins 1965 bjó hún með Sigurði manni sínum í Kaupmannahöfn og veturinn 1987-1988 stundaði hún nám í Danmarks Höjskole for legemövelser og í Danmarks Lærerhöjskole í Kaupmannahöfn. Á Akranesi bjó Gunnvör lengst af á Suðurgötu 29. Hún flutti á Dvalarheimilið Höfða, Akranesi, snemma árs 2009 og bjó þar til hinsta dags. Útför Gunnvarar Björnsdóttur fer fram frá Akraneskirkju í dag, 8. október 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Jæja elsku kerlingin mín. Hversu oft töluðum við ekki um að skrifa bók um samskipti okkar í gegnum tíðina? Nú ert þú búin með þinn hluta þess samnings og ég verð bara að byrja og enda minn kafla án þín. Ég var 17 ára þegar ég labbaði inn á heimili þitt og Sveins í Skjalbreið, Suðurgötu 27 á Akranesi og ekki man ég eftir að neinn hafi mótmælt, fékk ekki einusinni að borga í matarkostnað þegar að foreldrar mínir fluttu frá Akranesi og þú sast eftir með tengdadóttur í kjallaranum. Fyrsta árið rann frekar ljúft af stað milli okkar en svo skildu leiðir þínar og Sveins og fljótlega upp frá því fóru veikindi þín að ágerast. Veikindin sáust ekki alltaf utaná þér og þú gast dulið þau vel þegar því var að skipta og ég hélt oft að þetta fylgdi bara sporðdrekanum í þér þegar að orð þín voru beinskeitt og stungu. En þú varst litríkur og gefandi persónuleiki og margir voru söngvarnir sem að þú söngst og vöktu hjá mér áhuga og ég æfði á gítarinn. Maístjarnan, Skólavörðuholtið, öll herstöðvaanstæðingalögin og tala nú ekki um alla vísnasöngvana sem þú dáðir og allflestir voru frá Skandinavíu. Þú dáðir Kim Larsen, Benny Andersen, Arja Saionmaa og fleiri en mest af öllu elskaðir þú hann Hörð Torfason og tónlistina og textana hans. En áfram héldu veikindin og fljótlega fórum við fyrstu ferðina okkar saman til Reykjavíkur að sækja þér hjálpar. Þessar ferðir tóku oft á en þú áttir húmorinn að vopni og notaðir hann óspart og varst ekki feimin við að gera grín að sjálfri þér eða því sem að þú gast tekið uppá þegar illir andar sóttu að. Ógleymanlegt þegar að dr. Ólafur Bjarnason á geðdeild Landspítalans var að tala við þig og þú vildir ekki spjalla við hann eða láta leggja þig inn en sagðir allt í einu Ólafur, áttu enga konu? Á ég ekki að stoppa í sokkana hjá þér?, þú varst nú smá skotin í honum.
Þú varst mikil fjölskyldumanneskja og elskaðir heimsóknir og þú varst líka góður gestgjafi, vildir gjarnan gefa fólki meira af veraldlegum gæðum en þú hafðir efni á. Börnunum mínum varst þú góð amma hvort sem að við bjuggum nær eða fjær. Það voru ófáar sukkferðirnar sem þið fóruð til Reykjavíkur og þá var farið út að borða, hamborgara og franskar og einnig í bíó. Eftir eina bíóferðina varð þér það á að keyra aftaná bílinn í stæðinu fyrir framan. Hjón voru í bílnum og konan kom út öskubrjáluð. Þú leyfðir henni víst að rausa aðeins en sagðir svo Er ekki allt í lagi heima hjá þér?. Konan varð kjaftstopp. Tvíburunum fannst þetta afskaplega flott svar hjá ömmu því eiginkonan hundskaðist aftur inn í bíl og þú og maðurinn gerðuð út um málið í rólegheitum. Við eigum líka ljósmyndir frá góðum jólum þegar að Steinunn fékk Spice Girls snyrtidót og málaði ömmu spæs með afar bleikar kinnar, þú leyfðir henni svo oft að dúlla við þig og þið nutuð þess báðar. Þér fannst heldur ekki leiðinlegt að hún var í fimleikum og þú horfðir oft stolt á. Þú gladdist mikið þegar að því kom að hvert langömmubarnið af öðru fæddist og fannst nöfnin þeirra falleg. Engin nýmóðins nöfn heldur gömul og góð. Ég mun sýna þeim myndir af þér, segja af þér sögur og syngja fyrir þau ljóð.
Áfram rúlluðu árin og við ferðuðumst okkar rússíbana upp og niður, niður og upp. Þú veiktist mikið fyrir 3 og 1/2 ári og þá vorum við hrædd um þig. Blóðeitrun sögðu þeir. En þú komst aftur og allt fór á betri veg. Þú fékkst varanlegt heimili á Dvalarheimilinu Höfða eftir nokkurra ára hrakninga og þar leið þér vel þegar aðlögun var lokið. Þá kom aftur í ljós hvað þú varst félagslynd og óhrædd við að koma fram og kynna fyrir fólki ljóðin sem þú elskaðir. Í sumar hittir þú aftur gamlan og góðan vin þinn hann Hjálmar Þorsteinsson. Þá gastu gert það sem að við höfðum svo oft reynt að fá þig til að gera, labbað bæinn þveran og endilangan. Þið röltuð um, þú með hárauða ennisbandið, svörtu leðurhanskana, sólgleraugun og göngugrindina og Hjálmar með stafinn og skrautlegu húfuna sem að þú prjónaðir. Ykkur leið vel í félagskap hvors annars, þú fórst með ljóð af alkunnri snilld, hann keypti handa þér blóm og góðgæti og svo rædduð þið öll heimsins mál. Við sáum fram á góða tíma en af fenginni reynslu malaði alltaf í mér hugsunin hversu lengi endist það. Mig grunaði ekki að góða tímabilið myndi enda með erfiðu símtali síðasta laugardags morgun um það að þú værir öll. Við fórum til þín um leið og við gátum og ég bara varð að tala við þig í síðasta skiptið og segja að hún Rúna Gunnvör hans Bjössa og allir væru á leiðinni til þín og þú værir ekki ein. Svo fór andi þinn yfir til ástvina í öðrum heimi og við sitjum hér og huggum hvort annað og minnumst þín.
Líf þitt var eins og litríku klútarnir þínir, eins og litríka handavinnan þín, eins og litríku ljóðin þín, sem sagt ekki alltaf slétt og fellt en ég geymi í hjarta mér ökuferðina góðu sem að við fórum í kringum Akrafjallið snemma í haust og sungum af hjartans lyst allan tímann.
Elsku Gunnvör eigðu þökk fyrir allt og allt,
Þín

Nína.