Sigurlaug Fjóla Kristmannsdóttir fæddist 29. 11. 1921 að Narfastöðum, Ytri-Njarðvík, Hún andaðist á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi þann 29. 9. 2010. Foreldrar Sigurlaugar Fjólu voru hjónin Þuríður Ingibjörg Klemensdóttir húsfreyja, fædd 5.3. 1888, dáin 5.5. 1968 og Kristmann Runólfsson kennari, fæddur 21.2. 1886, dáinn 12.5. 1954. Þau bjuggu að Hlöðversnesi á Vatnsleysuströnd. Systkini Sigurlaugar Fjólu eru: Klemens f. 1917, d. 2008, Guðrún f. 1919, d. 2007, Runólfur Haukur f. 1920, d. 1969, Guðlaug Ragnheiður f. 1922, d. 1923, Guðlaugur Ragnar f. 1924, d. 1980, Sigurður f. 1926, Fanney Dóra f. 1932. Sigurlaug Fjóla kvæntist þann 19.11. 1952 Hallgrími Guðjónssyni bónda, f. 15.1. 1919. Foreldrar: Ingibjörg Rósa Ívarsdóttir húsfreyja, f. 26.8. 1891, d. 8.9. 1982 og Guðjón Hallgrímsson bóndi og oddviti f. 17.11. 1890, d. 11.9. 1982. Börn: 1) Hafsteinn Gunnarsson f. 12.6. 1949, faðir Gunnar H. Hermannsson f. 2.12. 1922, d. 8.6. 1977. Maki: Ásta Jónsdóttir f. 22.10. 1949, börn a) Gunnar Atli f. 9.8. 1972, móðir Hildur Rögnvaldsdóttir, f. 9.1.1953, samb.k. Ulrike Malsch f. 21.4. 1977, barn Baldur Kári f. 3.8. 2006, b) Auður Bryndís f. 28.10. 1978, maki Thorvald Brynjar Sörensen f. 28.3. 1974, barn Arngunnur Vala f. 26.1. 2005. c) Eygló Lilja f. 19.3. 1980, samb.m. Jóhann Friðriksson f. 16.6. 1977, börn Kolbeinn Nói f. 29.4. 2006, Friðrik f. 1.12. 2007, d) Hugrún Fjóla f. 10.12. 1985. 2) Ingibjörg Rósa f. 11.4. 1953, maki Gísli Ragnar Gíslason f. 18.8. 1952, börn a) Sigurlaug Ýr f. 5.2. 1975, samb.m. Ivan Milenkovic f. 21.2. 1983, b) Bjarni f. 14.8. 1980, samb.k. Elzbieta Baranowska f. 13.4. 1987, c) Elín f. 5.6. 1982, maki Kári Regal f. 17.8. 1979, börn Freyja f. 30.12. 2005, Snæbjörn og Arngrímur f. 11.5 2010. 3) Þuríður Kristín f. 27.2. 1955, maki Finnbogi G. Kjartansson f. 19.9. 1952, börn a) Hallgrímur Þormarsson f. 1.2. 1978, faðir Þormar Ingimarsson, f. 21.8. 1952, b) Kjartan Henry f. 9.5. 1986 samb.k. Helga Björnsdóttir f. 13.3. 1986, c) Fjóla f. 28.1. 1993. 4) Margrét f. 3.11. 1957, maki Gunnar Þór Jónsson f. 9.8. 1956, börn: a) Geir f. 2.2. 1984, b) Guðjón f. 5.1. 1988, samb.k. Arna Íris Vilhjálmsdóttir f. 1.12. 1987, c) Kristín f. 4.8. 1992. Fjóla stundaði almennt barnaskólanám í Stóru-Vatnsleysuskóla og lauk þar barnaprófi, síðar var hún nemandi í fyrsta árgangi sem stundaði nám við Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Fjóla vann ýmis störf á þessum árum, fiskvinnslu, einn vetur á Hvítabandinu. Síðar réð hún sig í vist í Reykjavík, m.a. var hún einn vetur, þegar Hafsteinn var á fyrsta ári, hjá Agnari Koefoed Hansen. Eitt sumar var hún á Laxamýri í Aðaldal og annað í Eilífsdal í Kjós. Þann 9. júni 1951 fór hún sem kaupakona til Hallgríms að Hvammi í Vatnsdal, reyndist það hennar örlagastaður. Þau Fjóla og Hallgrímur felldu saman hugi og gerðist hún húsfreyja að Hvammi, stjórnaði hún þar stóru sveitaheimili með miklum myndarbrag um áratugaskeið. Jarðarförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, mánudaginn 11. október 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Elskuleg tengdamóðir mín Fjóla frá Hvammi er látin, okkur hefði ekki dottið það í hug sunnudaginn 26. september þegar við sátum í dýrðlegri pönnukökuveislu á Þorragötunni að þrem dögum síðar yrði hún öll. Það eru gömul og ný sannindi að dauðinn gerir ekki boð á undan sér.

Fjóla sleit barnsskónum suður með sjó við fjöruborðið, hún vandist því að fá hrognkelsi á vorin og söl síðsumars, hún átti glaðværan hóp systkina og góða foreldra. Pabbi hennar var kennari við Stóru-Vatnsleysuskóla og stundaði jafnframt lítilsháttar búskap og útræði frá jörð sinni Hlöðversnesi, til að drýgja heimilistekjurnar. Heimilið stórt og glaðvært, móðir Fjólu var að því mér er sagt ákaflega hláturmild og góð kona. Kristmann var alvörugefinn, mildur og góður faðir.

Mín fyrstu kynni af Fjólu voru sumarið 1973 þegar við Rósa fórum okkar fyrstu ferð norður í Vatnsdal, að höfuðbólinu Hvammi, þetta var um verslunarmannahelgi og margir á faraldsfæti. Ég hafði aldrei farið þessa leið áður, og fórum við því nokkuð rólega, enda var vegakerfið ekki þess eðlis að gott væri að stíga of fast á bensíngjöfina.

Eftir margra klukkutíma keyrslu duttum við allt í einu inn í þennan yndisfagra dal, hann skartaði sínu fegursta í veðurblíðu. Vatnsdalur er að margra mati ein af höfuðdjásnum landsins. Við siluðumst inn dalinn og Rósa benti mér í ýmsar áttir, hún sagði mér frá stöðum sem ég ætti að veita eftirtekt. Þegar við komum inn fyrir Bjarnastaði kom brunandi á móti okkur ljósblár Willys jeppi, þar var á ferð bóndinn á hinu búinu, Reynir í Hvammi, í framsætinu hjá honum sat aldraður maður með hattkúf á höfði, hann var með hendur krosslagðar á brjósti. Rósa fylgdist vel með þessu öllu og sagði nei þarna var afi með Reyni, hvað ætli þeir séu að fara?.

Þegar við komum fram fyrir Hjallaland þá opnaðist útsýni fram dalinn og heim að Hvammi. Einnig sáum við niður á Hvammsengið þar sem traktor mjakast meðfram ánni, Rósa sagði að þarna væri pabbi sinn að slá niður á Stórhólma.

Við héldum síðan áfram sem leið lá og áður en við vissum af vorum við lent á hlaðinu í Hvammi. Ég var alveg að missa hjartað í buxurnar af feimni og taugaveiklun. En það reyndist hinn mesti óþarfi, því um leið og við stigum út úr fólksvagninum þá var fjölgað úti á hlaði, húsfreyjan var mætt með faðminn útbreiddan og öll taugaveiklun hvarf sem dögg fyrir sólu. Einnig var þarna amma hennar Rósu og nafna á Marðarnúpi gæðin uppmáluð, Margrét systir Rósu var þarna líka þá unglingsstelpa.

Áður en langt um leið renndi blái Willysinn í hlað með afa Guðjón á Marðarnúpi, hann snaraðist inn á gólf með dolpungslax sem hann hafði verið að sækja út í Flóðvang. Hann heilsaði kumpánlega, skoðaði mig í krók og kring, einnig lagði hann fyrir mig nokkrar grundvallarspurningar varðandi afkomumöguleika í prentverki. Hann ræddi um vísitölu og verðbólgu af miklum eldmóði. Hallgrímur kom fljótlega heim frá slættinum, við höfðum hittst einu sinni áður í Reykjavik, á því stefnumóti hafði mér næstum tekist að hræða líftóruna úr honum, með klaufalegum akstri í einu hringtorgi borgarinnar, það hefur nú orðið raunin að mér hefur tekist það oftar síðustu 30 árin.

Það var frábært að koma bláókunnugur og finna þann hlýhug sem maður fann í ríkum mæli strax hjá þessu góða fólki.

Eins og ég sagði áðan þá er Fjóla alin upp við sjávarfang og sjávarnið, þar áttum við sameiginlegan bakgrunn sem við höfum oft yljað okkur við að rabba um.

Árin í sveitinni voru mjög gefandi og skemmtileg en það var eðlilega fyrst og fremst á sumrin sem fólkið gat verið saman, oft leið langur tími milli þess sem hægt var að hittast. Einu sinni man ég að við fórum í grasaferð, Fjóla var alltaf áhugasöm um hollustu og náttúrlegar afurðir, það var mjög skemmtileg reynsla. Við fórum sem leið lá upp hjá Vöglum og inn á heiðina þar fyrir ofan, þau Fjóla og Hallgrímur leiðbeindu okkur síðan hvað væru fjallagrös, síðan kepptust allir við að tínsluna. Þegar heim var komið fór Fjóla að sjóða fjallagrasagraut, það var mikil eftirvænting að finna hvernig grauturinn bragðaðist, mig minnir að það hafi komið skeifa á einhverja vegna þess að bragðið var framandlegt en hollt.

Ég man líka eftir einni ferð með Fjólu sem alltaf var tilbúin til að fara með krökkunum í ævintýraferð. Farið var síðsumars í berjaleit upp í grænur sem eru suður og upp í fjallinu. Þarna voru eftirlætis berjalautir Hvammsfólksins frá fornu fari. Þessi berjaferð markaði tímamót í þroska Bjarna sonar okkar Rósu, sem var lítill strákur þá og hafði aldrei pissað úti. Honum verður svo mikið mál í berjatínslunni, að það var ógerlegt að ná heim á klósett í tæka tíð, hann varð því að létta á sér þarna í berjamónum, var það mikill persónulegur sigur fyrir lítinn drenghnokka.

Eftir að Fjóla og Hallgrímur fluttu til Reykjavíkur 1985 urðu samverustundirnar fleiri og oft var farið í ferðalög í sumarbústaði vítt og breitt um landið sem var einkar ánægjulegt. Einni slíkri ferð man ég eftir en þá var farið til vikudvalar austur í Miðdal  í Laugardal. Þetta var mjög skemmtileg vika og eftirminnileg, alltaf var einhver dagskrá á hverjum degi. Einn daginn var farið að Gullfossi og Geysi og annan á Laugardalsvelli og hellar skoðaðir sem búið var í fyrrihluta tuttugustu aldarinnar. Fjóla var mikið með krökkunum að skoða blóm og segja þeim nöfn á allskonar jurtum, hún var náttúrubarn sem naut þess í ríkum mæli er náttúran hefur uppá að bjóða.

Einn daginn var ákveðið að fara í sund niður á Laugarvatn, það höfuðból íþróttaiðkunar á Íslandi. Við Hallgrímur vorum með sundskýlurnar meðferðis því ekki vildum við vera eftirbátar kvennanna og barnanna sem voru óðfús að komast í vatnið, þó ósyndir værum báðir tveir. Það var ekki björguleg sjón að sjá okkur Hallgrím þar sem við héldum okkur dauðahaldi í sundlaugarbríkina súpandi hveljur hvor í kapp við annan, en við létum okkur nú hverfa fljótlega til búningsherbergis reynslunni ríkari.

Það var aðra sögu að segja af Fjólu sem ekki hafði farið í sund síðan hún lærði sundtökin í sjónum í Vogunum forðum daga. Hún synti örugglega fram og aftur um laugina, skellti sér til skiptis á baksund og bringusund. Það var greinilegt að hún hafði engu gleymt í þessari hollu og góðu íþrótt.

Það er sár harmur kveðinn að fjölskyldunni nú þegar Fjóla hverfur af sjónarsviðinu, hin yndislega góða kona sem umvafði alla í ást og kærleik, hin kærleiksríka eiginkona, móðir, tengdamóðir, amma og langamma, allir fengu sama hlýja jákvæða viðmótið sem var svo undurgott að meðtaka og var gefið af svo fölskvalausu hispursleysi og gæðum.

Elsku Hallgrímur ég vona að sú góða minning sem við eigum um hana kæru Fjólu hjálpi þér og fjölskyldunni allri að vinna á sorginni sem drúpir yfir eftir sviplegt fráfall. Ég veit að fjölskyldan mun kappkosta við að hlúa að þér og hjálpa eins og kostur er í þeirri vegferð.

Blessuð sé minning Fjólu frá Hvammi, megi hún hvíla í Guðs friði.

Gísli Ragnar Gíslason.