Jón Óskar Gunnarsson fæddist í Tobbakoti í Þykkvabæ 3. mars 1922. Hann lést á Landspítalanum 29. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Jónsdóttir, f. í Bolholti 5. feb. 1898, d. 23. des. 1960 og Gunnar Eyjólfsson, f. í Rimakoti 20. apríl 1894, d. 10. okt. 1969. Systkini Jóns Óskars voru: Sigurlín, f. 20. nóv. 1920, d. 27. júní 1998, Karl, f. 22. júní 1924, d. 22. nóv. 2002, Jónína, f. 19. nóv. 1926, Hafsteinn, f. 11. sept. 1928, Björgvin, f. 15. nóv. 1930, d. 12. febr. 1965, Svava, f. 11. júní 1934, Karen Alda, f. 1. febr. 1936, og Haraldur, f. 2. ágúst 1937. Jón Óskar kvæntist 27. nóv. 1946 eftirlifandi eiginkonu sinni Sigríði Stefánsdóttur, f. í Reykjavík 4. júní 1927. Foreldrar hennar voru hjónin Ólafía Þórunn Bjarnadóttir, f. 26. nóv. 1903 í Víðinesi, d. 7. jan. 1979, og Stefán Sigurðsson, f. á Syðri-Rauðalæk 24. sept., d. 10. nóv. 1971. Dætur Jóns Óskars og Sigríðar eru: 1) Svanhvít, f. 31. ágúst 1945, gift Ólafi Garðari Þórðarsyni, f. 27. des. 1935, þeirra börn Ósk María, Sigurþór, Björg, Valdemar, Ólafur Garðar og Thelma Diljá. Eiginmaður Óskar Maríu er Ásgrímur Grétar Jörundsson, þeirra börn Markús Máni og Sigurrós Sól. Sambýliskona Valdemars er Oddný Guðrún Stefánsdóttir, þeirra dætur Valdís Von og Eva Dís. 2) Stefanía Lóa, f. 5. maí 1947, gift Óttari Birgi Ellingsen, f. 14. júlí 1946, þeirra börn Óttar Már, Jón Bersi og Sigríður Liv. Eiginkona Óttars Más er Gróa Þorsteinsdóttir, þeirra börn Óttar Ísak, Þorbjörg Eva og Birgir Steinn. Eiginkona Jóns Bersa er Rakel Steingrímsdóttir, þeirra börn Steingrímur Bersi, Emil Bersi og Eva Hrund. Börn Sigríðar Liv eru Lúvík Kemp og Edda Liv. 3) Guðrún Erla, f. 5. sept. 1948, gift Ingólfi R. Björnssyni, f. 4. sept. 1948, þeirra börn Björn Gunnar, Jón Björgvin og Rakel. Eiginkona Björns Gunnars er Anita Berge, þeirra dætur Rakel Alexandra og Embla Erika. Sambýliskona Jóns Björgvins er Maja Wettre Granum. Sambýlismaður Rakelar er Samúel Ívar Árnason. 4) Hafdís f. 9. nóv. 1950, gift Gumundi Stefánssyni, f. 10. apríl 1952, þeirra synir Þórarinn Ægir og Stefán Hrannar. Sambýliskona Þórarins Ægis er Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir, þeirra dætur Sóldís Embla og Áróra Elna. Dóttir Ingibjargar er Aþena Elfur. Sambýliskona Stefáns Hrannars er Gunnhildur Karlsdóttir. 5) Sigríður Ósk, f. 17. mars 1954, gift Júlíusi Skúlasyni, f. 11. okt. 1949. Þeirra börn eru Erla Hrönn, Jón Óskar og Hrafnhildur Heba. Eiginmaður Erlu Hrannar er Sæþór Steingrímsson, þeirra dóttir Alexandra Líf. Sonur Erlu Hrannar er Júlíus Simen. Dætur Jóns Óskars eru Herdís Ósk og Isabella Ósk. Sonur Hrafnhildar Hebu er Aron Skúli. Jón Óskar ólst upp í Þykkvabænum. Að þeirra tíma venju fór hann ungur að vinna fyrir sér og réri m.a. nokkrar vertíðir frá Þorlákshöfn. Lengst af var hann þó togarasjómaður, m.a. á Karlsefni RE og Sigurði RE. Starfsævinni lauk hann hjá Strætisvögnum Reykjavíkur við Kirkjusand. Útför Jóns Óskars fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 8. nóvember 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku besti hjartans afi minn og minn besti vinur. Mér finnst það ekki vera raunverulegt að þú sért búinn að kveðja þennan heim og hef það á tilfinningunni að þú sért alveg að fara að hringja í mig eða banka á hurðina hjá mér og að þegar ég kem á Borgarholtsbrautina þá sitjir þú inn í borðstofu að lesa blöðin eða ert út í bílskúr eitthvað að græja. Ef ég kom ekki daglega eða hringdi ekki daglega þá sagðir þú þegar ég kom: hvar hefur þú verið ég hef ekki séð þig í margar vikur! og þá hafði ég kannski ekki komið í tvo daga. Þegar ég kom í heiminn fyrir 40 árum þá bjó ég mín fyrstu ár hjá þér og ömmu það varð til þess að böndin milli okkar urðu strax sterk. Ég átti allar mínar stæstu stundir með þér þegar ég keypti mér íbúð komst þú með mér að skoða, þegar ég gifti mig stóðst þú mér við hlið, þegar Alexandra Líf var væntanleg í heiminn fékkst þú fyrstur manna að vita það, þú áttir líka Júlíus minn með húð og hári og mátti helst aldrei skamma hann í þinni návist. Ég man hvað mér þótti gaman að fara með þér og ömmu í lautarferð upp á Þingvelli og borða nesti, einnig er mér minnisstætt þegar ég, amma og þú fórum út að borða á 70 ára afmælinu þínu. Öll jólin sem við héldum saman og undirbjuggum og þá þurftum við mikið að pæla hvaða hamborgarahrygg ætti að kaupa og keyptum oftast tvo hryggi ef annar klikkaði þá væri meiri líkur á að hinn væri í lagi.

Ekkert þótti þér skemmtilegra en að við værum öll saman að borða. Þú varst ávallt hógvær maður en þegar þér þótti ástæða til að hrósa einhverju sérlega mikið sagðir þú: Þetta var nú sallafínt! Það sagðir þú til að mynda eitt laugardagskvöldið í desember í fyrra þegar ég mætti með nýbakaða og heita hálfmána handa þér og ömmu, það var eitt af því betra sem þú fékkst. Einhverju sinni þegar við vorum að spjalla spurði ég þig að því hvort það væri eitthvað sem þú vildir breyta í lífinu ... þú hugsaðir þig um andartak og svaraðir: Engu vildi ég nú breyta nema einu og það væri að ég hefði viljað læra smiðinn ef tök hefðu verið á. Enda varstu sísmíðandi eitthvað og á ég marga hluti eftir þig bæði húsgögn og leikföng.

Í sumar fengum við Alexandra Líf að gera okkur matjurtagarð í gamla kartöflugarðinum þínum og ræktuðum þar rófur,gulrætur,kartöflur og hvítkál. Þú fylgdist spenntur með hvað kæmi upp úr garðinum og var nóg að gera hjá litla garðyrkjubóndanum að koma til langafa að vökva og reyta arfa. Þú varst ekki lengi að búa til litla hefð hjá þér og Alexöndru Líf  alltaf á þriðjudögum og fimmtudögum átti hún að vera mætt ekki seinna en 11.00 til þín því þá var fiskur í matinn og hún var alltaf jafn spennt að sjá hvað væri í matarboxinu og hjálpaði til við að kíkja ofan í boxin, svo sátuð þið og hlóuð og skrígtuð yfir matnum og skemmtuð ykkur konunglega og smjörklípurnar sem þú gafst dömunni voru ekki af minni kanntinum en það þýddi ekkert að tjónka við þig þetta var ykkar stund og hún var heilög. Þér þótti líka gott að eiga hann Sæþór eiginmann minn að því hann skaust reglulega og bónaði bílinn þinn og gerði ýmis viðvik sem þér þótti óskaplega vænt um enda eruð þið svolítið líkir, reglumenn sem gerið öll verk vel.

Við eigum svo óteljandi margar fallegar minningar saman og gæti ég haldið lengi áfram enn en læt þetta duga hér. Fyrir um mánuði síðan fóru veikindi að láta á sér bera og upp úr því fór að halla undan fæti. Það var óraunveruleg tilfinning að halda í hendina á þér og finna hvernig mátturinn fór þverrandi og hvernig þínar stóru vinnuhendur minnkuðu og minnkuðu. Þegar ég kvaddi þig á spítalanum daginn áður en þú kvaddir þennan heim sagði ég við þig að ég elskaði þig óendanlega mikið og þér tókst að kinka smá kolli þá vissi ég að þú heyrðir það sem ég sagði og var það mér ómetanlegt.

Þú stóðst ávallt við bakið á mér sama hvað gekk á og gat ég alltaf leitað til þín ef ég lenti í vandræðum. Þú varst svo ofboðslega stór hluti af lífi mínu að það tóm verður seint fyllt. Með söknuði og harm sem engin orð fá lýst kveð ég þig elsku afi minn en veit að nú ertu að sísla í öðrum bílskúr í öðrum rósagarði frískur og flottur á ný. Þú munt ávallt vera mér við hlið og styrkja og styðja með yndislegum óteljandi minningum sem við eigum saman. Elsku besti Afi minn megi guð almáttugur vernda þig á nýjum stað og styrkja ömmu af öllum sínum mætti í þessum mikla missi af þér, ég og mín fjölskylda munum halda áfram að hugsa um ömmu, hjálpa henni og styrkja í sorginni. Ég mun ávallt elska þig af öllu mínu hjarta.

Þín

Erla Hrönn Júlíusdóttir og fjölskylda.