Sigurjón Guðmundsson fæddist í Reykjavík 13. júlí 1916. Hann lést á Droplaugarstöðum 18. nóvember 2010. Foreldrar hans voru Guðmundur Jónsson sjómaður, f. 2. júní 1893, d. 18. nóvember 1918 úr spönsku veikinni og Þóranna Rósa Sigurðardóttir, f. 23. júlí 1892, d. 3. september 1989. Hálfsystkin Sigurjóns voru Guðmundur Kristjánsson, f. 8. ágúst 1921, d. 22. ágúst 2007, og Sigurbjörg Kristjánsdóttir, f. 1. ágúst 1925. Uppeldissystir hans var Steinunn Kristjánsdóttir, f. 5. apríl 1916, d. 29. júní 2008. Fyrri kona Sigurjóns var Lára Antonsdóttir, f. 3. júlí 1921, d. 30. september 1987, þau skildu. Þau áttu saman eina dóttur, Stefaníu Rósu, f. 28. janúar 1940. Eiginmaður hennar er Heimir Ingimarsson, f. 1937. Börn Þeirra eru: a) Guðgeir Hallur, maki Sigríður Benjamínsdóttir, þau eiga tvö börn og tvö barnabörn. Fyrir á Hallur einn son. b) Sigþór, var kvæntur Hrönn Einarsdóttur og eiga þau saman 3 börn; c) Lára Ósk, maki Björn Kristinn Björnsson, þau eiga 3 börn og eitt barnabarn; Fyrir átti Björn einn son. d) Hafþór Ingi, kvæntur Jennýju Valdimarsdóttur, þau eiga tvö börn. Fyrir átti Jenný einn son. Seinni kona Sigurjóns var Þórunn Ólafsdóttir, f. 17. apríl 1908, d. 16. ágúst 1996. Með henni eignaðist hann 2 börn; 1) Þuríði Eddu f. 15. júlí 1945, maki Alexander Þórsson, f. 1941, þau eiga 3 börn, a) Þórunni, f. 1963, maki Hjörleifur Harðarson, f. 1961, og eiga þau 3 börn; b) Guðlaugu Hafdísi, f. 1965, maki John Toohey, f. 1963, og þau eiga 3 börn; c) Sigurjón, f. 1973, maki Signý Traustadóttur, f. 1974, og eiga þau 2 syni. 2) Guðmundur, f. 29. júlí 1948, maki Margrét Sverrisdóttir, f. 1954, þau eiga 2 börn; a) Karen Önnu, f. 1981, var gift Ólafi Finni Jónssyni, f. 1973, en þau slitu samvistum en eiga saman 2 dætur; og b) Andri Már, f. 1991. Sigurjón byrjaði til sjós 13 ára gamall. Eftir það starfaði hann lengst af sem vinnuvélastjóri þar til hann hóf störf hjá Hafskip árið 1968. Vann hann þar til starfsloka sem bifreiðastjóri og verkstjóri. Útför Sigurjóns fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 25. nóvember 2010, og hefst athöfnin kl. 15.

Fyrir hart nær fimmtíu árum hitti ég Þórunni og Sigurjón fyrst í Hólmgarði 24. Ég var að vonum dálítið nervus eins og flestir hafa reynt, sem hafa staðið í sömu sporum og ég en taugastrekkingur var algjörlega óþarfur. Ég var búinn að sjá Sigurjón nokkuð oft við löndun á skipum sem ég var á áður en ég kynntist Eddu dóttur hans. Við Sigurjón vorum ekki nándar nærri alltaf sammála um menn og málefni en skildum alltaf sem vinir, reyndar held ég að enginn hafi farið frá honum án þess að vera sáttur og ánægður. Undir hrjúfu yfirborði sló ofurviðkvæmt hjarta sem ekkert bágt mátti vita af. Hann var einstaklega barngóður, enda sáu afabörnin ekkert nema hann og komu oft í heimsókn til hans, sérstaklega eftir að hann hætti að vinna og dró sig í hlé. Hann vann alltaf erfiðisvinnu alla sína ævi og glímdi við mikla fártækt framan af ævinni, eins og margt fólk varð að þola á þeim árum og hann lýsti oft og nefndi ætíð að atvinnuleysi er mesta böl sem nokkur þjóð getur búið við.
Starfsæfi Sigurjóns hefst á hefðbundinn hátt. Hann var sendur í sveit eins og altítt var á þeim tíma með börn og unglinga og líkaði misjafnlega. Hann var lengi á sjó, aðallega á togurum þar til hann slasaðist mjög illa á handleggjum og höfði og varð að hætta af þeim sökum. Hann talaði oft um sjómennskuna eins og hún var stunduð á þeim tíma, alltaf var gaman að hlusta á hann tala um þessa tíma, enda var alltaf eitthvað grín ofið inn í frásögnina.
Seinna þegar búið var að raða honum nokkurn veginn saman eftir slysið, eins og hann orðaði það, var hann æ síðan illa bæklaður á handleggjum. Eftir þetta fór hann að vinna á beltakrana hjá Valda í Brekkukoti, sem sá um að útvega efni í ballest í flutningaskip sem sigldu frá landinu tóm til annarra staða, eftir að vera búin að losa sig við hergögn og aðrar vistir til hernámsliðsins sem hér var á stríðsárunum. Ennfremur gróf hann grunna að ýmsum byggingum meðal annars Borgarspítalanum, Kirkjusandi o.fl. byggingum og annars sem til féll. Hann var á þessum beltakrana við löndun úr togurunum á Faxagarði í mörg ár. Hann sagði oft sögur frá þeim tíma og ætíð var blandað við frásagnirnar léttum saklausum húmor um menn og málefni. Seinna fór hann að vinna á krana hjá Togaraafgreiðslunni hf., aðallega við löndun úr togurum og annað það sem til féll við kranavinnu. Oft var vinnudagurinn langur og erfiður fyrir bæklaðan mann en aldrei fann hann hjá sér ástæðu til þess að kvarta yfir bæklun sinni. Hann var samviskusamur með afbrigðum og það var áreiðanlega mjög gott að hafa hann í vinnu. Sem dæmi má nefna það að þegar landað var úr bátunum sem voru á suðurlandssíldinni þá kom hann ekki heim í marga sólarhringa, og svaf í krananum til þess að vera tilbúinn þegar næsta törn byrjaði. Svona var samviska Sigurjóns mikil. Seinna fór hann að vinna hjá Hafskip hf., sem bílstjóri á vörubíl o.fl. störf og oft minntist hann á veru sína hjá Hafskipum en þar líkaði honum vistin mjög vel.
Hann var ákaflega umtalsgóður um fólk og man ég ekki eftir því að hann legði nokkuð illt til nokkurs manns enda friðelskur með eindæmum, en það er dálítið sérstakt þar sem lífið hefur ekki beinlínis farið mjúkum höndum um hann. Maður hefði haldið að hann yrði beiskur eftir, en það var öðru nær. Sigurjón kom sér upp sumarbústað upp í Svínadal, Hvalfjarðarstrandarhreppi. og er það reyndar fyrsti sumarbústaðurinn sem byggður var í Eyrarlandi. Bústaðurinn var stækkaður þrisvar sinnum eftir því sem fjölskyldan stækkaði, því engum mátti úthýsa. Oft var mikið basl á mínum manni þegar hann var að vinna að bústaðnum, hvort sem hann var að smíða, grafa eða eitthvað að basla, enda kölluðum við hann basla okkar á milli og í gríni og auðvitað tók hann þátt í því. Enda hafði hann gaman af gríni og glensi og ég tala nú ekki um þegar hann var búinn að fá sér í aðra tána.
Sigurjón hafði gaman af því að gleðjast á góðri stund og lyfta glasi, og var hann hrókur alls fagnaðar þegar sá gállinn var á honum. Hann var sannur í því sem öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Það var ótrúlegt hvað hann var vinnusamur, hann gat aldrei verklaus verið, hann þurfti ætíð að hafa eitthvað fyrir stafni og dútla við. Það var oft ótrúlegt að sjá baslið á þessum margbæklaða manni, og margur heilbrigður maðurinn kemst ekki með tærnar þar sem hann hafði hælana. Mér er ofarlega í minni þegar hann frétti í gegnum síma að dóttur mína vantaði mjólk, en úti var öskubylur og ófært öllu nema stærstu farartækjum. Þá tók sá gamli sig upp og öslaði snjóinn upp í klof í snarvitlausu veðri og kom með mjólk handa barnabarni sínu og fór strax til baka. Þetta er enginn smá spotti frá Hólmgarði í Njörvasund og til baka. Ég neita því ekki eftir á hálfskammaðist ég mín fyrir að hafa ekki farið sjálfur til þess að draga björg í bú. En þetta er akkúrat myndin af Sigurjóni sem ekkert mátti aumt sjá, og síst af öllu máttu afabörnin líða skort af neinu tagi. Ef hann gat eitthvað hjálpað til, þá gerði hann það, minnugur þess hve fátækt og miklir erfiðleikar voru í uppvexti hans.
Sigurjón hlaut hægt andlát aðfararnótt 18. nóvember á Droplaugarstöðum.
Blessuð sé minning hans.


Alexander Þórsson.