Carl J. Brand fæddist í Regina, Saskatchewan í Kanada 25. ágúst 1918. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 20. nóvember 2010. Foreldrar Carls voru Thor Jensen Brand, f. 27.5. 1888, d. 11.4. 1986, og Elísabet J. Brand, f. 16.5. 1894, d. 18.9. 1981. Systir Carls er Svava J. Brand, f. 7.3. 1920. Carl giftist hinn 3.12. 1944 Hlín Eiríksdóttur, f. 20.1. 1916 í Winnipeg, Kanada, d. 29.6. 2003. Dætur Carls og Hlínar eru: Elísabet Margrét Brand, f. 30.12. 1945, kennari og leiðsögumaður,Valgerður Kristín Brand, f. 18.6. 1947, d. 5.10. 2008, einkaritari, Bergljót Björk Brand, f. 28.4. 1953, viðskiptafræðingur og sagnfræðingur. Barnabörn Carls og Hlínar eru níu og barnabarnabörnin eru 14 talsins. Útför Carls fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 30. nóvember 2010, og hefst athöfnin kl. 15.
Carl Brand er látinn. The old general er allur. Hann var sérstakur maður með ákveðnar skoðanir. Hann var ekki allra.
Óhætt er að segja að pabbi hafi verið Kanadamaður í húð og hár. Hann leit aldrei á sig sem Íslending og reyndar sá hann alltaf eftir að hafa ílengst hér. Enda samlagaðist hann aldrei fyllilega íslensku samfélagi og lagði enga sérstaka áherslu á að tala rétta íslensku, hvað þá að skrifa hana. Menntun sína hafði hann fengið í Kanada þar sem hann lagði stund á efnafræði. Hann var mikill tungumálamaður, hafði lært latínu í Kanada en bætti síðan við frönsku og þýsku. Það var greinilegt alla tíð að hann saknaði heimahaganna vestra.Pabbi hafði komið hingað til lands sem ungur maður á stríðsárunum. Hann vann fyrir ameríska herinn þar sem hann lærði að meðhöndla byssur og reyndist afburðamaður á því sviði. Síðan vann hann fyrir herinn á Keflavíkurvelli þar sem hann var verslunarstjóri hjá PX-inu. Eftir það var hann starfmannastjóri Ísal og var einn af fyrstu starfsmönnunum þar og fór í margra mánaða þjálfun til Sviss á þeirra vegum. Hann var starfsmaður Ísal til ársins 1973 en síðasti vinnustaður hans var hjá Endurhæfingarráði, þar sem hann gegndi stöðu fulltrúa.
Carl var laghentur maður og á sinni ævi byggði hann tvö einbýlishús fyrir fjölskylduna. Annars vegar Björk við Engjaveg sem var staðsett þar sem grasagarðar Reykjavíkurborgar er í dag. Enda mamma dóttir Eiríks Hjartarsonar sem byggði fyrsta íbúðarhúsið sem stendur í garðinum enn í dag. En Eiríkur lagði grunn að grasagarðinum og gaf staðnum nafnið Laugardalur sem tengist ömmu sem átti rætur að rekja til Laugardals í Árnessýslu. Við systurnar fæddumst allar í húsinu Björk við Engjaveg. Síðan árið 1956 byggðu þau hús sem þau nefndu Hraunborg og var við Álftanesveg. Þar útbjuggu pabbi og mamma af mikilli natni matjurtargarð, gróðurhús og yndislegan blómagarð með rennandi vatni gegnum klettana í hrauninu. Þetta var dásamlegur unaðsreitur. Pabbi var afspyrnuduglegur í garðvinnunni, enda kröftugur íþróttamaður. Hann bjó að því alla ævi að hafa stundað íþróttir. Allt til síðasta vors, þegar hann missti heilsuna, gekk hann 1-2 kílómetra á dag.Þegar hann fór á eftirlaun tók annar kafli við hjá honum. Þá gat hann stundað sín fjölmörgu áhugamál. Hann las alla mannkynssöguna frá fornöld til dagsins í dag, þetta voru fræðibækur og ekki fljótlesnar fyrir venjulegt fólk. Hann virtist rúlla þessu upp á skömmum tíma.
Þessari samantekt er ekki ætlað að vera einhver halelújasöngur um Carl Brand. Hann hefði ekki kært sig um slíkt, enda alltaf umdeildur maður. Hann var ekki í neinni vinsældakeppní í lífinu og sagði alltaf sína skoðun umbúðalaust. Fyrir vikið þótti mörgum hann e.t.v. hrokafullur maður. Íslendingar voru ekki sérlega hátt skrifaðir hjá honum yfir höfuð, nema einstaka menn. Honum fannst margir Íslendingar vera óagaðir, kærulausir, ónákvæmir, stundum óheiðarlegir, dónalegir, lélegir bílstjórar og stundum heimskir. Yfirvaldið á Íslandi fékk lélegustu einkunnina sem hann kallaði óheiðarlegt kunningjasamfélag sem kom á daginn að var rétt hjá honum. Vinir hans voru oftar en ekki fólk af erlendu bergi brotið, þar má nefna Svisslendinga, Þjóðverja, Ameríkana, Egypta og Breta. Ég man bara eftir örfáum Íslendingum sem urðu vinir pabba. En vinir hans urðu vinir fyrir lífstíð, hann var tryggur og traustur vinur vina sinna.
Carl Brand var enginn venjulegur maður. Ekki heldur hefðbundinn pabbi, né afi. Hann var ákveðinn, beinskeyttur og stundum orðljótur ef honum mislíkaði eitthvað. Ljót orð voru óspart notuð í áhersluskyni og þá gjarnan á ensku, enda voru fyrstu orðin sem maður lærði á ensku blótsyrði og bölv! Hann hafði sterkar skoðanir á hlutunum, enda vel lesinn og gat rökrætt hlutina við hvern sem var. Hann var oft harður í horn að taka, fór eigin leiðir í lífinu, en alltaf var hann heiðarlegur og skuldaði engum neitt. Síst af öllu íslenska ríkinu.Eftir lát móður okkar árið 2003 var pabbi einmana og týndur maður. En harkan, dugnaðurinn og aðlögunarhæfnin gerði það að verkum að hann var farinn að una sér vel í litlu íbúðinni sinni við Hjallabraut áður en langt um leið. Flutningurinn frá Hraunborg var honum erfiður. Þar voru minningarnar flestar og kærastar. Það sem braut í honum hjartað í seinni tíð var lát systur okkar Völu, haustið 2008.
Það sem stendur upp úr þegar pabba er minnst, er afburðagreindur og sterkur maður með sterkan lífsvilja, dugnað og mikið þrek. Hann var alger töffari. Það var svo sárt að sjá gamla hershöfðingjann missa heilsuna og tapa sjálfstæðinu. Hann hafði ekið bílnum sínum vandræðalaust þar til hann fór á spítala síðastliðið vor og þess má geta að hann lenti aldrei í tjóni, enda frábær ökumaður. Fyrir okkur sem næst honum standa var tregafullt að sjá mann með hans stolt og dugnað enda á stofnun þar sem hann dvaldi í heila 7 mánuði. Á þessum tíma missti hann lífsviljann, gleðina, vonina og stoltið. Að lokum óskaði hann þess bara að fá að fara.Allir sem önnuðust hann bæði á Landakoti og Hrafnistu í Hafnarfirði vissu að þarna fór óvenjulegur maður með óvenjulega og að mörgu leyti erfiða fortíð. Allt var þetta frábært starfsólk sem ég vil sérstaklega þakka umönnunina fyrir hönd okkar allra.
Elsku pabbi minn, hvíl þú í friði.Þín dóttir,
Bergljót Björk Brand.