Unnur Jónasdóttir fæddist í Reykjavík 23. maí 1923. Hún lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 1. desember 2010. Foreldrar hennar voru hjónin Jónas Eyvindsson símaverkstjóri, f. 3 apríl 1884, d. 14. ágúst 1973, og Gunnfríður Rögnvaldsdóttir húsfreyja, f. 3. mars 1884, d. 12. nóvember 1969. Unnur átti þrjú systkini, bræður hennar létust í æsku. Ástráður, f. 29. júní 1906, d. 2. nóvember 1908, og Sigurður Emil, f. 30. september 1914, d. 30. apríl 1922. Systir hennar Jóna Friðbjörg, f. 24. ágúst 1909, d. 11. desember 1994. Hún var gift Jóni Guðmundssyni sem lést fyrir aldur fram. Seinni maður hennar var Kjartan Guðnason, f. 21. janúar 1913, d. 22 nóvember 1991. Unnur giftist 22. júní 1946 Hermanni Hermannssyni, forstjóra Sundhallarinnar í Reykjavík og kanttspyrnumanni, f. 7. október 1914, d. 28. ágúst 1975. Foreldrar hans voru Hermann G. Hermannsson trésmiður, f. 1. júní 1888, d. 7. apríl 1987, og Sigríður Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, f. 18. febrúar 1891, d. 8. ágúst 1966. Unnur og Hermann eignuðust eina dóttur. Gunnfríði landfræðing, f. 20. apríl 1955, gift Gunnari Birgissyni jarðverkfræðingi, f. 11. febrúar 1954. Börn þeirra eru Valur Snær, sagnfræðingur og bókmenntafræðingur, f. 26. ágúst 1976, Unnur Björk, nemi, f. 2. september 1990, og Elsu Lilju, nemi, f. 4. maí 1993. Fyrir átti Hermann eina dóttur Ragnheiði, f. 17. júní 1938. Unnur fæddist í húsi föður síns á Laugavegi 87 í Reykjavík, þar bjó hún til 8 ára aldurs, en þá hafði faðir hennar reist hús á Sjafnargötu 7 í Reykjavík. Sjafnargatan átti eftir að verða hennar heimili til æviloka. Unnur lauk verslunarskólaprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1942 . Síðan var hún eitt ár í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Hún starfaði við Landssímann í Reykjavík fyrst að sumri til og síðan í fullu starfi til 1955. Eftir 5 ára vinnuhlé vegna barneigna starfaði hún fyrst hjá SÍBS og síðar Leikfélagi Reykjavíkur. Unnur var alla tíð mjög virk í félagsmálastarfsemi. Á yngir árum var hún í sýningarflokki Ármanns í fimleikum. Hún sýndi meðal annars fimleika á Alþingishátíðinni 1944. Hún starfaði mikið fyrir Sjálfstæðisflokkinn og átt í mörg ár sæti í stjórn Hvatar, þar var hún gerð að heiðursfélaga 1997. Árið 1978 hóf hún störf í Mæðrastyrksnefnd og var formaður nefndarinnar frá 1981 til 1999 eða í 18 ár. Árið 2001 var hún sæmd Fálkaorðunni fyrir störf í þágu Mæðrastyrksnefndar. Hún var ein af stofnendum og árið 1984 varð hún fyrsti formaður Lionsklúbbsins Ýrar í Kópavogi. Hin síðari ár hefur hún verið mjög virk í starfi safnaðar Hallgrímskirkju. Útför Unnar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 10. desember 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Árið 1923 fagnaði Ísland fimm ára fullveldisafmæli sínu. 1918 hafði verið mikið tímamótaár, með spænsku veiki, frostavetri og endalokum Heimsstyrjaldarinnar miklu. En eitt og annað markvert gerðist þó einnig árið 1923. Í München gerir æstur maður misheppnaða valdaránstilraun í bjórkjallara. Ingibjörg Bjarnason tekur sæti á Alþingi fyrst kvenna. Haldið er upp á 17. júní í fyrsta sinn fyrir tilstuðlan íþróttamanna og stúdenta, þó ennþá vanti fullt sjálfstæði. Þann 23. júní opnar Listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti. Og nákvæmlega mánuði áður, þann 23. maí 1923, fæðist Unnur Jónasdóttir í litlu húsi á Laugaveginum. Hún er yngst af fjórum börnum, en bræður hennar tveir eru þegar látnir. Eftir stendur systirin Jóna, sem er 14 árum eldri. Hún man vel eftir spænsku veikinni, sem dró yngri bróður hennar til dauða. Í þá daga var enginn maður í Reykjavík jafn upptekinn og líkkistusmiðurinn í næsta húsi, og jafnvel á næturnar mátti heyra í honum berja nagla í tré. Jóna og Unnur komast þó báðar á legg, og munu fylgjast að alla ævi.

Unnur hefur nám í Miðbæjarskólanum og eyðir sumrum sínum í Stardal, í sömu sveit og Halldór Laxness sem er heimangangur á bóndabænum. Fjölskyldan sleppur nokkuð vel út úr komu kreppunnar, en faðir hennar er með örugga vinnu, í fastri stöðu hjá ríkisfyrirtækinu Póst og síma.

Kreppuárið 1930 er þó tíðindamikið að öðru leyti einnig. Skemmtanalíf landsins tekur kipp með tilkomu talmyndarinnar í kvikmyndahús, en faðir Unnar er einn fyrsti bíósýningarstjóri landsins. Sama ár opnar Hótel Borg, sem Unnur á eftir að kynna sér seinna meir og á eftir að lifa lengi í minningunni. Þegar mín skemmtanaár hófust 60 árum síðar spurði hún mig ávallt hvort ég væri að fara á hótel. Það sem hafði þó meiri áhrif á Unni á þessum tíma var opnun Austurbæjarskóla, en þar myndi bæði hún og tvær kynslóðir afkomenda stunda nám. Líklega vakti þó mesta athygli hennar á þessum tíma flug loftfarsins Graf Zeppelin yfir Reykjavík, eða þá hátíðin á Þingvöllum í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis. Þangað fór hún sitjandi aftan á pallbíl vinar föður síns. Faðir hennar tók aldrei bílpróf, og systurnar tvær héldu fast í þá hefð allt til æviloka.

Næsta ár var eitt hið afdrifaríkasta í lífi Unnar, en það var í fyrsta og síðasta sinn sem hún fluttist búferlum. Fjölskyldan flutti á Sjafnargötu 7, í hús sem faðirinn var þá nýbúinn að byggja. Systurnar tvær myndu búa þar upp frá því, og þegar þær eignuðust maka voru það makarnir sem fluttu inn á Sjafnargötuna. Út um eldhúsgluggann mátti sjá Listasafn Einars Jónssonar, en enga Hallgrímskirkju, hún kom ekki fyrr en löngu síðar. Neðar í brekkunni léku krakkar sér á byggingarlóð Landspítalans sem verið var að reisa.

Þegar Unnur útskrifaðist úr Austurbæjarskóla neitaði hún að fara í Kvennaskólann, eins og mamma hennar lagði til, heldur kaus að taka próf úr Verslunarskólanum þar sem hún kynntist ævilöngum vinkonum sínum. Vinkonurnar hétu Jossa og Lolla, Gógó og Dídí, en slík gælunöfn voru tímanna tákn. Það var eitt vorið þegar Unnur var í Stardal að herinn kom. Þá breyttist allt. Hernámið var friðsamlegt að mestu og eina fórnarlambið þennan daginn var hurðin á símahúsinu, sem Bretarnir brutu niður. Unnur vann sjálf við símann á sumrin, og sagði seinna gjarnan frá því þegar hún sá sjálfan Winston Churchill út um gluggann við Austurvöll, en Churchill kom hingað í ágúst 1941 á leiðinni heim frá afdrifaríkum fundi með Roosevelt Bandaríkjaforseta. Unnur sagði seinna frá því þegar hermennirnir leituðu á Jónu systur sína, en ef þeir sýndu henni sjálfri, þá rétt um tvítugt, einhvern áhuga, minntist hún aldrei á slíkt, enda var það brottrekstarsök úr Verslunarskólanum að sjást í tygjum við hermann. Þar að auki var það annar Hermann sem nú átti hug hennar allan, Hermann nokkur Hermannsson. Hermann var mikill fótboltakappi og stóð í marki með félaginu Val. Hann hafði verið á keppnisferðalagi í Þýskalandi snemma hausts 1939 þegar æsti maðurinn frá barnum í München fór að atast út í allan heiminn. Fótboltaliðið var sent heim með hasti og sigldi í gegnum veiðilendur kafbáta í því stríði sem nú var hafið. Hermann komst heim, hefði hann verið skotinn í kaf væri ég ekki hér í dag, svo litlu má stundum muna. Fimm árum síðar, þegar stríðsgæfan hafði snúist Bandamönnum í vil og innrásin í Normandí var ekki langt undan, kynntist hann Unni. Sjálf stundaði hún einnig íþróttir, var í sýningarflokki Ármanns í fimleikum. Flokkurinn sýndi á Þingvöllum þegar Ísland varð sjálfstætt þann 17. júní 1944 í úrhellisrigningu. Svo mikið rigndi að það þurfti að fresta atriðinu þar til daginn eftir, en Unnur var ávallt stolt af því að það var hún, og ekki fótboltahetjan, sem sýndi listir sínar á þessum tímamótum. Tveimur árum síðar giftu þau sig. Nú tóku við gullnu árin í lífi Unnar sem og álfunnar allrar. Friður hafði skollið á, hagvöxtur var stöðugur. Og loksins, loksins var hægt að ferðast. Árið 1948 fór Unnur í fyrsta sinn til útlanda, þegar hjónin fóru saman á Ólympíuleikana í London. Fimm árum síðar fóru þau í siglingu um Miðjarðarhafið með Gullfossi. Það var þessi ferð sem Unnur minntist hvað oftast á þegar þannig var gállinn á henni, og hún talaði alltaf um að fara í siglingar síðar meir með þegar einhver fór af landi brott. Komið var við í nýlendum Frakka í Norður-Afríku, þar sem Hermanni var boðið að skipta á eiginkonunni og úlfalda. Hefði hann þegið boðið væri ég ekki hér í dag heldur. Það var aðeins eitt sem sló skugga á hamingju hjónanna. Þrátt fyrir sameiginlegan áhuga sinn á íþróttum hafði þeim ekki enn tekist að geta erfingja. Það var ekki fyrr en farið var til páfagarðs, og Píus páfi 12. blessaði hjónin, að þeim varð barna auðið. Atvik þetta varð brátt hluti af goðsögum fjölskyldunnar, en allar fjölskyldur koma sér upp slíkum. Barnið fæddist ekki níu mánuðum síðar, heldur tveimur árum, en hvað um það, við látum betri söguna lifa. Gunnfríður Hermannsdóttir fæddist þann 20. apríl 1955. 20 árum síðar drukknaði Hermann á voveiflegan hátt í Meðalfellsvatni. Næstu nætur á eftir leitaði dóttirin huggunar hjá myndarlegum ungum manni sem hún er gift enn þann í dag. Síðan fæddist ég, ekki níu mánuðum seinna heldur ári, en aftur látum við betri söguna ráða, fjölskyldur verða að fá að hafa sínar goðsögur í friði. Ég fæddist nákvæmlega ári eftir að Hermann kvaddi, og einnig ég myndi búa á Sjafnargötunni. 34 árum síðar sat ég við rúm á Landakoti og horfði á ömmu Unni anda út í síðasta sinn. Þannig er líf manneskjunnar, svo langt og samt svo alltof, alltof stutt.

Valur Gunnarsson.

Ég kynntist Unni tengdamóður minni vorið 1975 þegar ég fór að venja komur mínar á Sjafnargötu 7 til að heimsækja dóttur hennar Fríðu á síðustu mánuðum menntaskólaáranna. Pabbi minn hafði kennt mér, ef ég væri að velja mér kvonfang að horfa vel á móðurina, sem ég og gerði. Síðsumars sama ár fórum við Fríða til Búlgaríu. Þegar við kvöddum foreldra Fríðu var það síðasta sem Hermann faðir hennar sagði við mig var að passa vel upp á dóttir sína. Í Búlgaríu fengum við þau vátíðindi að Hermann hefði drukknað í Meðalfellsvatni. Er við komum heim var mér tekið eins og einum af fjölskyldumeðlimunum og má segja að ég hafi að sumu leyti fyllt í það skarð sem varð við fráfall Hermanns. Á Sjafnargötunni var ekki bara ekkjan Unnur og dóttir hennar, heldur einnig systir hennar Jóna og maður hennar Kjartan. Sama ár flutti ég inn á Sjafnargötuna í kjallarann til Fríðu. Ég var ungur að árum og ég held að Unnur hafi að sumu leyti litið á okkur Fríðu sem börnin sín. Mér var mjög vel tekið á Sjafnargötunni, eins og höfðingja, stöðu sem ég naut ekki í heimahúsum og bætti það mjög sjálftraust mitt og var mér til velfarnaðar. Nákvæmlega (upp á dag) ári eftir að Hermann lést kom frumburðurinn, Valur Snær í heiminn. Við foreldrarnir vorum bæði í Háskólanum á árunum 19751980 að læra jarð- og landafræði og var Valur yfirleitt sendur í pössun til ömmu Unnar um helgar þegar við vorum að burðast við að læra! Að loknu námi voru fá tækifæri á atvinnumarkaðnum, helst sumarvinna með framlengingu og var það að afla tekna fyrir fjölskylduna hið mesta basl og hjálpaði Unnur oft til um mánaðamót við að ná endum saman. Árið 1984 fór ég loks til framhaldsnáms til Bretlands. Ég man að Unni var eitthvað órótt um það eins og það boðaði einhverjar meiriháttar breytingar. Að loknu framhaldsnámi 1986 hafði það starfsumhverfi sem ég starfaði við virkjanarannsóknir hrunið saman og var mikið offramboð af vatnsorku í landinu. Ég sá því fyrir mér að ég þyrfti að starfa erlendis í nokkur ár ef ég ætlaði að vinna á mínu sviði. Það varð úr að ég fékk vinnu á verkfræðistofu í Osló og hef starfað þar síðan. Sælan entist ekki lengi í Noregi því 3 árum síðan skall á efnahagskreppa í Noregi með bankahruni þegar við vorum nýbúin að kaupa hús og vorum skuldug upp fyrir haus. Mörgum finnst það hljóma kunnuglega í dag. Björgunin var að ég var leigður út til stórs og ná þangað og ná þangað neðanjarðarverkefnis í Saudí Arabíu. Vegna fæðingar Unnar Bjarkar var ákveðið að fjölskyldan flytti til Arabíu um áramótin 1990-91. Síðan hófst flóabardagi hinn fyrri og varð þess valdandi að Valur sonur okkar 14 ára byrjaði í Austurbæjarskóla meðan beðið var eftir því að komast til Arabíu. Unnur amma bauð honum þá að dveljast hjá sér, sem hann þáði, enda lítill áhugi fyrir því að flytja til Saudí Arabíu. Valur hefur því búið á Sjafnargötunni allar götur síðan og verið fyrst ömmu sinni til hrellingar á unglingsárunum og síðan til huggunar á seinni árum. Unnur kom að heimsækja okkur til Arabíu. Fyrsta daginn fór hún með dóttur sinni akandi í verslunarmiðstöð, ekki fjarri heimilinu. Unnur var bæði þrjósk og staðföst kona og þrátt fyrir vinsamleg tilmæli dótturinnar ákvað hún að spara leigubíl og ganga heim. Þú vissir bersýnilega ekki hvað það var að fá sér göngutúr í 45 stiga hita, enda varstu nær dauða en lífi þegar heim var komið. Eftirminnilegust er mér ferðin þegar við fórum 1200 km yfir eyðimörkina frá Riyadh til Narjan við landamæri Yemens. Það var ein bensínstöð á leiðinni og þurftum við að slökkva á loftkælingunni til að spara bensín og ná þangað. Þetta var nokkuð glæfralegt ferðalag með eiginkonuna, ömmuna og 2 ára smábarn í bílnum, allir mjög sveittir. Í lok ferðarinnar fórum við svo frá Jeddah til Riyadh og lentum í sandstormi þar sem bíllinn var sandblásinn á leiðinni. Eftir 3 ár í Saudi Arabíu fæddist Elsa í Riyadh og eftir 4 ár snerum við heim. Stuttu seinna var ég svo kominn til Kína að byggja 3300 MW neðanjarðarvirkjun í Sichuan héraði. Þú komst í heimsókn þangað og man ég vel þegar við ferðuðumst á jeppanum um frumstæð fjallahéruð í Sichuan. Seinna fórum við í 16 tíma lestarferð til Chengdu og ferðuðumst síðan til Xian, Beijing, Guilin og Hong Kong þar sem þú og Valur kvödduð restina af fjölskyldunni sem hélt aftur til Sichuan. Þetta var ógleymanleg ferð. Kínverjarnir tóku ekki við öðru en reiðufé og ég gleymi því aldrei þegar við tvö fórum í bankann í Chengdu til að skipta 10.000 dollara ferðatékkum sem þú varðst að skrifa undir. Kínverjarnir litu á mig eins og Gigolo sem væri að hafa peninga út úr eldri huggulegri konu. Það voru mörg skemmtileg ferðalög sem við fórum saman í. Við ferðuðumst um Noreg, Svíþjóð og Danmörku, keyrðum um allan Flóridaskagann og allt Írland og fórum margar ferðir akandi um Evrópu, bæði austur og vestur. Síðasta langferðin með þér var 2007 þegar þú flaugst ein til Barcelona og við náðum í þig og keyrðum í gegnum Rínardalinn á leiðinni heim. Þú varst alltaf hrifin af Þýskalandi eins og Hermann maðurinn þinn. Síðasta ferðalag okkar var í sumar þegar við fórum að þinni ósk um alla Vestfirðina. Það var mjög ánægjuleg ferð og þú naust hennar vel í einstaklega fallegu veðri. Þú varst svo hjá okkur í Noregi í haust og var nokkuð farið að draga af þér og þegar þú fórst aftur heim gekk það hratt fyrir sig að endalokunum.

Ég kveð þig kæra Unnur mín, þú varðst allt of ung ekkja og þú erfðir það aldrei við mig að ég hafi flutt með einkabarn þitt til útlanda, langt í burtu frá þér. Ég er þér ævinlega þakklátur fyrir það. Það sem var tekið frá þér reyndum við af fremsta megni að bæta þér upp með mörgum og löngum heimsóknum og skemmtilegum ferðalögum út um allan heim. Ég vona að það hafi orðið þér nokkur huggun. Hvíl í friði.

Gunnar Birgisson.