Grétar Halldórsson fæddist á Víðivöllum fremri í Fljótsdal 9. október 1933. Hann lést 18. október 2010. Foreldrar hans voru Halldór Vilhjálmsson, f. á Þuríðarstöðum í Fljótsdal 11. janúar 1896, d. 21. júlí 1959 og Sigríður Björnsdóttir frá Steinum, Austur-Eyjafjöllum, f. 9. september 1905, d. 2. nóvember 1997. Systkini hans: Björn, f. 1931, Vilhjálmur, f. 1932, d. 11. júlí 1995 og Þórhildur, f. 1935. Grétar giftist 9. október 1960 Margréti Sigurgeirsdóttur, f. 1. september 1936. Foreldrar hennar: Sigurgeir Björnsson frá Gafli í Villingaholtshrepp og Fanney Jónsdóttir frá Bræðraborg á Seyðisfirði. Börn þeirra hjóna eru: 1) Halldór, f. 1960, maki Halldóra Heiðarsdóttir, þau eiga 3 börn. 2) Fanney, f. 1962, maki I Nengah Daníel Darna, þau eiga 4 börn. 3) Kolbrún Berglind, f. 1972, maki Ágúst Valgarð Ólafsson, þau eiga 3 börn. 4) og 5) tvíburastúlkur, f. og d. 24. júní 1974. 6) Björn Eðvarð, f. 1976, maki Ni Nyoman Wija Ariyani, þau eiga einn son. Grétar ólst upp að Efri-Sýrlæk í Villingaholtshreppi en þangað fluttu foreldrar hans er hann var fimm ára að aldri. Hann fluttist síðan með þeim að Selfossi 1954, stundaði bifreiðaviðgerðir hjá K.Á. á Selfossi og einnig hjá Agli Vilhjálmsyni í Reykjavík, en 1966 hóf hann bifreiðaakstur hjá verktakafyrirtækinu Fosskraft síðar Ístak og vann hjá því samfleytt í 34 ár. Útför Grétars fer fram frá Villingaholtskirkju í dag, 28. október 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku pabbi nú er síðasti dagur fyrir jól, það er myrkur og mikil kyrrð í kringum mig og minningarnar leita á hugann, hvernig verða jólin án þín og verða yfirleitt einhver jól? Fyrir mér byrjuðu nefnilega ekki jólin fyrr en lag-terturnar ykkar mömmu sem þú bakaðir voru komnar í hús. En jólin koma víst alltaf hvað sem á gengur og ég þarf aðeins að skoða innra með mér hvernig ég ætla að taka á móti þeim þetta árið.
Ég gleðst yfir því að fyrsta barnabarnabarnið þitt, drengur er fæddur og ég veit að þú heldur verndarhendi þinni yfir honum eins og öllum hinum börnunum sem hafa átt þig að, um það ætla ég að hugsa þessi jól. Fátt gladdi þig meira en að hafa litlu krílin í kringum þig og öll gátu þau vafið þér um litlafingur sér. Þér fannst þú ríkur maður.
Stundum er sagt að það skipti ekki mestu máli hversu miklum tíma við verjum með börnunum okkar heldur hvernig við verjum honum. Hvað mig varðar þá eru þetta orð að sönnu því þú varðir tíma þínum vel með okkur.
Það var mikil tilhlökkun að fá þig heim eftir kannski hálfsmánaðar fjarveru vegna vinnu og þau fallegustu vélarhljóð sem maður heyrði þegar maður heyrði í treilernum þínum, Volvoinum gamla rauð renna í hlaðið. Ég man líka hvað mínúturnar voru lengi að líða þar til þú varst búinn að leggja bílnum því ekki mátti maður hlaupa fyrir bílinn, heil eilífð þangað til maður komst í fangið þitt.
Treilerinn og þú voruð eitt og stundum fékk maður að koma með í eina og eina ferð, þá sat maður svo hátt að maður sá yfir allan heiminn og svo fékk maður líka sjálfur að ¨keyra¨ sem var náttúrulega mesta sportið, sat í fanginu á pabba kannski sex ára og stýrði þessum stóra, kraftmikla bíl. Vissi svo sem ekki mikið um að það þyrfti svolítið meira til að keyra svona bíla heldur en að halda um stýrið. Seinna fékk ég svo að keyra hjá þér Scaniu og þá var framtíðin ráðin ég ætlaði sko að verða Bifreiðarstjóri og gera við bíla, verða eins og pabbi. En það varð nú ekki. Stundum fékk ég líka að koma með í Smiðshöfðann hjá Ístak og sjá allar stóru vélarnar, finna olíulyktina og kynnast góðum köllum sem reyndust mér svo vel síðar, Óla Davíðs, Guðbjarti og fleirum. Þetta voru góðir tímar.
Mér eru minnisstæð öll ferðalögin sem við fórum í þegar hægt var að tjalda hér og þar úti í náttúrunni. Hjalandi lækur sem hægt var að busla í og stífla, græna matarkistan, stóri gaskúturinn, vindsængurnar og rigningin. Sumarið inn við Stöng með sundlaugina við tjaldskörina, engin sturta, engin þægindi og ein í heiminum. Allar ferðirnar upp að Eyrarvatni og brjálaða veðrið í Mýrdalnum. En alltaf gaman.
Ég þakka fyrir hversu góðan tíma þú áttir í síðasta ferðalaginu þínu í sumar, ættarmót með fólkinu þínu, góðan tíma hjá Kolbrúnu systir eftir ættarmót og bílferðin okkar. Allar sögurnar sem þú sagðir mér á leiðinni. Góðar minningar.
Þegar ég hugsa um þig pabbi minn þá kemur fyrst upp í huga mér hendurnar þínar, þessar stóru hlýju hendur sem allt gátu, unnu öll verkin sem vinna þurfti í sambandi við bílana mína í gegnum árin, öll rafmangstækin og nú síðast öll vinnan við húsið mitt sama hvað það var, smíðavinna eða annað allt gast þú, sama hvert litið er allsstaðar sé ég verkin þín.
Hendurnar þínar veittu huggun, öryggi og traust, eitt handtak sagði stundum meira en nokkur orð.

Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku pabbi takk fyrir allt í gegnum tíðina, nú er daginn farinn að lengja og ég veit að það birtir upp um síðir þó ég sakni þín.
Þín dóttir,

Fanney.